Nýtt Ísland og nýjar leikreglur
Nýjar valdablokkir eru byrjaðar að teiknast upp í atvinnulífinu, og þar eru kunnuglegar persónur og leikendur í aðalhlutverkum. Afnám fjármagnshafta er nú að teiknast upp eins og strik í sandinn, fyrir þróun mála í hagkerfinu. Vaxandi þrýstingur er á afnám regluverks. Kunnuglegt, segja sumir.
Hin mikla uppsveifla á árunum 2012 og fram til ársins 2018 - þegar henni lauk með nokkrum hvelli þegar WOW air fór í gjaldþrot - var um margt merkileg. Hún var að grunni til sköpuð með fjármagnshöftum. Gjaldeyrir flæddi inn í landið, ekki síst frá erlendum ferðamönnum, en lítið sem ekkert úr landinu á sama tíma vegna hafta.
Gengi krónunnar styrktist gagnvart helstu erlendu viðskiptamyntum, eignaverð hækkaði mikið - hlutabréf og fasteignir þar á meðal - og nær fordæmalaust hagvaxtarskeið varð að veruleika. Vorið 2017 mældist árleg hækkun fasteignaverðs 23,5 prósent, en í Bandaríkjadal mælt var hækkunin 40 prósent. Þetta var þá mesta hækkun fasteignaverðs í heiminum.
Kúvendingin mikla
Á hápunkti þessa tímabils styrktist staða hins opinbera verulega, með stöðugleikaframlögum slitabúa hinna föllnu banka. Skuldastaða ríkisins kúventist, um 500 milljarða króna, og viðskiptajöfnuður landsins varð viðvarandi jákvæður. Það er staða sem Ísland hefur ekki átt að venjast undanfarna áratugi. Hluti af þessu var að íslenska ríkið eignaðist eitt stykki banka í viðbót, Íslandsbanka, sem þýddi að um 80 prósent af íslenska bankakerfinu var nú komið í ríkiseigu.
Þessi staða myndaði það sem Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, talaði um sem Nýja Ísland, á hádegisfundi í Kviku banka 29. október. Þar er viðvarandi afgangur af viðskiptum við útlönd og landið í reynd orðið að fjármagnsútflytjanda.
Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands nemur um 800 milljörðum, og hann má nota til að halda stöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Ásgeir hefur sjálfur talað um að Seðlabankinn eigi ekki að stjórna verðinu á krónunni gagnvart erlendum myntum, heldur eigi það að myndast á markaði og stjórnast af undirliggjandi þáttum. Stór gjaldeyrisforði hjálpar til við að milda skammtímasveiflur, sem oft hafa verið ýktar í íslenskri hagsögu eins og almenningur á Íslandi þekkir vel. Hann er auk þess mikilvægur til að skapa traust og trú á fjármálakerfinu og efnahagsumhverfinu í heild.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur haft það sem skýra stefnu - eins og Benedikt Jóhannesson, forveri hans, að greiða niður skuldir hins opinbera, helst hratt og örugglega. Skuldir hins opinbera eru komnar niður í 30 prósent af landsframleiðslu en hæst fóru þær upp undir 70 prósent af landsframleiðslu skömmu eftir hrunið. Þá kúventist staðan upp á við, en fyrir hrun var ríkissjóður næstum skuldlaus og heildarskuldir hins opinbera, það er ríkis og sveitarfélaga, voru á milli 10 og 15 prósent af landsframleiðslu. Áætlun í fjármálum ríkisins gerir ráð fyrir að ríkissjóður geti verið næstum búinn að ná þeirri stöðu eftir 3 til 4 ár. Þetta þótti fjarstæðukennt fyrir tíu árum, að gæti orðið veruleikinn, og sýnir hversu miklar breytingar hafa orðið á stöðu mála til hins betra á síðustu árum.
Fjárlögin fyrir næsta ár gefa þó til kynna að hið opinbera ætlar sér að styðja við viðspyrnu í efnahagslífinu með opinberum framkvæmdum. Þar vegur þungt umfangsmikil uppbygging samgöngumannvirkja.
Atvinnuleysi stígur en staðan misjöfn
Hið Nýja Ísland er þó ekki án áfalla. Það mikla högg sem fylgdi falli WOW air og þrengingum í ferðaþjónustu hefur haft mikil áhrif víða. Til dæmis hefur atvinnuleysi aukist umtalsvert á Reykjanesi, og þá einkum í Reykjanesbæ. Þar hefur átt sér stað mikil uppbygging á undanförnum árum, samhliða vextinum í ferðaþjónustu, og því var samfélagið þar sérstaklega næmt fyrir miklum breytingum í ferðaþjónustunni.
Atvinnuleysi er nú mun meira á Reykjanesi heldur en á landinu öllu, og er það sambærileg staða og myndaðist eftir hrun fjármálakerfisins. Atvinnuleysi mælist tæplega 6,5 prósent en á landinu öllu hefur það mælst 3,5 prósent undanfarin misseri. Í Reykjavík er það 3,94 prósent og hefur farið hækkandi, samkvæmt upplýsingum sem Vinnumálastofnun tekur saman. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu, er atvinnuleysið heldur minna eða á bilinu 2,5 til 3,2 prósent.
Allt á fullu í Skagafirði
Mörg svæði á landinu hafa ekki upplifað mikinn samdrátt, og má nefna svæði eins og Skagafjörð, en þar er atvinnuleysi nær ekkert, eða 0,54 prósent. Þrátt fyrir að mikil breyting hafi átt sér stað - með falli úr 4,6 prósent hagvexti í fyrra í líklegan lítils háttar samdrátt á þessu ári, þá hefur samt ekki enn sést glitta í mikla erfiðleika. Hagræðing er víða hafin og helst áhyggjuefni þeirra sem Kjarninn hefur rætt við, er lítill vilji fyrirtækja til fjárfestinga.Bankamenn segja þetta meðal annars tengjast því að bankakerfið hafi ekki náð að miðla betri vaxtakjörum nægilega vel til heimila og fyrirtækja, og það sé ekki síst vegna hárra skatta á banka. En viðmælendur Kjarnans í atvinnulífinu og hjá stéttarfélögum nefndu einnig að fyrirtæki væru mörg hver að halda að sér höndum, og bíða og sjá hvernig þessi vetur mun teiknast fram. Veitingageirinn er t.d. að upplifa mikla erfiðleika víða, með lokunum á veitingastöðum og hagræðingu innan greinarinnar, sem er nátengt samdrætti í ferðaþjónustu.
En horfurnar í ferðaþjónustunni fyrir næsta ár þykja ekki svo slæmar - þrátt fyrir allt. Icelandair hefur glímt við fordæmalausa erfiðleika vegna kyrrsetningar á 737 Max vélunum, eins og ítarlega hefur verið fjallað um í fréttaskýringum Kjarnans yfir langan tíma. Síðasta uppgjör félagsins má túlka sem varnarsigur. Ekki aðeins fyrir Icelandair heldur fyrir ferðaþjónustuna. Félagið tilkynnti um að annað samkomulag við Boeing væri í höfn um bætur vegna kyrrsetningarinnar, samhliða því að tilkynna um 7,5 milljarða hagnað á þriðja ársfjórðungi eftir 11 milljarða tapa á fjórðungunum tveimur þar á undan. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar enn, þar sem óljóst er enn hvenær Max vélarnar fá að fljúga aftur.
Í umfjöllun Seattle Times, sem fjallað hefur ítarlega um vanda Boeing, hefur komið fram að áætlanir miði við að vélarnar fái að fljúga í byrjun næsta árs.
Margt þarf þó að ganga upp, ef svo á að verða. Opinberar yfirheyrslur í Bandaríkjaríkjaþingi, sem fóru fram í síðustu viku, komu skelfilega út fyrir Boeing en þingmenn bæði Repúblikana og Demókrata gagnrýndu stjórnendur félagsins harðlega fyrir að slá af kröfum um eftirlit við framleiðsluferli, og spurðu ítarlega út í hönnunargalla í vélunum, og hvernig hefði staðið á því að ekki hefði verið brugðist við áhyggjum starfsmanna Boeing þegar þeim var komið áleiðis til stjórnenda.
Eins og kunnugt er var kyrrsetningin sett á eftir tvö flugslys þar sem 346 létust í Indónesíu og Eþíópíu, 29. október í fyrra og 13. mars á þessu ári. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar í Indónesíu var það galli í MCAS kerfi Max vélanna, sem á að sporna gegn ofrisi, sem var orsökin fyrir slysinu í Indónesíu. Allt bendir til þess að það sama hafi verið uppi á teningnum í Eþíópíu en formleg niðurstaða þarlendra yfirvalda liggur ekki fyrir. Eitt af því sem var spurt um í yfirheyrslunum í Bandaríkjaþingi var hvernig stjórnendur gætu sett fram áætlanir um að koma vélunum í loftið, ef niðurstöður í rannsóknum sem væru í gangi - sem eru þónokkrar, þar á meðal á vegum alríkislögreglunnar FBI - væru ekki fyrirliggjandi. Þarf ekki að bíða eftir því að það liggi fyrir hvað gerðist? Þetta var eitt af því sem Dennis Muilenburg, forstjóri, átti erfitt með að svara.
Fyrir Ísland er þetta mikið hagsmunamál, enda myndi aflétting kyrrsetningar - og uppfærsla á öryggisþáttum í Max vélunum, sem myndi tryggja öryggi þeirra - vera mikill léttir fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu. Bogi Nils Bogason forstjóri hefur sagt að starfsfólk Icelandair hafi unnið afar vel úr erfiðri stöðu, við að halda leiðakerfi félagsins gangandi og þjónustu ásættanlegri í erfiðum aðstæðum. Hann hefur einnig sagt að Icelandair sé með alla möguleika til skoðunar, til að styrkja flota félagsins, eftir kyrrsetningin dregst á langinn. Þar á meðal að taka Airbus vélar inn í flotann, en ekkert slíkt hefur þó verið kynnt opinberlega.
Áhættuþáttur
Ásgeir Jónsson gerði stöðu ferðaþjónustunnar að umtalsefni á fyrrnefndum hádegisfundi hjá Kviku, og sagði óvissu vera uppi um hvernig greinin myndi spjara sig á næstunni. Þessi óvissa hefði mikil áhrif á Íslandi, til dæmis á fasteignamarkaði og þróunin á næstu misserum myndi fara mikið eftir því hvernig tækist til.
Eitt af því sem gerir henni erfitt fyrir eru vaxandi erfiðleikar á alþjóðavettvangi, sem þá dregur úr kaupgetu fólks til að ferðast langar leiðir - alla leið til Íslands jafnvel. Varnaðarorð hafa víða sést undanfarin misseri, meðal annars vegna hægagangs í heimsbúskapnum sem rakin hefur verið til tollastríðs Bandaríkjanna og Kína og fleiri þátta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að stjórnvöld - það er ríkisstjórnir og seðlabankar - verði að vera vakandi og reyna að vinna gegn því að of mikill hægagangur skapist í heimsbúskapnum, þar sem slíkt geti verið hættulegt í viðkvæmri stöðu alþjóðastjórnmála.
Þessi óvissa í heimsbúskapnum teygir sig að þessu leyti til Íslands, þar sem okkar litla hagkerfi - langt frá mörkuðum heimsins - er verulega háð því að alþjóðaviðskipti gangi hratt og vel fyrir sig, og eftirspurn á okkar helstu markaðssvæðum haldist stöðug og helst vaxi.
Baráttan um banka og eiginfjárkröfurnar
Eitt af því sem viðmælendur Kjarnans eru sammála um, að greinilegt sé að pólitísk átök eigi sér nú stað - bæði bak við tjöldin og einnig nokkuð opinberlega - þegar kemur að fjármálakerfinu og þróun þess. Sjálfstæðisflokkurinn vill flýta því að hefja söluferli á eignarhlutum ríkisins í bankakerfinu og hefur Bjarni Benediktsson talað fyrir því að fljótlega ætti að vera hægt að byrja ferlið með eignarhluti í Íslandsbanka.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu Kjarnans fyrir viku, hefur meðal annars verið rætt um það að það geti gerst með skráningu bankans á markað, þar sem lítill hluti yrði seldur í fyrstu.
Stefnur stjórnarflokkanna eru ólíkar í þessum málum og ekki augljóst að það muni takast á ná sátt um þessi mál á kjörtímabilinu. Auk þess er það ekki víst að það sé góður tími núna til að selja hlut í bönkum, enda hefur áhugi á þeim ekki verið mikill. Hvorki á Íslandi né út í heimi. Eins og afleitur rekstur Arion banka, frá skráningu hans á markað, ber með sér, er rekstrarumhverfi banka krefjandi um þessar mundir.
Þá eru einnig átök fyrirsjáanleg um hvaða stefnu eigi að taka, þegar kemur að eftirliti með bönkunum. Átökin gætu birst í því hver það verður sem ráðinn verður næsti varaseðlabankastjóri, sem hefur fjármálastöðugleika á sínu borði. Þar undir eru meðal annars þættir eins og eiginfjárkröfur banka og fleira, sem skiptir miklu máli fyrir rekstur og arðgreiðslugetu banka. Tíu hafa sótt um starfið, en um þessar mundir eru umsækjendur metnir áður en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipar svo í starfið. Umsækjendur eru Arnar Bjarnason, lektor og framkvæmdastjóri, Ásdís Kristjánsdóttir, aðalhagfræðingur og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, Guðrún Johnsen, hagfræðingur, Gunnar Jakobsson, lögfræðingur, Haukur C. Benediktsson, hagfræðingur, Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja.
Flestir viðmælenda Kjarnans sögðu að þrýstingur á tilslakanir á þennan þátt væri mikill frá hluthöfum Arion banka, þar sem það gæti hjálpað til við að greiða út tugi milljarða úr bankanum til hluthafa. Þau sjónarmið heyrast einnig víða, að þær kröfur sem uppi eru á íslenska banka, varðandi eiginfjárstöðu, séu of háar þessi misserin og hamli því að þeir geti þjónustað atvinnulífið betur. Eiginfjárhlutföll íslenskra banka eru há í alþjóðlegum samanburði, og hafa að meðaltali verið á bilinu 20 til 25 prósent undanfarin tvö ár.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir almenning þegar kemur að því að byggja upp fjármálakerfið, en eins og staða þess er núna þá er það fremur óhagkvæmt í alþjóðlegum samanburði, og ríkið hefur mikið um það að segja sem eigandi 80 prósent af heildarumfangi kerfisins. Eignir íslenska bankakerfisins eru um 3.900 milljarðar króna og eigið féð 620 milljarðar, en 89 prósent eigna eru íslenskar og 11 prósent erlendis. Þveröfugt við það sem var fyrir hrun, auk þess sem það var þá næstum tíu sinnum stærra. Á pappírunum að minnsta kosti.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði