Ásmundur Friðriksson orðinn dýrastur í akstri á ný
Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 hafa þingmenn fengið um 25 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturs. Ásmundur Friðriksson hefur endurheimt toppsætið yfir þá þingmenn sem kosta mest vegna aksturs. Níu þingmenn fá 63 prósent allra endurgreiðslna.
Kostnaður Alþingis vegna aksturs þingmanna á eigin bifreiðum rúmlega tvöfaldaðist á síðustu mánuðum ársins 2019. Fyrstu sjö mánuði ársins nam hann tæplega 2,4 milljónum króna en á næstu þremur mánuðum sem fylgdu, frá byrjun ágústmánaðar og út október, jókst hann upp í rúmlega fimm milljónir króna. Ef kostnaðurinn hefur verið sá sami síðustu tvo mánuði ársins þá mun heildarkostnaður vegna aksturs eigin bíla verða tæplega 6,1 milljónir króna.
Notkun þeirra á bílaleigubílum tók einnig verulega við sér á haustmánuðum, eftir að þingstörf hófust að nýju. Á fyrstu sjö mánuðum ársins leigðu þingmenn sér bílaleigubíla fyrir 11,1 milljón króna en í lok október var sú tala komin í 17,1 milljón króna. Til viðbótar fengu þeir 2,7 milljónir króna endurgreiddar vegna eldsneytiskostnaðar, greiðslna vegna notkunar á jarðgöngum og töku leigubíla.
Alls hefur kostnaður þingmanna vegna aksturs á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 því verið 24,8 milljónir króna. Framreiknað má búast við því að heildarkostnaðurinn á árinu 2019 verði um 29,8 milljón króna, ef notkunin i nóvember og desember verður sú sama og á meðalmánuði fyrr á árinu.
Allt árið 2018 námu greiðslur vegna notkunar á eigin bifreiðum 8,4 milljónum króna og því stefnir allt í að þær lækki um 27 prósent milli ára að óbreyttu. Þá notuðu þingmenn líka bílaleigubíla fyrir alls 19,3 milljónir króna og fengu endurgreiðslur vegna eldsneytis, jarðganga og leigubíla upp á tæplega 3,2 milljónir króna. Samanlagt var því kostnaðurinn í fyrra 30,7 milljónir króna, eða mjög svipaður og hann stefnir í að verða í ár.
Þetta má sjá í tölum um greiðslur til þingmanna sem birtar eru á vef Alþingis.
Ásmundur aftur upp í fyrsta sætið
Sá þingmaður sem kostar skattgreiðendur mest vegna keyrslu er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er hættur að notast við eigin bifreið í keyrslu, líkt og hann gerði árum saman, en hefur þess í stað keyrt bílaleigubíla fyrir rúmlega 2,8 milljónir króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Auk þess hefur Ásmundur fengið 628 þúsund krónur greiddar frá Alþingi vegna eldsneytiskostnaðar. Heildarkostnaður vegna aksturs Ásmundar frá byrjun árs og út októbermánuð var því tæplega 3,5 milljónir króna. Það er um 40 prósent aukning á kostnaði við aksturs hans allt árið í fyrra, þegar hann nam samtals 2,5 milljónum króna. Aksturskostnaður Ásmundar er rúmlega 14 prósent af öllum aksturskostnaði þingmanna það sem af er ári.
Frá 2013 og út árið 2017 námu endurgreiðslur til Ásmundar alls 23,5 milljónum króna vegna notkunar hans á eigin bifreið, en hann sætti mikilli gagnrýni þegar tölurnar voru opinberaðar í upphafi árs 2018 og hætti í kjölfarið að nota eigin bifreið jafn mikið og áður.
Því hafa endurgreiðslur til Ásmundar vegna aksturs verið 29,5 milljónir króna frá því að hann var kjörinn á þing vorið 2013 og fram til loka októbermánaðar 2019.
Enginn þingmaður hefur fengið nærri jafn mikið greitt vegna aksturs síns. Ásmundur býr á Suðurnesjunum.
Níu taka 63 prósent af endurgreiðslum
Sá þingmaður sem kostar næst mest vegna akstursendurgreiðslna er samflokksmaður Ásmundar, Vilhjálmur Árnason, sem býr einnig á Suðurnesjum. Hann hefur alls fengið 2,3 milljónir króna endurgreiddar vegna notkunar á eigin bifreið, leigu á bílaleigubílum og eldsneytiskostnaðar á fyrstu tíu mánuðum ársins. Akstur Ásmundar kostaði samt sem áður 52 prósent meira en akstur Vilhjálms á fyrstu tíu mánuðum ársins.
Í þriðja sæti er Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins og íbúi í Vogum, með heildaraksturskostnað upp á 1,6 milljónir króna. Á eftir þeim þremur koma þrír þingmenn úr þremur mismunandi flokkum, en sem eru allir úr Norðvesturkjördæmi, með aksturskostnað upp á um 1,5 milljón króna á mánuði á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þeir eru Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar, Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins.
Þrír aðrir þingmenn hafa náð að keyra þannig að endurgreiðslur nemi yfir einni milljón króna. Þeir eru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna úr Norðausturkjördæmi (1,4 milljónir króna), Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi (1,2 milljónir króna), og Líneik Anna Sævarsdóttur úr Framsókn og Norðausturkjördæmi (1,0 milljónir króna).
Ofangreindir níu þingmenn, sem eru alls um 14 prósent þingheims, fá því tæplega 63 prósent af öllum endurgreiðslum Alþingis til þingmanna vegna aksturs til sín.
Níu þingmenn sem keyra mest:
- Ásmundur Friðriksson 3,5 milljónir króna
- Vilhjálmur Árnason 2,3 milljónir króna
- Birgir Þórarinsson 1,6 milljónir króna
- Guðjón S. Brjánsson 1,5 milljónir króna
- Sigurður Páll Jónsson 1,5 milljónir króna
- Haraldur Benediktsson 1,5 milljónir króna
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir 1,4 milljónir króna
- Lilja Rafney Magnúsdóttir 1,2 milljónir króna
- Líneik Anna Sævarsdóttir 1,0 milljónir króna
Almenningi neitað um upplýsingar árum saman
Fjölmiðlar reyndu árum saman að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá sem nú of persónulegar.
Í byrjun febrúar 2018 svaraði forseti Alþingis fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Píratar, um aksturskostnað.
Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra. Í tölunum mátti þó sjá að fjórir þingmenn sem þáðu hæstu endurgreiðslurnar fengu samtals 14 milljónir króna, eða tæplega helming allra endurgreiðslna vegna aksturs.
Greiðslurnar harðlega gagnrýndar
Upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bílaleigubíla, gert skýrara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þingmenn séu að nota eigin bifreiðar. Breytingarnar náðu einkum til þingmanna sem falla undir svokallaðan heimanakstur, þ.e. akstur til og frá heimili daglega um þingtímann. Það eru þingmenn sem búa í nágrenni Reykjavíkur (á Suðurnesjum, Vesturlandi, Árnessýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bifreiðum, sem kemur til endurgreiðslu, varð eftir breytingarnar bundinn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kílómetrafjölda á skrifstofa Alþingis láta umræddum þingmanni í té bílaleigubíl.
Gagnsæið skilar minni kostnaði
Þegar heildarkostnaður vegna bílaleigubíla, eldsneytis, jarðganga og leigubíla er talinn með var kostnaðurinn vegna aksturs þingmanna á árinu 2017 alls 42,7 milljónir króna. Kostnaðurinn mun því dragast saman, í krónum talið og án tillits til verðbólgu, um tæplega 30 prósent ef sama notkun hélst að meðaltali í nóvember og desember og fyrstu tíu mánuði ársins, frá því sem var á síðasta árinu áður en að akstursgreiðslurnar voru loks gerðar opinberar. Það er, líkt og áður sagði, afar svipaður heildarkostnaður og var í fyrra.
Vert að taka fram að árið 2017 var ansi sérstakt. Þá voru einungis 66 þingfundardagar og 14 dagar teknir frá undir nefndarfundi. Ástæðurnar voru meðal annars stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningarnar 2016, sem drógust inn á árið 2017, stjórnarslit í september 2017 og svo kosningar í október 2017, sem leiddu í kjölfarið til nýrra stjórnarmyndunarviðræðna sem lauk ekki fyrr en 30. nóvember það ár. Til viðbótar fór þingmenn í jólafrí, páskafrí og langt sumarfrí. Þeir unnu því ekki mikið á árinu 2017.
Því er ljóst að í kjölfar mikillar umfjöllunar fjölmiðla um aksturskostnað Alþingismanna, sem var opinberaður í fyrsta sinn í byrjun árs í fyrra, þá hefur endurgreiðslubeiðnum þingmanna vegna notkunar á eigin bílum fækkað verulega. Raunar hefur allur kostnaður vegna aksturs þingmanna dregist umtalsvert saman, jafnt á árinu 2018 og það sem af er árinu 2019.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars