Fyrirlesararnir tveir voru þeir Peer Henrik Hansen yfirmaður Kaldastríðssafnsins á Langalandi, Langelandsfortet, og Steen Andersen sérfræðingur á danska Ríkisskjalasafninu. Þeir hafa um nær tveggja ára skeið unnið að rannsóknum á skjölum úr safni pólska hersins. Skjalasafnið, sem er mikið að vöxtum, hefur þangað til fyrir örfáum árum verið varðveitt í lokuðum geymslum pólska hersins. Tvímenningarnir, sem báðir eru vel kunnugir sögu kalda stríðsins, höfðu ákveðið að einbeita sér að gögnum sem vörðuðu hernaðaráætlanir Pólverja ef til hernaðarátaka kæmi milli ríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins. Á ráðstefnunni gerðu þeir einnig grein fyrir skýrslu frá bandarísku leyniþjónustunni, skýrslu sem þangað til fyrir skömmu var merkt „top secret“.
Kalda stríðið
Kalda stríðið mun rithöfundurinn George Orwell fyrstur manna hafa notað í ritgerð sem hann skrifaði árið 1945. Hugtakið er notað um tímabilið frá því skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar og fram til 1991, ársins þegar Sovétríkin liðuðust í sundur. Stórveldin, Bandaríkin og Sovétríkin stóðu fyrir stofnun hernaðarbandalaga, annars vegar Atlantshafsbandalagsins, NATO, og Varsjárbandalagsins hins vegar.
Pólverjar höfðu Danmörku á sinni könnu
Þótt mikil leynd hafi hvílt yfir öllu því sem við kom hernaðaruppbyggingu og áætlunum Varsjárbandalagsins og NATO lak vitaskuld ýmislegt út. Það var til dæmis vitað að innan Varsjárbandalagsins, þar sem Sovétmenn voru potturinn og pannan, ríkti það fyrirkomulag að aðildarríkin höfðu tiltekin lönd, eða landsvæði, á sinni könnu, ef svo mætti að orði komast. Samkvæmt skipulaginu „tilheyrði“ Danmörk Póllandi. Þetta hefur lengi verið vitað. En í pólsku skjölunum var hinsvegar margt sem fáir, utan innsta hring danska varnarmálaráðuneytisins, vissu um. Þær hernaðaráætlanir Pólverja sem gert var ráð fyrir í skjölunum fengu viðstadda á fyrirlestri sérfræðinganna til að grípa andann á lofti. En áður en að þeirri frásögn kom rifjuðu fyrirlesararnir upp „viðvörunarbúnað“ Dana. Sem fékk viðstadda til að brosa út í annað.
Sendistöð og loftnet
Leyniþjónusta danska hersins taldi sig vita að ef til þess kæmi að Pólverjar réðust inn í Danmörku myndi herlið þeirra ganga á land við smábæinn Faxe á Suður-Sjálandi. Leyniþjónustan ákvað þess vegna að ráða ungan mann, búsettan við Hafnargötuna í Faxe, sem einskonar útvörð. Hann fékk þjálfun í að þekkja farartæki pólska hersins, ekki síst brynvarða herflutningavagna og flutningabíla. Hann sinnti þessari vinnu (sem aukastarfi) árum saman og fékk með reglulegu millibili sendar myndir og teikningar af nýjustu tækjum og tólum Pólverja, svo hann gæti borið kennsl á þau pólsku tæki sem færu um veginn og ruglaði þeim ekki saman við her- og flutningabíla danska hersins.
Flugmaður skrifar grein
Í október í fyrra skrifaði fyrrverandi flugmaður í pólska hernum grein í tímaritið Polityka. Þar sagði hann frá því að þeir félagarnir í flughernum hefðu stundum, á áttunda og níunda áratugnum, rætt það að ef til stríðs kæmi myndu þeir ekki bara vera orustuflugmenn heldur líka landslagsarkitektar. Þeir myndu, ef til þess kæmi, taka á loft frá herflugvellinum við Szczecin (Stettin) og skömmu síðar yrði hluti Sjálands óþekkjanlegur, sérstaklega Faxe og nágrenni. „Þannig er það nefnilega með kjarnorkusprengjur“ sagði flugmaðurinn fyrrverandi. Greinin vakti ekki mikla athygli og fullyrðingar flugmannsins um kjarnorkusprengjur þóttu ekki trúverðugar.
Leiftursóknaráætlunin
Þótt áðurnefndar fullyrðingar flugmannsins fyrrverandi hafi ekki þótt trúverðugar eða vakið athygli reyndist frásögn hans af hugsanlegum árásum á Danmörku ekki hrein ýkjusaga.
Þegar dönsku sérfræðingarnir kynntu, á ráðstefnunni áðurnefndu, áætlanir Pólverja um árásir á Danmörku var viðstöddum vægast sagt brugðið. Þar var í stuttu máli gert ráð fyrir að með leiftursókn (blitzkrieg) yrði danski herinn gjörsigraður á nokkrum dögum. Pólski herinn myndi ryðjast gegnum norðurhluta Þýskalands og áfram til Jótlands. Jafnframt myndi flugherinn varpa sprengjum á svæðið við Faxe og i framhaldinu myndu sveitir pólska hersins ganga þar á land.
Í gögnunum úr pólska skjalasafninu má meðal annars finna kort af Danmörku þar sem teiknaðir hafa verið inn ákveðnir staðir og númeraðir, einskonar vinnuáætlun vegna innrásarinnar.
Það sem kom ráðstefnugestum mest á óvart var að í áætlunum Pólverja var gert ráð fyrir að beitt yrði kjarnorkuvopnum.
Skýrslur bandarísku leyniþjónustunnar
Samkvæmt skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar CIA, frá árinu 1984, yrði atburðarásin með nokkuð öðrum hætti en lýst er í pólsku gögnunum. Þar yrði byrjað með árás á Faxe (eins og flugmaðurinn lýsti) og sprengjum varpað á Sjáland. Jafnframt yrði ráðist inn í Jótland, með flugher og landher. Í nýrri skýrslu, frá árinu 1989, er einnig fjallað um varnir Danmerkur, og þær eru sagðar litlar og vanmáttugar. Dönsk stjórnvöld hafi hvað eftir annað skorið niður fjárveitingar til hernaðarmála, meginástæða þess er að yfirmenn danskra varnarmála hafi talið hættuna á innrás frá Pólverjum litla sem enga. Þess vegna yrðu Danir auðveld bráð pólsks innrásarliðs.
Í þessari skýrslu er því einnig velt upp hvers vegna Pólverjar myndu leggja svona mikla áherslu á að sigra Danmörku á nokkrum dögum, í leifturstríði. Skýrsluhöfundar CIA telja ástæðuna vera þá að Pólverjar vildu sanna sig fyrir Sovétmönnum og enn fremur með því að sýna slíkan styrk gætu þeir hugsanlega komið í veg fyrir að Pólland yrði jafn illa úti.
Áttu Pólverjar kjarnavopn?
Í skýrslu CIA, þeirri frá 1989, kemur fram að Pólverjar hafi ráðið yfir kjarnavopnum sem yrðu notuð við innrás í Danmörku. Ekki er nánar tilgreindur fjöldi og styrkur þessara vopna en talan 18 kemur fyrir í skýrslunni. Í grein sem birtist fyrir nokkrum mánuðum í pólska vísindatímaritinu Focus er fullyrt að Pólverjar hafi á árum kalda stríðsins geymt (eins og það er orðað) kjarnavopn sem hefðu að styrkleika samtals jafngilt 500 sprengjum eins og þeirri sem varpað var á japönsku borgina Hiroshima 6. ágúst árið 1945. Vopnin hefðu verið geymd í Póllandi um tuttugu ára skeið en hvað síðan hefði orðið um þau, og hver raunverulegur eigandi var, kemur ekki fram í skýrslunni.
Í áætlun þeirri sem varðveitt er í pólska ríkisskjalasafninu var ekki nefnd nein tala um fjölda kjarnavopna í höndum Pólverja.
Það er athyglisvert að síðari skýrsla CIA var gerð árið 1989, sama árið og Berlínarmúrinn féll en sá atburður markaði endalok kalda stríðsins.