Rekstrartekjur Símans af sjónvarpsþjónustu voru 75 prósent af auknum tekjum félagsins á síðasta ársfjórðungi 2019, samanborið við sama tímabil árið áður. Alls jukust rekstrartekjurnar af sjónvarpi um 263 milljónir króna á síðustu þremur mánuðum síðasta árs og voru 1.567 milljónir króna.
Ástæðan er einföld: enski boltinn sem Síminn selur í gegnum nýlega vöru, Símann Sport. Síminn keypti réttinn af sýningu hans árið 2018 og fékk yfirráð yfir honum við upphaf yfirstandandi tímabils, sem hófst í ágúst 2019. Því var síðasti ársfjórðungur 2019 sá fyrsti sem félagið seldi Símann Sport í heilan slíkan.
Eini starfsþátturinn utan sjónvarpsþjónustu sem skilaði tekjuaukningu hjá Símanum var upplýsingatækni sem jókst um 133 milljónir króna og gagnaflutningur sem jókst um 58 milljónir króna.
Þegar horft er á árið 2019 í heild jukust rekstrartekjur Símans vegna sjónvarpsþjónustu um 818 milljónir króna. Rekstrartekjur af öllum hinum starfsþáttum félagsins samanlagt drógust hins vegar saman um 287 milljónir króna, og er þar talið með 427 milljón króna tekjuaukning í upplýsingatækni. Því hefðu rekstrartekjur Símans, sem voru tæplega 29,1 milljarðar króna og jukust alls um 531 milljón króna í fyrra, dregist saman ef ekki hefði verið fyrir aukninguna í sjónvarpsþjónustunni.
Viðskiptavinum í „Heimilispakka“ fjölgaði um 4.250
Áskriftarsala að Símanum Sport, sem sýnir leiki úr ensku úrvalsdeildinni, hófst í fyrrasumar. Stök áskrift var seld á 4.500 krónur en á sama tíma var hins vegar greint frá því að allir áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium, sem voru þá þegar 35 til 40 þúsund, myndu fá aðgang að enska boltanum. Um leið var mánaðarverðið fyrir þá þjónustu hækkað úr fimm þúsund krónum í sex þúsund krónur. Á ársgrundvelli þýðir það að tekjur Símans vegna þeirra breytinga jukust um 420 til 480 milljónir króna áður en að búið var að selja eina einustu áskrift.
Á milli þess tíma sem Síminn keypti réttinn að enska boltanum og þess tíma sem áskrift að honum var bætt inn í Premium áskriftarleiðina var verðmiðinn á Heimilispakkanum hækkaður tvívegis, um samtals eitt þúsund krónur, annars vegar í byrjun mars 2019 og hins vegar í byrjun ágúst 2019. Langflestir Premium áskrifendur eru með þá áskrift í gegnum Heimilispakkann.
Viðskiptavinum Símans í þeim fjölgaði um 4.250 í fyrra. Um helmingur þeirrar fjölgunar kom á fjórða ársfjórðungi, þegar áhrifin af tilurð Símans Sport voru að fullu að koma fram. Þeim sem keyptu internet af félaginu fjölgaði einnig um 1.700 á síðasta ári.
Ný arðgreiðslustefna þýðir hraðari útgreiðsla á eigin fé
Hagnaður af rekstri Símans í fyrra var tæplega 3,1 milljarður króna, en hafði verið 282 milljónir króna árið 2018. Eignir félagsins námu 65,5 milljörðum króna í árslok og eigið fé þess var 36,6 milljarðar króna á sama tíma. Því var eiginfjárhlutfallið 55,9 prósent.
Í fyrra greiddi Síminn 330 milljónir króna í arð til hluthafa sinna í takti við arðgreiðslustefnu sem fól í sér að framkvæmd yrði annað hvort arðgreiðslur eða endurkaup á bréfum sem nemi 20 til 50 prósent af hagnaði félagsins eftir skatt.
Nú hefur hins vegar verið samþykkt ný arðgreiðslustefna innan Símans en umtalsverðar breytingar urðu í hluthafahópi félagsins í fyrra. Fjárfestingafélagið Stoðir, sem er líka á meðal stærstu eigenda Arion banka og tryggingafélagsins TM, hóf stórtæk uppkaup á bréfum í Símanum á árinu 2019 og er nú stærsti hluthafinn með 14,05 prósent eignarhlut. Jón Sigurðsson, starfandi stjórnarformaður Stoða, tók sömuleiðis við sæti stjórnarformanns Símans á síðasta ári.
Samkvæmt nýrri arðgreiðslustefnu sem sett hefur verið af stjórn Símans stefnir félagið nú að því að greiða hluthöfum árlega arð eða framkvæma endurkaup sem nemur að lágmarki 50 prósent af hagnaði eftir skatta. Á komandi aðalfundi, sem verður haldinn 12. mars næstkomandi, verður því óskað eftir heimild til að greiða út 500 milljónir króna í arð, að lækka hlutafé félagsins um 500 milljónir króna að nafnvirði og að kaupa allt að tíu prósent af hlutafé Símans á næstu 18 mánuðum.
Markaðsvirði Símans er sem stendur rétt yfir 50 milljarðar króna og því felur nýja stefnan í sér að kaupa hlutabréf af eigendum fyrir um fimm milljarða króna á einu og hálfu ári.