Falsarinn, eins og sænskir fjölmiðlar kalla hann, var síðastliðið sumar valinn sérstaklega (headhunted) til að gegna starfi yfirmanns sænsku friðargæslusveitanna (undir stjórn Sameinuðu þjóðanna) í Malí. Skömmu áður en falsarinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, átti að halda af stað til Afríku fékk yfirstjórn sænska hersins upplýsingar um að hann hefði árið 2018 verið rekinn úr yfirmannsstöðu í strandgæslunni. Þá hafði komist upp að árið 2016 þegar hann skráði sig í strandgæsluna hefði hann lagt fram falsaða pappíra, meðal annars að hann væri stjórnmálafræðingur að mennt. Það vakti athygli þegar hann sótti um starfið í strandgæslunni að hann hafði ekki bílpróf, sem er þó skilyrði fyrir starfinu. Strandgæslan vakti athygli yfirstjórnar hersins á þessu en ekkert var gert með þá ábendingu.
Danskir fjölmiðlar rifjuðu upp, af þessu tilefni, að Anna Castberg fyrsti forstöðumaður listasafnsins Arken á Sjálandi, sem var opnað með pomp og prakt árið 1996, hafði meðal annars lagt fram falsað skírteini um doktorspróf og „heimatilbúin“ vottorð frá vinnuveitendum. Anna Castberg var rekin fjórum mánuðum eftir að safnið var opnað. Hún hafði verið valin úr stórum hópi umsækjenda.
Kosovo og Malí
En aftur að falsaranum. Hann hafði, áður en kom að hinu fyrirhugaða yfirmannsstarfi í Malí, verið útsendur á vegum sænska hersins í Kosovo og Afganistan. Í báðum löndum hafði hann gegnt stöðu liðsforingja og haft aðgang að margs konar leynilegum upplýsingum. Einnig hafði falsarinn unnið hjá Rannsóknar- og leyniþjónustu sænska hersins, MUST. Í þeim störfum sem hér hafa verið nefnd er krafist sérmenntunar innan hersins og viðbótarmenntunar frá sænska herskólanum. Falsarinn hafði hvorugt. Hjá Rannsóknar- og leyniþjónustunni hafði falsarinn meðal annars unnið hjá dulkóðunar- og netöryggisdeildinni.
Vinsæll meðal samnemenda
Sænska dagblaðið Dagens Nyheter, sem hefur fjallað ítarlega um mál falsarans, ræddi meðal annars við nokkra samnemendur hans við liðsforingjaskólann. Þeir mundu vel eftir falsaranum og sögðu að hann hefði verið mjög vinsæll meðal nemenda. Þeir mundu líka vel eftir að hann hafði verið rekinn úr skólanum, skömmu fyrir síðustu aldamót þegar upp komst að hann hefði falsað einkunnir sínar úr menntaskóla, puntað upp á þær, eins og einn viðmælenda Dagens Nyheter orðaði það.
Fáeinum árum síðar var hann kominn í stöðu liðsforingja. Þá stöðu fékk hann, að sögn blaðsins, eftir að hann hafði skilað inn gögnum um liðsforingjamenntun sína. Þeir pappírar báru undirskriftina Per Carlsson. Mjög algengt nafn í Svíþjóð, en hinsvegar var enginn með þessu nafni í forsvari fyrir liðsforingjaskólann á árunum sem um ræðir.
Hjá hernum í tæpa tvo áratugi
Eftir að falsarinn fékk liðsforingjastarfið, út á pappírana frá „Per Carlsson“, gegndi hann eins og áður var nefnt margháttuðum störfum störfum hjá hernum, í tæpa tvo áratugi. Meðal annars setið fjölmargar ráðstefnur fyrir hönd hersins, átt marga fundi með fulltrúum erlendra ríkja, þar á meðal Rússa, og unnið fyrir sænska vopna- og hergagnaframleiðandann Saab. Þótt Svíar séu ekki aðilar að NATO starfa þeir mikið með bandalaginu og falsarinn hefur sótt marga fundi í Brussel, sem fulltrúi sænska hersins. Einnig hefur hann dvalið langdvölum í bækistöðvum hersveita NATO í Mons í Belgíu.
Þingmenn vilja skýringar
Dagens Nyheter, sem er eitt mest lesna dagblað Svíþjóðar, hefur frá því lok nóvember í fyrra birt á þriðja tug greina um falsarann. Umfjöllun blaðsins vakti strax mikla athygli í Svíþjóð og síðan hafa komið fram margháttaðar upplýsingar um falsarann og ferill hans innan sænska hersins verið rakinn ítarlega. Spurningunni um það hvernig á því geti staðið að þessi maður, falsarinn, hafi getað komist jafn langt og raun ber vitni innan hersins hefur enginn getað svarað.
Fyrir hálfum mánuði sátu varnarmálaráðherrann Peter Hultquist og Micael Bydén yfirmaður sænska hersins fyrir svörum hjá varnarmálanefnd sænska þingsins, Riksdagen. Þar gengu þingmenn hart fram og kröfðust skýringa. Tvímenningarnir gátu litlu svarað en lögðu mikla áherslu á að séð yrði til þess að sagan um falsarann gæti ekki endurtekið sig. Micael Bydén yfirmaður hersins sagði það greinilegt að orð falsarans um nám sitt og starfsreynslu hefðu ætíð verið tekin trúanleg. Í þau fáu skipti sem hann hefði lagt fram pappíra varðandi nám og störf hefði ekki verið gengið úr skugga um að þau skjöl væru ekta, eins og komist var að orði.
Micael Byden lagði jafnframt á það ríka áherslu að falsarinn hefði verið heiðarlegur í störfum sínum og allir bæru honum gott orð. Hann hefði verið duglegur og sinnt störfum sínum af kostgæfni.
„Ég segi þetta ekki til að afsaka neitt en þykir rétt að þetta komi fram,“ sagði hershöfðinginn.
Í lokin er rétt að geta þess að innan hersins er hafin rannsókn og endurskoðun á öllu vinnulagi varðandi ráðningar hermanna og þeirra sem starfa á vegum hersins.
Af falsaranum er það að segja að hann hefur verið leystur undan vinnuskyldu meðan rannsókn á máli hans fer fram en heldur jafnframt fullum launum.