Auglýsing

Sviðsmyndir sem stjórnvöld eru að vinna með benda til þess að það verði meiri samdráttur í ár en eftir bankahrunið. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í gærmorgun að hann gæti orðið sex til sjö prósent. Það þýðir að landsframleiðsla muni dragast saman um meira en 200 milljarða króna. En þetta er samt varfærin spá. Bjarni sagði í gær að það væri langur tími í að við finnum botninn og að það væri mikið óvissa um framhaldið. „Við erum í dálítið mik­illi þoku í augna­blik­in­u.“ 

Lítið af áreiðanlegum tölum liggja fyrir um stöðuna eins og hún er núna. Þó er það staðreynd að 75 prósent færri fóru um Keflavíkurflugvöll í lok síðustu viku og á sama tíma fyrir ári. Það er líka staðreynd að Icelandair hefur einungis verið að fljúga 14 prósent af flugáætlun sinni og að í flestum ferðum eru vélarnar hálf tómar. Það er staðreynd að bókanir á veitingastaði hafa fallið um 83 prósent á heimsvísu og að nýting á hótelherbergjum er víðast hvar undir tíu prósent. Á sumum stöðum engin og mörg hafa lokað. 

Þá benda sviðsmyndir stjórnvalda til þess að atvinnuleysi verði að meðaltali um átta prósent yfir helsta kúfinn, sem þýðir að toppurinn verður hærri en það. Meðaltalið verður því í kringum 15 þúsund manns. Það er vert að hafa í huga að atvinnuleysið mælir ekki þá tugi þúsunda sem á næstu vikum verða á allt að 75 prósent launum hjá ríkinu í gegnum hlutabótaleiðina. Þar verður allt að fjórðungur vinnuaflsins, samkvæmt sviðsmyndum, nokkurs konar tímabundnir ríkisstarfsmenn til viðbótar við alla hina sem eru það alltaf.

Það eru erfiðar og ófyrirséðar aðstæður uppi. Við þær aðstæður eru ráðamenn þjóða að reyna að taka ákvarðanir til að bregðast við vanda sem þeir eru nánast að giska á hvernig muni fara. Það er ekki öfundsverð staða og gott skref hjá þeim að viðurkenna vanmátt sinn fyrir óvissunni, líkt og bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni hafa gert opinberlega. 

Það sem hefði verið skynsamlegt ...

Það verður ekki sagt nægilega oft að markmiðið í dag er að við­halda venju­leik­anum eins og hægt er. Fyrst að verja lífið með öllum tiltækum ráðum. Svo að halda fyr­ir­tækjum á lífi, fólki á launum/framfærslu og öllum í hús­næði. Það þarf að tryggja mat og lyf fyrir alla. ­Síðar getum við tek­ist á um hvernig kerfið á að vera til fram­búðar og hvaða dýr­mætu lex­íur við lærum af þess­um ótrúlegu tímum.

Auglýsing
Í nákvæmlega þessari stöðu hefði verið sterkt að mynda þverpólitíska samstöðu um þær aðgerðir sem ráðast á í til að takast á við efnahagslegu hamfarirnar sem þegar hafa skapast, og munu halda áfram að þróast til verri vegar um ófyrirséðan tíma. 

Það var ekki gert. Þess í stað lagði ríkisstjórnin sinn aðgerðarpakka á borðið um liðna helgi, og þar með pólitíska framtíð sína. Ef hann virkar gæti það fleytt þessari ríkisstjórn inn í annað kjörtímabil við stjórnvölinn, sem var afar ólíklegt fyrir skemmstu. Geigi skotið mun hún ein bera ábyrgð á því og pólitísku afleiðingunum. 

Hliðaráhrifin gætu orðið að búa til pláss fyrir pólitíska tækifærismenn til að hlaða í yfirboð til að kaupa sér atkvæði. Á sviðinu eru slíkir sem hafa reynslu af því að henda opinberu fé með vítaverðum hætti í það að koma sér til valda.  

Það sem er gott …

Lykilatriðið í aðgerðaráætlun stjórnvalda eru hinar svokölluðu hlutabætur. Þær breytingar sem gerðar voru á því máli milli umræðna stökkbreyttu því frá því að vera smælki yfir í að vera líflína fyrir stóran hluta atvinnulífsins. Kostnaður hins opinbera vegna hlutabótanna margfaldaðist samhliða því að Atvinnuleysistryggingasjóður tekur nú að sér það hlutverk að greiða allt að 75 prósent af launum starfsmanna fyrirtækja upp að 700 þúsund króna hámarki, og tryggi öllum með 400 þúsund krónur eða minna full laun á meðan að hlutabæturnar eru við lýði. 

Í kynningu stjórnvalda á laugardag var kostnaður við að hafa þessa leið í tvo og hálfan mánuð metinn á 22 milljarða króna. Þar er miðað við að um 30 þúsund manns úr einkageiranum, út frá ákveðnu reiknimódeli um fjöldi í hverju nýtingarbili, muni færast að hluta yfir á launaskrá hins opinbera. Svartasta sviðsmyndin sem teiknuð var upp í kostnaðarmati reiknaði með allt að 50 þúsund manns og að kostnaðurinn gæti þá varið í um 32 milljarða króna. 

Það má nánast ganga út frá því að þetta úrræði verði framlengt umfram upprunalega tímabili, og muni kosta tugi milljarða króna til viðbótar. Þótt leiðin sé augljóslega sniðin að ferðaþjónustufyrirtækjum þá munu fjölmörg önnur fyrirtæki líka þurfa að nýta sér hana til að lifa af. Icelandair hefur riðið á vaðið og tilkynnt opinberlega að 92 prósent af á fimmta þúsund starfsmanna fyrirtækisins muni fara í skert starfshlutfall tímabundið og hópurinn muni falla „undir úrræði ríkisstjórnarinnar um mótframlag eftir því sem við á“. 

Það er líka góð aðgerð að fella niður tollafgreiðslugjöld og fresta aðflutningsgjöldum til að veita innflutningsaðilum laust fé til að glíma við yfirstandandi erfiðleika. Ef þeir aðilar sýna samfélagslega ábyrgð ætti það líka að geta haldið aftur að verðhækkunum á vöru og þar af leiðandi verðbólguhvata. 

Sömu sögu er að segja með 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir kaup á ýmis konar vinnu. Það er skynsamur hvati til að fá fólk til að eyða í framkvæmdir og heimilisþjónustu þegar það verður óhætt á ný að fara út.

Það sem er umdeilt ...

Tvær stórar aðgerðir í pakka stjórnvalda eru þegar orðnar verulega umdeildar og mikið rætt um að þær séu sérstaklega sniðnar að útflutningsgreinunum, en skilji margar þjónustugreinar eftir utan skilyrða.

Þar ber fyrst að nefna heimild til að fresta skilum á opinberum gjöldum, sem er í raun vaxtalaust lán frá hinu opinbera. Þar þarf að sýna fram á 30 prósent tekjufall miðað við sama mánuð í fyrra til að mega fresta greiðslum. Fyrir liggur til dæmis að mörg fyrirtæki eru ekki með jafnt greiðsluflæði heldur fá inn stærri greiðslur suma mánuði en lægri aðra og það eitt og sér gæti útilokað þau frá því að nýta þetta úrræði. 

Auglýsing
Hitt umdeilda úrræðið eru hin svokölluðu brúarlán, þar sem hið opinbera ætlar að ábyrgjast helming af tug milljarða króna lánum til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjutapi. Lán með ríkisábyrgð eiga að skila mun lægri vöxtum en önnur og því er einfaldlega um ódýrari peninga að ræða sem verður skóflað inn í valin fyrirtæki. Ráðamenn hafa þegar sagt opinberlega að þeir reikni með að um helmingur þeirrar upphæðar sem fari úr ríkissjóði í þessa aðgerð, sem er samtals um 35 milljarðar króna, muni mögulega tapast. 

Þarna er verið að hjálpa ákveðnum fyrirtækjum í miklum rekstrarvanda með því að dæla í þau ódýrum peningum. Stundum, til dæmis í völdum öngum ferðaþjónustu, á það ágætlega við en í öðrum geirum, sem sannarlega verða fyrir miklum vandræðum vegna stöðunnar en ekki því alkuli sem ferðaþjónustan sér fram á, þá getur þetta beinlínis verið skaðlegt. Verr reknum fyrirtækjum verður haldið á lífi en fyrirtækjum sem hafa sýnt ráðdeild og fyrirhyggju, en uppfylla ekki sett skilyrði, verða undir vegna þess að samkeppnisaðilar þeirra fá aðgang að ódýrum peningum frá ríkinu. 

Þá er ótrúlegt að ekki séu sett skilyrði um að fyrirtækjum sem fá þessa sérstöku fyrirgreiðslu úr ríkissjóði verði meinað að greiða sér út arð eða kaupa upp eigin bréf í nokkur næstu ár. Það á að vera sjálfsögð krafa að lánin verði fyrst greidd til baka áður en að króna fari út til hluthafa. 

Það sem er ómarkvisst …

Það er ansi einkennilegt að telja áhrif af afnámi gistináttaskatts sem 1,6 milljarða króna ráðstöfun, þar sem sú tala er fengin úr því sem innheimtist vegna hans í fortíðinni. Nú er bókstaflega nánast enginn á hótelunum og þar af leiðandi skilar skatturinn litlu í ríkiskassann. Það að lækka verð á hverri gistinótt um 300 krónur til framtíðar mun heldur ekki vera nein lykilbreyta í að gera Ísland aftur aðlaðandi sem ferðaþjónustuland.

Þótt það hljómi ágætlega að gefa öllum landsmönnum fimm þúsund króna stafrænt gjafabréf til að hvetja þá til að eyða í innlenda ferðaþjónustu þá er það afar ómarkviss aðgerð. Þeir 1,5 milljarðar króna sem ætlaðir eru í þetta verkefni væri mun betur nýttir víða annars staðar í íslensku samfélagi, enda verða stafrænu gjafabréfin, sérstaklega þegar þau krefjast augljóslega viðbótareyðslu í flestum tilfellum, ekki ráðandi hvati í að stuðla að innanlandsferðalögum í sumar. Þess utan veit enginn hvernig aðstæður verða til að ferðast næstu mánuði út af veirufaraldinum, hvort sem um er að ræða innanlands eða utan. 

Það að heimila úttekt á séreignarsparnaði er síðan tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð, ekki ný útgjöld. Það er verið að heimila fólki að taka út eigin sparnað og greiða skatt af honum strax, í stað þess að gera það í framtíðinni. Því er í raun verið að fyrirframgreiða skatttekjur framtíðar núna. Í áætlunum ríkissjóðs er gert ráð fyrir að þetta skili hinu opinbera 3,5 milljarða króna í tekjur, en það verður að teljast ansi ólíklegt að það verði röð í það að taka út séreignina sína með þessum hætti þegar það býðst að nota hana skattfrjálst til að borga inn á húsnæðislán. 

Auglýsing
Hraðari lækkun bankaskatts er síðan aðgerð sem erfitt er að fá til að ganga upp sem eitthvað annað en ákvörðun sem flaut bara með vegna þess að einhver við ákvörðunartökuborðið er hugmyndafræðilega á móti honum. Í áætlunum stjórnvalda á hann að skila ellefu milljarða króna viðbótarsvigrúmi fyrir banka til að lána út, ofan á það 350 milljarða króna svigrúm sem afnám sveiflujöfnunaraukans hafði þegar skapað. Þessi þrjú prósent viðbót í útlánasvigrúmið skiptir vart höfuðmáli í stóru myndinni. Sérstaklega þegar Seðlabankinn getur aukið útlánasvigrúmið um annað eins með frekari breytingum á eiginfjárkröfum eða nýtingu á öðrum vopnum í vopnabúri sínu.

Þá er eingreiðsla barnabótaauka til allra landsmanna sem eiga börn óháð tekjum (þeir sem eru með sameiginlega heimilistekjur undir rúmlega 900 þúsund á mánuði fá 40 þúsund krónur en hinir 20 þúsund krónur) ótrúlega ómarkviss og sérkennileg nýting á almannafé. Fólk með meðal- og háar tekjur, svo ekki sé talað um stóreigendur fjármagns, þurfa ekki að fá barnabætur. Þær eiga að renna til þeirra sem þurfa raunverulega á þeim að halda til að ná endum saman, ekki hátekjuhópa.

Fjárfestingarátakið, sem í felst að flytja 20 milljarða króna framkvæmdir yfir á þetta ár, er líka ekki sérstaklega vel útfært. Auk þess liggur ekkert fyrir hvenær verður raunverulega hægt að ráðast í þau út af heimsfaraldi sem enginn veit hvenær mun ganga niður. Við erum í dálítið mik­illi þoku í augna­blik­in­u. 

Það sem var óþarfi og það sem er óvissa um …

Óþarfi var að kynna þessar aðgerðir sem 230 milljarða króna „ráðstafanir“ og blása margar þeirra upp í eitthvað sem flest skynsamt fólk sér að stenst ekki. Það var sýndarmennska enda bein ný framlög mun frekar á bilinu 60 til 70 milljarðar króna. Líkt og áður hefur verið rekið eru reikniforsendur fyrir sumum leiðanna líka í besta falli vafasamar, og í sumum tilfellum einfaldlega rangar.

Stóru aðgerðirnar eru núna til staðar: hlutabótaleiðin verulega endurbætt og stóraukið aðgengi að lánsfé. Þær einar og sér eru stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar ef gengið verður út frá því að áhrifin af þessari stöðu – miklum samdrætti alþjóðlega í framleiðslu og nánast algjöru stoppi í eftirspurn – muni vara vel inn á seinni hluta næsta árs hið minnsta. Ríkissjóður þurfa að bæta verulega í kostnað vegna þeirra leiða. Þetta eru öndunarvélarnar fyrir atvinnulífið og samfélagið allt.  

Helsta óvissan sem nú er uppi snýr að því hvernig bankarnir munu haga sér gagnvart fyrirtækjunum sem munu sækjast eftir fyrirgreiðslu. Skilaboð stjórnvalda til þeirra eru skýr: það er búið að losa um hundruð milljarða króna fyrir ykkur að lána út. Ykkur ber skylda til að hjálpa hárgreiðslustofunni, héraðsfjölmiðlinum, líkamsræktarstöðinni, veiðiversluninni og öllum hinum litlu og meðalstóru fyrirtækjunum sem íslenskir bankar hafa neitað að fjármagna á undanförnum árum nema að eigendur leggi húsin sín að veði. Þess í stað hafa bankar aðallega einbeitt sér að því að fjármagna ferðaþjónustu og sinna stórum kúnnum, oft með því að fjármagna misgáfuleg og áhættusækin stórverkefni. 

Það verður að segjast eins og er að sporin hræða þar. Bankarnir hafa haft óeðlileg áhrif á samkeppni í ýmsum geira með óskiljanlegri fyrirgreiðslu við suma en algjört fálæti gagnvart öðrum. Íslenski fjölmiðlageirinn er þar skýrasta dæmið þar sem skilyrði fyrir bankafyrirgreiðslu virðist aðallega vera mikið tap eða óráðsía í rekstri. Svigrúm bankanna til aukinna útlána má ekki snúast upp í andhverfu sína, þar sem vel rekin og lífvænleg fyrirtæki deyja vegna þess að bankar ákveðna að halda verr reknum og yfirskuldsettum samkeppnisaðilum þeirra frekar á lífi.  

Auk þess þarf væntanlega að víkja til hliðar öllum lánareglum banka til að þessi lánafyrirgreiðslan sem stjórnvöld eru að þrýsta á verði gerleg. Hér liggja nefnilega fyrir fjölmargir dómar þar sem stjórnendur banka hafa, með réttu, verið dæmdir til refsingar fyrir glórulaus lán án tilheyrandi veða í andstöðu við innri lánareglur sínar, þótt sá eðlismunur hafi verið að þau lán voru oftar en ekki til eigenda eða vildarviðskiptavina á tímum þar sem það geisaði bara græðgi og sjálflægni, ekki kórónuveira.

Hinn óvissuþátturinn snýr að því hvernig þetta verður allt saman gert upp á endanum. Við skulum muna að frestum á greiðslu gjalda er bara frestun og lán þurfa að endurgreiðast. Þegar það er ráðist í ofurskuldsetningu atvinnulífsins vegna þeirra einstöku aðstæðna sem eru uppi þá er líka verið að færa bönkum og stjórnvöldum mikið vald yfir því hverjir fá að lifa og hverjir verða látnir deyja þegar þetta er allt saman yfirstaðið.

Gerum þetta rétt

Framundan er mikil áskorun og líklega mun flest sem nú hefur verið lagt fram spilast út með öðrum hætti en reiknað hefur verið með. Þá verða stjórnvöld, bankar og aðrir með ótrúlegt ákvörðunarvald yfir þróuninni að sýna fumlaus viðbrögð og aðlaga leiðirnar að raunveruleikanum. Sanngirni, auðmýkt, heiðarleiki og samstaða eru lykilbreytur sem allir verða að tileinka sér núna. Það er hægt að keppa og takast á síðar. 

Hér er allt undir. Ef okkur tekst að komast í gegnum þetta með því að verja fyrst og fremst sem flest líf, svo sem flest lífsviðurværi, þá hefur okkur sem samfélagi tekist vel upp. Það eiga allir að vera saman í þessu. 

Nú er tíminn til að sýna það í verki.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari