Mynd: Samsett

Seðlabankinn sniðgekk mun hæfari konu til að ráða karl

Seðlabanki Íslands hefur þrívegis brotið gegn jafnréttislögum frá árinu 2012. Í vikunni var birt niðurstaða kærunefndar jafnréttismála í máli þar sem bankinn er talinn hafa sniðgengið mjög hæfa konu fyrir mun minna hæfan karl. Seðlabankinn segist una úrskurðinum og að hann fari nú yfir málið með það fyrir augum að „tryggja að farið verði að þeim viðmiðuð sem um þetta gilda.“

Þann 13. apríl 2019 birt­ist aug­lýs­ing í Atvinnu­blaði Frétta­blaðs­ins þar sem Seðla­banki Íslands óskaði eftir því að ráða metn­að­ar­fullan ein­stak­ling til að vinna að nýsköpun í upp­lýs­inga- og kynn­ing­ar­starfi bank­ans.

Í aug­lýs­ing­unni var helstu verk­efnum starfs­ins lýst þannig að í þeim fælist umsjón með nýmiðlun í kynn­ing­ar­starfi bank­ans; nýsköpun í upp­lýs­inga- og kynn­ing­ar­efni bank­ans; gerð og miðlun upp­lýs­inga um helstu verk­efni bank­ans; umsjón með gerð mynd­ræns kynn­ing­ar­efn­is; eft­ir­fylgni upp­lýs­ing­ar­stefnu og mark­miða í upp­lýs­inga­mál­um; ráð­gjöf og aðstoð við efn­is­gerð vegna kynn­ing­ar-, fræðslu- og útgáfu­mála. 

Þær hæfn­is­kröfur sem til­teknar voru í aug­lýs­ing­unni að leitað væri eftir voru eft­ir­far­andi: Háskóla­menntun sem nýt­ist í starfi; reynsla af kynn­ing­ar­starfi og fjöl­miðl­un; góðir sam­skipta­hæfi­leik­ar; góð kunn­átta og rit­færni í íslensku og ensku; góð þekk­ing á efna­hags- og pen­inga­málum og fjár­mála­mörk­uðum er kost­ur; drif­kraft­ur, frum­kvæði og geta til að vinna fag­lega og sjálf­stætt.

Fyrst sjö, svo þrír

Um var að ræða nýtt starf í upp­lýs­inga­miðlun Seðla­banka Íslands, nokk­urs konar við­bót við Stefán Jóhann Stef­áns­son, sem gegnir starfi rit­stjóra bank­ans og hefur um ára­bil séð um nær öll sam­skipti hans við fjöl­miðla, umsjón með útgáfu og aðra upp­lýs­inga­miðl­un. 

Í byrjun júní 2019 var greint frá því að Stefán Rafn Sig­ur­björns­son, þá frétta­maður hjá Sýn, hefði verið ráð­inn í starf upp­lýs­inga­full­trúa Seðla­banka Íslands. Á sama tíma var birtur listi yfir þá 51 sem sóttu um starf­ið. Á honum var að finna fólk með mikla reynslu af almanna­tengsl­um, kynn­ing­ar­störfum og fjöl­miðl­um. Tveir umsækj­endur drógu síðar til baka umsóknir sín­ar. Eftir stóðu því 49 manns.

Af þeim voru sjö metnir hæf­ari en hinir og þeir boð­aðir í við­töl sem fram­kvæmd voru af þremur konum í stjórn­un­ar­stöðum innan Seðla­bank­ans: aðstoð­ar­seðla­banka­stjóra, mannauðs­stjóra og fram­kvæmda­stjóra alþjóða­sam­skipta og skrif­stofu seðla­banka­stjóra. Einn umsækj­and­inn sem var í sjö manna hópnum var Gunn­hildur Arna Gunn­ars­dótt­ir.

Hún upp­fyllti enda allar kröfur sem aug­lýst hafði verið eft­ir, meðal ann­ars mennt­un­ar­kröf­ur, og var með meiri reynslu en nokkur annar sem sótti um starf­ið. Gunn­hildur Arna starf­aði lengi á prent­miðlum lands­ins og var vakt­stjóri á Frétta­blað­inu, frétta­stjóri á Blað­in­u/24 Stund­um, rit­stjóri 24 Stunda og síðar kvöld­frétta­stjóri á Morg­un­blað­inu. Auk þess var hún í hópi þeirra sem settu á fót Frétta­tím­ann á sínum tíma. Árið 2012 var hún ráðin upp­lýs­inga­full­trúi Sím­ans og gegndi þeirri stöðu í fimm og hálft ár, meðal ann­ars í gegnum skrán­ingu Sím­ans, sem er fyr­ir­tæki með árlega tug millj­arða króna veltu, á skráðan hluta­mark­að. Gunn­hildur Arna er því hokin af reynslu í fjöl­miðlum og þekkir líka hina hlið­ina, að stýra upp­lýs­inga­málum stórs þjón­ustu­fyr­ir­tæk­is. 

Eftir að umræddir sjö umsókn­ar­að­ilar voru boð­aðir í við­tal voru þrír metnir hæf­astir og beðnir um að leysa ákveðin verk­efni. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans fólst verk­efnið meðal ann­ars í því að gera Face­book-­stöðu­upp­færslu úr grein eftir stjórn­anda innan Seðla­banka Íslands um veru hús­næð­isliðar í vísi­tölu neyslu­verðs. 

Gunn­hildur Arna var ekki ein af þeim þremur sem metnir voru hæf­ast­ir. Hún var hins vegar ekki látin sér­stak­lega vita af því og heyrði næst af ferl­inu þegar greint var frá því að Stefán Rafn hefði verið ráð­inn í starfið í fjöl­miðlum 3. júní 2019. 

Rök­stuðn­ingur sem gekk illa upp

Gunn­hildur Arna ákvað að óska eftir rök­stuðn­ingi fyrir ráðn­ing­unni sam­dæg­urs. Hann barst 15 dögum síð­ar. Þar sagði að við ákvörðun um ráðn­ing­una hafi hæfn­is­kröfur verið metnar heild­stætt. Sá sem ráð­inn hafi verið í starfið hefði lokið BA-gráðu í stjórn­mála­fræði frá Háskóla Íslands árið 2017, hann hafi starfað sem sjón­varps­frétta­maður frá 2018 hjá Stöð 2, útvarps­frétta­maður á Bylgj­unni á árunum 2016 til 2018 og blaða­maður á Frétta­blað­inu í rúm­lega eitt ár þar sem honum hafi verið falið að skrifa meðal ann­ars um stjórn­mál, kjara­mál og mál af erlendum vett­vangi. Þá hafi hann í þrjá mán­uði á árinu 2012 verið í starfs­námi á upp­lýs­inga- og fjöl­miðla­sviði hjá Jafn­að­ar­manna­flokknum á Evr­ópu­þing­inu og komið að gerð frétta­til­kynn­inga, gerð örmynd­banda, tekið við­töl þar sem stefna flokks­ins hafi verið skýrð, verið í sam­skiptum við fjöl­miðla­fólk og unnið með mál flokks­ins á samfélags­miðlum og öðl­ast reynslu í að koma upp­lýs­ingum til ungs fólks með setu í stjórn Norð­ur­landa­ráðs æsk­unnar frá 2014 til 2015 og sem for­maður Ungra jafn­að­ar­manna, ung­liða­hreyf­ingar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, um nokk­urra ára skeið. 

Sér­stak­lega var tekið fram í svar­inu til Gunn­hildar Örnu að Stefán Rafn hefði góða þekk­ingu á for­ritum á borð við Adobe Photos­hop og InDesign sem gagn­ist við hönn­un, mynd­vinnslu og umbrot. Það teld­ist honum til tekna auk þess sem reynsla hans af fram­setn­ingu efnis á sam­fé­lags­miðlum myndi nýt­ast vel við nýsköpun í upp­lýs­inga­starfi Seðla­banka Íslands. Í síð­ari rök­semd­ar­færslu, eftir að ráðn­ingin var kærð, sagði Seðla­bank­inn að Stefán Rafn hefði enn fremur „unnið í áhuga­verðum verk­efnum í frí­tíma sín­um, svo sem hlað­varps­þátt­inn Pendúl­inn.“

Á grund­velli þess­ara rök­semda væri það mat Seðla­bank­ans að Stefán Rafn hefði upp­fyllt best þær kröfur sem gerðar hafi verið í aug­lýs­ing­unni um starf­ið. Þá hafi umsagnir um Stefán Rafn verið jákvæð­ar.

Taldi þann sem fékk starfið aldrei átt að hafa náð langt í ferl­inu

Þessi svör gerðu það að verkum að Gunn­hildur Arna kall­aði eftir frek­ari gögnum strax dag­inn eft­ir, þann 19. júní og aftur með ítrekun tveimur dögum síð­ar. Hún hafði ekki verið spurð út í þekk­ingu sína á þeim for­ritum sem talin voru Stef­áni Rafni sér­stak­lega til tekna, ekki hafði verið haft sam­band við umsagn­ar­að­ila hennar og við blasti að hún var með mun meiri menntun og starfs­reynslu en sá sem starfið hafði feng­ið. 

Á meðal þeirra gagna sem hún óskaði eftir voru umsókn þess sem ráð­inn var, ­upp­lýs­ingar um nöfn hinna tveggja umsækj­end­anna sem taldir hefðu verið hæf­astir að við­tölum loknum og upp­lýs­ingum um mat Seðla­bank­ans á umsókn hennar um starf­ið. Þegar Seðla­bank­inn svar­aði, 25. júní 2019, kom fram að „engin eig­in­leg gögn“ lægju fyrir um mat bank­ans á umsögn Gunn­hildar Örnu umfram mat á mennt­un, hæfni og reynslu.

Út frá gögn­unum útbjó Gunn­hildur Arna sam­an­burð­art­öflu þar sem hún bar saman mennt­un, þekk­ingu og reynslu sína og þess sem hlaut starf­ið. Nið­ur­staða hennar var að aug­ljóst væri, sam­kvæmt töfl­unni, að Stefán Rafn hefði upp­fyllt með mun lak­ari hætti en hún allar hlut­lægar kröfur til starfs­ins. Því hefði sá sem fékk starfið aldrei átt að ná jafn langt og raun bar vitni í ferl­inu. Ráðn­ingin hefði byggt á hug­lægum sjón­ar­mið­um, ekki þeim hæfn­is­við­miðum sem sett voru í aug­lýs­ing­u. 

Hefði átt að vera eft­ir­sókn­ar­vert að ráða konu

Í grein­ar­gerð sem Gunn­hildur Arna sendi kæru­nefnd jafn­rétt­is­mála, sam­hliða því og hún kærði ráðn­ing­ar­ferlið vegna ætl­aðs brots á jafn­rétt­islögum í ágúst 2019, benti hún á að mesta athygli hennar í rök­stuðn­ingi Seðla­banka Íslands fyrir ráðn­ingu Stef­áns Rafns hafi vakið eft­ir­far­andi atrið­i: 

  • Að þriggja mán­aða starfs­nám á upp­lýs­inga- og fjöl­miðla­sviði hjá Jafn­að­ar­manna­flokknum á Evr­ópu­þing­inu á árinu 2012 vegi þyngra en diplóma­gráða í hag­nýtri fjöl­miðlun og MBA–gráða, sam­tals þriggja ára fram­halds­nám í Háskóla sem kær­andi hafi lokið umfram þann sem ráð­inn hafi ver­ið.
  • Að upp­lýs­inga­gjöf í þriggja mán­aða starfs­námi sé talin veiga­meiri en öll sú hag­nýta reynsla sem Gunn­hildur Arna hafi umfram þann sem ráð­inn. Hún hafi verið upp­lýs­inga­full­trúi og tals­maður Sím­ans, stórs og öfl­ugs hluta­fé­lags á mark­aði í rúm fimm ár. Á þeim tíma hafi hún auk þess sinnt skýrslu­skrif­um, innri upp­lýs­inga­gjöf og sam­skiptum við fjöl­miðla. Auk þess hafi Gunn­hildur Arna starfað sjálf­stætt við almanna­tengsl, en sú reynsla hafi ekki verið metin með neinum hætti af Seðla­bank­an­um. 
  • Reynsla þess sem ráð­inn hafi verið sem blaða- og sjón­varps­frétta­maður á árunum 2016-2019 sé metin veiga­meiri en reynsla Gunn­hildar Örnu sem blaða- og sjón­varps­frétta­manns, vakt­stjóra, kvöld­frétta­stjóra, frétta­stjóra og rit­stjóra á árunum 2004-2012 og aftur sem blaða­manns frá árinu 2018.
  • Í rök­stuðn­ingi Seðla­bank­ans hafi sér­stök áhersla verið lögð á þekk­ingu Stef­áns Rafns á InDesign og Photos­hop. Gunn­hildur Arna hafi ekki einu sinni verið spurð um þekk­ingu sína á þessum for­ritum í við­tali hjá Seðla­bank­an­um. Blað­ið/24 stund­ir, Frétta­tím­inn og Lækna­blaðið séu öll sett upp í InDesign og því hafi hún aug­ljós­lega þekk­ingu á þessum for­rit­um.
  • Fyrir liggur að sá sem nú gegni stöðu rit­stjóra Seðla­banka Íslands, Stefán Jóhann Stef­áns­son, er karl­mað­ur. Það hefði því átt, að mati Gunn­hildar Örnu, að vera eft­ir­sókn­ar­vert fyrir bank­ann að ráða konu í það starf sem aug­lýst þannig að störf sem teng­ist almanna­tenglum á vegum kærða væru skipuð bæði karli og konu.

Stóð framar í öllum mæl­an­legum hæfn­is­at­riðum

Í grein­ar­gerð Seðla­bank­ans til kæru­nefnd­ar­innar var því lýst hvernig hug­lægt mat nokk­urra stjórn­enda innan bank­ans hefði ráðið því hvernig umsækj­endur hafi lent í þeim sjö manna hópi sem val­inn var úr þeim 49 umsækj­endum sem sóttu að end­ingu um starf­ið. Að mati nefnd­ar­inn­ar ­gerði Seðla­bank­inn „aftur á móti enga til­raun til að útskýra hvað hafi orðið til þess að þau sjö sem hafi verið valin hafi verið talin hæfust og sýni með engum hætti að þau hafi, hvað menntun og starfs­reynslu snerti, verið jafn hæf.“

Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri. Hann tók hins vegar ekki við stöðunni fyrr en eftir að ráðning upplýsingafulltrúans var um garð gengin, eða í ágúst 2019.
Mynd: Bára Huld Beck

Í nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar seg­ir: „Af sam­an­tektum kærða um það sem fram kom í við­töl­unum virð­ist kærði ekki hafa lagt við­hlít­andi grunn að mati sínu, enda afl­aði hann ekki nauð­syn­legra upp­lýs­inga til að mat gæti farið fram á reynslu og þekk­ingu kær­anda á því að útbúa myndefni eða að vinna að umbroti prent­miðla. Þá verður að leggja til grund­vallar að þættir á borð við fram­tíð­ar­sýn karls­ins sem starfið hlaut og hug­lægt mat á frammi­stöðu hans í við­tölum geti ekki ein og sér fengið slíkt vægi við hæfn­is­mat að þeir ryðji almennt séð úr vegi öðrum umsækj­anda sem hlut­lægt séð hefur meiri menntun og starfs­reynslu á því sviði sem ráðn­ingin snýr að, enda sé ekki bent á sér­stök sjón­ar­mið sem rétt­læti þá nið­ur­stöðu, en svo er ekki í máli þessu.“

Að mati kæru­nefnd­ar­innar stóð Gunn­hildur Arna framar Stef­áni Rafni í menntun og reynslu af kynn­ing­ar­starfi og fjöl­miðl­um. Hún taldi Seðla­bank­ann ekki hafa tek­ist að sýna fram á að Stefán Rafn stæði henni framar varð­andi tungu­mála­kunn­áttu né þekk­ingu á efna­hags- og pen­inga­málum og fjár­mála­mörk­uð­um. „Jafn­framt væri að mati kæru­nefnd­ar­innar nær­tæk­ast að álykta sem svo að kær­andi hafi staðið karl­inum framar varð­andi þekk­ingu á efna­hags- og pen­inga­málum og fjár­mála­mörk­uðum í ljósi MBA-­mennt­unar henn­ar, enda hefur ekki verið sýnt fram á nokkuð um þekk­ingu eða reynslu karls­ins að þessu leyti sem gæti gert það að verkum að hann yrði met­inn skör hærra en kær­and­i.“

Gunn­hildur Arna stóð því framar í öllum hæfn­is­at­riðum sem voru mæl­an­leg. Í þeim hug­lægu þáttum sem taldir voru til í aug­lýs­ing­unni, sem voru sam­skipta­hæfi­leik­ar, drif­kraft­ur, frum­kvæði og geta til að vinna fag­lega og sjálf­stætt, taldi kæru­nefndin að Seðla­bank­inn hefði látið nægja að fjalla um hæfni þess sem ráð­inn var á fremur almennan hátt, , einkum með vísan til þess að frammi­staða hans í við­tölum hafi verið mjög góð og umsagnir um hann hafi verið góð­ar. „Nefndin hefur þó þegar rakið að mat kærða sé þeim ann­marka háð að engra umsagna var leitað um kær­anda auk þess sem frammi­staða karls­ins í við­tölum getur ekki, án frek­ari rök­stuðn­ings um frammi­stöðu kær­anda, hróflað við þeirri nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar að ósannað telst að kær­andi hafi staðið umræddum karli að baki í við­tali.“ 

Að end­ingu til­tekur kæru­nefndin í nið­ur­stöðu sinni að Gunn­hildi Örnu hafi ekki verið gef­inn kostur á að þreyta verk­efnið sem Stef­áni Rafni og tveimur öðrum umsækj­endum var falið að þreyta. „Er því ekki unnt að draga þá ályktun að heild­stæður sam­an­burður hafi í raun farið fram af hálfu kærða á kær­anda og þeim karli sem starfið hlaut, enda þótt hlut­lægir þættir hafi bent til þess að hún stæði karl­inum fram­ar.“

Það var því nið­ur­staða kæru­nefndar jafn­rétt­is­mála að Seðla­bank­inn hefði ekki getað sýnt fram á að aðr­ar á­stæður en kyn­ferði hefði legið til grund­vallar ákvörðun um ráðn­ingu í starf upp­lýs­inga­full­trúa á sviði alþjóða­sam­skipta og skrif­stofu seðla­banka­stjóra. Með því hefði Seðla­bank­inn brotið gegn jafn­rétt­islög­um.

Seðla­bank­inn seg­ist una úrskurð­inum

Kjarn­inn beindi fyr­ir­spurn til Seðla­banka Íslands vegna máls­ins og spurði hvort að hann ætl­aði að fara með nið­ur­stöðu kæru­nefndar fyrir dóm­stóla með það fyrir augum að fá henni hnekkt. Í svari bank­ans segir að hann uni úrskurð­inum og fari nú yfir málið með það fyrir augum að „tryggja að farið verði að þeim við­miðuð sem um þetta gilda.“

Seðlabanki Íslands hefur þrívegis gerst brotlegur við jafnréttislög frá árinu 2012.
Mynd: Seðlabanki Íslands

Kjarn­inn spurði einnig hvort að til greina kæmi að leita sátta við kær­anda og greiða henni skaða­bæt­ur. Þeirri spurn­ingu var ekki svarað efn­is­lega. 

Þetta er í þriðja sinn frá árinu 2012 sem Seðla­banki Íslands ger­ist brot­legur við jafn­rétt­islög. Kjarn­inn spurði Seðla­bank­ann hvort að hann hefði ákveðið að grípa til ein­hverra breyt­inga á verk­lagi sínu við ráðn­ingar í störf í ljósi þessa. Þeirri spurn­ingu var heldur ekki svarað efn­is­lega. 

Eftir sam­ein­ingu Seðla­banka Íslands og Fjár­mála­eft­ir­lits­ins um liðin ára­mót þá starfa nú þrír karlar á upp­lýs­inga­sviði bank­ans, Stefán Jóhann Stef­áns­son, sem er titl­aður rit­stjóri, Sig­urður Val­geirs­son, sem var upp­lýs­inga­full­trúi Fjár­mála­eft­ir­lits­ins, og Stefán Rafn.

Vonar að fólk verði metið að verð­leikum

Gunn­hildur Arna segir í stöðu­upp­færslu sem hún hefur birt á Face­book að hún hefði kosið ann­ars konar athygli en að hún hafi farið þessa leið, að kæra ferlið, í þeirri von að úrskurð­ur­inn breyti starfi bank­ans og að fag­legt ráðn­ing­ar­ferli verið tekið upp innan hans. „Ég vona einnig að bank­anum vegni betur í ákvörð­unum sínum undir nýrri yfir­stjórn og fari að lands­lög­um. Ég vona að á kom­andi tímum verði fólk metið að verð­leik­um.“

- Takk kæru vinir fyrir stuðn­ing­inn, fyrir að gefa ykkur tíma til að heyra í mér og senda mér línu og hlý orð í kjöl­far...

Posted by Gunn­hildur Arna Gunn­ars­dóttir on Tues­day, Janu­ary 14, 2020

Guð­mundur Hörður Guð­munds­son, kynn­ing­ar­stjóri hjá Háskóla Íslands og fyrr­ver­andi for­maður Land­vernd­ar, sótti einnig um starf­ið. Hann segir í stöðu­upp­færslu að í hópi umsækj­enda hafi verið fólk sem hafð­i aug­ljós­lega betri reynslu og menntun fyrir þennan til­tekna starfs­vett­vang en hann. „En það sem kom mér síðan á óvart var að hæf­asti umsækj­and­inn, eða ein­hver úr hópi hæf­ustu umsækj­enda, var ekki ráð­inn. Það var aug­ljóst frá upp­hafi og hefur nú verið stað­fest í þessum úrskurði. Og þá vaknar spurn­ing­in, hvers vegna koma enn upp svona mál hjá hinu opin­bera, þrátt fyrir allar regl­urnar og sér­fræði­þekk­ing­una á sviði starfs­manna­stjórn­unar og lög­fræð­i?“

Sjálfur sótti ég um þetta starf og fékk ekki, enda var fólk í hópi umsækj­enda sem hafði aug­ljós­lega betri reynslu og...

Posted by Guð­mundur Hörður on Tues­day, Janu­ary 14, 2020

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar