Hagkerfi á tímamótum
Hvað þarf að gerast til að Ísland geti haldið samkeppnishæfni til framtíðar litið? Sigríður Mogensen hefur víðtæka reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hún segir brýnt að Ísland móti langtímaatvinnustefnu.
Sigríður Mogensen, hagfræðingur og sviðsstjóri hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir íslenska hagkerfið nú standa á tímamótum. Eftir mikla uppgangstíma í hagkerfinu á árunum 2011 og allt fram á árið 2019, þá benda flestir mælikvarðar til þess að nú sé verulega farið að hægja á hjólum atvinnulífsins.
Í núverandi aðstæðum er brýnt að huga að langtímastefnumótun - heildstæðri atvinnustefnu - sem getur lagt grunninn að betri lífskjörum til langrar framtíðar, segir Sigríður. Þar beinist kastljósið ekki síst að hugverkaiðnaði. Hún segir að auðlindadrifin starfsemi sé mikilvæg og verði það áfram, en vöxtur framtíðarinnar liggi í frekari uppbyggingu atvinnustarfsemi sem byggi á hugvitinu.
Engar tilviljanir
„Tilviljun mun ekki ráða því hvernig okkur vegnar. Við erum í samkeppni við önnur ríki og svæði í heiminum um hálaunastörf sem byggja á hugviti. Þrátt fyrir að það sé mikill kraftur í nýsköpun á Íslandi, þá verðum við líka að þora að spyrja gagnrýnna spurninga og gera betur,“ segir Sigríður.
Hugvitsdrifin starfsemi verður ekki byggð upp á einni nóttu þannig að hún geti orðið enn meiri kjölfesta í atvinnulífinu. En við höfum ekki val um hvort við leggjum meira á okkur til að styrkja grunn hugvitsgreina, segir Sigríður. „Það er nauðsynlegt að gera þetta. Menntakerfið er miðpunkturinn í þessari vinnu.“
Metnaðarfull vinna stjórnvalda
Stjórnvöld hafa – þvert á ráðuneyti – haft það sem leiðarljós að efla nýsköpun í atvinnulífinu og í menntakerfinu, í takt við stjórnarsáttmálann. Þetta hefur tekist vel, segir Sigríður, og nýframkomin nýsköpunarstefna, sé til marks um að það sé verið að taka „næsta skref” í því að byggja upp gott umhverfi fyrir nýsköpun í víðum skilningi.
En betur má ef duga skal.
Sigríður bendir á, að of fá alþjóðleg íslensk fyrirtæki hafi náð þeirri stærð sem þurfi til að nægilega mörg störf skapist í hugvitsdrifnum iðnaði og atvinnustarfsemi. Þó mörg góð alþjóðleg fyrirtæki séu á landinu, þá þurfi meira til. Marel er orðið að alþjóðlegu stórfyrirtæki með sex þúsund starfsmenn, en vöxturinn er mestur utan Íslands. Fyrirtækið nálgast nú fertugsaldurinn, og Össur - hitt flaggskipið í íslenskum hugvitsgeira og iðnaði – verður 50 ára árið 2022. Sigríður segir að það sé kominn tími á, að það verði til enn fleiri fyrirtæki eins og Marel og Össur, og það eigi að vera kappsmál að styrkja og bæta rekstrarumhverfið svo það geti gerst. Hljóð og mynd verður að fara saman í þessu. Heildstæð stefna, þar sem einblínt er á alla keðjuna í uppbyggingu samkeppnishæfninnar, er það sem þarf. Langtímasýnin verður að vera skýr á að skapa störf sem byggja á hugvitinu og virkjun þess,” segir Sigríður.
Mikil gróska í iðnaði
Sigríður hefur fjölbreytta starfsreynslu þrátt fyrir ungan aldur.
Á starfsferli sínum hefur hún meðal annars sinnt blaðamennsku, rannsóknum hjá embætti sérstaks saksóknara og störfum á fjármálamarkaði – meðal annars hjá þýska bankanum Deutsche Bank – svo fátt eitt sé nefnt.
Hún segir það hafa verið viðbrigði að koma inn á íslenskan vinnumarkað á nýjan leik eftir störf í London en hjá Samtökum iðnaðarins hafi um margt leynst óvæntir kraftar og straumar. Það kom mér á óvart hvað það eru margir í íslenskum iðnaði, innan SI og einstakra félaga í ólíkum iðngreinum, sem vinna kraftaverk fyrir hönd fyrirtækja, frumkvöðla og allra þeirra sem tilheyra stórum hópum fólks í iðnstörfum. Það kom mér á óvart hvað þetta er fjölbreyttur hópur og hversu margir leggja mikla vinnu á sig til að bæta það sem þarf að bæta. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið, og því þarna liggur grasrótarstarfið sem við fylgjum síðan eftir,” segir Sigríður.
Ástæða til að fylgjast grannt með
Atvinnuleysi hefur verið að aukast að undanförnu, og mælist nú um 4 prósent, og flestar hagspár gera ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2019 verði lítill sem enginn. Þá eru horfurnar fyrir næstu tvö ár almennt greindar á þann veg, að framundan sé hóflegur eða lítill hagvöxtur, sé horft á stöðu mála í sögulegu samhengi. Hann getur orðið á bilinu 1 til 3 prósent árlega, sem er allt annað en 3,5 til 6 prósent, sem var reyndin á árunum 2011 til 2019.
Þetta er ekki óvænt, eftir fall WOW air og þrengingar í ferðaþjónustu almennt. Raunar má segja að fall WOW air hafi verið um hálfs árs langur atburður, þar sem reynt var til þrautar að bjarga félaginu, samhliða hraðri aðlögun að minna umfangi ferðaþjónustu.
Auk þess kemur upp í hugann sú einfalda sýn, að það sem fer jafn hratt upp og íslenska hagkerfið gerði á nokkrum árum eftir hrun fjármálakerfisins, það hlýtur í það minnsta að koma niður aftur með einhverjum hætti. En staða þjóðarbússins hefur kúvenst til hins betra. Skuldir lækkað og svigrúm til að vinna gegn samdrætti – til dæmis með auknum innviðafjárfestingum – er fyrir hendi, segir Sigríður.
Í þetta skiptið virðist lending ætla að vera mjúk, en Sigríður, og aðrir hjá Samtökum iðnaðarins, hafa þó áhyggjur af ýmsum merkjum um að það sé að hægja óþarflega hratt á atvinnulífinu. „Útflutningur er ekki aukast, og það er mikið áhyggjuefni. Til að hér verði betri lífskjör til framtíðar þá þurfum við að styrkja útflutningin og koma undir hann fjölbreyttari stoðum,“ segir Sigríður.
Rauður þráður
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í grein á vef Samtaka iðnaðarins, sem birtist nú um áramót, að það þurfi mun meira til þess að sporna gegn auknu atvinnuleysi og erfiðleikum við að miðla lækkun stýrivaxta í betri kjör til heimila og fyrirtækja. Verðbólgudraugurinn er nú ekki á sveimi, eins og svo oft þegar á móti blæs, en verðbólga mælist nú 2 prósent á ársgrundvelli. Stýrirvextir Seðlabanka Íslands hafa einnig farið lækkandi og eru nú 3 prósent, en kallað hefur verið eftir frekari lækkun þeirra.
„Lausnin felst í atvinnustefnu sem ætti að vera rauði þráðurinn í annarri stefnumótun stjórnvalda. Um það hafa Samtök iðnaðarins fjallað ítarlega. Há laun, háir raunvextir og há skattheimta í alþjóðlegum samanburði bitna á fyrirtækjum hér á landi, ekki síst þeim sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum eða sem keppa við innfluttar vörur. Kemur þetta niður á hagkvæmni rekstrar hér á landi og stöðu íslenskra fyrirtækja í erlendri samkeppni. Hingað til hefur gengi krónu rétt af samkeppnishæfni Íslands en það gerist ekki nú þar sem grundvallarbreyting varð á hagkerfinu á undanförnum áratug. Skuldir heimila, fyrirtækja og ríkis hafa lækkað umtalsvert, erlendar eignir eru umfram erlendar skuldir og aukin fjölbreytni er í útflutningi. Saman styrkir þetta stoðir hagkerfisins og áhrif þess koma nú fram í minni sveiflum. Fyrir vikið verður ekki leiðrétting á samkeppnisstöðunni og það fækkar störfum hér á landi. Það er óásættanlegt,” sagði Sigurður meðal annars í fyrrnefndri grein.
Sigríður tekur undir þetta með samstarfsmanni sínum og segir að ákall SI eftir atvinnustefnu - sem hafi skýr langtímamarkmið um og að fjölga vel borgandi störfum – sé það sem vinna þurfi að. Góð vísa er aldrei of oft kveðin, og SI hafa þetta sem rauðan þráð í sínum skilaboðum til stjórnvalda og atvinnulífs; atvinnustefnu þarf að móta, og það þolir enga bið.
Risavaxið iðnarhagkerfi
Iðnaður er stórt orð þegar til þess er horft að undir hann fer um fjórðungur af starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði. Tæplega 50 þúsund manns á vinnumarkaði teljast til iðngreina af ýmsum toga, og fjölbreytileikinn er mikill. Það kann að vera erfitt að svara þeirri spurningu skýrt, hvað iðnaður sé, en hluti svarsins ætti í að minnsta að segja okkur það, að án hans getur samfélagið ekki virkað. Sigríður segir að mikilvægt sé að horfa á stöðu mála í alþjóðlegu samhengi og velta því upp hvernig samkeppnishæfni Íslands sé, út frá öllum hliðum.
Eru ívilnanir fyrir nýsköpun nægilega áhrifamiklar? Eru skattar og gjöld of íþyngjandi þegar kemur að nýsköpun og tækniþróun?
Sigríður segir í svari sínu við síðari spurningunni, að í mörgum tilvikum séu skattar of háir og gjöld of íþyngjandi. „Almennt á litið, þarf að skapa skilyrði fyrir því að á Íslandi sé samkeppnishæft regluverk. Þetta er ekki spurning um að krefjast alltaf lægri skatta, heldur frekar að samkeppnishæfnin almennt sé fyrir hendi og að sífellt sé verið að horfa til þess sem best gerist í heiminum.”
Það sem Ísland þurfi að gera, er að bera sig saman við svæði sem hafa verið að ná góðum árangri. „Þar ekki aðeins um að ræða ríki, heldur einnig borgir og jafnvel enn minni svæði,” segir Sigríður. Lausnir á vandamálunum sem glímt er við, sé víða að finna og mikilvægt að leita alltaf að þeim með metnað og framsýni að leiðarljósi.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði