Metið er 31 mínúta. Og hitt metið er 16 sekúndur. Met í hverju? Við skulum segja, í verslun. Þetta eru innkaupahraðamet fjölskyldunnar í verslun.
Í meira en eitt ár höfum við fjölskyldan, með fáum undantekningum, gert öll okkar matarinnkaup í gegnum Amazon Fresh og dótturfélag Amazon, Whole Foods. Á þeim tæplega fimm árum sem við höfum verið búsett í Bandaríkjunum höfum við mest verslað hjá Amazon.
Heimavöllurinn
Við búum á heimasvæði Amazon, í Seattle í Washington ríki, þar sem fyrirtækið varð til. Hér er Amazon sannkölluð efnahagsvél fyrir svæðið. Félagið hefur nýtt þá stöðu sína til tilrauna- og vöruþróunarstarfsemi alla tíð og sér ekki fyrir endann á því. Yfir 70 þúsund manns starfa á vegum Amazon á Seattle-svæðinu og þar af eru yfir 45 þúsund í höfuðstöðvunum sem dreifast á yfir 40 byggingar.
Tilraun 1
Ég ákvað að gera tilraun og sjá hversu hröð þjónusta var í boði hjá Amazon, þegar kom að kaupum á íslensku sjávarfangi.
Ég fór í símann, opnaði appið, og pantaði lax og þorsk - frá Íslandi - og nýtti mér Prime Now þjónustu Amazon til að flýta ferlinu sem mest.
Ein hvítvín flaut með, en það var ekki lagt upp með það. Auglýsingin birtist svo glannalega inn í miðri pöntun að ég gat eiginlega ekki annað en kippt henni með.
Amazon Prime Now er flýtiþjónusta við heimsendingu á vörum. Amazon býður upp á þetta meðal annars í krafti þess hversu sterkir innviðirnir eru þegar kemur að vöruflutningi í nærsamfélögum.
Amazon nýtir sér dreifikerfi póstsins þegar það á við. Innreið Uber og Lyft hefur síðan gjörbylt heimsendingarkerfum og gert það mögulegt að koma matarsendingum til fólks á skemmri tíma en áður hefur verið hægt. Þá hefur uppbygging Amazon á eigin dreifikerfi - á láði og lofti - ýtt undir hraðari þjónustu.
Það er skemmst frá því að segja að þjónustustigið með Amazon Prime Now er með ólíkindum. Pokar af vörum - gæðavörum frá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum - voru komnar heim að dyrum á 31 mínútu. Bílstjóri frá Uber kom með vörurnar til mín með bros á vör.
Þessi tilraun heppnaðist vel og sýndi mér að þjónustustigið hjá Amazon er orðið verulega hátt.
Tilraun 2
Aðra tilraun gerði ég í Amazon Go versluninni sem er við höfuðstöðvarnar í Seattle. Það er fyrsta verslun sinnar tegundar í heiminum og byggir á hreyfiskynjurum og myndavélatækni í lofti verslunarinnar, sem nemur allar hreyfingar notenda eftir að þeir hafa skráð sig inn í verslunina í gegnum Amazon Go appið.
Ég gekk rakleiðis að hillunni og kippti með mér dós af Siggi’s skyr - þó ekki nema bara til að styðja einstakt frumkvöðlaævintýri Sigurðar K. Hilmarssonar. Þetta tók mig 16 sekúndur. Um leið birtist strimillinn í símanum mínum með staðfestingu á að varan hefði verið skuldfærð af kreditkortinu mínu.
Líkt og með netverslunartækni Amazon þá er það þjónustustigið sem kemur manni mest á óvart. Engir búðarkassar eru í versluninni og allt gengur hratt fyrir sig.
Framundan er svo ævintýralegur vöxtur Amazon þegar kemur að uppbyggingu Amazon Go verslana sem byggja á fyrrnefndri tækni. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins munu þúsundir verslana spretta upp, þar sem fáir munu vinna og raðir heyra sögunni til.
Ekki vanmeta áhrifin
Ég hef að undanförnu unnið að athugun á tækifærum og ógnunum fyrir íslenskan sjávarútveg á þeim markaði sem starfsemi Amazon hefur búið til. Þetta er landamæralaus markaður sem vex á ógnarhraða og byggir að miklu leyti á sífellt hækkandi þjónustustigi Amazon þar sem allt snýst um að nota tæknina til að auðvelda viðskiptavinum lífið.
Eitt af því sem kom mér mest á óvart var hversu umfangsmikið viðskiptasambandið er milli Íslands og Amazon. Á bilinu 40-60% af öllum fiski sem ræktaður er í fiskeldi á Íslandi er keypt af Amazon - í gegnum dótturfélagið Whole Foods - þegar heildarkeðjan er rakin allt til enda. Þá hafa ýmsar aðrar vörur einnig vaxið nokkuð innan Amazon að undanförnu, og má nefna íslenskan þorsk sem dæmi. En það er engu að síður ljóst að mikil tækifæri eru í því fólgin að auka söluna á þorskinum og sýnileika íslenska þorsksins hjá Amazon.
Í skýrslu sem fylgir með þessari grein er staða íslensks sjávarútvegs innan þessa markaðssvæðis - Amazon - gerð að umtalsefni. Meðal þess sem fjallað er um eru þær umfangsmiklu breytingarnar sem eru að verða á smásölumarkaði og eru að setja töluverða pressu á matvælaframleiðendur.
Með sífellt betri þjónustu í netviðskiptum, þar sem heimsendingarkerfi eru að verða áreiðanlegri og fljótvirkari, munu kröfur til framleiðanda um að skila frá sér góðri vöru með skilvirkum hætti aukast mikið. Mikilvægt verður fyrir sjávarútveginn að átta sig á því að hækkandi þjónustustig Amazon - sem síðan er að hreyfa við öllum smásölufyrirtækjum - setur aukinn þrýsting á að framleiðsla gangi vel og að hugað sé sérstaklega vel að öllum þáttum virðiskeðjunnar.
Loforð Amazon - sem sett var fram á fyrri hluta ársins 2019 - um að frá og með næstu áramótum muni fyrirtækið geta afhent allar vörur innan sólarhrings, er gríðarlega umfangsmikil breyting fyrir smásölu í heiminum. Amazon er að setja algjörlega ný viðmið og þessi yfirlýsing fyrirtækisins kom flestum greinendum í opna skjöldu. Fæstir höfðu reiknað með að Amazon gæti tekið þetta skref svona fljótt og það hefur þegar haft mikil áhrif á þróun hjá öðrum smásölurisum, eins og Costco og WalMart.
Amazon fylgdi þessu svo eftir með því að leggja inn pöntun á 100 þúsund rafmagnssendibílum hjá fyrirtæki í Michigan, til að styrkja eigin dreifikerfi og flýta því að gera þetta loforð að veruleika.
Erfitt að vera langt frá mörkuðum
Fyrir matvælaframleiðendur á Íslandi hefur alltaf verið krefjandi að vera langt frá erlendum mörkuðum. Lega landsins getur reynst erfiðari eftir því sem þjónustustig í netviðskiptum hækkar. Mikilvægt verður fyrir sjávarútveginn - og hið opinbera einnig - að finna leiðir til að láta flutninga ganga enn hraðar fyrir sig, meðal annars með því að flýta tollafgreiðslu fyrir flug- og skipaflutninga.
Þá þarf einnig að velta því fyrir sér, hvort samstarf um að ná niður flutningskostnaði muni þurfa til, svo að hann verði ekki of stór hindrun, áður en vörunum er flogið eða siglt inn á markaðssvæði.
Hækkun á þjónustustigi í netverslun er þannig bæði tækifæri og ógnun fyrir íslenskan sjávarútveg.
Ég vil þakka þeim sem ég ræddi við til að glöggva mig á viðskiptasambandinu milli Amazon og íslensks sjávarútvegs. Það voru bæði stjórnendur hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og sölufólk.
Þá hjálpuðu góð samtöl við leiðtoga í tæknifyrirtækjum hér á Seattle svæðinu - mest vinafólk sem starfar hjá Amazon, Microsoft, Marel og SalesForce - við að leggja (örlítið) mat á það hvernig breytingarnar í smásölu geti haft áhrif í íslenskum sjávarútvegi.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.