Höfða landamerkjamál á Ströndum sem gæti sett áform um Hvalárvirkjun í uppnám
Meirihluti eigenda eyðijarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi segir það sinn vilja „að óbyggðir Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum“.
Eigendur um 75 prósent eyðijarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi hafa höfðað mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á hendur eigendum jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar í Árneshreppi sem og eigendum Laugalands í Strandabyggð. Er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki Drangavíkur gagnvart hinum jörðunum þremur séu eins og þeim var lýst í þinglýstum landamerkjabréfum frá árinu 1890. Landamerkjabréfin, sem voru öruggar heimildir síns tíma, hafa verið samþykkt af eigendum þeirra jarða er áttu land að viðkomandi jörð og eru þinglýstar heimildir fyrir eignarrétti.
Engir samningar hafa verið gerðir eftir að landamerkjabréfin voru skráð sem breyta að mati landeigenda Drangavíkur merkjum milli jarðanna svo merkjalýsingar þeirra skulu gilda.
Verði krafa landeigendanna staðfest mun það setja áform Vesturverks um Hvalárvirkjun í uppnám. Eyvindarfjarðará og Eyvindarfjarðarvatn, sem til stendur að nýta til virkjunarinnar, yrðu þá inni á landi í eigu fólks sem margt hvert kærir sig ekki um virkjunina.
Samkvæmt þeim kortum sem Vesturverk notar í sínum áætlunum, m.a. mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar, og sveitarfélagið í sínum skipulagsuppdráttum frá árinu 2014 eru Eyvindarfjarðarvatn og áin úr því innan landamerkja Engjaness.
Í stefnunni, sem Kjarninn hefur undir höndum, er heimildin fyrir þeim mörkum sögð sú sama: Gagnagrunnur verkefnisins Nytjalands frá árinu 2002. Sá grunnur hafi ekki verið ætlaður sem heimild um landamerki. Við vinnslu verkefnisins hafi almenna reglan verið sú að afla heimilda um bújarðirnar frá eigendum sjálfum. Enginn eigenda Drangavíkur var hins vegar spurður álits.
Enda segir á skipulagsuppdráttum Árneshrepps: „Heimildarmaður vegna jarðamarka Haukur Jóhannesson án ábyrgðar.”
Haukur Jóhannesson er jarðfræðingur. Samkvæmt staðfestu endurriti skýrslutöku af honum í nýlegu óbyggðarnefndarmáli, sem rakið er í stefnunni, tók hann enga afstöðu til merkjanna. Þetta sýnir, að mati landeigenda Drangavíkur, að engin áreiðanleg heimild sé að baki þeim gögnum er stuðst hefur verið við.
Í stjórnsýslu- og dómsmálum sem rekin hafa verið vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar hefur komið fram að óleystur sé ágreiningur um landamerki Drangavíkur gagnvart jörðunum Engjanesi og Ófeigsfirði. Telur meirihluti eigenda Drangavíkur því nauðsynlegt að höfða mál til viðurkenningar á landamerkjum milli jarðanna. Inn í málið dregst einnig jörðin Laugaland í Strandabyggð, sem á land að umdeildu svæði.
Ekki hefur verið búið á jörðinni Engjanesi í hundruð ára. Hún er nú í eigu ítalsks baróns, Felix von Longo-Liebenstein. Vesturverk samdi við hann um vatnsréttindi vegna Hvalárvirkjunar árið 2008. Það sama ár samdi fyrirtækið við eigendur Ófeigsfjarðar en í þeirri jörð á Pétur Guðmundsson, sem þar er fæddur og uppalinn, langstærstan hlut.
Jörðin Drangavík er víðfeðm landnámsjörð og nær frá Drangajökli í sjó fram, segir í stefnunni. Hún liggur sunnan Drangaskarða en norðan þeirra er jörðin Drangar. Síðast var búið í Drangavík 1947. Hefur jörðin síðustu áratugi verið nytjuð til reka, selveiða og dúntekju.
Í stefnunni er vísað til fjölda heimilda. Þeirra elst er sjálf Landnáma en þar segir:
„Þorvaldr Ásvaldsson, Úlfssonar, Yxna-Þórissonar, nam Drangaland ok Drangavík til Enginess ok bjó at Drǫngum alla ævi. [...] Herrøðr hvítaský var gǫfugr maðr; hann var drepinn af ráðum Haralds konungs, en synir hans þrír fóru til Íslands ok námu land á Strǫndum: Eyvindr Eyvindarfjǫrð, Ófeigr Ófeigsfjǫrð, Ingólfr Ingólfsfjǫrð; þeir bjǫggu þar síðan.“
Stóra málið í stefnunni snýst um landamerkin milli Drangavíkur og Engjaness og kemur þar fram að ekki séu til skýrar heimildir um tilurð og afmörkun Engjaness. Hún sé ekki landnámsjörð en virðist hafa fengið land frá Drangavík og Eyvindarfirði. Vísað er til máldaga Stafholtskirkju þar sem segir m.a. um eignir kirkjunnar: „Engi nes a strondum norðr [ok] reki með.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín yfir Trékyllisvíkurhrepp frá 1706 segir eftirfarandi um Engjanes:
„Þetta kot hefur aldrei bygt verið, nema fyrir x árum tók það einn maður og flosnaði upp, síðan hefur það ei bygt verið. Það kann ei að byggjast, nema sá sem er í Drángavík hafi það með. Þar hefur nú enginn maður gagn af sem menn vita.“
Í jarðamati Strandasýslu frá 1804 er dýrleiki Engjaness metinn sex hundruð en eigandi jarðarinnar var Stafholtskirkja. Þá segir að engin búseta sé á jörðinni. Ennfremur segir að hún notist aðeins sem beitiland fyrir næstu jörð, þ.e. jörðina Drangavík. Ekkert kemur þar fram um afmörkun eða ítök Engjaness.
Engar upplýsingar eru um Engjanes í jarðamati Strandasýslu frá 1849 til 1850.
En þau gögn sem landeigendur telja að renni helst stoðum undir kröfur sínar eru hin svokölluðu landamerkjabréf.
Landamerkjabréf er skjal sem hefur að geyma upplýsingar um landamerki, auðkenni þeirra svo sem náttúruleg kennileiti, hlaðnar vörður o.þ.u.l. og um skyld efni. Merkjalýsingar þessar voru að mestu leyti skráðar á síðustu tveimur áratugum 19. aldar í kjölfarið á settum lögum um landamerki frá árinu 1882. Ný lög um landamerki tóku gildi árið 1919 og eru þau enn í fullu gildi. Þessar lýsingar eru geymdar í landamerkjabókum, en unnt er að nálgast þær hjá viðkomandi sýslumannsembætti og á vef Þjóðskjalasafns Íslands.
Landamerkjabréfin dregin fram
Er upp komst síðasta sumar að landamerki þau sem notuð voru á skipulagsuppdráttum Árneshrepps, sem eru þau sömu og Vesturverk hefur stuðst við, voru ekki þau sem staðkunnugir töldu sig þekkja, var farið að skoða málið nánar.
Í ljós kom að þinglýst landamerkjabréf Drangavíkur er dagsett 2. júlí 1890. Því var þinglýst sama dag við manntalsþingsrétt að Árnesi, og hljóðar svo:
„Landamerkjaskrá fyrir jördina Drangavík í Árneshreppi. Milli Dranga er Drangatangi við sjóinn sjónhending af lægsta Skardatindinum á vördu þá sem er á Klettunum skammt fyrir ofan sjóinn og svo eptir þeirri línu til sjóar. En milli Drangavíkur og Engjanes er Þrælskleif og nordanverdu kúpóttur klettur og varda beint upp af honum. Kálhólmar 3 med Ædarvarpi.“
Landamerkjabréf Engjaness er einnig dagsett 2. júlí 1890. Því var þinglýst sama dag og hljóðar svo:
„Landamerkjaskrá fyrir eyðijördina Engjanes í Árneshreppi. Hornmark milli Engjanes og Drangavíkur er Þrælskleif, þadan beint til fjalls, svo eptir hæstu fjallsbrún ad Eyvindarfjardará en hún ræður merkjum til sjóar milli Engjaness og Ófeigsfjardar.“
Landamerkjabréf Ófeigsfjarðar er dagsett 21. janúar 1890, en því var þinglýst 2. júlí sama ár og hljóðar svo:
„Landamerki fyrir jördinni Ófeigsfirði í Árneshreppi innan Strandasýslu. Land jardarinnar er frá Helgaskjóli og nordur ad Eyvindarfjardará og eru þar skír landamerki, fram til fjalls á Ófeigsfjördur svo langt sem vötnum hallar að Ófeigsfjarðarlandi og liggur því undir Ófeigsfjörð allur Húsadalur og allur Sýrárdalur út á Seljanesmúla ad vördum þeim, sem skilja milli Ófeigsfjardar og Seljaneslands. Á sjó á Ófeigsfjördur út þangað til Helgaskjól er ad bera í landamerkjavördu, sem þar er uppi á múlanum, þ.e. Ófeigsfjörður á nokkuð lengra á sjó úteptir en á landi.“
Í maí árið 1921 seldi Guðmundur Pétursson hálfa jörðina Ófeigsfjörð til Péturs Guðmundssonar. Landamerki jarðarinnar eru skráð í kaupsamninginn í afsals- og veðmálabók Strandasýslu að því er fram kemur í stefnunni og þau eru eftirfarandi:
„Milli Seljaness og Ófeigsfjarðar í læk, er fellur til sjávar hjá svonefndu Helgaskjóli, ræður hann merkjum frá sjó að vörðu á múlabrúninni þar upp af, þaðan sjónhending eptir sömu stefnu uppá hámúlann. – Milli Drangavíkur og Ófeigsfjarðar ræður Eyvindarfjarðará merkjum frá sjó til upptaka, en á aðra vegu á Ófeigsfjörður land eins langt og vötn falla þar til sjávar.“
Meirihluti landeigenda Drangavíkur gerðu gangskör að því að sýslumaður leitaði sátta um landamerkjaágreininginn samkvæmt lögum um landamerki „en af hálfu eigenda Engjaness og Ófeigsfjarðar var talið þýðingarlaust að reyna slíkar sættir,“ segir í stefnunni.
Landeigendurnir telja að þegar Drangavík var ásamt Dröngum numin á landnámsöld hafi landnámið náð til vatnaskila á Drangajökli og hafi landið fylgt jörðinni allar götur síðan og að land Ófeigsfjarðar, hafi verið þar sunnan við. Engar vísbendingar eða skriflegar heimildir séu um annað.
Þá telja þeir að í þeim tilvikum sem öðrum heimildum sé ekki til að dreifa um merki landnámsjarða hafi almennt verið litið svo á að land hafi verið numið milli fjalls og fjöru. Því megi álykta að lönd landnámsmanna á Ströndum hafi náð frá hábungu á vatnaskilum í vestri og til sjávar.
Samkvæmt landamerkjabréfi Engjaness var jörðin með skýrt afmarkað land á alla vegu og hringurinn lokaðist við Eyvindarfjarðarána. „Þegar haft er í huga að Engjanes verður til síðar en landnámsjarðirnar þá er skiljanlegt hvers vegna sú ein jörðin er með afmarkað land á alla vegu en Drangavík og hinar landnámsjarðirnar eru áfram með sitt afréttar- eða eignarland upp að vatnaskilum,“ segir í stefnunni.
Landeigendur Drangavíkur telja ljóst af merkjalýsingu í landamerkjabréfi Engjaness að jörðin Engjanes sé afmörkuð sneið úr því landi sem liggi á milli jarðanna Ófeigsfjarðar og Dranga og að land hennar nái hvergi upp fyrir Eyvindarfjarðará. Þetta fær að þeirra mati stuðning í niðurstöðum úrskurðar óbyggðanefndar um Drangajökulsvíðerni sem birtur var á þessu ári. Í niðurstöðum nefndarinnar er fjallað nokkuð um kröfur Engjaness og eru leiddar líkur að því tilvísun landamerkjabréfs Engjaness til vatnaskila eigi við vatnaskil á Drangavíkurfjalli en síður ofan við svokallað Efra-Drangavíkurvatn. Þar segir m.a.:
„Telja verður ljóst að þar sem merkjum Engjaness er lýst frá Þrælskleif „beint til fjalls“ og svo „eptir hæstu fjallsbrún“ sé a.m.k. átt við framangreind vatnaskil á Drangavíkurfjalli, enda liggur Drangavíkurfjall beint upp af Þrælskleif, myndar skýr skil milli vatnasviða Eyvindarfjarðarár og Drangavíkurár og eðlilegt má telja að vísa til hæstu brúna þess sem „hæstu fjallsbrúnar“.
Í fréttatilkynningu frá eigendum Drangavíkur segir að ástæða þessara aðgerða þeirra sé „vilji til að óbyggðir Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum. Hvalárvirkjun mun ekkert gera fyrir mannlíf á Ströndum norður, heldur þvert á móti eyðileggja þá möguleika sem felast í náttúruvænni uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar. Hvalárvirkjun er ekki nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og bygging hennar myndi ennfremur leiða til neikvæðra umhverfisáhrifa af háspennulínum og vegslóðum í óbyggðum.“
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna