Krónan eftir höft: Stöðugleiki og stöðnun
Íslenska krónan, gagn hennar og lestir, er eitt helstu þrætuepli íslenskrar þjóðar. Frá aldarmótum hafa farið fram þrjár mismunandi tilraunir í að stýra henni þannig að gagnsemi krónunnar sé sem mest, en að lestir þessa örgjaldmiðils láti sem minnst á sér kræla. Þessar tilraunir hafa gengið misjafnlega. Síðustu daga hefur Kjarninn fjallað um þær. Í þessari síðustu grein verður tímabilið frá því að höft voru að mestu afnumin 2017 og fram til dagsins í dag, greint.
Í september 2012 birti Seðlabanki Íslands rit sem bar heitið „Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum“. Ritið er 623 blaðsíður og mjög ítarleg greining á þeim valkostum sem standa Íslandi, þessari nú 364 þúsund manna þjóð í miðju Atlantshafi, til boða.
Niðurstaða þess hóps sérfræðinga sem vann rannsóknina, og skrifaði ritið, var að raunhæfir valkostir Íslands í gjaldmiðlamálum væru tveir; íslensk króna með ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum og evra í kjölfar inngöngu í Evrópusambandið og evrópska myntbandalagið.
Á þeim tíma sem ritið var unnið var Ísland enn í því ferli að ganga í Evrópusambandið. Það ferli rann sitt skeið eftir þingkosningarnar 2013, þegar ný ríkisstjórn Evrópusambandsandstæðinga tók við völdum á Íslandi.
Því hefur í raun einungis einn kostur verið í gjaldmiðlamálum hérlendis á undanförnum árum: íslensk króna sem fær ekki að lúta lögmálum frjálsra gjaldeyrisviðskipta, heldur er studd með hækjum í formi þjóðarvarúðartækja.
Reynt á varúðartækin
Þegar ritið kom út voru mjög ströng fjármagnshöft við lýði á Íslandi og því reyndi ekki á þá útgáfu af krónuhagkerfinu sem hún boðaði á þeim tíma. Höftin voru hins vegar, að mestu, losuð í mars 2017.
Þá var staða íslensks efnahagskerfis töluvert öðruvísi en hún hafði verið nokkru sinni áður. Ferðaþjónusta hafði vaxið, á örfáum árum, frá því að vera nánast efnahagslegt smælki og upp í það að vera burðugasta stoðin undir efnahagslífi íslenskrar þjóðar. Með fjölgun ferðamanna úr um hálfri milljón á árinu 2010 og í 2,3 milljónir árið 2018 þá gjörbreyttist flæði erlends gjaldeyris sem rann úr vasa kaupenda að íslenskri þjónustu og í vasa íslenskra þjónustuveitenda.
Með öðrum orðum varð hér viðskiptaafgangur. Þ.e. Íslendingar fluttu út meira en þeir fluttu inn, þegar þjónustuviðskipti sem veitt eru útlendingum hérlendis eru talin með útflutningi.
Það varð til þess að krónan styrktist. Og styrktist og styrktist.
Hinn almenni launamaður fagnaði. Sumarfríið til Tenerife kostaði minna en áður og raftækin sem hægt var að kaupa Í Elko, eða bara panta af netinu, hríðlækkuðu í verði.
Atvinnulífið, sérstaklega sá hluti þess sem hafði tekjur í erlendum gjaldmiðlum en töluverðan kostnað, aðallega launakostnað, í íslenskum krónum, var ekki jafn hamingjusamt. Hin svokallaða „samkeppnishæfni“ Íslands dróst saman.
Sveigjanleikinn farinn
Ein helstu rökin fyrir íslensku krónunni hafa verið þau að hún sé svo sveigjanleg. Á mannamáli þýðir það að hún gæti veikst hratt og mikið til að auka samkeppnishæfni okkar þegar efnahagsástandið tekur dýfu. Vanalega fylgdi þessu aukin verðbólga. Það gerðist til dæmis eftir hrunið. Í þeirri samkeppnishæfni felst að laun Íslendinga verða mun lægri í alþjóðlegum samanburði og þeir sem flytja út vörur eða þjónustu fá fleiri krónur fyrir þegar þeir skipta dollurum eða evrum hjá Seðlabanka Íslands. Helsti kosturinn við þetta er talinn vera sá að þá er hægt að taka út aðlögunina eftir gerð hagstjórnarmistök með því að velta kostnaðinum af henni á launafólk án þess að atvinnuleysi láti á sér kræla.
Nú er þetta hins vegar ekki staðan. Í niðursveiflunni sem átti sér stað á árinu 2019, þegar samdráttur varð í íslenska efnahagskerfinu meðal annars vegna gjaldþrots WOW air, loðnubrests og vandkvæða Icelandair vegna kyrrsetningar á Boeing 737 Max vélunum, þá var birtingarmynd afleiðinganna svipuð og annars staðar í Evrópu, þar sem evran er gjaldmiðillinn. Þ.e. aukið atvinnuleysi.
Atvinnuleysið mælist nú 4,3 prósent of hefur ekki mælst hærra frá árinu 2013. Rúmlega átta þúsund manns eru án atvinnu. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, þar sem ferðaþjónustutengd starfsemi er aðal atvinnuvegurinn, eða 8,7 prósent. Það er meira atvinnuleysi en mælist á evrusvæðinu að meðaltali, þar sem það er 7,4 prósent.
Gripið inn í
Seðlabanki Íslands birti í nýverið yfirlit yfir þróun ýmissa þátta sem snúa að íslensku krónunni. Þar kom meðal annars fram að gengi krónunnar hafi lækkað um alls 3,1 prósent í fyrra. Flökt á henni hefði verið minna en á árinu 2018 en munur á hæsta og lægsta gildi krónunnar var 7,2 prósent.
Þessi niðurstaða gerðist þó ekki að sjálfu sér. Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn, með því að kaupa eða selja gjaldeyri, á alls tólf dögum á árinu 2019. Í janúar í fyrra seldi Seðlabankinn gjaldeyri fjóra viðskiptadaga í röð í því skyni að vega á móti snarpri lækkun gengis krónunnar. Í mars, maí og júní seldi bankinn gjaldeyri bæði vegna útflæðis aflandskróna og til að koma í veg fyrir óhóflegt skammtímaflökt af öðrum ástæðum.
Í þessum inngripum birtist peningastefna Seðlabankans skýrt og greinilega. Í henni felst að halda krónunni stöðugri með því að grípa inn í ef hún er að styrkjast of mikið, eða veikjast of mikið.
Á fyrri helmingi síðasta árs keypti Seðlabankinn gjaldeyri fyrir samtals fyrir 11,9 milljarða króna en á þeim síðar fyrir 2,4 milljarða króna. Gjaldeyriskaupin áttu sér stað tvo viðskiptadaga í júlí og september.
Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði var svipuð og á árinu 2018, eða 188,3 milljarðar króna. Hlutdeild Seðlabankans í veltunni var 7,6 prósent sem var öllu meira en árið 2018, en talsvert minna en á árinu 2017.
Þetta er hægt að gera vegna þess að Seðlabanki Íslands á stóran gjaldeyrisvaraforða. Á meðal að þeir sem gætu látið sér detta í hug að spila á gengi krónunnar til að græða peninga, með því að styrkja hana eða veikja með handafli, trúa því að bankinn muni nota þann forða til að viðhalda stöðugleika þá gengur peningastefnan upp.
Munum eftir því í hruninu að nánast allur aðgengilegur forði Seðlabanka Íslands var lánaður til Kaupþings, alls 500 milljónir evra. Stór hluti þess forða tapaðist. Þar var um að ræða skuldsettan forða sem kostaði mikla peninga í vaxtagreiðslur.
Síðustu ár hefur Seðlabanki Íslands verið að safna sér upp óskuldsettum forða. Hann var undir 50 milljörðum króna árið 2013. Um síðustu áramót var hann 822 milljarðar króna og óx um 86 milljarða króna á síðasta ári.
Samhliða hefur erlend staða íslenska þjóðarbúsins snúist í að verða jákvæð. Ár eftir ár er íslenska þjóðarbúið að fá inn meiri peninga fyrir það sem það er að selja, en það er að eyða í það sem það er að kaupa. Samanlagður afgangur af viðskiptajöfnuði landsins á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 var til að mynda tæpur 121 milljarður króna. Hrein staða Íslands við útlönd, þ.e. eignir þegar búið var að draga allar skuldir frá, var 714 milljarðar króna í lok þess tímabils. Hrein eign var 24,5 prósent af vergri landsframleiðslu.
Það er vert að muna að í lok árs 2008 var hrein eign Íslands gagnvart útlöndum neikvæð um 187 prósent af vergri landsframleiðslu. Algjör viðsnúningur varð á þessari stöðu þegar samkomulag var gert við kröfuhafa föllnu bankanna um stöðugleikaframlag á árinu 2015. Til viðbótar hefur útflutningur lífeyrissjóða á fé eftir að höftum var lyft, til fjárfestinga erlendis, bætt verulega við eignastöðu Íslands utan heimamarkaðar.
Verðbólga helst lág og vextir lækka
Peningastefnan er enn þannig að Seðlabanki Íslands hefur verðbólgumarkmið að leiðarljósi, en það er 2,5 prósent. Helsta stýritæki bankans er enn vextir, sem hann hækkar eða lækkar til að reyna að hafa áhrif á verðbólguna.
Heilt yfir hefur verðbólga verið afar lág undanfarin ár. Frá því í febrúar 2014 og langt fram á haustið 2018 var hún undir verðbólgumarkmiði. Þá hækkaði hún yfir markmið og reis hæst í 3,7 prósent í desember 2018. í lok árs 2019 fór hún svo aftur undir markmið og í dag mælist hún einungis 1,7 prósent.
Vert er að taka fram að sú verðbólga sem mældist á fyrri hluta árs í fyrra er lág í öllu íslensku efnahagssögulegu samhengi, þótt hún hafi verið yfir markmiði. Skörp lækkun hennar undir lok árs var þó jákvæð tíðindi fyrir alla þá landsmenn sem eru með verðtryggð lán, meðal annars flest heimili landsins. Lægri verðbólga þýðir að þau lán verða ódýrari.
Seðlabankinn lækkaði líka meginvexti sína, oft kallaðir stýrivextir, hratt á síðasta ári. Þeir fóru úr því að vera 4,5 prósent í maí í að vera 3,0 prósent í nóvember. Þar eru þeir enn.
Súrefnið ekki að skila sér
Þessar vaxtalækkanir áttu að veita súrefni inn í efnahagskerfið. Þ.e. hvetja til frekari lánastarfsemi. Sú þróun hefur staðið verulega á sér.
Heimili landsins hafa reyndar haldið áfram að taka fasteignalán, enda hafa kjör þeirra snarbatnað á síðustu árum þótt þau séu enn töluvert frá því sem þekkist til dæmis innan Evrópusambandsins. Sú mikla hækkunarhrina á íbúðarhúsnæði sem fært hefur miklar eignaaukningu á pappír til þeirra sem eiga slíkt virðist þó vera að lokum komin, að minnsta kosti í bili.
Útlán til fyrirtækja landsins hafa hins vegar, svo vægt sé til orða tekið, staðið á sér. Bankakerfið er frekar að draga úr allri þjónustu við hefðbundið atvinnulíf. Útlán þess til fyrirtækja drógust saman um 60 prósent í fyrra. Stóru viðskiptabankarnir eru einfaldlega ekki að miðla fjármagni út til fyrirtækjanna í landinu. Það er yfirlýst stefna þeirra að einhverju leyti. Arion banki hefur til að mynda greint frá því að hann ætli að minnka umfang fyrirtækjaútlána um fimmtung fyrir næsta haust.
Á sama tíma jókst hins þegar veðsetning hlutabréfa á íslenskum markaði um 50 prósent. Það er því enn lánað til slíkra hluta.
Útlendingar vilja lítið fjárfesta á Íslandi
Mögulega spilar þar inn í að erlendir fjárfestar hafa verið að selja íslensk hlutabréf og það eru ekki margir kaupendur af þeim hérlendis. Þ.e. nema að bankar láni til slíkra kaupa.
Þetta er ekki vandamál sem var ófyrirséð. Á umræðufundi um stöðu samkeppninnar í endurreistu hagkerfi, sem haldinn var í maí 2016, var Gylfi Magnússon, nú forseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og meðlimur í bankaráði Seðlabanka Íslands, á meðal þeirra sem sat í pallborði. Hann sagði þar að losun hafta myndi búa til leið fyrir lífeyrissjóði, sem höfðu keypt gríðarlegt magn af íslenskum hlutabréfum á árunum eftir hrun, til að komast erlendis. Það myndi hins vegar ekki leysa þau vandamál sem íslenskt fjárfestingaumhverfi stæði frammi fyrir. Á endanum þyrfti alltaf einhver að eiga hlutabréfin.
Gylfi sagði að við blasti að erlendir aðilar virtust ekki hafa mikinn áhuga á íslenskum hlutabréfum. Ef útlendingar kaupi ekki íslensku hlutabréfin séu það eiginlega bara lífeyrissjóðirnir sem geti gert það. „Það er annað hvort það eða mynstrið sem við höfðum hérna fyrir hrun sem ég held að enginn vilji sjá aftur. Þegar eigendur voru skuldsett eignarhaldsfélög sem áttu ekkert eigið fé heldur bara lánsfé sem þau notuðu til að kaupa hlutafé.“
Krónan hraðahindrun fyrir nýsköpun
Forsætisráðherra ræddi það í almennum umræðum um stjórnmál í síðasta mánuði að það þyrfti að auka nýsköpun hérlendis. Það er auðvitað orðið þekkt stef, að við séum ekki með nægilega fjölbreytt atvinnulíf og þurfum að bæta við geirum, meðal annars. til að geta tekist betur á við sveiflur í þeim stærstu: ferðaþjónustu, sjávarútvegi og orkubúskap.
Í könnun sem greint var frá nýverið, og var unnin upp úr svörum 735 fyrirtækja sem sótt höfðu um styrk til Tækniþróunarsjóðs á síðustu þremur árum fyrir sumarið 2019, kom fram að 73,5 prósent aðspurðra töldu að séríslenskur gjaldmiðill hefði neikvæð áhrif á rekstur nýsköpunarfyrirtækja.
Rúmlega helmingur aðspurðra, eða 61 prósent, töldu að bankaþjónusta á Íslandi henti illa eða mjög illa fyrir nýsköpunarfyrirtæki.
Það eru heldur ekki að verða til mikið af nýjum sérfræðingastörfum á Íslandi. Þvert á móti virðist þeim vera að fækka sums staðar. Hjá Marel og Össur, flagskipsfyrirtæki íslenskrar nýsköpunar, sem eru nú tæplega fertug og fimmtug, hefur störfum á Íslandi verið að fækka á sama tíma og fyrirtækin sjálf eru í örum alþjóðlegum vexti.
Erlend fjárfesting
Það þarf ekki að koma á óvart að erlendir langtímafjárfestar setja íslensku krónuna fyrir sig þegar þeir ákveða hvort þeir vilji binda peninga á Íslandi. Ófyrirsjáanleiki hennar er það mikill að erfitt getur reynst að gera áætlanir sem standast. Þeir skammtímafjárfestar sem ákváðu að veðja á hækkun kröfueigna eftir bankahrunið eru nú, hver á fætur öðrum, að draga saman seglin og hverfa til nýrra ævintýra. Ísland er einfaldlega í vandræðum með að laða að erlenda fjárfestingu þrátt fyrir að höft hafi nú verið að mestu afnumin í tæp þrjú ár.
Ýmislegt hefur verið reynt til að bregðast við þessari stöðu. Í byrjun mars í fyrra gekk í gildi breyting á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og breytingar voru gerðar á reglum um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris. Vonast var til að sú breyting, sem kvað á um að lækkun bindingarhlutfalls á nýtt fjármagnsinnstreymi í skuldabréf og hávaxtainnstæður var lækkuð úr 20 prósent í 0 prósent, myndi örva erlenda fjárfestingu til landsins. Af því hefur ekki orðið af neinu marki.
Hreint innflæði nýfjárfestinga erlendis frá nam þvert á móti 32 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019, sem er þremur milljörðum krónum minna en á sama tímabili 2018.
Fjárfesting í atvinnulífinu er einfaldlega að verða vandamál. Íslensku bankarnir eru ekki að lána og fjárfestingin virðist ekki ætla að koma að utan. Áhuginn virðist bara ekki vera til staðar. Þar spilar krónan hlutverk þótt fleira komi til.
Staðreynd málsins virðist einfaldlega vera sú að okkur vegnaði betur í höftum en án þeirra. Eftir að þau voru afnumin hefur ríkt, að mestu ákveðin stöðnun.
Peningaþvættisógnin
Með því að vera með eigin gjaldmiðil þá erum við auðvitað í þeirri stöðu að það gæti verið áhugi á allskyns spákaupmennsku með hann. Það höfum við auðvitað séð oft í sögunni, af hendi bæði innlendra og erlendra aðila, þar sem markmiðið er hagnaður af styrkingu eða veikingu krónunnar. Taka stöðu með eða á móti henni.
Önnur hætta er síðan peningaþvætti, líkt og mikið hefur verið rætt um undanfarin misseri, sérstaklega eftir að peningaþvættisvarnir Íslands fengu falleinkunn hjá Financial Action Task Force (FATF) í apríl 2018 og að landið var sett á gráan lista samtakanna í október í fyrra eftir að margháttaðar aðgerðir sem ráðist var í til að bæta stöðuna þóttu ekki nægjanlegar.
ÍÍ áhættumati sem ríkislögreglustjóri birti í fyrra vegna peningaþvættisógnar fyrir Ísland kom fram að mikil áhætta á peningaþvætti hefði fylgt afléttingu fjármagnshafta á Íslandi. Sú áhætta var margþætt og grípa þarf til margháttaðra aðgerða til að laga stöðuna, meðal annars vegna þess að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans skortir þekkingu á hættumerkjum og aðferðum við peningaþvætti.
Engar lagalegar skyldur hafa hvílt á Seðlabankanum vegna aðgerða gegn peningaþvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjaldeyriseftirliti og losun hafta á undanförnum árum þegar hundruð milljarða króna hafa verið flutt til og frá landinu. Þá hefur bankinn ekki getað miðlað þagnarskyldum upplýsingum í tengslum við gjaldeyriseftirlitið til þar til bærra aðila vegna skorts á lagaheimild.
Í áætlun íslenskra stjórnvalda gegn peningaþvætti sem birt var í fyrrahaust kom fram að það eigi að bregðast við þessari miklu áhættu á allra næstu vikum og mánuðum.
Vandamálið við áætlunina er að hún var birt í september 2019, en fjarmagnshöftunum, sem höfðu verið við lýði frá því í nóvember 2008, var að mestu verið aflétt 12. mars 2017.
Því liggur fyrir að þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á hinni afar áhættusömu peningaþvættisleiðum sem höftin buðu upp á eru gerðar nokkrum árum eftir að höftin voru tekin niður.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði