Mynd: Icelandair

2020 fram að kórónufaraldri: Icelandair rær lífróður

Áföllin sem dunið hafa á Icelandair á undanförnum árum eru af ýmsum toga. Sum vegna rangra ákvarðana en önnur eru vegna ytri aðstæðna sem félagið getur lítið eða ekkert gert við. Afleiðingin er hins vegar sú að 173 milljarðar króna af markaðsvirði Icelandair hefur þurrkast út frá því í apríl 2016 og flugfélagið gengur hratt á lausafjárstöðu sína.

Gengi bréfa í Icelandair hefur ekki verið lægra frá því í byrjun janúar 2011, eða í rúm níu ár. 

Frá áramótum hefur virði félagsins fallið um 55 prósent og markaðsvirði fyrirtækisins farið úr því að vera 48 milljarðar króna í að vera 18,5 milljarðar króna við lokun markaða á miðvikudag. Í byrjun mars hafi það farið undir 30 milljarða í fyrsta sinn síðan í mars 2012. Hæst reis það í apríl 2016 og fór þá í 191,5 milljarð króna. Síðan þá hefur markaðsvirði íslenska flugfélagsins lækkað um 173 milljarða króna. 

Við þá tölu verður að bæta að í apríl 2019 var hlutafé í Icelandair aukið um 11,5 prósent og það selt til bandaríska fjárfestingarsjóðsins PAR Capital Management á 5,6 milljarða króna. 

Eigið fé Icelandair var um 60 milljarðar króna um síðustu áramót. Markaðsvirðið er  minna en einn þriðji af þeirri upphæð. 

Á árunum 2018 og 2019 tapaði Icelandair samtals rétt tæplega 14 milljörðum króna. Í febrúar var kynnt afkomuspá sem gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði á árinu 2020. Tæpum mánuði síðar var greint frá því að afkomuspáin væri ekki lengur í gildi. Einfaldlega væri ómögulegt að spá fyrir um hver afkoma Icelandair yrði á þessu ári. Ástæðan væri tiltölulega ný: útbreiðsla veirunnar sem leiðir til COVID-19 sjúkdómsins. 

Síðan þá hefur staðan einfaldlega bara versnað. Hér verður farið yfir rekstrarsögu Icelandair síðustu árin og ástæður þess að flugfélagið er statt í þeim lífróðri sem það nú rær. 

Fyrsta ástæða: Breytingar sem skiluðu ekki árangri

Það var mikill vöxtur hjá Icelandair eftir bankahrunið, samhliða því að fjöldi ferðamanna sem heimsótti Íslands óx á nokkrum árum úr um hálfri milljón í 2,3 milljónir á metárinu 2018. Flugfloti félagsins fór úr því að telja tíu vélar árið 2008 í 33 snemma árs 2019, þar af nokkrar breiðþotur.

Eftir mörg góð ár í röð, frá 2012 og fram til ársins 2018, þá hefur mótvindurinn aukist verulega hjá Icelandair. Það átti þó ágætis sjóði til að takast á við þá stöðu, en eigið fé þess var 64 milljarðar króna um mitt ár 2017. 

Nokkrar ástæður eru fyrir þessari breytingu. Sum vandamálin voru heimatilbúin en önnur komu til vegna ytri aðstæðna sem Icelandair gat lítið, eða ekkert, gert við. 

Á árinu 2018 hóf Icelandair að birta afkomuviðvaranir nokkuð reglulega. Í einni slíkri, sem birt var í ágúst á því ári, voru áætlanir um væntan rekstrarhagnað félagsins teknar niður enn og aftur. Ástæðan var sögð sú að „innleiðing breytinga sem gerðar voru í byrjun sumars 2017 á sölu- og markaðsstarfi félagsins ekki gengið nægilega vel fyrir sig auk þess sem gerðar voru breytingar á leiðakerfi félagsins í byrjun þessa árs sem hafa valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.“ 

Í kjölfar þessa sagði Björgólfur Jóhannsson, sem hafði verið forstjóri Icelandair í rúm tíu ár, af sér og vildi með því axla ábyrgð á ákvörðunum sem teknar höfðu verið á hans vakt.

Breytingarnar sem höfðu þessar afleiðingar voru nokkrar. Ein þeirra var sú að í lok maí 2017 bárust Icelandair upplýsingar um lykilstjórnandi hjá félaginu, sem hafði í um áratug verið forstöðumaður leiðarkerfisstjórnunar Icelandair, hefði stöðu grunaðs manns í rannsókn héraðssaksóknara á meintum brotum í viðskiptum með bréf í félaginu. Hann var sendur í leyfi í kjölfarið og loks sagt upp störfum. Maðurinn, sem var skráður innherji hjá Icelandair, átti að hafa veitt manni innherjaupplýsingar sem líklegar voru til að hafa áhrif á hlutabréf í Icelandair. Maðurinn notaði svo þær upplýsingar til að stunda viðskipti með bréf í félaginu auk þess sem hann deildi þeim með öðrum manni. Með þessu áttu mennirnir að hafa átt að hagnast um 61 milljón króna með því að veðja m.a. á að verð í Icelandair myndu falla skömmu áður en tilkynnt var um að afkomuspá félagsins yrði lækkuð verulega. Mennirnir þrír voru ákærðir og loks dæmdir til í fyrravor

Næstu misseri var ráðist í breytingar á leiðakerfi Icelandair sem kynntar voru í upphafi árs 2018 heppnuðust illa, með tilheyrandi áhrifum á tekjur Icelandair. Meðal breytinga sem gerðar voru á leiðakerfinu var að fella burt næturflug til Evrópu og morgunflug til Bandaríkjanna.

Fleiri stórtækar breytingar fylgdu á stjórnunarteymi Icelandair næstu misseri sem endaði með því að nýtt skipulag var kynnt hjá Icelandair í byrjun árs 2018. Menn sem höfðu starfað hjá félaginu lengi voru látnir fara og nýju fólki fengin stór umbreytingarverkefni. Stór ástæða fyrir þessu var mikill vöxtur WOW air, sem fór þá með himinskautunum. Breytingarnar miðuðu allar að því að færa Icelandair nær lágfargjaldamódelinu sem WOW air var keyrt á. Það var hins vegar flókið umbreytingarferli, sérstaklega vegna þess að launakostnaður hjá Icelandair var afar hár. 

Á meðal þeirra breytinga sem ráðist var í var að gera ráða innanhúsmann í stöðu framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs. Sá tók við starfinu vorið 2017 og skömmu síðar var greint frá stefnubreytingu sem í fólst að færa sölu- og mark­aðs­starf fé­lags­ins heim til Íslands, og setji auk­inn kraft í mark­aðs­setn­ingu á net­inu. Sett hafði verið saman teymi 25-30 sérfræðinga í höfuðstöðvum Icelandair sem þekkti vel ýmsar hliðar netsins. Eftirstandandi erlendum söluskrifstofum átti samhliða að loka og þeir starfsmenn þeirra sem ynnu áfram hjá félaginu var boðið að vinna heiman frá sér. Icelandair sagðist vera að aðlaga sig að breyttri heimsmynd.

Samkeppnin við WOW air ýtti Icelandair út í ýmiskonar breytingar sem skiluðu ekki tilætluðum árangri. WOW air varð gjaldþrota í lok mars 2019.
Mynd: EPA

Í júlí 2018 var tilkynnt um enn eina breytingu á skipulagi Icelandair Group. Í henni fólst að framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs var færður í annað starf hjá félaginu, rúmu ári eftir að hann tók við framkvæmdastjórastöðunni. Undir hefur verið ofan af mörgum þeirra breytinga sem ráðist var í. 

Önnur ástæða: Erfiðari rekstrarskilyrði og kyrrsetning 737 Max

Þegar leið á árið 2018 fór hækkandi olíuverð að bíta flest flugfélög í heiminum, þótt Icelandair hafi verið mun betur varið fyrir slíkum hækkunum en WOW air, sem var það alls ekki. Vandamál WOW air, sem voru nær daglegt fréttaefni frá ágúst 2018 og þangað til að félagið fór á hausinn í lok mars 2019, smituðust líka yfir á Icelandair. 

Ofan á þetta bættist að 12. mars 2019 voru allar Boeing 737 Max vélar heimsins kyrrsettar. Þar á meðal þrjár sem voru í rekstri hjá Icelandair. Alls hafði íslenska félagið þó pantað 16 slíkar vélar og áttu þær meðal annars að leysa af hólmi margar gamlar 757 200 vélar sem eyða mun meiru en Max vélin, en 757-vélarnar eru uppistaðan í flota Icelandair. 

Ástæðan fyrir kyrr­­­setn­ing­unni voru flug­­­slys í Indónesíu 29. októ­ber 2018 og í Eþíópíu 13. mars 2019, en í þeim lét­ust allir um borð, sam­tals 346. Frum­n­ið­­­ur­­­stöður rann­­­sókna í lönd­unum fyrr­­­nefndu benda til þess að vél­­­arnar hafi verið með gallað MCAS-­­­kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, og því hafi þær tog­­­ast til jarðar með fyrr­­­nefndu afleið­ing­­um.

Auglýsing

Fyrst sagði Icelandair í tilkynningum að kyrrsetningin myndi ekki hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins og jafnvel var búist við því að vélarnar yrðu til taks á ný yfir háannatímann sumarið 2019. 

Þær hafa enn ekki hafið sig á loft og nú liggur fyrir að þær munu ekki fljúga í sumar, en Icelandair hafði gert ráð fyrir að níu 737 Max vélar yrðu í notkun í leiðakerfi félagsins á þessu ári. Áhrif kyrr­setn­ing­ar Boeing 737 MAX-véla Icelandair á rekst­ur fé­lags­ins á síðasta ári voru 100 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, eða um 12,8 millj­arðar króna þegar tekið hef­ur verið til­lit til bóta sem Boeing hef­ur þegar greitt Icelandair. Kyrrsetningin var lykilbreyta í rúmlega sjö milljarða króna tapi félagsins á árinu 2019. 

Þriðja ástæða: Útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19

Í ár hafði Icelandair undirbúið sig betur fyrir afleiðingar á kyrrsetningunni. Vélar voru teknar á leigu til að geta staðið undir eftirspurn yfir háannatímann og þótt flotinn væri mun dýrari í rekstri en hann yrði ef Max vélarnar væru að leysa áratugagamlar vélar af hólmi þá ríkti bjartsýni. 

Þegar Icelandair kynnti uppgjör sitt fyrir síðasta ár, og afkomuspá fyrir 2020, voru skilaboðin þau að félagið myndi snúa vörn í sókn í ár.  Fé­lagið gerði meðal annars ráð fyrir að flytja að lág­marki jafn­marga far­þega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019.

Útbreiðsla kórónaveirunnar um heiminn mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar, meðal annars á ferðaþjónustu.
Mynd: EPA

Nú er sú staðan gjörbreytt. Hrun verður í komu ferðamanna til Íslands. Ástæðan er útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Starfsemi Icelandair er nú í lamasessi og flota félagsins hefur verið lagt tímabundið að mestu. Fyrirtækið sagði upp 240 manns fyrir skemmstu og 92 prósent eftirstandandi starfsmanna þess voru fluttir í hlutabótaúrræði stjórnvalda, þar sem allt að 75 prósent af greiddum launum koma úr ríkissjóði.

Í vikunni var greint frá því að stjórnendur Icelandair væru nú að leita leiða til að styrkja fjár­hag félags­ins með því að styrkja hann til lengri tíma. Félagið hefur ráðið Kviku banka, Íslands­banka og Lands­bank­ann sem ráð­gjafa til að hefja skoðun á mögu­legum leiðum til að ná því mark­miði. Þá munu stjórn­endur Icelandair einnig vinna náið með íslenskum stjórn­völdum í því ferli. 

Í fréttatilkynningu vegna þessa sagði: „Á síð­ustu dögum og vikum hefur áhersla verið lögð á það hjá Icelandair að halda uppi lág­marks flug­sam­göngum til og frá land­inu, bæði fyrir far­þega og vöru­flutn­inga þrátt fyrir að flug­á­ætlun félags­ins hafi dreg­ist veru­lega saman á und­an­förnum vik­um. Flug­á­ætlun félags­ins nemur nú minna en 10 prósent af þeirri áætlun sem gefin hafði verið út fyrir þetta tíma­bil árs­ins. Enn ríkir mikil óvissa um hvenær ferða­tak­mörk­unum verði aflétt og eft­ir­spurn eftir flugi og ferða­lögum muni aukast á ný og gera stjórn­endur Icelandair Group ráð fyrir því að flug­á­ætlun félags­ins muni drag­ast saman um að minnsta kosti 25 prósent yfir sum­ar­tím­ann.“

Lausafjárstaða Icelanda­ir, að með­töldum óádregnum lána­lín­um, er þó enn vel yfir því við­miði sem félagið starfar eftir, samkvæmt tilkynningu, en stefna þess hefur verið sú að þessi staða fari ekki undir 29 millj­arða króna á núver­andi gengi, eða 200 millj­ónir Banda­ríkja­dala, á hverjum tíma. „Eins og til­kynnt hefur verið um, hefur félagið gripið til ýmissa aðgerða til þess að verja lausa­fjár­stöðu sína á und­an­förnum vik­um. Hins veg­ar, ef miðað er við lág­marks­tekju­flæði hjá félag­inu í apríl og maí, er ljóst að lausa­fjár­staða félags­ins muni skerð­ast og fara undir ofan­greint við­mið.“

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group, sagði í tilkynningunni að Icelandair viti að á ein­hverjum tíma­punkti mun flug kom­ast aftur í eðli­legt horf og því vilji félagið vera vel í stakk búin til að sækja fram og nýta þau tæki­færi sem þá verða fyrir hendi. „Til að ná þeirri stöðu er nauð­syn­legt að gera við­eig­andi breyt­ingar á kostn­að­ar­upp­bygg­ingu félags­ins, styrkja fjár­hags­stöðu þess og leita allra leiða til að styrkja sam­keppn­is­hæfi þess til fram­búð­ar.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar