Bæjarstjórn Reykjanesbæjar þarf ekki lengur að bera ákvarðanir um fjárútlát undir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, líkt og hún hefur þurft að gera undanfarin ár vegna bágborinnar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Ástæðan er sú að betri fjármálastjórn, aðhaldsaðgerðir og tekjuaukning bæjarsjóðs hefur bætt fjárhagsstöðuna til muna. Raunar er það svo að Reykjanesbær er að losna undan eftirlitinu tveimur árum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Í frétt vegna þessa, sem birt hefur verið á heimasíðu Reykjanesbæjar, segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, að þetta séu sérstaklega ánægjuleg tíðindi og
niðurstaða sem stefnt hafi verið að síðan í árslok 2014, þegar aðgerðaráætlunin „Sóknin“ var kynnt til leiks til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. „Auk þess sem ráðdeild hefur stýrt störfum okkar, hafa ytri aðstæður einnig hjálpað til. Má þar nefna að flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur aukist, atvinnustig verið gott, íbúum fjölgað og svo mætti áfram telja.“
Þar segir enn fremur að bæjarstjórn muni í framhaldinu leggjast yfir framtíðaráætlanir bæjarfélagsins, en fjölmörg stór verkefni eru þar á teikniborðinu í uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, ýmissa fjárfestinga og framkvæmda.
Herinn fór og tilraunir mistókust
Það hafa skipst á skin og skúrir í Reykjanesbæ frá því að sveitarfélagið varð til fyrir rúmum aldarfjórðung, sérstaklega á síðustu árum. Árið 2006 hvarf Bandaríkjaher frá landinu og þar með lokaði stærsti vinnustaður þess sem tryggði Reykjanesbæ auk þess margháttaðar tekjur.
Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 30 prósent á árunum 2005 til 2009. Það var líka ákveðið að selja allar verðmætustu eignir sveitarfélagsins, þar á meðal eignarhlutinn í HS Orku. Á þessu tímabili, 2003 til 2014, skilaði var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Gripið til neyðaraðgerða
Samandregið þá fór áætlunin um viðbragð við brotthvarfi hersins ekki eins og lagt var upp með. Þess í stað endaði Reykjanesbær sem eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur þess árum saman var afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014 var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Vegna þessa þurfti sveitarfélagið meðal annars að leggja auknar skattbyrðar á íbúa sína.
Þessi staða varð meðal annars til þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti hreinan meirihluta sinn í kosningunum 2014. Nýr meirihluti Samfylkingar, Beinnar leiðar og Frjáls afls tók við og réð Kjartan Már Kjartansson sem bæjarstjóra.
Verkefnið sem sveitarfélagið stóð frammi fyrir á þessum tíma var gríðarlega umfangsmikið. Reykjanesbær var skuldsettasta sveitarfélag landsins. Skuldir þess voru tæplega 41 milljarður króna í lok árs 2014, eða rúmlega 250 prósent af reglulegum tekjum sveitarfélagsins en samkvæmt sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 var leyfilegt skuldahlutfall að hámarki 150 prósent. Skuldastaða Reykjanesbæjar var því beinleiðis í andstöðu við lög.
Ráðist í „Sóknina“
Til að bregðast við þessu var ráðist í aðgerðaráætlun til átta ára, sem kallaðist „Sóknin“. Helst markmið hennar var að ná skuldahlutfallinu niður fyrir 150 prósent fyrir árið 2021. Í þessu átaki fólst að íbúar þurftu að bera auknar burðar. Lagt var aukaálag ofan á hámarksútsvar, fasteignaskattar hækkaðir, föst yfirvinna bæjarstarfsmanna lögð af, ökutækjastyrkir aflagðir, fagsviðum fækkað og ýmsum millistjórnendum sagt upp störfum.
Í hálkunni milli jóla og nýárs 2014 var íbúum boðið að koma og sækja sand til að dreifa á stéttina hjá sér. Það voru ekki til bæjarstarfsmenn til að sinna því viðviki.
Í febrúar 2015 skrifaði nýr bæjarstjóri, Kjartan Már, grein þar sem hann lýsti veruleikanum sem blasti við. Þar sagði meðal annars: „Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er graf alvarleg. Sú staðreynd hefur legið fyrir um nokkurt skeið. Samt eru ótrúlega margir sem halda ennþá að þetta sé bara pólitískur skollaleikur með það að markmiði að láta stöðuna líta verr út en hún raunverulega er. Það er fjarri lagi.[...]Samt hitti ég fólk af og til sem heldur hinu gagnstæða fram og trúir því að þetta sé allt í plati. „Var nú nauðsynlegt að hækka útsvarið? Var nauðsynlegt að hækka fasteignaskattinn?
Var nauðsynlegt að draga saman og hagræða í rekstri? Var nú nauðsynlegt að segja upp fastri yfirvinnu? Var nú nauðsynlegt að segja upp föstum aksturstyrkjum? Var nauðsynlegt að fækka fagsviðum? Var nú nauðsynlegt að segja upp öllum framkvæmdastjórunum? Var nú nauðsynlegt að gera samning við innanríkisráðuneytið? Var nú nauðsynlegt að …….“ Öllum spurningum í þessum dúr er bara hægt að svara á einn veg; „Já, það var bráðnauðsynlegt að taka þessar ákvarðanir þótt erfiðar væru.““
Kjartan sagði ennfremur að komið væri að ögurstundu og það hefði einfaldlega ekki verið hægt að bíða lengur og sjá hvort ástandið myndi lagast. Það þyrfti að grípa til aðgerða og það hefði verið gert. Skuldir Reykjanesbæjar væru allt of háar og að það þyrfti að greiða þær niður. „Það gerum við ekki nema með því að eiga rekstrarafgang á hverju ári sem nota má til þess að greiða niður skuldir og því þurfum við að halda gríðarlega vel á spilunum á næstu 8 árum að minnsta kosti. Allir sem halda öðru fram eru í afneitun og á villigötum.“
Ný uppbygging
Á þessum tíma var þó lífsmark í atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Tilraunir til að byggja álver í Helguvík reyndust með öllu óraunhæfur og hafa verið sleggnar af. Þá fór uppbygging kísilvera í Helguvík illa og mikill þrýstingur er á það meðal íbúa að slík fái einfaldlega ekki a starfa á svæðinu. En gagnver voru risin, líftæknifyrirtæki voru með starfsemi í pípunum og svo var auðvitað að eiga sér stað fordæmalaus vöxtur í ferðaþjónustu þar sem Keflavíkurflugvöllur lék lykilhlutverk.
Næstu ár voru sveitarfélaginu góð. Atvinnuleysið nánast hvarf, íbúum sveitarfélagsins fjölgaði mest allra á landinu, fasteignaverð hækkaði gríðarlega og tekjur sveitarfélagsins jukust skarpt. Störfin sem urðu til voru flest tengd ferðaþjónustu, enda fjölgaði ferðamönnum úr hálfri milljón í 2,3 milljónir á sjö árum.
Á sama tímabili fjölgaði íbúum sveitarfélagsins mjög hratt. Um mitt ár 2011, þegar ástandið var nokkuð hart í Reykjanesbæ, bjuggu þar 13.990 manns. Þar af voru 1.230 erlendir ríkisborgarar. Í lok september síðastliðins voru íbúar sveitarfélagsins orðnir 19.380 og hafði þar með fjölgað um 5.390 á nokkrum árum. Nánast öll aukningin var tilkomin vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sveitarfélagsins. Þeir voru 8,8 prósent íbúa þess 2011 en 25,5 prósent þeirra í lok mars síðastliðins.
Þegar síðasti ársreikningur Reykjanesbæjar var afgreiddur í bæjarstjórn í maí 2019 var niðurstaða hans sú besta sem sést hefur í sögu sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu sveitarfélagsins var komin niður í 137,29 prósent, og þar með undir lögboðið 150 prósent viðmið.
Fá milljarða vegna sölu á HS Orku
Reykjanesbær fékk síðan enn einar gleðifréttirnar stuttu síðar, þegar gengið var frá sölu á hlut Fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku til félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða.
Heimildir Kjarnans herma að kaupverðið hafi verið 8,8 milljarðar króna. Reykjanesbær á rétt á því að fá rúmlega fjóra milljarða króna til viðbótar við það sem sveitarfélagið fékk þegar það seldi skuldabréfið upphaflega. Þeim verður öllum ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.
Fall WOW air hefur mikil áhrif
Það hafa þó einnig teiknast upp nýjar áskoranir. Við fall WOW air í lok mars í fyrra bæjarráð Reykjanesbæjar ljóst að áfallið muni hafa mikil samfélagsleg áhrif til skamms tíma. Það sé einkum vegna þess hversu mikill fjöldi íbúa hafi starfað hjá WOW air eða í fyrirtækjum sem veitti WOW air bæði beina og óbeina þjónustu.
Atvinnuleysi er hæst á Suðurnesjum á öllu landinu. Þar mælist atvinnuleysið nú 8,4 prósent og hefur aukist hratt það sem af er ári.
Á Suðurnesjunum voru fleiri Pólverjar atvinnulausir en íslenskir ríkisborgarar í lok nóvember síðastliðins. Það er í fyrsta sinn sem það gerist. Alls eru 45 prósent þeirra sem eru án atvinnu, en búsettir á Suðurnesjunum, Pólverjar, 42 prósent eru íslenskir ríkisborgarar og tæp 13 prósent frá öðrum löndum.
Suðurnesin eru eina landsvæðið á Íslandi þar sem fleiri Pólverjar eru án atvinnu en Íslendingar. Reykjanesbær er stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum.