Stjórn og forstjóri Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir þrotabús hins fallna banka Kaupþings, voru samtals með 1.216 milljónir króna í laun í fyrra. Alls námu greiðslur til starfsmanna félagsins, sem voru 17 talsins, í heild rúmlega 3,5 milljörðum króna á árinu 2018 og hækkuðu um 900 milljónir króna þrátt fyrir að starfsfólki hefði fækkað. Frá árinu 2016 hafa greiðslur til starfsfólks Kaupþings aukist um 1,9 milljarð króna en starfsfólkinu sjálfu fækkað úr 30 í 17.
Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupþings fyrir árið 2018. Í því eintaki reikningsins sem skilað var inn til fyrirtækjaskráar í sumar vantaði þrjár blaðsíður hans, 17-19. Á þeim koma meðal annars fram upplýsingar um launagreiðslur til starfsmanna Kaupþings.
Fækkaði um einn í stjórn síðla árs
Í stjórn Kaupþings sitja Allan Jeffrey Carr, Paul Copley, Óttar Pálsson og Piergiorgio Lo Greco. Copley er einnig forstjóri Kaupþing. Það fækkaði um einn í stjórn félagsins á milli ára, en Benedikt Gíslason hætti í henni í ágúst 2018 og tók þess í stað sæti í stjórn Arion banka, sem þá var að að stóru leyti enn í eigu Kaupþings. Benedikt var svo ráðinn bankastjóri Arion banka í sumar. Því verður að gera ráð fyrir að greiðslur til Benedikts fram að þeim tíma sem hann hætti hjá Kaupþingi teljist með í heildarupphæð launagreiðslna til stjórnar.
Launagreiðslur til stjórnar jukust úr 544 milljónum króna í 1.216 milljónir króna á árinu 2018,eða um 672 milljónir króna.
Eini Íslendingurinn sem var eftir í stjórn Kaupþings, lögmaðurinn Óttar Pálsson, hefur setið þar frá árinu 2016 að ósk helstu eigenda Kaupþings, sem eru bandarískir vogunar- og áhættusjóðir. Hann starfaði áður sem ráðgjafi fyrir þá.
208 milljónir að meðaltali
Alls störfuðu 17 manns hjá Kaupþingi í fyrra, að meðtöldum stjórn og forstjóra. Stöðugildum fækkaði um tvö á árinu. Heildarlaun og launatengd gjöld til þessa hóps voru 3.541 milljón króna á síðasta ári. Það þýðir að meðaltal launa hjá Kaupþingi var 208,3 milljónir króna á ári, eða tæplega 17,4 milljónir króna á mánuði. Til samanburðar var miðgildi heildarlauna á Íslandi árið 2018 632 þúsund krónur á mánuði. Helmingur þjóðarinnar hafði minna en þá upphæð í laun mánaðarlega í fyrra. Árslaun þess sem hafði miðgildislaun voru tæplega 7,6 milljónir króna á ári, eða 44 prósent af meðaltals mánaðarlaunum innan Kaupþings.
Bónusgreiðslur fyrir að selja eignir
Greint var frá því fyrir þremur árum síðan að um 20 manna hópur lykilstarfsmanna Kaupþings gæti fengið allt að 1,5 milljarða króna til að skipta á milli sín ef hámörkum á virði óseldra eigna Kaupþings myndi nást. Næðust markmiðin átti að greiða út bónusgreiðslurnar eigi síðar en í apríl 2018.
Langstærsta óselda eign Kaupþings á þeim tíma var 87 prósent hlutur félagsins í Arion banka, sem nú hefur verið seld að öllu leyti eftir að bankinn var skráður á markað. Umræddar bónusgreiðslur áttu einungis að ná til starfsmanna Kaupþings, ekki stjórnarmanna og ráðgjafa sem unnið höfðu fyrir félagið. Greiðslur til þeirra áttu að koma til viðbótar því sem greiddist til starfsmanna.
Kaupþing hefur hingað til aldrei viljað upplýsa um hvort búið sé að greiða bónusanna út né hver áætluð heildargreiðsla sé. Miðað við hversu há greiðslan til starfsmanna Kaupþings var á síðasta ári þá verður að gera ráð fyrir því að þeir hafi fengið bónusgreiðslurnar í fyrra, líkt og stefnt hafði verið að.
Líka stærstir í Arion banka
Kaupþing gerði samkomulag við íslenska ríkið árinu 2015 og fékk nauðasamning sinn samþykkt í desember það ár. Félagið er vinna úr eftirstandandi eignum sínum og á meðal þeirra voru Arion banki, sem var skráður á markað í fyrra. Kaupþing hefur síðan þá selt allan hlut sinn í bankanum en stærstu eigendur félagsins, bandarískir vogunarsjóðir, eru þó enn á meðal stærstu eigenda bankans með beinni eignaraðiild
Sjóðir í eigu Taconic Capital eru langstærstu eigendur Kaupþings, með samtals 47,8 prósent eignarhlut. Sjóðir tengdir CCP Credit Aquisition með samtals 9,3 prósent eignarhlut og sjóðurinn Sculptor Investments s.a.r.l., sem er tengdur Och-Ziff sjóðsstýringarfyrirtækinu, á 6,2 prósent hlut. Sjóðir í stýringu Attestor Capital eiga 5,9 prósent.
Sjóður á vegum Taconic er líka stærsti eigandi Arion banka með 23,53 prósent hlut. Næst stærsti eigandi bankans er skráður Och-Ziff Capital Management með 9,25 prósent.