Miðvikudaginn 22. janúar síðastliðinn hringdi síminn á skiptiborði Kaupmannahafnarborgar. Sá sem hringdi var Zhang Shu stjórnmálafulltrúi kínverska sendiráðsins í Danmörku. Hann óskaði eftir að fá að tala við þann sem hefði með að gera leyfisveitingar fyrir myndastyttum á almannafæri í borginni. Eftir að sendiráðsfulltrúinn hafði útskýrt erindið nánar fékk hann samband við embættismann hjá borginni.
Sendiráðsfulltrúinn sagði að starfsfólki sendiráðsins hefði borist til eyrna að til stæði að setja upp myndastyttu framan við Kristjánsborgarhöllina, og spurði hvort það væri rétt. Nánar tiltekið myndastyttuna Skamstøtte eftir listamanninn Jens Galschiøt, og hvort tilstæði að afhjúpa þessa styttu með viðhöfn. Jú, embættismaðurinn sagði að það væri rétt, það yrði gert daginn eftir, föstudaginn 23. janúar. Þá spurði Kínverjinn hvort embættismaður frá borginni yrði viðstaddur þessa athöfn, því var svarað játandi. Þá var spurt hvaða reglur giltu um uppsetningu slíkra verka á almannafæri. Embættismaðurinn útskýrði reglurnar og sagði að varðandi þetta tiltekna verk hefði öllum reglum verið fylgt.
Hvað þýðir Skamstøtte – Níðstöng
Áður en lengra er haldið er rétt að útskýra þetta orð, Skamstøtte. Dönsk -íslensk orðabók segir skamstøtte þýða níðstöng á íslensku. Níðstöng er stöng sem á er rist níð eða tákn og reist til háðungar eða höfuðs óvini, eða til að magna galdur gegn honum. Í Íslendingasögunum er sagt frá því að menn hafi rist níðkvæði á slíkar stangir og sett á þær hrosshaus sem látinn var vísa í átt að bústað óvinarsins.
Í dönsku er merkingin ekki sú sama. Samkvæmt Stóru dönsku orðabókinni er skamstøtte minnisvarði sem sýnir fyrirlitningu á þeim sem minnisvarðinn er tileinkaður og öðrum til áminningar. Þekktasti minnisvarði af þessu tagi í Danmörku er tileinkaður Corfitz Ulfeldt sem dæmdur var til dauða (að honum fjarstöddum) fyrir föðurlandssvik árið 1663.
Jens Galschiøt og Skamstøtten
Skapari styttunnar sem stendur við Kristjánsborgarhöllina í Kaupmannahöfn er Jens Galschiøt, fæddur árið 1954. Hann lærði járnsmíði við skipasmíðastöðina í Munkebo á Fjóni. Hann hefur enga formlega menntun í myndlist en er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna Dana. Eitt þekktasta verk hans er það sem áður var nefnt, Skamstøtten. Listamaðurinn segir hugmyndina að því verki komna frá minnisvarðanum um Corfitz Ulfeldt.
Skamstøtten er átta metra há súla sem sýnir fimmtíu deyjandi, eða dánar manneskjur í fullri stærð.
Meira um símtalið
Kínverski sendiráðsfulltrúinn fékk sem sé staðfest að listaverkið yrði sett upp, með leyfi borgarinnar, og lýsti óánægju með þá ákvörðun. Sagði að Kínverjar teldu styttuna gefa ranga mynd af ástandinu í Hong Kong og að kínversk stjórnvöld teldu uppsetningu hennar afskipti af kínverskum innanríkismálum. Hún myndi særa þá fjölmörgu kínversku ferðamenn sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar og skoða höllina. Ennfremur sagði hann að syttan myndi skaða samskipti Kínverja og Dana, og það vinsamlega andrúmsloft sem ríkt hefði milli þjóðanna. Tjáningarfrelsi væri ekki afsökun fyrir að blanda sér í innanríkismál annarra þjóða.
Loks sagði hann það hyggilegt að afturkalla leyfi fyrir uppsetningu styttunnar, í augum Kínverja væri ekki ásættanlegt að hún yrði sett upp. Þótt kínverski sendiráðsfulltrúinn væri kurteis fór ekki á milli mála, að mati embættismannsins sem við hann ræddi, að í orðunum fólst hótun og tilraun til afskipta af dönskum innanríkismálum. Símtalinu lauk með því að danski embættismaðurinn mælti með að kínverska sendiráðið hefði samband við danska utanríkisráðuneyti varðandi málið ef slíkt teldist nauðsynlegt.
Yfirlýsing sendiráðsins
Það var dagblaðið Jótlandspósturinn sem greindi fyrst frá málinu 31. janúar sl. Skömmu síðar birti kínverska sendiráðið í Danmörku yfirlýsingu á heimasíðu sinni. Þar er myndastyttan sögð and kínversk, hún hylli öfgafólk í Hong Kong og hrósi ofbeldisfullum gerðum þess. Tilgangurinn sé að blanda sér í málefni Hong Kong, og kínversk innanríkismál. Draga Hong Kong niður í svaðið og skaða orðspor Kína.
Listamaðurinn, Jens Galschiøt, neitar því að styttan sé and kínversk og ögrandi. Ég geri þetta til að styðja þá íbúa Hong Kong sem berjast fyrir lýðræði og ef Kínverjar telja það ögrun get ég ekki gert að því. Sem Dani hef ég fullan rétt á því að segja skoðun mína og sem betur fer ákváðum við í þessum heimshluta að hér megi fólk segja skoðun sína, bæði í orðum og verki. „Skamstøtten lýsir þjáningum og fjöldamorði. Fjöldamorð er glæpur gegn manneskjunni“.
Danskir þingmenn sem Jótlandspósturinn og fleiri danskir fjölmiðlar hafa rætt við segjast furða sig á að Kínverjar haldi að þeir geti, með hótunum, stjórnað dönskum innanríkismálum. Jeppe Kofod utanríkisráðherra segir að kínverska sendiráðið hafi að sjálfsögðu leyfi til að lýsa áliti sínu. Hann nefndi sérstaklega að Kaupmannahafnarborg hefði ekki brugðist við þessum „ábendingum“ Kínverjanna.
Styttan á að standa fyrir framan Kristjánsborgarhöllina til 21. apríl næstkomandi.