Að hægja á útbreiðslu veirunnar „mun bjarga mannslífum“
Ætti ekki bara að leyfa nýju kórónuveirunni að hafa sinn gang, að smitast milli sem flestra svo að faraldurinn fjari sem fyrst út? Stutta svarið er: Nei. Langa svarið er: Nei, alls ekki.
Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til að hefta og hægja á útbreiðslu COVID-19 hér á landi eru bráðnauðsynlegar og lykilatriði til að tryggja að heilbrigðiskerfið geti tekist á við verkefnið. Þetta sagði í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í gær.
Það er ástæða fyrir því að þessi skilaboð voru gefin út. Einhverjir hafa verið að spyrja sig hvort allar þær varúðarráðstafanir sem gripið hefur verið til séu að gera eitthvað gagn, skipta einhverju máli. Er ekki alveg eins gott að leyfa þessari blessuðu veiru að gera sitt og fara svo sem fyrst?
Helsta markmiðið í baráttu gegn farsóttum og faröldrum er að koma í veg fyrir útbreiðslu. Það er hins vegar ekki alltaf gerlegt eins og dæmin sýna. En þá er bráðnauðsynlegt að hægja á útbreiðslu með ýmsum aðgerðum. Þetta er ekki síst lykilatriði til að tryggja að heilbrigðiskerfi landa geti tekist á við verkefnið.
„Það skiptir ekki máli hversu margir fá þessa veiru, það skiptir máli hverjir fá hana,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi í dag.
Með því að hægja á útbreiðslu er hægt að koma í veg fyrir að margir veikist í einu og þannig er líklegra að innviðir samfélaga standist álag. Einnig gefur það framleiðendum bóluefna lengri tíma til rannsókna og viðbragða. Flest sjúkrahús eru starfhæf ef 10% starfsmanna eru fjarverandi en það eru þau mörg hver ekki þegar um helmingur starfsfólks kemst ekki til vinnu á sama tíma.
Í umræðu síðustu vikna hafa heyrst þær spurningar hvort best væri að leyfa COVID-19 að breiðast út hratt því þá muni faraldrinum ljúka hratt. „Það er uppskrift að skelfingarástandi, óþarfa þjáningum og dauðsföllum,“ hefur New York Times eftir Drew Harris, lýðheilsufræðingi við Thomas Jefferson-háskóla í Bandaríkjunum. „Það að hægja á útbreiðslu og dreifa yfir lengri tíma mun bjarga mannslífum.“
Að „fletja út kúrfuna“ heldur samfélögum gangandi, segir Harris.
Hann grípur til samlíkingar: Hugsið um heilbrigðiskerfið eins og lestarvagn. Í vagninum er aðeins pláss fyrir ákveðið margt fólk á hverjum tíma. Á háannatíma þá er plássið ekki nóg til að svara eftirspurn svo að fólk þarf að bíða eftir að röðin komi að sér. Að kvöldi styttist röðin í vagninn og líkur á því að þú fáir jafnvel sæti í honum aukast.
Sem sagt: Með því að hægja á útbreiðslu nýju kórónuveirunnar og þar með draga úr álagi á heilbrigðiskerfið á hverjum tíma aukast líkur á því að þeir sem þurfa að leita læknisaðstoðar fái hana.
„Það sem er alveg ljóst er að án þess að draga mjög úr hraða útbreiðslunnar þá munu heilbrigðiskerfi ekki ráða við ástandið,“ segir Richard Neher, sem starfar við Basel-háskóla í viðtali við VOX. Hann hefur verið að kortleggja getu sjúkrahúsa í Evrópu til að takast á við COVID-19.
Ljóst er að staðan er þegar orðin slæm á Ítalíu þar sem langflest tilfelli veirunnar hafa greinst utan Kína. Ekki er að fullu útskýrt af hverju veiran breiddist svo hratt út þar. Kenningar eru uppi um að hún hafi komið þangað jafnvel um miðjan janúar en ekki greinst fyrr en mörgum vikum síðar. Fólk með sýkinguna hafi jafnvel leitað til sjúkrahúsa í miklum mæli án þess að vita að það var með COVID-19. Það aftur varð til þess að um 10% alls heilbrigðisstarfsfólks í ákveðnum héruðum í norðurhluta landsins eru nú smituð.
Enn ein kenningin tengist svo háum meðalaldri ítölsku þjóðarinnar. Sýkingin leggst einna þyngst á eldra fólk og af því er fleira á Ítalíu en í flestum löndum Evrópu.
Hver svo sem skýringin er þá er gríðarlegt álag á ítalska heilbrigðiskerfinu þessa dagana. Reynslan sýnir að í slíku ástandi fjölgar ótímabærum dauðsföllum, þ.e.a.s. hættan á því að fólk sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda, vegna langvinnra sjúkdóma til dæmis, fær hana jafnvel ekki. „Það sem er hættulegt í faröldrum er að allir smitist á sama tíma og að heilbrigðiskerfin geti ekki brugðist við,“ segir Steven Hoffman sem starfar við York-háskóla. Aðgerðir sem beinist að því að minnka náin samskipti milli fólks hafa það helst að markmiði að minnka álag á heilbrigðiskerfið.
Sjúkdómar smitast frá einum manni til annars. Margir þættir hafa hins vegar áhrif á hversu hratt þetta gerist. Það fer til dæmis eftir því hversu smitandi bakterían eða veiran er, hversu margir eru sérlega viðkvæmir fyrir henni og hversu fljótt þeir veikjast.
Munurinn á hinni árstíðabundnu inflúensu og nýju kórónuveirunni er meðal annars sá að margir hafa að einhverju leyti myndað ónæmi fyrir þeirri veiru sem veldur flensu ár hvert og einnig standa bóluefni við henni til boða. Mun fleiri eru viðkvæmir fyrir nýju kórónuveirunni og þess vegna er hún mun meira smitandi og getur breiðst hratt út. Því virka þær aðgerðir sem stjórnvöld margra landa hafa nú gripið til; að ráðleggja fólki að forðast fjölfarna staði og jafnvel aflýsa mannamótum og margvíslegum viðburðum þar sem margir koma saman . Sóttkví og einangrun hefur einnig áhrif á það hversu hratt veiran getur breiðst út.
Margir vinna heima
Aftur er líkingin við lestarvagninn góð: Þéttsetinn lestarvagn og margmenni á lestarstöð eru dæmi um staði þar sem fólk er í miklu návígi hvert við annað og þar með eiga veirur og bakteríur auðveldara með að dreifa sér. En með því að fækka fólki í hverjum vagni og á hverri lestarstöð er hægt að koma í veg fyrir smit margra í einu.
Í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, hafa mörg fyrirtæki í Seattle, þar sem útbreiðslan er hvað mest, gripið til þess ráðs að biðja starfsfólk að vinna heima. Um 50 þúsund starfsmenn Microsoft eru til dæmis heimavinnandi þessa dagana.
Með aðgerðum sem þessum er þeim tækifærum þar sem smit getur átt sér stað fækkað. Og þetta hægir á útbreiðslunni.
Mikilvægt er að þeir sem eru viðkvæmastir, t.d. fólk með undirliggjandi sjúkdóma og aldraðir, gæti sérstakrar varúðar og hafa almannavarnir hér á landi beint þeim tilmælum til áhættuhópa halda sig heima við sé þess kostur og hafa bein samskipti við sem fæst fólk. Hér er að finna frekari leiðbeiningar til áhættuhópa.
Gamla, góða tuggan um mikilvægi handþvottar er aldrei of oft sögð. Að þvo sér reglulega um hendurnar með sápu og heitu vatni í 20-30 sekúndur í hvert skipti dregur úr líkum á smiti. Rétt er að forðast náið samneyti við fólk sem er með almenn kvefeinkenni, hnerra eða hósta, eins og raunhæft er. Fleiri góð ráð má finna hér.
Ráðgjöf vegna COVID-19 og mannamóta
Tilfellum nýju kórónaveirunnar hefur fjölgað hratt hér á landi undanfarna daga og vikur. Líkur eru á að hún haldi áfram útbreiðslu sinni í Evrópu næstu vikur og mánuði. Nú þegar hafa tugir tilfella komið upp hér á landi og hundruð eru í sóttkví eftir að hafa orðið útsett fyrir smiti.
Ekki er samkomubann í gildi á Íslandi en ekki er útilokað að gripið verði til slíkra aðgerða meðan unnið er að því að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar hér á landi. Því er eðlilegt að skipuleggjendur fjölmennra viðburða séu uggandi yfir stöðunni. Meðan faraldur geisar þarf ávallt að meta hvort rétt sé að halda viðburð eða hvort betra sé að fresta tilteknum viðburði þar til faraldur er genginn yfir.
Fyrir skipuleggjendur
Meðan ekkert samkomubann er í gildi er mikilvægt fyrir skipuleggjendur að gæta vel að smitvörnum á viðburðum, segir í leiðbeiningum landlæknis. Nauðsynlegt er að gestir hafi greiðan aðgang að heitu vatni og sápu, handspritti og einnota þurrkum.
Einnig er brýnt að skipuleggjendur taki mið af þeim hópi sem mun sækja viðburðinn. Vitað er að eldri borgarar og þeir sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma (t.d. sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnateppu, langvinna nýrnabilun og krabbamein) eru í mestri hættu með að fá alvarleg einkenni COVID-19.
Skipuleggjendur verða jafnframt að brýna fyrir þátttakendum að þeir sem eiga að vera í sóttkví eftir að hafa orðið útsettir fyrir smit eiga ekki að mæta á viðburðinn.
Þar sem ekki hefur verið sett á samkomubann þá er það á ábyrgð skipuleggjenda viðburða að taka upplýsta ákvörðun um framhaldið. Ef grunur leikur á að ekki verði hægt að tryggja öryggi einstaklinga sem eru í áhættuhópi eða að erfitt verði að tryggja gott aðgengi að hreinlætisaðstöðu, handspritti o.þ.h. er ráðlagt að taka til skoðunar hvort halda skuli viðburðinn.
Fyrir þátttakendur
Áður en ákveðið er að halda viðburð þarf hver og einn að meta stöðu sína vel. Almennt eigum við ekki að vera í mikilli nálægð við aðra þegar við finnum fyrir flensulíkum einkennum. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir þá sem annað hvort hafa verið á skilgreindum hættusvæðum eða verið í tengslum við einstaklinga með staðfest eða grunað smit. Þessir aðilar ættu að forðast samneyti við aðra einstaklinga og vera í sóttkví.
Á fjölmennum viðburði er einkar mikilvægt að huga vel að persónulegu hreinlæti; þvo hendur reglulega, nota handspritt þegar þörf krefur og hnerra eða hósta í einnnota þurrku eða í olnbogabótina, segir í nýjum leiðbeiningum frá landlækni.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
5. janúar 2023Íslendingar vilja að læknar veiti dánaraðstoð
-
31. desember 2022Viljinn er allt sem þarf
-
23. desember 2022Borgin varði 1,5 milljörðum í málaflokk heimilislausra á fyrstu 10 mánuðum ársins
-
20. desember 2022Kalla eftir „draumastað“ fyrir þau sem vilja hætta í vændi
-
15. desember 2022Fólk með fíknivanda talið besta tekjulindin
-
14. desember 2022Íslendingar eyddu 10,5 til 12 milljörðum króna í fjárhættuspil á síðasta ári
-
10. desember 2022SÁÁ sagðist vanta 450 milljónir til að þjónusta verði ekki skert 2023 en fær 120 milljónir
-
9. desember 2022Sjö tegundir hvíldar
-
7. desember 2022Yfirlæknir á bráðadeild segir vert að íhuga skorður á sölu og notkun flugelda