Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem felur meðal annars í sér að komið verður á fót skrá um bankareikninga og eigendur þeirra sem eftirlitsaðilar geta nýtt við að rannsókn brota á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í skránni verða einnig upplýsingar um umboðsaðila reikningseiganda, raunverulega eigendur lögaðila sem og upplýsingar um leigutaka geymsluhólfa. Þá verður komið á fót lista yfir þau háttsettu opinberu störf sem teljast tengjast áhættu vegna stjórnmálalegra tengsla auk þess sem skilgreiningu á þeim áhættuhópi verður breytt þannig að til þess hóps teljist einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka í stað framkvæmdastjórna eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.
Frumvarpsdrögin, sem mun breyta nýlegum lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti fjármögnun hryðjuverka, eiga að ljúka við innleiðingu á fimmtu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins auk þess að gera nokkrar aðrar breytingar, verði Þau að lögum.. Markmið gerðarinnar er a koma í veg fyrir notkun á fjármálakerfinu til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka.
Miðlæg skrá fyrir skrifstofu fjármálagreininga
Skráin yfir eigendur bankareikninga og leigutaka geymsluhólfa á að vera miðlæg og starfsmenn skrifstofu fjármálagreininga lögreglu, sem sinna peningaþvættiseftirliti, munu hafa aðgang að skránni í störfum sínum.
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að verkefnið muni hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð. „Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við kerfið falli einkum til í upphafi við að koma því á fót. Einnig mun rekstur kerfisins auka verkefni hins opinbera til framtíðar þar sem tryggja þarf að gögn skili sér með réttum hætti auk þess að þróa þarf kerfið og viðhalda því. Tilkoma skrárinnar mun á móti hafa í för með sér hagræði og vinnusparnað fyrir eftirlitsaðila með peningaþvætti og þannig flýta fyrir vinnu við eftirlit og rannsóknir.“
Gerðinni er meðal annars ætlað að bregðast við hryðjuverkaárásum í Evrópu með því að setja auknar skorður við fjármögnun slíkrar starfsemi. Auk þess er með henni brugðist við tækniframförum sem fela ekki aðeins í sér tækifæri fyrir löglega starfsemi heldur einnig brotastarfsemi og er í greinargerð sérstaklega fjallað um þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla. Þá eru með innleiðingunni settar frekari skorður við nafnlausri notkun fyrir fram greiddra korta, komið á áðurnefndri skrá um bankareikninga og eigendur þeirra sem eftirlitsaðilar geta nýtt við að rannsókn brota á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverk og lista yfir þau háttsettu opinberu störf sem teljast tengjast áhættu vegna stjórnmálalegra tengsla.
Ísland áfram á gráum lista
Ísland var sett á gráan lista samtakanna Financial Action Task Force (FATF) í október í fyrra vegna þess að samtökin telja að varnir landsins gegn peningaþvætti séu ekki í lagi. Á fundi samtakana í febrúar 2020 var staða Íslands á listanum ekki endurskoðuð. Næsti möguleiki fyrir Íslands til að losna af gráa listanum er í júní.
Á gráa listanum eru alls 18 ríki. Ísland er eina ríkið innan Evrópska efnahagssvæðisins sem er á honum en á meðal annarra sem þar er að finna eru Albanía, Kambódía, Bahamaeyjar, Pakístan, Sýrland, Panama og Simbabve.
Í umsögn um Ísland, á undirsíðu samtakanna þar sem talin eru upp þau lönd sem eru á gráum lista fyrir ónógar aðgerðir gegn peningaþvætti, kemur fram að Ísland hafi tekið nokkrar pólitískar ákvarðanir um að skuldbinda sig til að auka virkni varna sinna. Á meðal þess sem gert hafi er að fjölga starfsmönnum í þeim eftirlitsstofnunum sem hafa slíkt eftirlit með höndum, sérstaklega innan skrifstofu fjármálagreininga hjá héraðssaksóknara. Þar segir að Ísland ætti að halda áfram að innleiða áætlun sína um að bæta úr brotalömum þar sem þær eru að finna, meðal annars með því að mæti fyrirliggjandi skorti á réttum upplýsingum um raunverulega eigendur fyrirtækja.