Frá árinu 2013 hefur leikskólakennurum fækkað um 360, en í fyrra voru um 1.600 starfandi leikskólakennarar í landinu. Það er 28,1 prósent starfsfólks á sviði uppeldi og menntunar. Fækkun hefur verið sérstaklega mikil meðal fólks undir þrítugu.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Hagstofu Íslands, þar sem fjallað er um þróun mála hjá starfsfólki í uppeldis- og menntunarstörfum.
Í samantektinni segir að ástæðan fyrir þessari fækkun sé ekki eingöngu rakin til þess að námið hafi verið lengt um tvö ár, þar sem fækkunin er í öllum aldurshópum undir 50 ára aldri. Leikskólakennarar hafa því verið að færa sig yfir í önnur störf í stórum stíl.
Önnur menntun ráðandi
Starfsfólk við uppeldi og menntun barna, sem hefur lokið annarri uppeldismenntun, eins og grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi var 1.068 talsins.
Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (53,2 prósent) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2018.
Alls störfuðu 6.176 í leikskólum í desember 2018 og hafði fjölgað um 158 (2,6 prósent) frá fyrra ári, þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi fækkað á milli ára. Stöðugildum fjölgaði um 2,1 prósent og voru 5.400.
Tæplega þúsund með pólsku að móðurmáli
Börn með erlent móðurmál voru 2.572 í desember 2018, 13,7 prósent leikskólabarna, og hafa ekki áður verið fleiri börn með erlent móðurmál í íslenskum leikskólum.
Fjölgunin er í beinu samhengi við fjölgun innflytjenda hér á landi, en eru nú orðnir rúmlega 47 þúsund, eftir mikla fjölgun á árunum 2013 til 2018.
Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 985 börn pólsku að móðurmáli.
Næst flest börn hafa ensku að móðurmáli (265 börn) og því næst koma spænska (117 börn) og litháska (103 börn). Önnur erlend tungumál voru töluð af færri en 100 leikskólabörnum, samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands.