Forsætisráðherra Möltu, Joseph Muscat, hefur boðað afsögn sína í janúar næstkomandi en háværar raddir hafa krafist þess að hann segði af sér í kjölfar morðs á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia fyrir tveimur árum. Aðilar með sterkt tengsl inn í ríkisstjórn Muscat eru grunaðir um aðild að morðinu.
Mótmælendur sætta sig þó ekki við þetta og boðað hefur verið til mótmæla á morgun, sunnudag, í Valletta, höfuðborg Möltu. Ýmiss félagasamtök hvetja forsætisráðherrann að stíga tafarlaust til hliðar. Í maltneska miðlinum Malta Today kemur fram að krafan um það að Muscat stigi til hliðar hafi aukist til muna, sérstaklega eftir vitnisburð Melvin Theuma, millimanns í morðinu á Daphne Caruana Galizia.
Þá verði lögreglan að rannsaka Muscat, Keith Schembri, Kenneth Camilleri, Robert Agius, Adrian Agius, Neville Gafa og Sandro Craus án frekari tafar. „Enginn ætti að vera hafinn yfir lögin,“ kemur fram í máli aðstandenda mótmælanna.
Þeir vilja einnig að almenningur styðji þessa kröfu og mótmæli með þeim á morgun en samkvæmt Malta Today hefur fólk þar í landi séð mótmæli til að krefja forsætisráðherrann um uppsögn sem eiga sér engar hliðstæður þar í landi.
Leið fyrst eins og í landi með einræðisherrastjórn
Dóra Blöndal Mizzi er Íslendingur sem búið hefur á Möltu í um 33 ár en hún var nágranni Daphne og kunningjakona. Hún segir í samtali við Kjarnann að hún hafi fyrst komið til Möltu í kringum 1985 þegar hún byrjaði að búa með maltverskum manni sínu. „Þá réði gamla sósíalistastjórnin en maðurinn minn ólst einmitt upp við hana,“ segir hún og bætir því við að spillingin á þeim tíma hafi verið alveg rosaleg.
„Það var mikið áfall fyrir mig að flytja hingað, mér leið eins og ég byggi í kommúnistalandi með einræðisherrastjórn. Þegar ég fór til dæmis út í matvörubúð voru hálfar hillur tómar. Svo þurftu allir að eiga eins sjónvarp en það þurfti að fara á biðlista til að eignast slíkt tæki,“ segir hún.
Hún rifjar enn fremur upp að lögreglan hafi verið mjög spillt á þessum tíma. Til að mynda hafi vinkona hennar tekið það sérstaklega fram við hana að ekki væri æskilegt að eiga í samskiptum við lögregluþjóna því „þeir væru ekki vinir þeirra.“
Vinstri og hægri til skiptis við stjórnvölinn
Árið 1987 komst Þjóðernisflokkurinn (Nationalist Party) til valda en Verkamannaflokkurinn (Labor party) og fyrrnefndur Þjóðernisflokkur hafa skipst á að halda völdum í landinu. Dóra segir að þegar Þjóðernisflokkurinn hafi unnið á níunda áratugnum hafi allt stoppað og fólk dansað á götum úti eftir úrslit kosninganna. „Þá urðu miklar breytingar og fór landinu að fara fram. Það varð að týpísku Evrópuríki.“
Dóra lýsir þessum tíðu stjórnarskiptum, þar sem hægri og vinstri öfl skiptast á að fara með völd. Hún segir að þegar Verkamannaflokkurinn hafi unnið kosningar fyrir sex árum hafi mátt sjá nýtt fólk með nýjar áherslur. „Þeir einhvern veginn komu ferskir og nýir til sjónar. Ofsalega margir sem höfðu áður kosið Þjóðernisflokkinn kusu nú sósíalistana. Þeir hugsuðu fram á veginn og voru ferskir. Ég var sjálf voða spennt að sjá hvað þeir myndu gera. Þarna var góður andi. Já, bara mjög góður andi,“ segir hún.
Strangheiðarleg og sagði alltaf satt
Sjálf þekkti Dóra blaðamanninn, Daphne Caruana Galizia, sem var myrt árið 2017 með bílasprengju. Dóra segir að Daphne hafi verið dramatísk í skrifum og stríðin. Hún hafi aftur á móti verið strangheiðarleg og alltaf sagt satt. „Sem auðvitað kom síðan í ljós,“ segir Dóra. Hún hafi gagnrýnt Verkamannaflokkinn og komið upp um spillingu.
Eins og áður segir voru þær Dóra og Daphne nágrannar en eiginmaður Dóru ólst jafnframt upp í sömu götu og Daphne. „Það vildi líka þannig til að við fluttum á sama svæðið, einskonar sveitasvæði. Ég horfi beint yfir á húsið hennar.“ Hún segir að vinátta hafi myndast milli þeirra og hafi dauðsfall hennar augljóslega haft mikið áhrif á Dóru, hún hafi aldrei upplifað annan eins hrylling. Þá talar hún með mikilli hlýju til eiginmanns Daphne og sona þeirra.
„Ég vona bara að hún fái það réttlæti sem hún á skilið,“ segir Dóra og má greina ákveðna bjartsýni hjá henni. Málið hafi verið í kyrrstöðu síðustu ár en nú sé boltinn farinn að rúlla í kjölfar rannsókna og hefur þátttaka Evrópulögreglunnar (Europol) haft mikil áhrif, að mati Dóru. „Nú er ákveðin gleði í loftinu og von að Daphne fái það réttlæti sem hún á skilið.“ En þrátt fyrir vonarneistann er Dóra þó með varann á. „Aftur á móti veit ég hvernig hlutirnir geta gengið hér á Möltu. Allt getur stoppað. Ég bara vona að rannsókn haldi áfram og að hún muni gerast hratt. Það má ekki hægja á mótmælum, við verðum að halda ótrauð áfram.“
Fréttir ferðast hratt – Á Möltu og á Íslandi
Þegar Dóra er spurð út í hvort Malta og Ísland eigi eitthvað sameiginlegt þá bendir hún á að í gegnum aldirnar hafi margskonar menningarheimar mæst á Möltu. Þannig sé landið mjög ólík Íslandi að því leyti, ekki hafi verið sama einangrun þar og hér. Það sem er svipað að mati Dóru er að á Möltu má einnig finna lítið samfélag. „Það vita allir hver af öðrum og fréttir ferðast hratt,“ segir hún.
Dóra segir að fólk sé mjög reitt núna á Möltu enda hafi sviplegt andlát Daphne verið mikið áfall. Hún bendir á að sonur Daphne, Matthew Caruana Galizia, hafi verið mjög virkur á samfélagsmiðlum til að koma fram réttlæti og halda málinu gangandi en hann er einnig blaðamaður eins og móðir hans var. „Hann hefur ekki stoppað síðan þetta gerðist,“ segir hún.
Þess má geta að hægt er að fylgjast á samfélagsmiðlinum Twitter með umræðum um málið í gegnum myllumerkið #JusticeforDaphne.
Landið mikilvægara en persóna forsætisráðherrans
Þann 29. nóvember síðastliðinn sendi fjölskylda Daphne frá sér fréttatilkynningu þar sem þau kölluðu eftir því að forsætisráðherra segði af sér.
„Við erum, eins og aðrir Maltverjar, hneyksluð og reið yfir því að Keith Schembri, nánum vini og fyrrum mannauðsstjóra forsætisráðherra, hafi verið sleppt úr haldi. Að minnsta kosti tvö vitni, auk fjölmargra beinna sönnunargagna, bendla Schembri við morðið á eiginkonu okkar og móður. Ekki þarf að veita Yorgen Fenech opinbera náðun til þess að hægt verði að ákæra Schembri. Schembri, sem er afkastamikill glæpamaður, bendlaður við fjölmörg mál tengd mútum og peningaþvætti, er nú frjáls maður og ekki er útlit fyrir að hann verði sakfelldur fyrir neinn af glæpum sínum. Okkur er brugðið að Schembri skuli hafa verið sleppt á vakt forsætisráðherra, sem leikur áfram dómara, kviðdómanda og böðul í morðmáli sem varðar þrjá af nánustu samstarfsmönnum hans,“ segir í tilkynningu þeirra.
Þá telur fjölskylda Daphne að þessi afskræming á réttlætinu sé þjóðarskömm sem kljúfi samfélagið í tvennt og smáni þau. Afskræmingin megi ekki eiga sér stað stundinni lengur.
„Við hvetjum forsætisráðherra til að stíga til hliðar og hleypa að undirmanneskju sem er laus við hagsmunaárekstra í málinu. Sé forsætisráðherra annt um réttlætið og Möltu þá ætti hann að gera þetta tafarlaust. Landið okkar er mikilvægara en ferill hans.“
Vill sjá alla þess menn bak við lás og slá
Dóra segir að hana langi til að allur „kóngulóarvefurinn finni fyrir þessu.“ Hún segir að margir hafi grætt á því að Daphne færi. „Ég vil sjá alla þessa menn bak við lás og slá. Það er erfitt að sjá þá enn frjálsa á meðan fjölskylda hennar þjáist.“
Þess vegna verði að halda áfram að mótmæla. „Við megum ekki hægja á okkur,“ segir hún að lokum.