Það dropar á glerþakið milli kvenna og peninga en fáar sprungur myndast
Sjöunda árið í röð framkvæmdi Kjarninn úttekt á því hver kynjahlutföll séu á meðal þeirra sem stýra peningum á Íslandi. Þrátt fyrir miklar hræringar, þar sem meðal annars var skipt um forstjóra hjá átta skráðum félögum, er niðurstaðan sú sama og áður: Karlar halda þéttingsfast um veskið í íslensku efnahagslífi og þar með um völdin sem því fylgja.
Í september 2013 tóku að fullu gildi lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Upphaflega voru lögin samþykkt 2010. Frumvarpið var þá samþykkt með atkvæðum 32 þingmanna úr öllum flokkum sem sæti áttu á þingi nema Sjálfstæðisflokki. Ellefu þingmenn greiddu ekki atkvæði.
Samkvæmt lögunum ber fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmenn að tryggja að hlutfall hvors kyns í stjórnum sé ekki undir 40 prósentum.
Það var ekki að ástæðulausu að ráðist var í slíka lagasetningu. Árið 2007 var hlutfall kvenna í stjórnum slíkra fyrirtækja 12,7 prósent.
Í greinargerð með frumvarpinu, sem þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fram, sagði að markmið þess værið að stuðla að jafnari hlutföllum kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum“.
Það markmið hefur aldrei náðst.
Sjö úttektir en litlar breytingar
Fyrst ber að nefna að hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja á Íslandi hefur aldrei náð því að verða 40 prósent. Í árslok 2017 var það 32,6 prósent. Síðla árs 2018 birti Félag kvenna í atvinnurekstri niðurstöðu greiningar sem Deloitte vann fyrir það sem sýndi að hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins var einungis 26 prósent. Konur voru tíu prósent forstjóra og 19 prósent stjórnarformanna.
Samandregið þá benda allar tölur til þess að löggjöfin um kynjakvóta í stjórnum hafi hvorki skilað því að 40 prósent stjórnarmanna í stórum fyrirtækjum séu konur né að það skili sér í því að mun fleiri konur séu ráðnar til að stýra fjármagni á Íslandi.
Litlar breytingar á sjö árum
Kjarninn hefur framkvæmt úttekt á því hvers kyns þeir sem stýra fjármagni á Íslandi eru árlega frá 2014. Úttektin nú er því sú sjöunda sem framkvæmd hefur verið.
Í ár nær hún til 96 æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða.
Niðurstaðan nú er sú að 83 þeirra eru karlar en þrettán eru konur. Konum fjölgar um þrjár á milli ára en körlum um fjóra, vegna ýmissa breytinga sem orðið hafa á eftirlitsskyldum aðilum á árinu. Hlutfall kvenna á meðal helstu stjórnenda fjármagns á Íslandi fer með því úr 11,1 prósent í 13,5 prósent milli áranna 2019 og 2020.
Þessi hópur sem fellur undir úttektarskilyrðin stýrir samtals þúsundum milljarða króna og velur í hvaða fjárfestingar þeir peningar rata hverju sinni.
Frá því að Kjarninn gerði úttekt sína fyrst hefur konunum sem hún nær til fjölgað um helming, farið úr sex í tólf. Körlunum hefur hins vegar líka fjölgað, alls um tvo, og eru nú líkt og áður sagði 84. Og hlutfallslega bilið milli þeirra ekki lækkað sem neinu nemur.
Ef 16 af stærstu einkafjárfestum landsins eru einnig taldir með þá breytist myndin aðeins. Körlunum fjölgar í 100 en konurnar eru 16. Hlutfall kvenna fer því upp í 16 prósent.
Því er ljóst að þótt dropi á glerþakið, þá virðist langt í að það myndist sprungur í því.
Miklar sviptingar á árinu 2019
Árið 2019 var þrátt fyrir allt ár mikilla breytinga. Fyrst ber að nefna að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóðs landsins, ákvað að hætta störfum. Það vakti mikla athygli þegar Harpa Jónsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, var ráðin í starfið. Þar með varð hún fyrsta konan til að stýra einum af „fjórum stóru“ lífeyrissjóðum landsins, en sá hópur telur líka Lífeyrissjóð verzlunarmanna, Gildi og Birta.
Samkvæmt nýbirtri samantekt fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands námu eignir LSR 1.019 milljörðum króna um síðustu áramót, eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 867 milljörðum króna, Gildis 657 milljörðum króna og Birtu 430 milljörðum króna. Samanlagt eru eignir þessara fjögurra sjóða nálægt þrjú þúsund milljörðum króna eða um 57 prósent af lífeyri landsmanna.
Það voru líka töluverðar breytingar í bankaheiminum. Bæði Arion banki og Kvika skiptu um bankastjóra. Þar voru þó ráðnir tveir karlar í stað tveggja karla. Vert er að taka fram að tvær konur stýra tveimur af fjórum stærstu bönkum landsins, þær Birna Einarsdóttir í Íslandsbanka og Lilja Björk Einarsdóttir í Landsbankanum. Það vekur þó athygli að konurnar starfa báðar í bönkum sem eru í ríkiseigu.
Átta félög skiptu um forstjóra og átta karlar tóku við
Fyrir utan Arion banka og Kviku, sem báðir eru skráðir á aðallista Kauphallar Íslands, þá hafa sex önnur skráð félög um forstjóra á síðastliðnu ári. Það þýðir að átta af þeim 20 félögum sem skráð eru á aðallista, eða 40 prósent þeirra, skiptu um einstakling í brúnni.
Í öllum tilfellum var karli skipt út fyrir karl, enda stýra engar konur skráðu félagi á Íslandi. Þannig hefur það raunar verið frá því að Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur var sagt upp hjá VÍS í ágúst 2016.
Á Íslandi eru fjórir sparisjóðir enn starfandi. Þremur þeirra er stýrt af körlum en einum af konu. Það er Sparisjóður Suður-Þingeyinga sem er stýrt af sparisjóðsstjóranum Gerði Sigtryggsdóttur.
Þá lúta alls fjögur skilgreind lánafyrirtæki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Einu þeirra, Lykli, er styrt af konu, Lilju Dóru Halldórsdóttur, en að öðru leyti halda karlmenn um þræðina innan þeirra. Um að ræða stór fyrirtæki og stofnanir. Hin fjögur eru Borgun, Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðastofnun.
Framtíðin lánasjóður er skráður eftirlitskyldur lánveitandi. Í byrjun mars 2018 var kona, Vala Halldórsdóttir, ráðinn sem framkvæmdastjóri hans í stað karls. Þegar Framtíðin færðist yfir til Kviku frá GAMMA, þegar bankinn keypti fjármálafyrirtækið, tók Rósa Kristinsdóttir við af Valgerði.
Þá eru tvö hagnaðardrifinn leigufélög í landinu, Almenna leigufélagið og Heimavellir. Öðru er stýrt af konu, Maríu Björk Einarsdóttur, en hinu karli.
Karlægni allsráðandi hjá verðbréfafyrirtækjunum
Að venju er kynjastaðan verst hjá verðbréfafyrirtækjum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða, þeirra sem hagnast af því að flytja peninga frá þeim sem eiga þá og í þau viðskiptatækifæri sem skapast, og þiggja þóknanatekjur fyrir. Stærstu viðskiptavinir flestra þeirra eru íslenskir lífeyrissjóðir.
Samkvæmt yfirlitslista Fjármálaeftirlitsins eru níu verðbréfafyrirtæki starfandi á Íslandi. Þau eru ALM Verðbréf, Arctica Finance, Arev verðbréfafyrirtæki, Centra Fyrirtækjaráðgjöf, Fossar markaðir, Íslensk verðbréf, Íslenskir fjárfestar, Jöklar-Verbréf og T Plús. Öllum er stýrt af körlum. Og þorri starfsmanna þeirra allra eru líka karlar.
Rekstrarfélög verðbréfasjóða eru líka níu talsins. Þau heita Akta sjóðir, GAMMA, Íslandssjóðir, ÍV sjóðir, Júpíter rekstrarfélag, Landsbréf, Rekstrarfélag Virðingar, Stefnir og Summa rekstrarfélag. Þrjú þeirra skiptu um æðsta yfirmann á síðasta ári. Í öll skiptin var karl ráðinn í stöðuna. Öllum rekstrarfélögum verðbréfasjóða er því áfram sem áður stýrt af körlum.
Hjá innheimtuaðilum (Aur app, Fjárvakur, Inkasso, Momentum, Motus og Premium) er staðan þannig að stjórnendurnir eru Þrír karlar og tvær konur. Önnur þeirra, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, er framkvæmdastjóri Icelandair en Fjárvakur var fært úr því að vera sjálfstæð eining og undir sviðið í fyrra.
Einn skiptimarkaður með sýndarfé er eftirlitsskyldur á Íslandi, fyrirtækið Skiptimynt ehf. Því er stýrt af karli. Þá eru tvær skráðar greiðslustofnanir, Kortaþjónustan og Valitor. Báðum var stýrt af körlum þar til nýverið þegar forstjóri Valitor sagði upp. Herdís Fjelsted, stjórnarformaður Valitor, tók við stöðuna tímabundið og telst Valitor því vera stýrt af konu, þrátt fyrir að að ráðning Herdísar sé yfirlýst tímabundin.
Herdís stýrði áður Framtakssjóði Íslands, sem var umsvifamikill umbreytingarfjárfestir á Íslandi á eftirhrunsárunum, og þá í eigu lífeyrissjóða og um tíma ríkisbanka. Þótt hlutverki Framtakssjóðsins sé að mestu lokið þá er hann enn starfandi, lýtur eftirlitsskyldu og er stýrt af karli.
Þá eru átta orkufyrirtæki í landinu. Lengi vel var þeim öllum stýrt af körlum en 2018 var Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar í kjölfar mikilla átaka innan þess fyrirtækis vegna meintrar kynferðislegrar áreitni.
Stjórnmál og stjórnsýsla
Þegar horft er víðar á áhrifastöður í samfélaginu, þar sem peningum er auðvitað stýrt, en þó með öðrum hætti en í viðskiptalífinu, hallar víða enn á konur. Í ríkisstjórn er kynjahlutfallið til að mynda enn körlum í hag. Þar sitja sex karlar og fimm konur. Forsætisráðherra er hins vegar konan Katrín Jakobsdóttir. Það er í annað sinn í lýðveldissögunni sem kona situr í því embætti. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem var forsætisráðherra 2009-2013.
Þá er seðlabankastjóri karl en af þremur varaseðlabankastjórum eru tvær konur, Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir.
Á Alþingi eru 24 kjörnar konur. Þær dreifast ójafnt á flokka. Miðflokkurinn, nú stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, samanstendur til að mynda af átta körlum og einni konu. Hjá Sjálfstæðisflokknum eru tólf karlar og fjórar konur.Hjá Pírötum eru karlarnir fjórir en konurnar tvær og hjá Samfylkingu eru karlarnir fjórir en konurnar þrjár. Kynjahlutfallið í tveimur minnstu þingflokkunum, hjá Viðreisn og Flokki fólksins sem samanlagt eru með sex þingmenn, eru jafnt.
Einungis tveir þingflokkar eru með fleiri konur innanborðs en karla: annars vegar Vinstri græn, þar sem konurnar eru sex og karlarnir fimm, og hins vegar Framsóknarflokkurinn, þar sem konurnar eru fimm en karlarnir þrír. Allir karlarnir þrír hjá Framsóknarflokknum eru þó í mjög áhrifamiklu stöðum: tveir eru ráðherrar og sá þriðji formaður fjárlaganefndar, áhrifamestu þingnefndar Alþingis.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði