Mynd: Bára Huld Beck

Hvað verður í næsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar?

Fyrir rúmum þremur vikum kynnti ríkisstjórnin það sem hún kallaði stærstu efnahagsaðgerðir sögunnar. Fyrir lok þessarar viku mun hún þurfa að kynna annan aðgerðarpakka sem verður síst umfangsminni. Það sem þóttu svartsýnar spár fyrir nokkrum vikum eru nú á meðal bjartsýnustu sviðsmynda.

Ég segi bara, reynum að koma út úr þessu öllu saman með Ísland í upp­færslu 2.0.“ Þetta sagði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, fyrir utan ráð­herra­bú­stað­inn fyrir viku síð­an. 

Þar var hann að tala um þær efna­hags­legu aðgerðir sem grípa þurfi til vegna áhrifa kór­ónu­veirunnar hér­lend­is, sem fyrir liggur að verða umfangs­meiri en sviðs­myndir gerðu ráð fyrir 21. mars, þegar rík­is­stjórnin kynnti efna­hag­s­pakka sem hún sagði að væri „stærstu ein­stöku efna­hags­að­gerðir sög­unn­ar“.

„Það er engin spurn­ing að efna­hags­legu áhrifin af því sem er að eiga sér stað eru miklu meiri heldur en við sáum fyrir í upp­hafi mars­mán­að­ar,“ sagði Bjarni í við­tal­inu, sem var við Stöð 2, á þriðju­dag í síð­ustu viku. Ef svart­sýn­ustu spár um komur ferða­manna fyrir árið 2020 gangi eftir þá sé verið að horfa á mesta sam­drátt á Íslandi í heila öld. 

Í lok viku verður kynntur annar efna­hag­s­pakki til að bregð­ast við ástand­inu eins og það blasir við nú.

En hvað verður í nýja „pakk­an­um“? Hvaða áherslur er rík­is­stjórnin að fara að leggja áherslu á þar? 

Hverju var lofað síð­ast?

Aðgerð­irnar sem kynntar voru 21. mars voru margs­kon­ar. Heild­ar­á­hrif þeirra voru sögð vera 230 millj­arðar króna, en beinu nýju fram­lögin vegna hans voru lík­ast til um þriðj­ungur þeirrar upp­hæð­ar. Sumt þar voru verk­efni sem þegar lágu fyr­ir, til dæmis í fjár­fest­ingu, önnur mið­uðu að því að fella niður gjöld sem væru hvort eð er ekki að fara að skila sér nema að litlu leyti, eins og afnám gistin­átt­ar­skatts, og sum voru ein­fald­lega tekju­öfl­un­ar­leiðir fyrir rík­is­sjóð, eins og það að heim­ila úttekt á sér­eign­ar­sparn­aði sem yrði þá skatt­lagður sam­hliða.

Auglýsing

Stóru beinu aðgerð­irnar sner­ust um hina svoköll­uðu hluta­bóta­leið, frestun opin­berra gjald­daga, auk­innar fyr­ir­greiðslu fyrir fyr­ir­tæki hjá banka við­kom­andi og því að ráð­ast í fjár­fest­ing­ar­átak, aðal­lega í hefð­bundnum innviðum sem útheima margar vinnu­manna­hend­ur.

Hvernig hafa þær aðgerðir nýst?

Fyrir liggur að sá aðgerð­ar­pakki sem var kynntur í mars hafði fyrst og síð­ast þau áhrif til skamms tíma að gagn­ast fyr­ir­tækjum sem voru að upp­lifa skyndi­legt frost í tekju­öflun og þeim sem ein­fald­lega hafa ekki lengur verk­efni til að leysa fyrir starfs­fólkið sitt. 

Það sést best að tæp­lega helm­ingur þeirra um 31 þús­und manns sem fyrir helgi höfðu sótt hafa um hluta­bæt­ur, þar sem Atvinnu­leys­is­trygg­inga­sjóður greiðir allt að 75 pró­sent af launum þeirra fram til 1. júní, eru ein­stak­lingar sem starfa við far­þega­flutn­inga, í gisti- og veit­inga­þjón­ustu eða annarri ferða­þjón­ustu. Miðað við kostn­að­ar­mat sem unnið var fyrir félags- og barna­mála­ráðu­neytið vegna aðgerð­ar­inn­ar, og Kjarn­inn hefur undir hönd­um, mun kostn­aður hins opin­bera vegna þessa verða vel á þriðja tug millj­arða króna fram á núgild­andi tíma­bil­i. 

Aðrar lyk­il­að­gerðir sneru að því að Seðla­banki Íslands afnam svo­kall­aðan sveiflu­jöfn­un­ar­auka sem stó­r­eykur svig­rúm við­skipta­banka til að lána út fjár­magn. Alls er það við­bót­ar­svig­rúm metið á allt að 350 millj­arða króna. Þá ætl­aði ríkið sér að veita ábyrgðir til lána­stofn­ana sem þær gætu svo nýtt til að veita svokölluð brú­ar­lán á mjög lágum vöxt­um. Þegar lög um fram­kvæmd­ina voru sam­þykkt hafði hámark rík­is­á­byrgðar á þessum lánum verið hækkuð upp í 70 pró­sent. 

Þessi lán hafa enn ekki komið til fram­kvæmda vegna þess að ekki hefur verið gengið frá sam­komu­lagi milli rík­is­ins og Seðla­bank­ans um þau. Það sam­komu­lag er þó í loka­frá­gangi og stefnt er að því að skrifa undir það á fimmtu­dag.

Aðgerðir fjár­mála­stofn­ana hingað hafa því, sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans, fyrst og síð­ast snú­ist um að frysta afborg­anir af lánum við­skipta­vina. Stærri fyr­ir­tæki, sem eiga í nánu og miklu sam­starfi við bank­ann sinn eru þar betur sett en lítil og með­al­stór fyr­ir­tæki sem eru með litla eða jafn­vel enga fyr­ir­greiðslu að jafn­aði, en þurfa á henni að halda nú um stundir til að kom­ast í gegnum það ástand sem skap­ast hefur vegna kór­ónu­veirunn­ar.  

Af hverju þarf meira til? 

Sviðs­mynd­ir, jafnt um þróun mála inn­an­lands­, en ekki síður heild­rænt í heim­in­um, eru mun svart­ari nú en þær voru í lok síð­asta mán­að­ar. Helstu útflutn­ings­greinar Íslands: ferða­þjón­usta, sjáv­ar­út­vegur og ál (fram­leitt fyrir íslenska orku sem íslensk fyr­ir­tæki selja) hafa allar orðið fyrir veru­legu höggi vegna gríð­ar­legs sam­dráttar í neyslu og fram­leiðslu út um allan heim og þeim ferða­tak­mörk­unum sem eru í gildi vegna bar­átt­unnar við COVID-19. 

Auglýsing

Fyrir liggur að ekki verður hægt að reikna með mörg­um, ef ein­hverj­um, erlendum ferða­mönnum hingað til lands í ár. Ef ferða­tak­mörk­unum verður aflétt á næstu mán­uð­um, og ef ferða­menn sýna vilja til að ferð­ast strax í kjöl­far­ið, mun það verða óvæntur bón­us. 

Stjórn­völd telja að ef svart­sýn­ustu spár gangi eftir varð­andi komur ferða­manna fyrir þetta ár þá muni Ísland upp­lifa mesta sam­drátt sem landið hefur orðið fyrir í heila öld.  Ljóst er að sá sam­dráttur verður mun meiri en sá 4,8 pró­sent sam­dráttur sem Seðla­banki Íslands kynnti sem svört­ustu sviðs­mynd sína á blaða­manna­fundi 25. mars síð­ast­lið­inn.

Alls eru yfir 50 þús­und manns annað hvort atvinnu­laus eða á hluta­bót­um, sem er um fjórð­ungur alls íslensks vinnu­mark­að­ar. Búist er við því að upp­sögnum muni fjölga til muna í þessum mán­uði.

Líklegt er að fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar muni þurfa að hafa aðkomu að samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins, með þau Drífu Snædal og Halldór Benjamín Þorbergsson, í forystu, um tilslakanir til fyrirtækja með eftirgjöf á umsömdum réttindum launþega.
Mynd: Skjáskot

Ráða­menn hafa áttað sig á því að það þarf að stór­auka skuldir hins opin­bera til að takast á við fyr­ir­liggj­andi ástand. Vegna þessa hefur Seðla­banki Íslands til að mynda þegar ákveðið að ráð­ast í magn­bundna íhlut­un, sem felur í sér heim­ild bank­ans til að kaupa rík­is­skulda­bréf á eft­ir­mark­aði fyrir allt að 150 millj­arða króna. Það er gert til þess að hafa bein áhrif á lang­tíma­kröfur á þau bréf, til lækk­un­ar. Á manna­máli þýðir þetta að ríkið mun fá lægri vexti á skulda­bréfin sem það þarf að gefa út.

Hvað verður gert næst?

Ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál fund­aði í gær um næsta aðgerð­ar­pakk­ann og hann verður kynntur í viku­lok. Pakk­inn mun taka mið af því hvernig sam­komu­höftum verður aflétt út sum­ar­ið, en í dag var greint frá því að lítið skref verði stigið í þeirri aflétt­ingu 4. maí næst­kom­andi. Enn verða þó ferða­tak­mark­anir til og frá land­inu til 15. maí hið minnsta.

Fyrsti aðgerð­ar­pakk­inn var almenn­ur. Sá pakki sem kemur næst verður með sér­tæk­ari aðgerðum fyrir ákveðnar teg­undir atvinnu­starf­semi. Auk þess má búast við því að í honum verði að finna aðgerðir sem muni nýt­ast heim­ilum lands­ins, til dæmis í hús­næð­is­mál­um. Þá verða í honum aðgerðir sem hjálpa eiga litlum fyr­ir­tækjum sem þurftu að loka vegna sótt­varn­ar­ráð­staf­ana, ein­yrkjum sem hafa ekki getað sinnt vinnu sinni og náms­mönn­um, en stór hluti þeirra mun ekki geta gengið að sum­ar­störfum vís­um.

Aðgerð­irnar gætu líka verið inn­legg í við­ræður aðila vinnu­mark­að­ar­ins um að verka­lýðs­hreyf­ingin sam­þykki leiðir til að draga úr kostn­aði fyr­ir­tækja, að minnsta kosti til skamms tíma, undir því yfir­skini að verja störf. Hingað til hafa slíkar við­ræður ekki skilað árangri, en meðal ann­ars hefur verið rætt um að fresta launa­hækk­unum eða að minnka mót­fram­lag atvinnu­rek­enda í líf­eyr­is­sjóði tíma­bund­ið.

Lítið verður um komur ferðamanna til Íslands á árinu 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Hluta­bóta­leiðin verður án efa fram­lengd í ein­hverju formi fram yfir 1. juní. Skil­yrði fyrir því hverjir geta nýtt sér hana verða hins vegar aðlöguð að breyttum veru­leika. Til að byrja með voru þau höfð mjög víð, en verða lík­ast til þrengri til fram­tíð­ar. 

Fyr­ir­liggj­andi er að sum fyr­ir­tæki sem settu starfs­fólk á hluta­bót­ar­leið­ina fyrir síð­ustu mán­aða­mót munu ein­fald­lega segja upp fólki fyrir þau næstu, þar sem að leiðin gengur út á að fyr­ir­tækin greiði áfram 25 pró­sent af laun­um. Ef ekki er lík­indi til þess, sam­kvæmt sviðs­mynd­um, að fyr­ir­tækin opni aftur t.d. út árið þá munu þau lík­ast til ekki vilja greiða þann kostnað áfram. 

Stjórn­völd munu líka frekar vilja nýta fram­lag sitt til að við­halda ráðn­ing­ar­sam­bandi milli atvinnu­rek­enda og laun­þega í að nið­ur­greiða störf hjá fyr­ir­tækjum sem eru líf­væn­leg til lengri tíma.

Sig­urður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra og for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins, tal­aði á Alþingi í dag um að leggja þyrfti aukna áherslu á mat­væla­fram­leiðslu hér­lendis og að skoða þyrfti tolla­mál í því sam­hengi, meðal ann­ars aukna toll­vernd. Þá tal­aði hann fyrir því að raf­orku­kostn­aður garð­yrkju­bænda yrði lækk­aður og að hvatt yrði til frek­ari inn­an­lands­neyslu á næstu mán­uð­um. Telja verður lík­legt að Sig­urður Ingi hafi ekki slegið á þessa strengi nema hann hafi full­vissu um að þessi mál, sem eru póli­tísk afar mik­il­vægt Fram­sókn­ar­flokknum sem er með sterkt bak­land í land­bún­aði, muni rata inn í næsta aðgerð­ar­pakka.

Auglýsing



Þá hefur verið í umræð­unni að fara þá leið sem til að mynda hefur verið farin í Dan­mörku, þar sem stjórn­völd hafa ráð­ist í að greiða út beina styrki til fyr­ir­tækja sem sitja uppi með fastan kostnað á borð við húsa­leigu en geta ekki staðið undir hon­um. Sú leið eru þó umdeild hér­lendis sem víð­ar.

Hvað verður gert til fram­tíð­ar?

Í munn­legri skýrslu sinni um um áhrif COVID-19 far­ald­­­ur­s­ins og um við­brögð stjórn­­­­­valda við þeim áhrifum á Alþingi í dag sagði Katrín Jak­obs­dóttir for­sæt­is­ráð­herra að í öllum kreppum felist mögu­leik­ar. „Við höfum tæki­­færi til að byggja hér upp á sviði nýsköp­un­­ar, rann­­sókna og þró­un­­ar,“ sagði Katrín og bætti við að mög­u­­lega myndi far­ald­­ur­inn virka eins og „hrað­all fyrir fjórðu iðn­­­bylt­ing­una“ þar sem vænt­an­­legar breyt­ingar myndu ganga yfir hrað­­ar.

Í ræðu sinni við sama til­efni sagði fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra að hann yrði að vera hrein­skil­inn og segja að það yrði ekki hægt að lofa öllum að kom­­ast efna­hags­­lega skað­­lausum úr þessu ástandi. „Það er úti­­lok­að.“ Bjarni hefur áður talað á sömu nótum og for­sæt­is­ráð­herra gerði í dag og sagt að Ísland ætti að gera ráð­staf­anir til að und­ir­búa mikla sókn þegar ástand­inu lýk­ur. Þær ráð­staf­anir eigi að tryggja meiri afköst, fram­leiðni og sam­keppn­is­hæfni lands­ins.

Við­mæl­endur Kjarn­ans eru flestir sam­mála um að í því felist meðal ann­ars að gripið verði til umfangs­meiri aðgerða til að styðja við ýmis­konar nýsköp­un. Við­mæl­endur Kjarn­ans í atvinnu­líf­inu segja að á meðal til­lagna sem rætt hafi verið um við stjórn­völd séu að fyr­ir­liggj­andi úrræði á borð við hluta­bóta­leið­ina og frestun á skatt­greiðslum verði látin ná yfir sprota­fyr­ir­tæki og að end­ur­greiðsl­ur, til dæmis vegna rann­sóknar og þró­un­ar, verði hækk­aðar veru­lega. 

Til­gang­ur­inn verður að styðja við starf­semi sem getur verið arð­bær til fram­búð­ar, þótt hún sé það ekki endi­lega í dag.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar