Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, beindi í vikunni skriflegri fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem hann bað um aðgreiningu á afkomu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) af annars vegar sölu áfengis og hins vegar sölu tóbaks. Fyrirtækið heyrir beint undir ráðuneytið en er ekki með stjórn yfir sér, eins og mörg önnur ríkisfyrirtæki.
Í fyrirspurn Þorsteins er óskað eftir sundurliðun fyrir árin 2013 til 2018. Hann spurði Bjarna einnig af því hvort ráðherrann ætlaði að beita sér fyrir því að ÁTVR myndi framvegis gefa gleggri mynd af afkomu fyrirtækisins með því að greina á milli afkomu þess af sölu tóbaks annars vegar og áfengis hins vegar.
Ástæða þess að fyrirspurnin er lögð fram er sú að í gegnum tíðina hefur ÁTVR ekki viljað upplýsa um hver beinn kostnaður af tóbakssölu hefur verið. Það hefur meðal annars komið fram í svari við fyrirspurnum frá Kjarnanum um málið.
Hins vegar er hægt að sjá umfang tóbakssölunnar að einhverju leyti í ársreikningum fyrirtækisins.
Umdeild skýrsla
Árið 2014 fengu aðilar sem studdu frumvarp um að afnema einokun ríkisins á smásölu áfengis fyrirtækið Clever Data til að vinna skýrslu fyrir sig um rekstur ÁTVR.
ÁTVR brást hart við þessari niðurstöðu, hafnaði henni og sagði hana byggja á vangaveltum sem ættu sér litla stoð í raunveruleikanum. „ÁTVR hefur aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar,“ sagði í tilkynningu sem ríkisfyrirtækið sendi frá sér í maí 2015.
Hagnaður 1,1 milljarður árið 2018
Í ársreikningum ÁTVR er hægt að sjá ákveðnar stærðir í rekstri fyrirtækisins. Þar kemur fram að rekstrartekjur ÁTVR voru 35,3 milljarðar króna á árinu 2018 og jukust um rúman milljarða króna á milli ára. Frá árinu 2013 hafa rekstrartekjur ÁTVR aukist um 6,7 milljarða króna. Sala tóbaks skilaði 9,4 milljörðum króna í kassann 2018 en sala áfengis 25,8 milljörðum króna.
Alls var 1,1 milljarðs króna hagnaður af rekstri ÁTVR í fyrra, sem var 256 milljónum krónum minni hagnaður en árið áður. Fyrirtækið greiddi eiganda sínum einn milljarð króna í arð vegna þessa.
Af tekjum ÁTVR runnu alls 25,1 milljarðar króna til ríkissjóðs vegna tóbaksgjalds (5,6 milljarðar króna), áfengisgjalds (13,4 milljarðar króna), virðisaukaskatts (5,1 milljarður króna) og arðgreiðslu (einn milljarður króna). Það þýðir að um 71,1 prósent allra tekna ÁTVR renna í ríkissjóð. Allar þessar tekjur myndu skila sér þangað óháð því hver það væri sem seldi áfengi og tóbak, utan arðgreiðslunnar.
Um 1,5 milljarða hagnaður af tóbaki eftir laun og vörugjöld
Tóbakssalan fer fram í gegnum mjög hagkvæma miðlæga tóbakssölu þar sem vörur eru að mestu pantaðar rafrænt og sóttar á sama stað. Engin tóbakssmásöluverslun er rekin heldur er einungis um heildsölu að ræða.
Sala tóbaks útheimtir því mun minna umstang en áfengissalan, sem fer fram í 51 verslunum víðs vegar um landið, þar af 14 á höfuðborgarsvæðinu, og vefbúð á netinu. Árið 1986 rak fyrirtækið 13 verslanir. Fjöldi þeirra hefur því næstum fjórfaldast á 30 árum.
Vörunotkun tóbaks var 7,8 milljarðar króna árið 2018 og af henni var 5,6 milljarðar króna tóbaksgjald sem greiðist til ríkisins. Þegar vörugjöld hafa verið dregin frá tekjum ÁTVR af tóbakssölu stendur eftir 1,65 milljarða króna hagnaður, eða vel rúmlega sá hagnaður sem féll til vegna heildarstarfsemi ÁTVR á árinu 2018. Það er 538 milljónum krónum meira en endanlegur hagnaður ÁTVR á því ári.
Það þýðir að um 1,5 milljarðar króna hagnaður stendur eftir af tóbakssölunni eftir að búið er að gera ráð fyrir tóbaksgjaldi og launakostnaði þeirra sem starfa beint við tóbaksdreifingu, eða -framleiðslu. Það er upphæð sem er tæplega 400 milljónum krónum yfir heildarhagnaði ÁTVR á árinu 2018.
Þó verður að gera ráð fyrir því tóbakssalan sé ábyrgð fyrir einhverjum viðbótarkostnaði vegna skrifstofuhalds og annarra sameiginlegra kostnaðarþátta í rekstri ÁTVR. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki, líkt og áður sagði, verið tilbúið að sundurliða þann kostnað.
Neftóbaksframleiðsla rúmlega fjórfaldast
Mesti uppgangurinn í tóbakssölu ÁTVR á undanförnum árum hefur verið í sölu á neftóbaki, sem fyrirtækið bæði framleiðir og selur í heildsölu. Í janúar 2002 var fínkorna munn- og neftóbak bannað með lögum á Íslandi og frá þeim tíma hefur ÁTVR setið eitt að löglegri sölu á slíku tóbaki hérlendis.
Í ársreikningi 2018 segir í formála Ívars J. Arndals, forstjóra fyrirtækisins, að á því ári hafi verið framleidd 45 tonn af neftóbaki og að framleiðslan hafi margfaldast á síðustu árum. Til samanburðar var árleg sala af íslensku neftóbaki, oft kallaður „Ruddi“, ríflega tíu tonn. Framleiðslan, og salan hefur því rúmlega fjórfaldast á tveimur áratugum.
Ívar segir í formálanum að kannanir Landlæknis á notkun neftóbaks sýni að notendur séu sífellt að verða yngri og notkunin sé að breytast. „Fleiri og fleiri setja neftóbakið í munn en sala á munntóbaki er ólögleg á Íslandi. Framtíð neftóbaksins er í höndum stjórnvalda en heilbrigðisráðuneytið er að vinna að nýrri stefnumótun í tóbaksmálum.“
Þessi aukna neysla á neftóbaki hefur skilað auknum tekjum í vasa hins opinbera svo um munar, bæði vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og stóraukinnar eftirspurnar. Sala á íslenska neftóbakinu jókst um 19 prósent á árinu 2018. Á sama tíma varð þriggja prósenta samdráttur í sölu á sígarettum.