Seðlabankinn sniðgekk mun hæfari konu til að ráða karl
Seðlabanki Íslands hefur þrívegis brotið gegn jafnréttislögum frá árinu 2012. Í vikunni var birt niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli þar sem bankinn er talinn hafa sniðgengið mjög hæfa konu fyrir mun minna hæfan karl. Seðlabankinn segist una úrskurðinum og að hann fari nú yfir málið með það fyrir augum að „tryggja að farið verði að þeim viðmiðuð sem um þetta gilda.“
Þann 13. apríl 2019 birtist auglýsing í Atvinnublaði Fréttablaðsins þar sem Seðlabanki Íslands óskaði eftir því að ráða metnaðarfullan einstakling til að vinna að nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi bankans.
Í auglýsingunni var helstu verkefnum starfsins lýst þannig að í þeim fælist umsjón með nýmiðlun í kynningarstarfi bankans; nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni bankans; gerð og miðlun upplýsinga um helstu verkefni bankans; umsjón með gerð myndræns kynningarefnis; eftirfylgni upplýsingarstefnu og markmiða í upplýsingamálum; ráðgjöf og aðstoð við efnisgerð vegna kynningar-, fræðslu- og útgáfumála.
Þær hæfniskröfur sem tilteknar voru í auglýsingunni að leitað væri eftir voru eftirfarandi: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af kynningarstarfi og fjölmiðlun; góðir samskiptahæfileikar; góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku; góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum er kostur; drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt.
Fyrst sjö, svo þrír
Um var að ræða nýtt starf í upplýsingamiðlun Seðlabanka Íslands, nokkurs konar viðbót við Stefán Jóhann Stefánsson, sem gegnir starfi ritstjóra bankans og hefur um árabil séð um nær öll samskipti hans við fjölmiðla, umsjón með útgáfu og aðra upplýsingamiðlun.
Í byrjun júní 2019 var greint frá því að Stefán Rafn Sigurbjörnsson, þá fréttamaður hjá Sýn, hefði verið ráðinn í starf upplýsingafulltrúa Seðlabanka Íslands. Á sama tíma var birtur listi yfir þá 51 sem sóttu um starfið. Á honum var að finna fólk með mikla reynslu af almannatengslum, kynningarstörfum og fjölmiðlum. Tveir umsækjendur drógu síðar til baka umsóknir sínar. Eftir stóðu því 49 manns.
Af þeim voru sjö metnir hæfari en hinir og þeir boðaðir í viðtöl sem framkvæmd voru af þremur konum í stjórnunarstöðum innan Seðlabankans: aðstoðarseðlabankastjóra, mannauðsstjóra og framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra. Einn umsækjandinn sem var í sjö manna hópnum var Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir.
Hún uppfyllti enda allar kröfur sem auglýst hafði verið eftir, meðal annars menntunarkröfur, og var með meiri reynslu en nokkur annar sem sótti um starfið. Gunnhildur Arna starfaði lengi á prentmiðlum landsins og var vaktstjóri á Fréttablaðinu, fréttastjóri á Blaðinu/24 Stundum, ritstjóri 24 Stunda og síðar kvöldfréttastjóri á Morgunblaðinu. Auk þess var hún í hópi þeirra sem settu á fót Fréttatímann á sínum tíma. Árið 2012 var hún ráðin upplýsingafulltrúi Símans og gegndi þeirri stöðu í fimm og hálft ár, meðal annars í gegnum skráningu Símans, sem er fyrirtæki með árlega tug milljarða króna veltu, á skráðan hlutamarkað. Gunnhildur Arna er því hokin af reynslu í fjölmiðlum og þekkir líka hina hliðina, að stýra upplýsingamálum stórs þjónustufyrirtækis.
Eftir að umræddir sjö umsóknaraðilar voru boðaðir í viðtal voru þrír metnir hæfastir og beðnir um að leysa ákveðin verkefni. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans fólst verkefnið meðal annars í því að gera Facebook-stöðuuppfærslu úr grein eftir stjórnanda innan Seðlabanka Íslands um veru húsnæðisliðar í vísitölu neysluverðs.
Gunnhildur Arna var ekki ein af þeim þremur sem metnir voru hæfastir. Hún var hins vegar ekki látin sérstaklega vita af því og heyrði næst af ferlinu þegar greint var frá því að Stefán Rafn hefði verið ráðinn í starfið í fjölmiðlum 3. júní 2019.
Rökstuðningur sem gekk illa upp
Gunnhildur Arna ákvað að óska eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni samdægurs. Hann barst 15 dögum síðar. Þar sagði að við ákvörðun um ráðninguna hafi hæfniskröfur verið metnar heildstætt. Sá sem ráðinn hafi verið í starfið hefði lokið BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2017, hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður frá 2018 hjá Stöð 2, útvarpsfréttamaður á Bylgjunni á árunum 2016 til 2018 og blaðamaður á Fréttablaðinu í rúmlega eitt ár þar sem honum hafi verið falið að skrifa meðal annars um stjórnmál, kjaramál og mál af erlendum vettvangi. Þá hafi hann í þrjá mánuði á árinu 2012 verið í starfsnámi á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu og komið að gerð fréttatilkynninga, gerð örmyndbanda, tekið viðtöl þar sem stefna flokksins hafi verið skýrð, verið í samskiptum við fjölmiðlafólk og unnið með mál flokksins á samfélagsmiðlum og öðlast reynslu í að koma upplýsingum til ungs fólks með setu í stjórn Norðurlandaráðs æskunnar frá 2014 til 2015 og sem formaður Ungra jafnaðarmanna, ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, um nokkurra ára skeið.
Sérstaklega var tekið fram í svarinu til Gunnhildar Örnu að Stefán Rafn hefði góða þekkingu á forritum á borð við Adobe Photoshop og InDesign sem gagnist við hönnun, myndvinnslu og umbrot. Það teldist honum til tekna auk þess sem reynsla hans af framsetningu efnis á samfélagsmiðlum myndi nýtast vel við nýsköpun í upplýsingastarfi Seðlabanka Íslands. Í síðari röksemdarfærslu, eftir að ráðningin var kærð, sagði Seðlabankinn að Stefán Rafn hefði enn fremur „unnið í áhugaverðum verkefnum í frítíma sínum, svo sem hlaðvarpsþáttinn Pendúlinn.“
Á grundvelli þessara röksemda væri það mat Seðlabankans að Stefán Rafn hefði uppfyllt best þær kröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingunni um starfið. Þá hafi umsagnir um Stefán Rafn verið jákvæðar.
Taldi þann sem fékk starfið aldrei átt að hafa náð langt í ferlinu
Þessi svör gerðu það að verkum að Gunnhildur Arna kallaði eftir frekari gögnum strax daginn eftir, þann 19. júní og aftur með ítrekun tveimur dögum síðar. Hún hafði ekki verið spurð út í þekkingu sína á þeim forritum sem talin voru Stefáni Rafni sérstaklega til tekna, ekki hafði verið haft samband við umsagnaraðila hennar og við blasti að hún var með mun meiri menntun og starfsreynslu en sá sem starfið hafði fengið.
Á meðal þeirra gagna sem hún óskaði eftir voru umsókn þess sem ráðinn var, upplýsingar um nöfn hinna tveggja umsækjendanna sem taldir hefðu verið hæfastir að viðtölum loknum og upplýsingum um mat Seðlabankans á umsókn hennar um starfið. Þegar Seðlabankinn svaraði, 25. júní 2019, kom fram að „engin eiginleg gögn“ lægju fyrir um mat bankans á umsögn Gunnhildar Örnu umfram mat á menntun, hæfni og reynslu.
Út frá gögnunum útbjó Gunnhildur Arna samanburðartöflu þar sem hún bar saman menntun, þekkingu og reynslu sína og þess sem hlaut starfið. Niðurstaða hennar var að augljóst væri, samkvæmt töflunni, að Stefán Rafn hefði uppfyllt með mun lakari hætti en hún allar hlutlægar kröfur til starfsins. Því hefði sá sem fékk starfið aldrei átt að ná jafn langt og raun bar vitni í ferlinu. Ráðningin hefði byggt á huglægum sjónarmiðum, ekki þeim hæfnisviðmiðum sem sett voru í auglýsingu.
Hefði átt að vera eftirsóknarvert að ráða konu
Í greinargerð sem Gunnhildur Arna sendi kærunefnd jafnréttismála, samhliða því og hún kærði ráðningarferlið vegna ætlaðs brots á jafnréttislögum í ágúst 2019, benti hún á að mesta athygli hennar í rökstuðningi Seðlabanka Íslands fyrir ráðningu Stefáns Rafns hafi vakið eftirfarandi atriði:
- Að þriggja mánaða starfsnám á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu á árinu 2012 vegi þyngra en diplómagráða í hagnýtri fjölmiðlun og MBA–gráða, samtals þriggja ára framhaldsnám í Háskóla sem kærandi hafi lokið umfram þann sem ráðinn hafi verið.
- Að upplýsingagjöf í þriggja mánaða starfsnámi sé talin veigameiri en öll sú hagnýta reynsla sem Gunnhildur Arna hafi umfram þann sem ráðinn. Hún hafi verið upplýsingafulltrúi og talsmaður Símans, stórs og öflugs hlutafélags á markaði í rúm fimm ár. Á þeim tíma hafi hún auk þess sinnt skýrsluskrifum, innri upplýsingagjöf og samskiptum við fjölmiðla. Auk þess hafi Gunnhildur Arna starfað sjálfstætt við almannatengsl, en sú reynsla hafi ekki verið metin með neinum hætti af Seðlabankanum.
- Reynsla þess sem ráðinn hafi verið sem blaða- og sjónvarpsfréttamaður á árunum 2016-2019 sé metin veigameiri en reynsla Gunnhildar Örnu sem blaða- og sjónvarpsfréttamanns, vaktstjóra, kvöldfréttastjóra, fréttastjóra og ritstjóra á árunum 2004-2012 og aftur sem blaðamanns frá árinu 2018.
- Í rökstuðningi Seðlabankans hafi sérstök áhersla verið lögð á þekkingu Stefáns Rafns á InDesign og Photoshop. Gunnhildur Arna hafi ekki einu sinni verið spurð um þekkingu sína á þessum forritum í viðtali hjá Seðlabankanum. Blaðið/24 stundir, Fréttatíminn og Læknablaðið séu öll sett upp í InDesign og því hafi hún augljóslega þekkingu á þessum forritum.
- Fyrir liggur að sá sem nú gegni stöðu ritstjóra Seðlabanka Íslands, Stefán Jóhann Stefánsson, er karlmaður. Það hefði því átt, að mati Gunnhildar Örnu, að vera eftirsóknarvert fyrir bankann að ráða konu í það starf sem auglýst þannig að störf sem tengist almannatenglum á vegum kærða væru skipuð bæði karli og konu.
Stóð framar í öllum mælanlegum hæfnisatriðum
Í greinargerð Seðlabankans til kærunefndarinnar var því lýst hvernig huglægt mat nokkurra stjórnenda innan bankans hefði ráðið því hvernig umsækjendur hafi lent í þeim sjö manna hópi sem valinn var úr þeim 49 umsækjendum sem sóttu að endingu um starfið. Að mati nefndarinnar gerði Seðlabankinn „aftur á móti enga tilraun til að útskýra hvað hafi orðið til þess að þau sjö sem hafi verið valin hafi verið talin hæfust og sýni með engum hætti að þau hafi, hvað menntun og starfsreynslu snerti, verið jafn hæf.“
Í niðurstöðu nefndarinnar segir: „Af samantektum kærða um það sem fram kom í viðtölunum virðist kærði ekki hafa lagt viðhlítandi grunn að mati sínu, enda aflaði hann ekki nauðsynlegra upplýsinga til að mat gæti farið fram á reynslu og þekkingu kæranda á því að útbúa myndefni eða að vinna að umbroti prentmiðla. Þá verður að leggja til grundvallar að þættir á borð við framtíðarsýn karlsins sem starfið hlaut og huglægt mat á frammistöðu hans í viðtölum geti ekki ein og sér fengið slíkt vægi við hæfnismat að þeir ryðji almennt séð úr vegi öðrum umsækjanda sem hlutlægt séð hefur meiri menntun og starfsreynslu á því sviði sem ráðningin snýr að, enda sé ekki bent á sérstök sjónarmið sem réttlæti þá niðurstöðu, en svo er ekki í máli þessu.“
Að mati kærunefndarinnar stóð Gunnhildur Arna framar Stefáni Rafni í menntun og reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlum. Hún taldi Seðlabankann ekki hafa tekist að sýna fram á að Stefán Rafn stæði henni framar varðandi tungumálakunnáttu né þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum. „Jafnframt væri að mati kærunefndarinnar nærtækast að álykta sem svo að kærandi hafi staðið karlinum framar varðandi þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum í ljósi MBA-menntunar hennar, enda hefur ekki verið sýnt fram á nokkuð um þekkingu eða reynslu karlsins að þessu leyti sem gæti gert það að verkum að hann yrði metinn skör hærra en kærandi.“
Gunnhildur Arna stóð því framar í öllum hæfnisatriðum sem voru mælanleg. Í þeim huglægu þáttum sem taldir voru til í auglýsingunni, sem voru samskiptahæfileikar, drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt, taldi kærunefndin að Seðlabankinn hefði látið nægja að fjalla um hæfni þess sem ráðinn var á fremur almennan hátt, , einkum með vísan til þess að frammistaða hans í viðtölum hafi verið mjög góð og umsagnir um hann hafi verið góðar. „Nefndin hefur þó þegar rakið að mat kærða sé þeim annmarka háð að engra umsagna var leitað um kæranda auk þess sem frammistaða karlsins í viðtölum getur ekki, án frekari rökstuðnings um frammistöðu kæranda, hróflað við þeirri niðurstöðu nefndarinnar að ósannað telst að kærandi hafi staðið umræddum karli að baki í viðtali.“
Að endingu tiltekur kærunefndin í niðurstöðu sinni að Gunnhildi Örnu hafi ekki verið gefinn kostur á að þreyta verkefnið sem Stefáni Rafni og tveimur öðrum umsækjendum var falið að þreyta. „Er því ekki unnt að draga þá ályktun að heildstæður samanburður hafi í raun farið fram af hálfu kærða á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut, enda þótt hlutlægir þættir hafi bent til þess að hún stæði karlinum framar.“
Það var því niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að Seðlabankinn hefði ekki getað sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefði legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra. Með því hefði Seðlabankinn brotið gegn jafnréttislögum.
Seðlabankinn segist una úrskurðinum
Kjarninn beindi fyrirspurn til Seðlabanka Íslands vegna málsins og spurði hvort að hann ætlaði að fara með niðurstöðu kærunefndar fyrir dómstóla með það fyrir augum að fá henni hnekkt. Í svari bankans segir að hann uni úrskurðinum og fari nú yfir málið með það fyrir augum að „tryggja að farið verði að þeim viðmiðuð sem um þetta gilda.“
Kjarninn spurði einnig hvort að til greina kæmi að leita sátta við kæranda og greiða henni skaðabætur. Þeirri spurningu var ekki svarað efnislega.
Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2012 sem Seðlabanki Íslands gerist brotlegur við jafnréttislög. Kjarninn spurði Seðlabankann hvort að hann hefði ákveðið að grípa til einhverra breytinga á verklagi sínu við ráðningar í störf í ljósi þessa. Þeirri spurningu var heldur ekki svarað efnislega.
Eftir sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins um liðin áramót þá starfa nú þrír karlar á upplýsingasviði bankans, Stefán Jóhann Stefánsson, sem er titlaður ritstjóri, Sigurður Valgeirsson, sem var upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins, og Stefán Rafn.
Vonar að fólk verði metið að verðleikum
Gunnhildur Arna segir í stöðuuppfærslu sem hún hefur birt á Facebook að hún hefði kosið annars konar athygli en að hún hafi farið þessa leið, að kæra ferlið, í þeirri von að úrskurðurinn breyti starfi bankans og að faglegt ráðningarferli verið tekið upp innan hans. „Ég vona einnig að bankanum vegni betur í ákvörðunum sínum undir nýrri yfirstjórn og fari að landslögum. Ég vona að á komandi tímum verði fólk metið að verðleikum.“
- Takk kæru vinir fyrir stuðninginn, fyrir að gefa ykkur tíma til að heyra í mér og senda mér línu og hlý orð í kjölfar...
Posted by Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir on Tuesday, January 14, 2020
Guðmundur Hörður Guðmundsson, kynningarstjóri hjá Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Landverndar, sótti einnig um starfið. Hann segir í stöðuuppfærslu að í hópi umsækjenda hafi verið fólk sem hafði augljóslega betri reynslu og menntun fyrir þennan tiltekna starfsvettvang en hann. „En það sem kom mér síðan á óvart var að hæfasti umsækjandinn, eða einhver úr hópi hæfustu umsækjenda, var ekki ráðinn. Það var augljóst frá upphafi og hefur nú verið staðfest í þessum úrskurði. Og þá vaknar spurningin, hvers vegna koma enn upp svona mál hjá hinu opinbera, þrátt fyrir allar reglurnar og sérfræðiþekkinguna á sviði starfsmannastjórnunar og lögfræði?“
Sjálfur sótti ég um þetta starf og fékk ekki, enda var fólk í hópi umsækjenda sem hafði augljóslega betri reynslu og...
Posted by Guðmundur Hörður on Tuesday, January 14, 2020
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði