Eignir lífeyrissjóða landsins voru 4.900 milljarðar króna í lok nóvember 2019 og hækkuðu um 43 milljarða króna frá fyrri mánuði. Alls hækkaði virði eigna þeirra um 655 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum síðasta ár. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðakerfið sem birtar voru á föstudag.
Það er mun meiri hækkun í krónum talið innan árs en nokkru sinni hefur átt sér stað á eignasafni alls lífeyrissjóðakerfisins áður. Á árinu 2017, sem var fyrra metárið, jukust eignir sjóðanna um 403 milljarða króna og 2018 jukust eignir þeirra um 302 milljónir króna. Sú hækkun sem varð á eignasafni þeirra á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs er því 93 prósent af samanlagðri hækkun á árunum 2017 og 2018. Vert er að taka fram að ekki er einungis um hækkun vegna ávöxtunar að ræða heldur aukast inngreiðslur einnig ár frá ári vegna fjölgunar í hópi greiðenda og hærri iðgjaldsgreiðslna.
Hlutfallslega er hækkunin sem átti sér stað í fyrra þó einnig með því mesta sem sést hefur innan árs. Alls jukust eignirnar um 15,4 prósent frá byrjun árs 2019 og til loka nóvembermánaðar. Það er mesta hlutfallslega aukning sem orðið hefur á eignasafninu innan eins árs eftir bankahrun.
Marel lykilbreyta
Stíf fjármagnshöft sem sett voru síðla árs 2008 gerðu lífeyrissjóðunum erfitt fyrir í fjárfestingum og þeir höfðu ekki marga aðra kosti en að binda þá peninga sem streymdu frá sífellt fleiri greiðendum í þeim innlendu fjárfestingum sem buðust. Sjóðirnir keyptu skuldabréf af miklum móð og eignuðust þar með stóran bita í skuldum bæði opinbera og einkageirans. Alls eiga þeir nú tæplega tvö þúsund milljarða króna í innlendum markaðsskuldabréfum og víxlum. Það þýðir að þeir eiga um 75 prósent allra slíkra hérlendis.
Lífeyrissjóðirnir eiga auk þess, beint og óbeint, um helming allra skráðra hlutabréfa á Íslandi en virði þeirra í lok nóvember síðastliðins var 684 milljarðar króna. Íslensku hlutabréfin gáfu vel af sér á síðasta ári en virði þess eignasafns lífeyrissjóðakerfisins hækkaði um 137 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019. Þar skipti mestu máli mikil hækkun á hlutabréfum í Marel, langverðmætasta félagsins í íslensku kauphöllinni. Hlutabréf í Marel hækkuðu um 66 prósent á síðasta ári, en margir lífeyrissjóðir eru á meðal stærstu hluthafa félagsins.
Erlendu eignirnar hafa nær tvöfaldast
Alls eru 71 prósent eigna lífeyrissjóðanna innanlands. Frá því að fjármagnshöftum var lyft snemma árs 2017 hafa þeir þó í auknum mæli beint sjónum sínum að fjárfestingum utan landsteinanna, bæði til að auka áhættudreifingu sína og til að komast í fjölbreyttari fjárfestingar en þeim býðst á Íslandi. Hlutfall innlendra eigna lífeyrissjóðakerfisins var á þeim tíma 77 prósent og hefur því hlutfallslega dregist verulega saman, þrátt fyrir góða ávöxtun innlendra hlutabréfa í fyrra.
Í apríl 2017, í kjölfar þess að höftunum var lyft, voru erlendar eignir kerfisins 786 milljarðar króna. Í dag eru þær tæplega tvisvar sinnum meiri, eða 1.438 milljarðar króna. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019 hækkuðu erlendu eignirnar um 348 milljarða króna og ljóst að þar er uppistaðan í þeirri eignaraukningu sem varð til í lífeyrissjóðum landsmanna á síðasta ári.