Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) fara þess á leit við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gerðar verði breytingar á frumvarpi um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru þess efnis að greiðslu veiðigjalds í ár verði frestað. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna veiðigjalda í ár eru tæplega 4,9 milljarðar króna.
Samtökin fara sömuleiðis fram á að sérstök gjöld sem lögð eru á fiskeldisfyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi verði frestað eða felld niður út árið 2021 til að veita fiskeldisfyrirtækjum meira svigrúm til að bregðast við fyrirséðum tekjusamdrætti við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Þetta kemur fram í umsögn SFS um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að lögfesta aðgerðarpakka hennar í efnahagsmálum, sem kynntur var í Hörpu á laugardag.
Markaður fyrir sjávarafurðir sums staðar hverfandi
Í umsögninni segir að íslenskur sjávarútvegur fari ekki varhluta af þeim fordæmalausu aðstæðum sem skapast hafa vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. „Ljóst er að markaður með íslenskar sjávarafurðir fer hratt minnkandi og sums staðar er hann raunar hverfandi. Veitingastaðir, hótel, mötuneyti og fiskborð matvöruverslana loka stórum dráttum um víða veröld, auk þess sem staða birgja og dreifikerfa er víða í óvissu. Eftirspurn eftir ferskum sjávarafurðum í Evrópu og Bandaríkjunum er því sem næst engin, með tilheyrandi áhrifum á útflutning fisks frá Íslandi. Þá má vænta þess að hægja mun á eftirspurn eftir frystum afurðum auk þess sem verð fari lækkandi þegar fleiri framleiðendur frysti sínar afurðir. Jafnframt getur hvenær sem er komið til þess að fiskvinnslur og útgerðarfyrirtæki þurfi að loka vegna starfsfólks í sóttkví eða samkomubanns stjórnvalda. Það hefði í för með sér meiriháttar hrun í framboði íslensks sjávarfangs.“
Vilja frestun eða niðurfellingu
Með þessum rökum vill SFS að sjávarútvegsfyrirtækjum verði veitt ráðrúm til að mæta tekjuhruni. Það þyrfti að gera með því að horfa til tímabundinnar niðurfellingar eða frestunar tekjuöflunar sem væri „íþyngjandi fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, auk þeirra almennu aðgerða sem frumvarpið tiltekur. Því fara samtökin þess á leit við nefndina að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis að frestun á greiðslu veiðigjalds verði sömuleiðis að veruleika við þessar aðstæður, líkt og raunin er um aðra skatta og gjöld samkvæmt þessu frumvarpi.“
Sömu sögu er að segja um sérstök gjöld sem fiskeldisfyrirtæki sem stunda sjókvíaeldi greiða, en þau eru gjald vegna fiskeldis í sjó, sem er reiknað af hverju kílógrammi af slátruðum laxi, og umhverfisgjald. „Með frestun þessara sértæku gjalda eða niðurfellingar út árið 2021 mætti veita fiskeldisfyrirtækjum meira svigrúm til að bregðast við fyrirséðum tekjusamdrætti við þær aðstæður sem nú eru uppi. Því fara samtökin þess á leit við nefndina að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis. Sjávarútvegur og fiskeldi eru tvær af undirstöðuútflutningsgreinum þjóðarinnar. Ekki er síður nauðsynlegt að veita þeim atvinnugreinum skjól, í þeim efnahagslegu hörmungum sem nú ganga yfir,“ segir í umsögninni.
Vilja líka afnám stimpilgjalds á fiskiskip
Í lok umsagnarinnar er þrýst á að frumvarp um breytingu á lögum um stimpilgjald af fiskiskipum verði afgreitt sem hluti af þeim bandormi sem felst í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Um er að ræða áralangt baráttumál SFS, en á árunum 2008 til 2017 greiddu sjávarútvegsfyrirtæki rúmlega 1,2 milljarða króna í stimpilgjald vegna fiskiskipa.
Góð afkoma í rúman áratug
Samkvæmt tölur úr Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018 sem kynntur var í september í fyrra, og nær yfir rekstur 92 prósent allra fyrirtækja í íslenska sjávarútvegsgeiranum, áttu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eigið fé upp á 276 milljarða króna í lok þess árs.
Frá hruni og fram til þess tíma hafði eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna batnað um 355 milljarða króna, en hún var neikvæð í lok árs 2008.
Alls greiddu fyrirtækin sér arð upp á 12,3 milljarða króna árið 2018. Frá árinu 2010 og til loka árs 2018 höfðu þau greitt 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt batnaði hagur sjávarútvegarins því um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út árið 2018, eða á einum áratug.
Þá var búið að taka tillit til þeirra 63,3 milljarða króna sem útgerðarfyrirtækið greiddu í veiðigjöld frá árinu 2011 og úr árið 2018.