Pexels - Open source myndasöfn

Krónan í höftum: Bjargvættur í fangelsi

Íslenska krónan, gagn hennar og lestir, er eitt helstu þrætuepli íslenskrar þjóðar. Frá aldarmótum hafa farið fram þrjár mismunandi tilraunir í að stýra henni þannig að gagnsemi krónunnar sé sem mest, en að lestir þessa örgjaldmiðils láti sem minnst á sér kræla. Þessar tilraunir hafa gengið misjafnlega. Næstu þrjá daga mun Kjarninn fjalla um þær. Í dag verður tímabilið frá árinu hruni 2008 og fram til vormánaða 2017, þegar höftum var lyft, greint.

Banka­hrunið haustið 2008 eru mestu ham­farir af manna­völdum sem orðið hafa á Íslandi. Það hafði gríð­ar­leg, og umfangs­mik­il, áhrif á mörg svið sam­fé­lags­ins. Það orsak­aði að krónan veikt­ist um tugi pró­­senta, að verð­­bólga fór í 18,6 pró­­sent um tíma, stýri­vextir í 18 pró­­sent, atvinn­u­­leysi í tveggja stafa tölu, rík­­is­­sjóður fór úr því að vera nær skuld­­laus í að verða nær gjald­­þrota, skuldir heim­ila marg­­föld­uð­ust, skattar voru hækk­­að­ir, sparn­aður tap­að­ist, neyð­ar­lög tóku gildi, fjár­­­magns­höft voru sett, Íslands þurfti að leita til Alþjóða­gjald­eyr­is­­sjóðs­ins eftir aðstoð og allt traust milli almenn­ings og stofn­ana sam­­fé­lags­ins hvarf. 

Stærstu ástæð­una fyr­ir  þess­um afleið­ing­um, sem íslenskur almenn­ingur þurfti að axla, var að finna í atferli íslenskra banka, og þeirra sem stjórn­­uðu þeim. Það sem ýkti afleið­ing­arnar veru­lega var íslenska krón­an.

Eng­inn annar kostur en að reisa múra

Íslenska krónan hríð­féll á árinu 2008. Á örfáum mán­uðum fór staða íslenskra laun­þega frá því að vera með há laun í öllum alþjóð­legum sam­an­burði í nákvæm­lega hina átt­ina. Inn­fluttar vörur og þjón­usta og utan­lands­ferðir urðu miklu dýr­ari en áður. Þau íslensku heim­ili sem höfðu tekið mynt­körfu­lán til að kaupa sér bíla eða jafn­vel hús­næði sáu lánin stökk­breyt­ast. Sömu sögu er að segja um fyr­ir­tæki sem höfðu tekjur í íslenskum krónum en höfðu ákveðið að skuld­setja sig í öðrum gjald­miðl­um. Og sveit­ar­fé­lög. 

Auglýsing

Seðla­banki Íslands hafði lánað nær allan aðgengi­legan gjald­eyr­is­vara­forða sinn, alls 500 millj­ónir evra, til Kaup­þings 6. októ­ber 2008, í þeirri von að hann myndi hjálpa bank­anum að lifa af. Af því varð ekki og Kaup­þing for í þrot nokkrum dögum síð­ar. Árni M. Mathies­en, þáver­andi fjár­mála­ráð­herra, lýsti því þannig í bók sem hann gaf út fyrir nokkrum árum um banka­hrunið og afleið­ingar þess, og kall­að­ist Frá banka­hruni til bylt­ing­ar, að Seðla­­bank­inn hafi „látið Kaup­­þing hafa allan gjald­eyr­is­­forð­ann sem þeir voru með hér heima þannig að það voru engir pen­ingar eftir í Seðla­­bank­an­um“.

Seðla­bank­inn var því ekki í stöðu til að standa við bakið á íslensku krón­unni. Hann átti ekki pen­ing til þess. Umleit­anir um nægj­an­lega digrar lána­línur til að laga þá stöðu skil­uðu ekki við­un­andi árangri. 

Eftir banka­hrunið var gengi krónu fest tíma­bundið og í nóv­em­ber 2008 voru sett upp fjár­magns­höft. Fyrir því voru nokkrar ástæð­ur. Sú helsta var að koma í veg fyrir að umfangs­miklar krónu­eign­ir, meðal ann­ars í eigu kröfu­hafa fall­inna banka, væri ekki skipti yfir í aðra gjald­miðla með til­heyr­andi búsifjum og geng­is­falli fyrir Ísland. 

Með upp­setn­ingu haft­ana var líka verið að kaupa tíma og ráð­rúm til að end­ur­skipu­leggja íslenskt efna­hags­líf á for­sendum Íslend­inga. Það var ekki víst að það myndi takast á þeim tíma, né að þær for­dæma­lausu aðgerðir sem Íslend­ingar höfðu gripið til í kringum banka­hrunið myndu halda, en við blasti að það þyrfti að reyna. 

Höftin þýddu þó að til­raunin um að láta íslensku krón­una vera óhindr­aðan og fljót­andi þátt­tak­anda á alþjóð­legum gjald­eyr­is­mark­aði var lok­ið. Þau voru auk þess í and­stöðu við alþjóða­skuld­bind­ingar Íslands, meðal ann­ars þær sem landið hafði und­ir­geng­ist við gild­is­töku EES-­samn­ings­ins. 

En krónan hafði sokkið og þurfti björg­un­ar­hring til að lifa af. 

Höft­in, sem má lýsa eins og fang­elsi fyrir fjár­magns­flutn­inga, varð sá bjarg­vætt­ur. 

Neyð­ar­rétti beitt í fyrsta sinn

Þann 6. októ­ber 2008 beitti vest­ræn þjóð í fyrsta og eina sinn neyð­ar­rétti til að koma í veg fyrir að fall þriggja banka gæti dregið heilt þjóð­fé­lag niður í eitt alls­herj­ar­gjald­þrot. 

Í neyð­ar­lög­unum fól­st, í grófum drátt­um, að kröfu­hafaröð var breytt með þeim hætti að inn­stæður voru settar framar skulda­bréfum og öðrum kröf­um. Ekki ein­ungis voru það inn­stæður ein­stak­linga sem fengu þessa með­ferð. Inn­stæður fjár­mála­fyr­ir­tækja í formi heild­sölu­inn­lána eða pen­inga­mark­aðs­lána fengu hana einnig. Því var um að ræða mjög háar fjár­hæð­ir. 

Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, greindi þjóðinni frá neyðarlögunum í sjónvarpsávarpi 6. október 2008. Og bað í lok þess guð að blessa Ísland.
Mynd: Skjáskot

Íslenskar inn­stæður voru svo fluttar í nýja inn­lenda banka sem reistir voru á grunni þeirra gömlu. Með þessu færð­ust „ís­lensk“ lán heim­ila og atvinnu­lífs til þeirra, þó að ýmsar til­færslur ættu eftir að eiga sér stað á milli þrota­búa gömlu bank­anna og þeirra nýju mán­uð­ina eft­ir. Með þess­ari risa­stóru aðgerð töp­uðu erlendir kröfu­hafar um 7.134 millj­örðum króna sem þeir höfðu lánað íslenskum bönkum og öðrum fyr­ir­tækj­um, sam­kvæmt tölum frá Seðla­banka Íslands.

Höftin voru lyk­il­at­riði í því að ná fram mark­miðum neyð­ar­lag­anna. Upp­haf­lega var svo­kallað sól­ar­lags­á­kvæði í lög­unum um þau, em í þeim fólst að höft á þrotabú föllnu bank­anna höfðu fyr­ir­fram ákveð­inn líf­tíma, þ.e. út árið 2013. Kröfu­hafar föllnu bank­anna, sem flestir höfðu keypt kröfur sínar eftir hrun, höfðu því þann val­kost að bíða ein­fald­lega af sér þann tíma, og hverfa svo út í sól­setrið með alla vasa fulla af gróða. Þann 9. mars 2013 var hins vegar ákvæðið að afnema ákvæðið úr lögum og gera höftin ótíma­bund­in. Áð­­ur, þann 20. des­em­ber 2012, hafði þverpóli­­tísk nefnd full­­trúa þing­­flokka um afnám gjald­eyr­is­hafta ein­róma lagt þessa breyt­ingu til. 

Með far­seð­il­inn í bank­ann

Förum aðeins til baka. Höft á gjald­mið­il­inn þýddu allskyns rót á lífi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja á Íslandi. Höftin þýddu að flestir Íslend­ingar gátu ekki skipt krón­unum sínum í annan gjald­eyri nema í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum og með heim­ild yfir­valda. Þeir þurftu t.d. að fram­vísa flug­far­seðli í banka til að kaupa ferða­gjald­eyri. Og slík gjald­eyr­is­við­skipti voru auk þess tak­mörkuð við hámarks­fjár­hæð­ir. 

Búið var til mjög umfangs­mikið gjald­eyr­is­eft­ir­lit innan Seðla­banka Íslands, sem hafði eft­ir­lit með gjald­eyr­is­við­skiptum þjóð­ar­inn­ar, og þaðan voru veittar allskyns und­an­þág­ur, enda blasti við að inn­flutn­ings- og útflutn­ings­fyr­ir­tæki þurftu að skipta krónum í gjald­eyri eða gjald­eyri í krónur til að geta haldið starf­semi sinni áfram.

Auglýsing

Til þess að fá að gera slíkt þurftu fyr­ir­tæki meðal ann­ars að sýna fram á að um raun­veru­leg vöru- eða þjón­ustu­við­skipti væri að ræða. Þetta var sér­stak­lega mik­il­vægt til að jafn­ræðis yrði gætt. Þ.e. að fjár­magns­eig­endur gætu ekki nýtt sér hafta­á­standið til að hagn­ast á meðan að launa­fólk, sem fékk borgað í krónum og lifði fjár­hags­lega einn mánuð í einu, axl­aði aðlögun geng­is­falls og efna­hags­hruns í gegnum heim­il­is­bók­haldið sitt.

Hægt að græða vel á höft­unum

Grunur var uppi um að margir fjár­magns­eig­endur hefðu haft vaðið fyrir neðan sig áður en að hrunið skall á, og flutt fjár­muni burt frá Íslandi, meðal ann­ars til þekktra skatta­skjóla. 

Á árinu 2015 fékkst stað­fest­ing á því þegar íslenskra ríkið keypti skatta­skjóls­gögn um 500 félög í eigu um 400 Íslend­inga af huldu­manni. Gögnin komu frá lög­manns­stofu í Pana­ma, Mossack Fon­seca & Co, sem hafði unnið umtals­vert fyrir íslensku bank­anna á árunum fyrir hrun. 

Ári síð­ar, í apríl 2016, greindu fjöl­miðlar víða um heim frá afrakstri vinnu sinnar úr gagna­leka sem þekktur varð sem Panama­skjölin. Um var að ræða skjöl úr sama ranni og þau sem skatt­rann­sókn­ar­stjóri hafði keypt. Þ.e. frá Mossack Fon­seca. 

Þar kom meðal ann­ars fram að skatta­skjóla­eign Íslend­inga var enn umfangs­meiri en áður hafði verið ýjað að. Alls er þar að finna upp­lýs­ingar um 600 Íslend­inga sem tengj­ast um 800 aflands­fé­lög­um.

Fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar áttu sér stað 4. apríl 2016, eftir opinberum Panamaskjalana.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ljóst var þó að þarna var ein­ungis um brot af umsvifum Íslend­inga í aflands­fé­lögum að ræða. Í byrjun jan­úar 2017 var gerð opin­ber skýrsla starfs­hóps sem skoð­aði umfang aflandseigna Íslend­inga, sem unnin var sem við­bragð við birt­ingu Panama­skjal­ana, og áætl­­­aði hversu miklu eig­endur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti.

Þar sagði að stökk­breyt­ing hefði orðið á flæði fjár til aflands- og lág­skatta­svæða á fyrsta ára­tug þess­arar ald­ar, og fjöldi aflands­fé­laga í eigu Íslend­inga hefði fer­tug­fald­ast frá árinu 1999 og fram að hruni. Eignir í stýr­ingu íslensku bank­anna í Lúx­em­borg 46-­föld­uð­ust á sama tíma­bili. Upp­safnað umfang eigna Íslend­inga á aflands­svæðum frá árinu 1990 til 2015 nam ein­hvers staðar á bil­inu 350 til 810 millj­örðum króna, og tekju­tap hins opin­bera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa nam lík­lega um 56 millj­örðum króna, sam­kvæmt skýrsl­unn­i. 

Leiðir til að bræða snjó­hengju

Seðla­bank­inn var ekki ein­ungis að sinna eft­ir­liti með inn- og útflæði í gegnum höft­in, hann var líka að leita leiða til að minnka það mikla magn krónu­eigna sem var í eigu útlend­inga, og vildi út, hina svoköll­uðu snjó­hengju. 

Ein slík leið var fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands, sem var opin 2012 til 2015.  Hún opn­aði leið inn fyrir höftin fyrir þá sem áttu fjár­muni utan þeirra. Í henni fólst að leiða saman óþol­in­­móða eig­endur íslenskra krón­u­­eigna sem voru fastar innan hafta og þá sem áttu erlendan gjald­eyri sem lang­aði að skipta honum í íslenskar krón­­ur. Hug­­myndin var að hinir óþol­in­­móðu myndu gefa eftir hluta af virði eigna sinna, en hinir fá fleiri krónur en almennt gengi sagði til um, með milli­­­göngu Seðla­­bank­ans. 

Auglýsing

Sam­tals komu um 1.100 millj­­­ónir evra til lands­ins á grund­velli útboða fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leiðar eða 206 millj­­­arðar króna. Meg­in­þorri þeirra sem nýttu sér hana, 794 af 1.074 aðil­um, voru Íslend­ing­­­ar, sam­­­kvæmt skrif­­­legu svari til Alþingis frá sum­­r­inu 2017. Alls fékk allur þessi hópur 31 millj­­­arða króna virð­is­aukn­ingu fyrir það að nýta sér leið­ina. Af þeim fóru um ell­efu millj­­­arðar króna af virð­is­aukn­ing­unni til Íslend­inga en um 20 millj­­­arðar króna til erlendra aðila. 

Í hópi þeirra sem fjöl­miðlar hafa opin­berað að hafi nýtt sér fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­ina eru ein­stak­l­ingar sem hafa verið til rann­­sóknar fyrir meint skatta­laga­brot, hafa verið ákærðir og dæmdir fyrir efna­hags­­glæpi og hafa verið gerðir upp af kröf­u­höfum sínum án þess að mikið feng­ist upp í skuld­­ir. 

Íslend­ing­­arnir sem nýttu sér leið­ina höfðu margir hverjir ferjað pen­inga út úr land­inu fyrir hrun og komið þeim í var á aflandseyj­um, þegar gengi krón­unnar var ennþá sterkt. Krónan hrundi hins vegar eftir hrun og því gátu Íslend­ing­­arnir líka leyst út feik­i­­lega mik­inn geng­is­hagn­að.

Til við­bótar fékkst „heil­brigð­is­vott­orð“ á pen­ing­anna, enda færðir inn í landið í gegnum seðla­banka. 

Þessa pen­inga var svo hægt að nota til að kaupa eignir á Íslandi á bruna­út­sölu­verði á fyrstu árum eft­ir­hrunsár­anna. 

Í skýrslu sem Seðla­bank­inn birti um fjár­fest­ing­ar­leið­ina í fyrra gekkst hann við því að leiðin hefði haft óæski­legt hlið­ar­á­hrif, þótt hann teldi að til­gangur henn­ar, að minnka snjó­hengj­una, hefði helgað með­al­ið. Á meðal þeirra óæski­legu áhrifa sem urðu af leið­inni voru þau að áhrif á eigna­skipt­ingu þjóð­ar­innar kynnu að hafa verið nei­kvæð. Seðla­bank­inn við­ur­kenndi einnig að gagn­rýni á heim­ild félaga með aðsetur á lág­skatt­ar­svæðum til þátt­töku í fjár­fest­ing­ar­leið­inni hafi verið eðli­leg í ljósi sög­unn­ar. 

Upp­sveifla sköpuð með höftum

Á hafta­ár­unum gerð­ist það hins vegar að feiki­leg efna­hags­leg upp­sveifla varð á Íslandi. Hún hófst á árinu 2012 og stóð vel fram á árið 2018, þegar hægði á ferð hennar með gjald­þroti WOW air. 

Í grunnin var þessi upp­sveifla sköpuð með höft­un­um. Gjald­eyrir flæddi inn í land­ið, aðal­lega frá erlendum ferða­mönnum sem hófu að koma hingað til lands í áður óþekktu magni, en lítið sem eng­inn gjald­eyrir fór út úr land­inu á saman tíma. 

Gengi krón­unnar styrk­ist mik­ið, eigna­verð rauk upp, sér­stak­lega virði fast­eigna sem var um tíma mesta hækkun sem mæld­ist í heim­inum og hluta­bréfa, og úr varð for­dæma­laust hag­vaxt­ar­skeið. 

Þegar þessi veisla stóð sem hæst, árið 2015, gerðu íslensk stjórn­völd sam­komu­lag við helstu kröfu­hafa föllnu bank­anna um að þeir myndu greiða svo­kallað stöð­ug­leika­fram­lag gegn því að fá að klára gerð nauða­samn­inga og geta í kjöl­farið greitt út þá pen­inga sem þeir áttu fasta í þrota­búum bank­anna. 

Í sam­komu­lag­inu fól­st, í ein­földu máli, að kröfu­haf­arnir skildu eftir nær allar krónu­eignir sínar gegn því að fá að fara með erlendar eignir þrota­bú­anna. Krónu­eign­irn­ar, stöð­ug­leika­fram­lög­in, runnu til rík­is­ins. 

Samkomulagið við kröfuhafa föllnu bankanna var kynnt 2015.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Báðir aðilar gátu vel sætt sig við þessa nið­ur­stöðu. Flestir kröfu­haf­anna höfðu keypt kröfur sínar á hrakvirði og voru að leysa út veð­mál sín með miklum hagn­aði. Íslenska ríkið hafði notað neyð­ar­lög­in, höftin og þá samn­ings­stöðu sem sá grunnur tryggði til að umbreyta skulda­stöðu þjóð­ar­bús­ins á einni nóttu. Þegar fyrsta yfir­lit yfir stöðu þjóð­ar­bús­ins eftir að nauða­samn­ing­arnir voru kláraðir var birt vorið 2016 kom í ljós að við nauða­samn­ings­gerð­ina hefðu hreinar íslenskar skuldir við útlönd lækkað um 328,6 pró­sent af lands­fram­leiðslu og væri þá 14,4 pró­sent af henni. Sú skulda­staða hafði ekki verið lægri frá síld­ar­ár­un­um. Um kúvend­ingu upp á um 500 millj­arða króna var að ræða. 

Höftin losuð

Annar skýr kostur sem þessi breyt­ing leiddi af sér var sú að loks­ins var hægt að fara að huga að því að lyfta höft­un­um. Þau höfðu sann­ar­lega gert gagn, en líka valdið allskyns vand­ræð­um, til dæmis fyrir líf­eyr­is­sjóði sem gátu að uppi­stöðu bara fjár­fest ný iðgjöld á Íslandi árum sam­an. Á end­anum voru þeir búnir að kaupa nær allt sem hægt var að kaupa og orðnir lang­um­svifa­mestu fjár­festar á land­in­u. 

Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, kynnir áætlun um losun hafta í mars 2017. Már Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóri, fylgist með.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Stjórn­andi eins stærsta sjóðs­stýr­inga­fyr­ir­tækis lands­ins sagði á umræðu­fundi sem hald­inn var í maí 2016 að ef líf­eyr­is­sjóð­irnir færu ekki að kom­ast út til að fjár­festa þá myndu þeir fara að kaupa „sjón­vörp og þvotta­­vél­­ar“ eftir nokkur mis­s­eri. Allir aðrir fjár­­­fest­inga­­kostir yrðu ­upp­­­urn­­ir.

Þá um sum­arið kynntu íslensk stjórn­völd loks um stór skref í átt að losun hafta. Þann 12. mars 2017 var svo blásið til blaða­­manna­fund­­ar. For­ingjar nýrrar rík­­is­­stjórn­­­ar, sem hafði tekið við völdum tveimur mán­uðum áður, til­­kynntu hróð­ugir að þeir ætl­­uðu að afnema höft. Að mest­u. 

Nýtt tíma­bil var að hefj­ast í íslensku krónu­ver­öld­inni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar