20 af 50 stærstu vogunarsjóðum heims komu til Íslands eftir hrun til að hagnast á þeirri stöðu sem var komin upp eftir að bankakerfið féll nánast allt á örfáum dögum. Að mestu er um bandaríska sjóði að ræða.
Flestir þeirra hafa hagnast gríðarlega á aðkomu sinni enda hækkaði virði eigna þrotabúa Kaupþings, Glitnis og Landsbankans úr því að vera að meðaltali fjögur prósent strax eftir hrun í að vera um 24 prósent. Virðið eftirstandandi eigna hækkaði síðan enn meira eftir að nauðasamningar voru handsalaðir við íslenska ríkið árið 2015, í sumum tilfellum um 65 prósent. Arður kröfuhafanna kom úr ýmsum áttum. Hann lá í verðgildi skuldabréfa sem jókst, í greiðslum í reiðufé og í skuldajöfnun. En efst á blaði var ágóðinn af gengi gjaldmiðla. Styrking krónunnar færði þeim sem komu til Íslands til að hagnast á óförum íslenska bankakerfisins, og íslensks samfélags, stóraukinn ágóða.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri bók eftir Norðmanninn Svein Harald Øygard, sem var Seðlabankastjóri á Íslandi frá febrúarlokum 2009 og fram til 20. ágúst sama ár, sem ber heitið „Í víglínu íslenskra fjármála“ og kom nýverið út á íslensku.
Frá Óskarsverðlaunum í rútu á leið til Reykjavíkur
Í bókinni fer Øygard yfir það að þann 7. október 2008, daginn eftir að neyðarlögin voru sett á Íslandi og þegar Landsbanki Íslands og Glitnir voru fallnir, hafi farið fram nokkurs konar Óskarsverðlaunahátíð skuldsetningar hjá lögmönnum sem sérhæfa sig í uppgjöri þrotabúa í London. Allir sem þar voru höfðu fylgst með fréttum frá Íslandi.
Upprunalegir kröfuhafar seldu snemma kröfur sínar á hrakvirði, frá rúmu einu prósenti af skráðu virði þeirra og upp í um sex prósent. Þeir sem höfðu keypt skuldatryggingar leystu þær sömuleiðis út og seljendur þeirra sátu uppi með stórtap. Øygard metur það sem svo að þegar allt sé talið hafi fjárfestar tapað 40 milljörðum evra (rúmlega 5.500 milljarðar króna á núvirði) vegna hrunsins á Íslandi. Sú tala er fengin út frá efnahagsreikningum bankanna og hlutfalli endurheimta. Hluthafar töpuðu öllu sínu. Það gerðu líka þeir sem veittu lánin sem farið var með sem eigið fé, svokölluð afleidd lán. Alls var tap þessara aðila 12 milljarðar evra. Tap lánardrottna bankanna nam svo 28 milljörðum evra.
Kröfuhafar og íslenska ríkið verðlaunuð
Í stað þessara aðila mættu sjóðir sem oft eru kallaðir hrægammasjóðir. Þeir eru tilbúnir að taka mikla áhættu í flóknum stöðum þar sem ávinningurinn, ef veðmálið gengur upp, getur verið feykilega mikill. Á meðal þeirra allra fyrstu sem mættu til Íslands voru fulltrúar frá stórbankanum Goldman Sachs. Alls komu hingað tæpur helmingur stærstu áhættusjóða heims, alls 20 af 50, og flestir þeirra eru frá Bandaríkjunum.
Áhættusjóðirnir sáu möguleika á miklum ágóða, sérstaklega í Kaupþingi og Glitni, þar sem innlán, sem voru orðin að forgangskröfum vegna neyðarlaganna, höfðu verið svo lítill hluti af fjármögnun þeirra og markaðsbréf svo stór hluti hennar. Veikleikinn í bankastarfseminni varð spennandi fyrir hrægamma.
í bók Øygard er rætt við umsjónarmann eins sjóðanna sem vildi ekki láta nafn síns getið né fyrir hvaða sjóð hann var að starfa. Hann segir þar: „Við keyptum svolítið síðla árs 2011 og sóttum í okkur veðrið í ársbyrjun 2012[...]Árið 2012 keyptum við í nafni aðalsjóðsins okkar. Árið 2013, stofnuðum við sjóð þar sem fjárfestar gátu fjárfest beint í þrotabúum Glitnis og Kaupþings. Árið 2016 bættist við sjóður sem átti hluta af ábatanum af uppgjörinu. Árið 2017 bættum við enn einum sjóði við, hann átti einn nýju bankanna að hluta.“
Sami viðmælandi segir síðar í sama kafla að hans sjóður hafi ráði um 40 prósent í einu þrotabúanna snemma árs 2018. Líklegt verður að telja að sjóðstjórinn sem um ræðir starfi hjá Taconic Capital, sem átti 46 prósent í Kaupþingi ehf. í byrjun árs í fyrra og 47,7 prósent í byrjun yfirstandandi árs.
Í bókinni er greint frá því að árið 2016 hafi tímaritið The Ameican Lawyer valið vinningshafa í árlegri verðlaunaafhendingu fyrir lögfræðistörf. Átján fyrirtæki sem komu fram fyrir fjögur þrotabú, handhafar skuldabréfa, þrotabússtjórar og íslenska ríkið hrepptu verðlaunin í flokknum Endurskipulagning alþjóðlegra fjármála einkaaðila fyrir endurreisn íslensku bankanna.