Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ásmundur keyrði fyrir rúmlega 320 þúsund krónur á mánuði

Ásmundur Friðriksson var, enn og aftur, sá þingmaður sem keyrði mest allra í fyrra. Alls kostaði akstur Ásmundar skattgreiðendur 3,8 milljónir króna, sem er 52 prósent meira en kostnaður þess sem keyrði næst mest. Alls nema akstursgreiðslur til Ásmundar frá því að hann settist á þing árið 2013 29,2 milljónum króna.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, er sá þingmaður sem keyrir mest allra miðað við þann aksturskostnað sem Alþingi greiðir þingmönnum. Alls keyrði Ásmundur bílaleigubíla, og tók eldsneyti fyrir, um 3,8 milljónir króna á árinu 2019. Það þýðir að Ásmundur keyrði fyrir rúmlega 320 þúsund krónur að meðaltali í fyrra.

Sá munur var á akstri Ásmundar í fyrra að hann fór allur fram á bílaleigubílum, en á síðustu árum hafði hann að mestu keyrt um landið á eigin bifreið og fengið kostnað vegna þess endurgreiddan frá Alþingi. Frá því að Ásmundur settist á þing árið 2013 hefur samanlagður aksturskostnaður hans verið 29,2 milljónir króna. 

Mestur var hann árið 2014, þegar Ásmundur fékk alls um 5,4 milljónir króna endurgreiddar vegna keyrslu á eigin bifreið, eða 450 þúsund krónur á mánuði. 

Eftir að akstursgreiðslur til þingmanna voru loks opinberaðar í fyrsta sinn snemma árs 2018, eftir að fjölmiðlar höfðu kallað eftir þeim árum saman, kom sérstaka Ásmundar í akstri í ljós og var mikið gagnrýnd. Í kjölfarið dró Ásmundur mikið úr akstrinum og nam endurgreiddur kostnaður hans á árinu 2018 2,5 milljónum króna. Það er lægsta upphæð sem Ásmundur hefur fengið endurgreidda vegna aksturs frá því að hann settist á þing. Þorri hans fór auk þess fram á bílaleigubíl, ekki bifreið Ásmundar, líkt og skrifstofa Alþingis hafði beðið þingmenn um að gera. 

Í fyrra jókst aksturskostnaðurinn síðan til muna og var 3,5 milljónir króna. Það er 52 prósent hærri upphæð en keyrsla Ásmundar kostaði árið áður. 

Fjórir kosta meira en tvær milljónir á mánuði

Alþingi birti um helgina upplýsingar um kostnað sem þingmenn fá greiddan fyrir desembermánuði, og þar af leiðandi var hægt að sjá hversu mikið féll til allt árið 2019. 

Líkt og áður sagði kostaði akstur Ásmundar langmest, eins og svo oft áður.  Þeir sem koma næst honum eru Birgir Þórarinsson, þingflokkur Miðflokksins, sem keyrði fyrir 2,6 milljónir króna í fyrra, og samflokksmaður hans Vilhjálmur Árnason, sem keyrði fyrir 2,5 milljónir króna í fyrra. Birgir keyrði því fyrir um 216 þúsund krónur á mánuði að meðaltali og Vilhjálmur fyrir um 208 þúsund krónur á mánuði. Akstur Ásmundar kostaði því 48 prósent meira en akstur Birgis og 52 prósent.

Einn þingmaður til keyrði fyrir meira en tvær milljónir króna í fyrra, Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann kostaði 2,4 milljónir króna á árinu, eða um 200 þúsund krónur að meðaltali á mánuði.

Alls keyrðu tólf þingmenn það mikið að kostnaður vegna akstursgreiðslna þingsins til þeirra fór yfir eina milljón króna. Hægt er að sjá lista yfir þá hér að neðan:

Tólf þing­menn fengu meira en milljón krónur greiddar í akst­urs­kostn­að: 

 • Ásmundur Frið­riks­son 3,8 millj­ónir króna
 • Birgir Þór­ar­ins­son 2,6 millj­ónir króna
 • Vil­hjálmur Árna­son 2,5 millj­ónir króna
 • Har­aldur Bene­dikts­son 2,4 millj­ónir króna 
 • Sig­urður Páll Jóns­son 1,8 millj­ónir króna
 • Guð­jón S. Brjáns­son 1,8 millj­ónir króna
 • Bjarkey Olsen Gunn­ars­dóttir 1,8 millj­ónir króna
 • Lilja Raf­ney Magn­ús­dóttir 1,5 millj­ónir króna
 • Líneik Anna Sæv­ars­dóttir 1,3 millj­ónir króna
 • Halla Signý Krist­jáns­dóttir 1,2 milljón króna
 • Páll Magn­ús­son 1,1 millj­ónir króna
 • Albertína Frið­björg Elí­as­dóttir 1,1 milljón króna

Allskyns viðbætur ofan á þingfarakaup

Aksturgreiðslurnar koma til viðbótar við hefðbundnar launagreiðslur og ýmsar aðrar kostnaðargreiðslur, en venjulegur þingmaður fær 1,1 milljón króna í laun á mánuði. Auk þess getur þingmaður sem gegnir formennsku eða varaformennsku í fengið álag ofan á þingfarakaupið. Í tilfelli formanns nemur það 165 þúsund krónum á mánuði. Þá fá landsbyggðarþingmenn húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu, álag á húsnæðis- og dvalarkostnaðargreiðslu, fastan greiddan ferðakostnað í kjördæmi og fastan starfskostnað. 

Fyrir ímyndaðan þingmann í Suðurkjördæmi, sem liggur að höfuðborginni, sem gegni formennsku í nefnd gæti þetta þýtt að mánaðarlegar launagreiðslur upp á rúmlega 1,5 milljónir króna. Til viðbótar er ýmis starfskostnaður endurgreiddur auk þess síma- og netkostnaður er greiddur. Ofan á þetta er allur ferðakostnaður innan lands og utan greiddur af þinginu, þar með talið áðurnefndur aksturskostnaður. 

Allt í allt getur þingmaður því haft nálægt tvær milljónir króna í tekjur af þingmennsku á mánuði ef hann er duglegur við að keyra um. 

Nota bílaleigubíla meira en áður

Alls nam aksturskostnaður þingmanna 31,1 milljón króna í fyrra. Allt árið 2018 var kostn­að­ur­inn 30,7 millj­ónir króna. Því var hann mjög svipaður bæði árin. 

Mesta breytingin sem orðið hefur síðastliðin ár er að þingmenn keyra nú mun meira á bílaleigubílum en áður. Sú tilhneiging hefur stökkbreyst eftir að akstursgreiðslurnar voru opinberaðar í fyrsta sinn í byrjun árs 2018. 

Þar áður tíðk­að­ist það á meðal þing­manna að fá end­ur­greitt svo­kallað akstursgjald vegna notk­unar á eigin bif­reið. Það er greitt sam­­­kvæmt akst­­­ur­s­dag­­­bók þar sem þing­­­menn halda utan um allan akstur á sínum eigin bif­­­reið­u­m. ­Ferða­­­kostn­að­­­ar­­­nefnd, sem heyrir undir fjár­­­­­mála- og efna­hags­ráðu­­­neyt­ið, ákveður akst­­ur­­gjald í akst­­­ur­s­­­samn­ingum rík­­­is­­­starfs­­­manna og rík­­­is­­­stofn­ana. Gjaldið skipt­ist í almennt gjald, sér­­­stakt gjald og svo­­­kallað tor­­­færu­­­gjald. Almenna gjaldið á við akstur á mal­bik­uðum vegum inn­­­an­bæjar og utan, sér­­­staka gjaldið á við akstur á mal­­­ar­­­vegum utan­­­bæjar og tor­­­færu­gjaldið mið­­­ast við akstur við sér­­­stak­­­lega erf­iðar aðstæð­­­ur, gjarnan utan vega og ein­ungis jeppa­­­fært.

Fyrirspurnir Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, leiddu til þess að aksturskostnaðurinn var loks opinberaður í byrjun árs 2018.
Mynd: Bára Huld Beck

Grunnur akst­­­ur­s­gjalds­ins skipt­ist í fastan kostnað og breyt­i­­­legan kostn­að. Í föstum kostn­aði voru afskrift­ir, skoð­un­­­ar­gjald, bif­­­reiða­gjald, ábyrgð­­­ar­­­trygg­ing og húf­­­trygg­ing, en í breyt­i­­­legum kostn­aði bens­ín, smurn­ing, olía, hjól­barð­­­ar, vara­hlutir og við­­­gerð­­­ir. Greiðsl­­urnar eru und­an­þegnar skatt­i. ­Sam­hliða því að greiðslur vegna notk­unar á eigin bif­reið hafa hríð­fallið á und­an­förnum árum hafa greiðslur vegna bíla­leigu­bíla hækkað mik­ið, enda var þeim til­mælum beint til þing­manna fyrir nokkrum árum sið­an, af skrif­stofu Alþing­is, að taka frekar bíla­leigu­bíla en að nota eigin bif­reið­ar. Ástæðan var sú að það var talið spara fjár­muni og tryggja meira gagn­sæi í akst­urs­greiðsl­um. Skrif­­­stofa Alþingis hefur gert samn­inga við bíla­­­leig­u­­­fyr­ir­tæki sem eru að finna í ramma­­­samn­ingi Rík­­­is­­­kaupa, um afslætti af gjald­­­skrá bíla­­­leig­u­bíla til að ná niður þessum kostn­aði enn frek­­ar.

Á árinu 2018, sem var það fyrsta eftir að greiðslur til þing­manna voru gerðar opin­ber­ar, stökk kostn­aður vegna bíla­leigu­bíla upp í 19,3 millj­ónir króna sam­hliða því að kostn­aður vegna notk­unar eigin bif­reiða dróst veru­lega sam­an. Í fyrra jókst hann enn frekar og var 21,4 milljónir króna.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar