Fræg er sagan af bóndanum í Texas sem skömmu fyrir aldamótin 1900 boraði eftir vatni á landareign sinni. Vonbrigði hans urðu mikil þegar uppúr hverri borholunni á eftir annari spýttist, ekki vatn heldur olía. „Ég leita að vatni en hvað fæ ég, olíu. Mig vantar vatn en ekki olíu.“ Á sögusafninu í Austin í Texas er ítarlega fjallað um upphaf olíuvinnslu í Bandaríkjunum og þar er sýnd heimildamynd um áðurnefndan bónda sem er sagður vera sá fyrsti til að uppgötva olíuna á þessum slóðum. Við lítinn eigin fögnuð eins og ummælin sýna.
Þetta var í upphafi olíualdar og fæsta grunaði hve stórt og mikilvægt hlutverk olían ætti eftir að leika í efnahagslífi þjóða heims. Sú saga verður ekki rakin nánar hér en eins og flestir vita hefur olíuvinnsla skapað mörgum þjóðum mikinn auð. Nærtækasta dæmið er Noregur sem safnað hefur í mjög digran sjóð, olíusjóðinn svonefnda. Olían hefur líka margoft orðið tilefni átaka þar sem barist hefur verið um yfirráð þessarar miklu auðlindar.
Ekki ótakmörkuð auðlind
Langt fram eftir síðustu öld leiddu fæstir hugann að því að olían, sem pumpað var úr iðrum jarðar, væri kannski ekki ótakmörkuð. Því meira sem fannst af „svarta gullinu“ og því hraðar sem olíudælurnar snerust því betra. Meira magn þýddi lægra verð, það var gott fyrir kaupendurna. Lægra verð var ekki að sama skapi gott fyrir seljendur, olíuríkin svonefndu. Þrátt fyrir vilja sumra þeirra til að takmarka olíuvinnsluna hafa innbyrðis átök og deilur, ásamt margháttuðum hagsmunum, orðið til þess að samstaða hefur sjaldnast náðst. Margar þjóðir, sem ekki ráða yfir olíulindum, eiga mikið undir olíuverðinu.
Á síðari hluta síðustu aldar fóru af og til að berast fréttir um að kannski væri olían í iðrum jarðar ekki óþrjótandi. Lítið breyttist en smám saman fór röddum af þessu tagi fjölgandi.
Sól, vindur, hafstraumar, fallvötn og kjarnorka
Á þessari öld hefur umræðan um „nýja orkugjafa“ sem leyst gætu olíuna af hólmi orðið æ fyrirferðarmeiri. Því veldur einkum tvennt: álit vísindamanna þess efnis að olían sé ekki óþrjótandi og á allra síðustu árum hlýnun jarðarinnar. Hér verður ekki rakin sú mikla umræða en æ fleiri beina nú sjónum sínum að öðrum orkugjöfum en olíunni. Bílaframleiðendur keppast hver við annan um að framleiða bíla sem nýta rafmagn sem orkugjafa, sólarorka er í mörgum löndum orðin mikilvægur þáttur í raforkuframleiðslu, vindmyllum fjölgar eins og gorkúlum og svo framvegis. Allt til höfuðs olíunni, eins og þekktur þjóðhöfðingi komst að orði.
Grænlenska landsstjórnin trúir á framtíð olíunnar
Þrátt fyrir að aðrir orkugjafar en olían sæki sífellt á bendir allt til þess að olían verði um langa framtíð mikilvægur orkugjafi.
Grænlendingar eru meðal þeirra þjóða sem lengi hefur átt sér olíudraum. Árið 1969 var fyrst leitað að olíu á grænlensku landsvæði en þrátt fyrir vísbendingar um að víða í landinu gæti olíu verið að finna hefur til þessa ekkert komið út úr slíkri leit. Smám saman dró svo úr olíuleitinni. Ástæðurnar voru aukinn áhugi á öðrum orkugjöfum eins og áður var nefnt og margir sérfræðingar telja olíuvinnslu á þessum slóðum erfiða, þó svo að olía fyndist.
Árið 2010 fengu Grænlendingar aukin umráð yfir auðlindum sínum, „råstofområdet“. Síðan þá hafa grænlenskir stjórnmálamenn lagt mikla áherslu á olíuleitina og boðið stórum alþjóðlegum olíuvinnslufyrirtækjum að leita eftir olíu. Áhuginn hefur þó farið dvínandi en grænlenska landstjórnin hefur ekki lagt árar í bát. Nýverið samþykkti landsstjórnin nýja olíu- og gasáætlun, henni er ætlað að auka áhuga stórra olíuvinnslufyrirtækja á olíuleit og vinnslu. Í stuttu máli gengur áætlunin út á að fyrirtæki sem taka að sér olíuleit fái sérstaka skattafslætti og jafnframt úthlutað vinnslusvæðum.
Formaður grænlensku landsstjórnarinnar, Kim Kielsen, hefur undanfarið farið víða um lönd og kynnt hugmyndir Grænlendinga. Í liðinni viku hitti hann forstjóra nokkurra stórra olíuvinnslufyrirtækja í Lundúnum. Þangað kom hann beint frá Houston í Texas þar sem hann hélt erindi og kynnti hugmyndir Grænlendinga á ráðstefnu um framtíð og horfur í olíuvinnslu.
Ekki allir jafn hrifnir
Hugmyndir Grænlendinga vekja ekki allsstaðar hrifningu. Formaður Grænfriðunga á Norðurslóðum (Greenpeace Norden) kveðst undrandi á þessum hugmyndum Grænlendinga og hvetur þá til að leita annarra leiða til að styrkja efnahag sinn. „Að mínu mati er Grænland óheppilegasti staður jarðarinnar til olíuvinnslu, ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum.“ Nokkrir danskir þingmenn hafa lýst svipuðum viðhorfum en leggja áherslu á að það sé Grænlendinga að ákveða.
Alls eru svæðin sem um er að ræða, og grænlenska þingið og landsstjórnin hefur samþykkt, fimm talsins. Opnað verður fyrir umsóknir um leit og vinnslu á fyrsta svæðinu í þessum mánuði. Þar er um að ræða Nuussuaq skagann við Disko flóa. Síðar á þessu ári verður opnað fyrir umsóknir á tveimur svæðum við vesturströnd Grænlands, á næsta ári eitt svæði á Norð-austur Grænlandi og á fimmta svæðinu, miðaustur- Grænlandi, í janúar 2022.