Félag Íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) lögðu til breytingartillögu við nýsamþykkt lög um hlutabætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, vegna áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar, sem fólu í sér að hálaunafólk myndi fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur ofan á þau laun sem atvinnurekandi þeirra greiddi þeim næstu mánuði.
Samkvæmt tillögunni átti til dæmis sá sem var með tvær milljónir króna í laun, en myndi fara í 50 prósent starf hjá atvinnurekanda, fá eina milljón króna frá honum áfram en fullar atvinnuleysisbætur, 456.404 krónur á mánuði, úr Atvinnuleysistryggingasjóði á meðan að lög um hlutabætur yrðu við lýði.
Þetta kemur fram í umsögn FÍA sem skilað var inn til velferðarnefndar í síðustu viku, á meðan að hún hafði málið til umfjöllunar. Undir hans skrifar Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, flugstjóri og varaþingmaður Miðflokksins.
„Sanngirnissjónarmið að þetta fólk sitji við sama borð“
Upphaflegt frumvarp, sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði fram fyrir rúmri viku, gerði ráð fyrir að hægt yrði að fá 80 prósent af fyrri launum upp að 650 þúsund króna launum samkvæmt frumvarpinu. Ef atvinnurekandi og launþegi næðu samkomulagi um að færa viðkomandi niður í 50 prósent starf vegna ástandsins sem nú er uppi myndi helmingur launanna upp að því marki því koma úr Atvinnuleysistryggingasjóði og helmingurinn frá atvinnurekandanum. Þetta fyrirkomulag átti að vera við lýði til 1. júlí, eða í þrjá og hálfan mánuð.
Í umsögn FÍA kom fram að félagið styddi meginatriði frumvarpsins og taldi markmið þess mikilvæg, en að það mæltist til þess að breytingar yrðu gerðar á því. Sérstaklega er tekið fram að FIA hafi verið „í samtali við aðra aðila á vinnumarkaði s.s. VR, FFI,FVFI og fleiri vegna stöðu mála, þ.e. vegna þeirrar óvissu sem þar ríkir eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2), og njóta breytingartillögur félagsins fulls stuðnings þeirra.“
Breytingartillögurnar, sem eru tvær, snúast annars vegar um að fólk með há laun, t.d. vel yfir eina milljón króna á mánuði, sem myndi halda greiðslum frá vinnuveitenda til helmings, myndi samt sem áður fá fullar atvinnuleysisbætur, 456.404 krónur, á tímabilinu. Hins vegar vildi FÍA að 650 þúsund króna þak á greiðslur yrði afnumið.
Í rökstuðningi félagsins sagði meðal annars að um einskonar brú til skemmri tíma væri að ræða, ekki varanlega ráðstöðun. Með því að fella út hámarkssamtölu launa og bótafjárhæða, en tiltaka einungis hámark bótafjárhæðar, myndu líkur aukast á þáttöku í úrræðinu og fleiri aðilar myndu halda starfi með þáttöku atvinnurekenda, sem að öðrum kosti myndu missa starf sitt og leggjast af fullum þunga á Ábyrgðasjóð launa án þess að mótframlag atvinnurekenda kæmi til. „Þessi tiltekni hópur greiðir nú og hefur um langan tíma greitt af launum sínum skatta og gjöld til samfélagsins. Þeir ættu því að njóta bótaréttar til jafns við aðra í þennan stutta tíma[...]Þessi hópur launafólks greiðir hæst hlutfall skatta hvort sem miðað er við krónutölu eða hlutfall launa og því er það sanngirnissjónarmið að þetta fólk sitji við sama borð og aðrir hópar þegar kemur að rétti til bótafjárhæða.[...]Um mjög mörg verðmæt störf er að ræða. Sem dæmi má nefna störf í flugiðnaði.“
Hægt er að sjá samanburð á tillögunum hér að neðan.
Miklar breytingar gerðar en ekki hlustað á flugmenn
Velferðarnefnd tók ekki mark á athugasemdum FÍA. Umtalsverðar breytingar voru hins vegar gerðar á frumvarpinu áður en það var samþykkt á föstudag.
Breytingarnar fela í sér að Atvinnuleysistryggingasjóður mun greiða frá 25 prósent og allt að 75 prósent af launum þeirra sem gera slíka samninga, en í upphaflegu frumvarpi hafði hámarkshlutfallið yrði 50 prósent.
Aðrar lykilbreytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu er að hámark á heildartekjum þeirra sem gera samninga hefur verið hækkað úr 650 þúsund krónum í 700 þúsund krónur og hver og einn getur fengið allt að 90 prósent af núverandi heildarlaunum upp að því þaki, en það hlutfall var 80 prósent í fyrstu útgáfu frumvarpsins. Þá hefur launalægsta hópnum verið tryggð full afkomu og þeir sem eru með laun undir 400 þúsund krónum á mánuði munu geta fengið þau að öllu leyti áfram, þrátt fyrir samninginn. Það vekur líka athygli að ákveðið hefur verið að stytta tímann sem bráðabirgðaúrræðið verður í boði frá 1. júlí til 1. júní.
Kostnaður ríkissjóðs vegna hlutabótalaganna ræðst á því hversu margir muni nýta sér úrræðið. Ásmundur Einar sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag að „það fjármagn sem fer í þetta [fer] mjög mikið upp og má gera ráð fyrir því að það verði á bilinu tólf til tuttugu milljarðar, eftir því hversu margir nýta sér úrræðið.“
Miðað við kostnaðarmat ráðuneytisins, sem Kjarninn hefur undir höndum, þá var Ásmundur Einar þar að gefa sér að á bilinu 20 til 30 þúsund landsmenn myndu gera samninga um skert starfshlutfall og nýta sér greiðslur úr Atvinnutryggingasjóði á móti. Þá myndu greiðslur, á ofangreindum forsendum, verða 12,8 til 19,2 milljarðar króna.
Verði bjartsýnasta sviðsmynd ráðuneytisins að veruleika, sem gerir ráð fyrir að fimm þúsund manns sækist eftir hlutabótum, mun kostnaðurinn hins vegar verða mun lægri, eða 3,2 milljarðar króna yfir umrætt tveggja og hálfs mánaðar tímabil. Verði sú svartasta raunin munu 50 þúsund manns leita eftir samningum við vinnuveitendur um að fá hluta launa sinna greidda úr Atvinnuleysistryggingasjóði á næstu mánuðum. Samtals mun kostnaðurinn, frá 15. mars til 31. maí, þá nema 32 milljörðum króna.