Líklega er óhætt að fullyrða að fáar skepnur hafa bæði hrellt og heillað mannfólkið í gegnum tíðina jafn mikið og úlfurinn. Um það bera vitni fjölmargar þjóðsögur, skáldsögur og kvikmyndir um grimma úlfahópa eða menn sem haldnir eru þeirri bölvun að breytast í skrímsli er tungl er fullt.
Allir þekkja einnig söguna um drenginn sem kallaði einatt „úlfur!“ þar til þorpsbúar hættu að taka mark á honum, með hörmulegum afleiðingum. Saga um unga stúlku í rauðri kápu sem er á leið að heimsækja ömmu sína kemur einnig upp í hugann. Á seinni árum eru það helst hákarlar sem hafa gert atlögu að þeim titli að vera það dýr sem við hræðumst mest en heillumst jafnframt af. Samskiptasaga úlfa og manna er þó mun lengri og áhugaverðari. Lengst af hefur þetta fallega og virðulega dýr verið óvinur mannsins númer eitt og það má teljast kaldhæðni örlaganna að af úlfinum kemur annað dýr, hundurinn sem við köllum gjarnan okkar besta vin.
En hvað veldur hrifningu okkar og hræðslu? Hið síðarnefnda er eflaust tengt því að svæði úlfa og manna var yfirleitt hið sama og viðbúið að til átaka kæmi ef syrti í álinn hjá báðum. Maðurinn fékk ekki hið næma þefskyn, hlýjan feld eða beittar tennur í vöggugjöf frá skaparanum en heilinn er mun stærri og þar er nægt pláss fyrir hyggjuvit, kænsku og ráðabrugg. Það gerði gæfumuninn og óhætt er að segja að úlfurinn hafi farið alvarlega halloka í samskiptum sínum við manninn. Úlfar hafa þó reynt að berjast gegn yfirráðum mannsins og verður vikið að því seinna í þessum pistli. Þó eru einnig til ýmsar sögur, t.d. frá frumbyggjum Norður Ameríku sem lýsa nánast samvinnu manna og úlfa á erfiðum tímum.
Það má ímynda sér að eitthvað sé hæft í því. Úlfar eru með betri skynfæri og mögulega betri í að finna bráð en menn snjallari í að umkringja og lokka bráð í sjálfheldu. Líklega heillumst við af úlfum því þeir eru að mörgu leyti ekki svo frábrugðnir okkur. Báðar skepnur lærðu fljótt að samvinna er lykilinn að því að komast af í hörðum heimi. Úlfar hafa sterk fjölskyldutengsl og er umhugað um afkvæmi sín. Það segir kannski ýmislegt að hugtakið „Lone Wolf“ er yfirleitt notað í neikvæðri merkingu nú til dags um hryðjuverkamenn sem starfa einir, eru samfélaginu hættulegir.
„Úlfastríðið“ í París 1450
Úlfar ráðast afar sjaldan á menn enda eru þeir yfirleitt fljótir að átta sig á að þetta er hættulegt dýr og það ber að forðast. Það er helst ef úlfar losna við þessa hræðslu og átta sig á mennirnir eru veikir fyrir, að þeir breyta um aðferð og bæta mannfólkinu á veiðilistann. Slíkt átti sér m.a. stað í París, höfuðborg Frakklands, um miðja 15. öld. Þá hafði mjög þrengt að úlfum og akuryrkja mannsins hafði minnkað skóglendi verulega.
Fækkað hafði mjög í stofnum villisvína og dádýra. Ekki bætti úr skák að veturinn var mjög kaldur og erfiður. Mannfólkið var einnig illa statt. Frakkland hafði þá staðið í hinu svokallaða „Hundrað ár stríði“ í rúma öld og eins og oft er í stríði, þá hafði það bitnað harkalega á almennum borgurum, sem höfðu nær ekkert til hnífs og skeiðar. Borgarmúrinn var illa farinn og úlfahópur einn fann sér leið inn í borgina í örvæntingarfullri leit að einhverju matarkyns. Foringi þessa hóps var nokkuð sérkennilegur í útliti, mjög stór, með rauðleitan feld og afar stutt skott. Frakkar gáfu honum nafnið Courtaud sem helst má þýða sem „halastýfður“. Úlfarnir áttuðu sig fljótt á menn í borginni virtust veikburða og þeir hófu árásir sínar.
Konur og börn voru auðveld bráð fyrir Courtaud og hóp hans en margir karlmenn enduðu einnig í úlfskjafti. Er yfir lauk höfðu um 40 borgarbúar fallið í valinn. Þessar árásir höfðu þó þau áhrif að fólk þjappaði sér saman, ferðaðist helst í hópum og passaði betur upp á hvert annað. Að endingu beittu mennirnir því sem áður var nefnt, kænsku og hyggjuviti. Úlfarnir voru lokkaðir langt inn í borgina, reyndar inn á torgið fyrir framan Notre Dame og þar var gerð fyrirsát. Menn, þar á meðal konur og bör,n réðust að úlfunum úr öllum áttum, vopnuð spjótum, kylfum eða jafnvel aðeins steinum og Courtaud og félagar snerust til varnar. Þetta var hrikalegt blóðbað en úlfarnir voru drepnir, allir sem einn.
Það er athyglisvert að bera þessa sögu saman við nútímann. Um 1930 voru úlfar nær horfnir í Frakklandi og raunar Evrópu allri. Friðun hefur þó haft þau áhrif að úlfum hefur fjölgað jafnt og þétt og voru nýlega teknir af válista, bæði í Evrópu og Ameríku. Franskir bændur eru þó uggandi enda drápu úlfar milli 12-13 þúsund skepnur árið 2018. Því hefur Macron Frakklandsforseti nýlega samþykkt lög sem heimila aukna úlfaveiði.
Úlfar í Yellowstone
Flestum er nú samt ljóst hve mikilvægu hlutverki rándýr gegna í vistkerfinu. Í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum var síðasti úlfurinn drepinn í byrjun 20. aldar. Eftir voru birnir en þeir eru alls ekki jafn góð veiðidýr og dugðu ekki til að halda í við elginn sem fjölgaði sér hratt og var farinn að valda verulegum skaða á gróðri. Því var ákveðið að leita liðsinnis úlfa til að halda elgstofninum í jafnvægi. Um 1990 voru kanadískir úlfar fluttir þangað og þeim reglulega gefið elgskjöt að borða áður en þeim var sleppt lausum.
Árangurinn lét ekki á sér standa. Ýmsar plöntur sem elgurinn hafði næstum gjöreytt hafa fjölgað sér verulega og vísindamenn í þjóðgarðinum eru ánægðir með þau áhrif sem úlfurinn hefur haft. Það lifir þó lengi í gömlum glæðum, margir eru fljótir til að bölva úlfum og kalla þá sálarlausa morðingja sem engu eira.
Úlfurinn vekur enn upp blendnar tilfinningar hjá mannfólkinu og mun eflaust gera það um ókomna tíð.