Popúlísk ráð duga skammt gegn raunverulegum vandamálum
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor ræddi við Kjarnann um áhrif heimsfaraldursins á stjórnmálin. Hann telur líklegt að hægt verði að draga lærdóm af því hvernig popúlískir leiðtogar eins og Trump og Bolsonaro standa andspænis áskoruninni nú.
Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands hefur, ef til vill eðlilega fyrir mann í hans starfsstétt, verið að velta því fyrir að undanförnu sér hvort kórónuveiran og kreppan sem henni fylgir um veröld víða muni hafa pólitísk og efnahagsleg áhrif þegar frá líður. Kjarninn heyrði í honum fyrr í vikunni og spurði hverju hann hefði tekið eftir varðandi stöðu mála í stjórnmálum í gegnum þessa undarlegu tíma sem við lifum.
Varðandi íslenska pólitík segist Ólafur ekki sjá nein merki þess að til skamms tíma verði markverðar hreyfingar á fylgi flokka eða stöðu ríkisstjórnarinnar tengt þessum faraldri. Hann veltir því hins vegar fyrir sér hvort áfallið sem kórónuveirukreppan mun valda í heiminum öllum verði til þess að hlutverk ríkisvalds aukist, jafnvel til langs tíma. Hann nefnir tvö dæmi af kreppum sem hafa valdið breytingum á lífssýn fólks og hugmyndafræði í heiminum, í fyrsta lagi kreppuna miklu árið 1929 og í öðru lagi fjármálakreppuna árið 2008.
„Miklir atburðir eða mikil áföll hafa haft mjög afgerandi afleiðingar í sögu veraldarinnar,“ segir prófessorinn
„Ef við skoðum kreppuna miklu þá hafði hún ótvírætt mjög mikil áhrif og hún átti ríkan þátt í því að keynesisminn varð ríkjandi stefna í hagstjórn í veröldinni í hálfa öld þar á eftir. Þar sjáum við gríðarleg, tiltölulega bein áhrif,“ segir Ólafur og bætir við að kreppan mikla hafi áreiðanlega átt „mikinn þátt í að móta hina sósíaldemókratísku stefnu á Norðurlöndunum, bæði varðandi hagstjórnina, sem var keynesísk og líka tilurð velferðarkerfisins.“
„Ef við lítum svo á fjármálakreppuna 2008, þá virðist mér hún líka hafa haft umtalsverð áhrif. Við sjáum til dæmis að ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fjármálakreppuna eru allt öðruvísi en þær voru fyrir hana. Fyrir hana fólust ráðleggingar sjóðsins aðallega í því að benda mönnum á að taka upp óhefta frjálshyggju, en það voru alls ekki ráð þeirra til Íslendinga þegar þeir aðstoðuðu okkur í hruninu. Við sjáum líka að núna er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, og reyndar mörg fleiri svona alþjóðleg samtök sem eru með hagfræðilegar ráðleggingar eins og OECD, núna leggja þessir aðilar til dæmis mikla áherslu á vaxandi ójöfnuð og eru meira að segja farnir að tala um að ójöfnuður geti verið hamlandi fyrir hagvöxt,“ segir Ólafur og bætir við að eftir hrun fjármálamarkaða 2008 hafi háskólahagfræðingar margir hverjir farið í „mikla naflaskoðun á sínum fræðum.“
„Mér sýnist að meðal háskólahagfræðinga hafi nýfrjálshyggjan, eða óheft markaðshyggja, í vaxandi mæli átt undir högg að sækja á meðan að keynesísku áherslurnar hafa komið aftur. Þannig að þetta eru svona dæmi um það hvernig miklir atburðir geta haft miklar afleiðingar,“ segir Ólafur.
Ríkisvaldið gríðarlega mikilvægt á erfiðum tímum
„Ef við veltum aðeins fyrir okkur núverandi kreppu, sem er auðvitað bæði hagræn, félagsleg, siðferðileg og pólitísk, það sem manni dettur í hug er að í henni birtist með afskaplega skýrum hætti hvað ríkisvaldið er gríðarlega mikilvægt á erfiðum tímum. Undanfarna áratugi hafa ýmis pólitísk öfl talað þannig að ríkisvaldið sé aðallega af hinu illa og bara til bölvunar og trufli markaðinn, en núna kemur allt í einu upp aðstaða þar sem langflestir horfa til ríkisvaldsins sem þess aðila sem verður að grípa inn í og bjarga hlutunum.
Varðandi efnahagsmálin sjáum við mjög víða viðbrögð þar sem ríkisvaldið grípur inn í hagkerfið, með meira afgerandi hætti en við höfum séð í áratugi og kannski með meira afgerandi hætti en nokkurn tímann áður. Það er spurning hvort þessi breytta afstaða til hlutverks ríkisvaldsins muni halda áfram í einhverja áratugi enn,“ segir Ólafur, sem telur einnig að heimsfaraldurinn muni vekja upp frekari umræðu um ójöfnuð, „því það náttúrlega blasir við að í mjög mörgum löndum eru það þeir verst settu og þeir fátæku sem eru ekki bara fátækir lengur heldur hríðfalla fyrir sjúkdómnum.“
Blaðamaður skýtur því að Ólafi að til dæmis í Svíþjóð hafi innflytjendur orðið sérstaklega illa fyrir barðinu á veirunni, en í Stokkhólmi hafa smit verið hlutfallslega tíð á meðal innflytjenda frá Sómalíu. Ólafur segir faraldurinn einnig vekja upp spurningar um stöðu innflytjenda, „því bæði eru þeir víða fátækari og viðkvæmari þannig fyrir veirunni, en þetta vísar líka á það hvað það er mikilvægt að innflytjendur séu samlagaðir því samfélagi sem þeir lifa í.“
„Víða gerist það með innflytjendurnar að þeir tala ekki málið, þeir tortryggja yfirvöld og þeir fá kannski ekki heldur skilaboð um þann háska sem er fyrir hendi. Almennt talað sýnir þetta líka hvað traust er gríðarlega mikilvægt í samfélaginu, það er að segja, að á tímum sem þessum séu flestir tilbúnir til þess að treysta yfirvöldunum og fara að tilmælum þeirra um hegðun.
Það er gríðarlega mikilvægt og við höfum reyndar séð, í mörgum vestrænum ríkjum að minnsta kosti, að traust á yfirvöld og stofnunum samfélagsins hefur farið hraðvaxandi í þessum faraldri,“ segir Ólafur.
Ánægja með viðbrögð yfirvalda við kórónuveirufaraldrinum mælist hvergi meira en hér á landi, samkvæmt Gallup-könnun sem var birt fyrr í vikunni, en traust til stjórnmálastéttarinnar á Íslandi hefur þó verið afar lítið í reglubundnum mælingum á trausti til stofnana hérlendis allt frá hruni.
Ólafur segir stjórnvöld hafa borið gæfu til að treysta vísindunum og fara eftir ráðleggingum sóttvarnalæknis og annarra sérfræðinga, en bendir einnig á að stuðningur við ríkisstjórnina hafi aukist nokkuð eftir að krísan skall á.
„Þetta er svokallaður „rally ‘round the flag effect,“ segir Ólafur, en í stjórnmálafræðinni er það þekkt að í alþjóðlegum krísum eykst stuðningur við ríkjandi stjórnvöld, en þó bara tímabundið.
„Það hefur gerst hér og það gerðist í Danmörku, þar sem stuðningur við Mette Frederiksen fór úr fjörutíu prósentum í áttatíu prósent,“ segir Ólafur.
Talið berst næst að Bandaríkjunum, en þar naut Donald Trump forseti afar takmarkaðrar fylgisaukningar eftir að veiran fór að valda usla og „rally ‘round the flag“ áhrifin þar urðu mun minni en um leiðtoga víðast hvar annars staðar, eða um 2-3 prósentustig. Þessi áhrif eru þegar farin að ganga til baka.
Trú á vísindi og sérfræðinga gæti aukist
Stuðningsaukningin við stjórnmálaleiðtoga í svona krísum er alltaf tímabundinn, en Ólafur segir að varanlegar breytingar gætu orðið á afstöðu fólks til vísinda og sérfræðinga.
„Það hefur verið áberandi undanfarin ár, sérstaklega meðal svona lýðhyggjuflokka eða popúlistaflokka, að þeir hafa talað niður vísindi og sérfræðinga og talið að þeir hefðu ekkert annað fram að færa heldur en skoðanir. Þess vegna bæri ekki að taka þá neitt sérstaklega alvarlega. Nú hefur komið heldur betur í ljós að þegar á bjátar vilja menn hlusta á vísindin og menn vilja hlusta á sérfræðingana. Það kynnu að vera varanleg áhrif,“ segir Ólafur.
Lærdómur faraldursins gæti orðið sá að popúlísk ráð dugi skammt
„Annað, sem tengist þessu, er að hefðbundin stjórnmál hafa víða átt aðeins undir högg að sækja og lýðhyggjuflokkar eða popúlistar hafa víða verið að sækja í sig veðrið, þó að þeir hafi nú ekki komist til valda á mjög mörgum stöðum.
Einn lærdómur sem menn geta dregið af þessari kreppu er hvernig popúlistar í valdastöðum bregðast við alvarlegum áföllum af þessu tagi. Ef við tökum dæmi til dæmis af Donald Trump annars vegar og Bolsonaro í Brasilíu hins vegar þá sjá menn auðvitað glögglega að starfshættir þeirra og vísindaandúð og þessi popúlísku ráð, þau duga mjög illa gagnvart einhverjum raunverulegum vandamálum þar sem þarf öflugt ríkisvald og stöðuga eða hefðbundna forystu til þess að takast á við vandann.
Þessi kreppa gæti orðið til þess að grafa undan trú almennings á popúlistum í valdastöðum,“ segir Ólafur, en bætir við að hættan sé auðvitað sú að ef hefðbundnum stjórnvöldum takist mjög illa að fást við þennan vanda á stöðum þar sem popúlistar hafa ekki verið við völd, gæti gagnrýni þeirra á hefðbundin stjórnvöld enn þá haft áhrif.
„Það væri þó ansi kaldhæðið ef þessi kreppa yrði til þess að grafa undan popúlistunum,“ segir Ólafur, en talið berst því næst aftur að Bandaríkjunum, þar sem mótmæli eru nú nánast upp á dag í einstaka ríkjum gegn þeim hömlum sem sett hafa verið á daglegt líf í sóttvarnaskyni. Mótmæli sem Trump forseti hefur beinlínis hvatt til, með skilaboðum á Twitter til íbúa ríkjanna um að „FRELSA“ þau.
Á sama tíma er dagljóst að Bandaríkin hafa átt erfitt með að fóta sig í baráttunni gegn veirunni og skæðar hópsýkingar hafa blossað upp vítt og breitt um þetta víðfema land. Á níunda hundrað þúsund tilfella COVID-19 hafa greinst í Bandaríkjunum öllum og yfir 45 þúsund manns hafa látið lífið. Ólafur segir að það sé ekki einungis stærð landsins sem geri viðbrögðin þar erfið, heldur líka sjálf stjórnskipanin, valdakerfið.
„Í Bandaríkjunum erum við með gríðarlega mikla valddreifingu, meðal annars milli forsetaembættisins og fylkjanna og svo eru alls konar völd ekki bara á höndum fylkjanna heldur í afskaplega flóknu sveitarstjórnarkerfi.
Kerfið er mjög flókið og það sem hefur gerst í Bandaríkjunum er að það skortir algjörlega samræmda forystu. Slík forysta er alltaf mjög erfið því sumt er hjá forsetanum og sumt er hjá fylkisstjórunum, en Trump hefur náttúrlega ekki gert neina tilraun til heildrænnar forystu, segir eitt í dag en annað á morgun.
Þar hefur þetta líka farið út í pólitík og hver höndin er uppi á móti annarri, Trump hundskammar fylkisstjórana og þeir kvarta undan honum. Þarna sést að þetta valddreifða kerfi, þó að það hafi ýmsa kosti, þá hefur það mjög augljósa galla þegar upp kemur vandi af þessu tagi,“ segir Ólafur, sem segir Trump virðast algjörlega ráðalausan í viðbrögðum gegn veirunni. Mat Ólafs er að Trump fari á spjöld sögunnar sem einstakur leiðtogi, en ekki í jákvæðri merkingu.
„Svona gamalreyndir stjórnmálafræðingar eins og ég höfum séð ýmislegt, lesið okkur til um marga ótrúlega hluti og svívirðilega hluti stjórnmálanna. Maður er vanur að lesa um mikla leiðtoga sem unnu gríðarleg afrek en gerðu líka skelfilega hluti, þeir eru bæði góðir og slæmir og hæfir og óhæfir, en eitthvað eins og Trump hefur maður aldrei séð. Hann er alveg í sérflokki, allavega af svona lýðræðislegum leiðtogum. Við höfum verið með með harðstjóra eins og Hitler og Stalín, en við erum að tala um leiðtoga í lýðræðisríkjum,“ segir Ólafur, sem bætir við að hans kynslóð hafi alist upp við að Bandaríkin og Bandaríkjaforsetar væru álitnir leiðtogar hins vestræna heims. Það hlutverk telur Ólafur nú fremur í höndum leiðtoga Frakklands og Þýskalands.
Og talandi um. Evrópusambandið. Hvernig er það að takast á við veiruna, að mati Ólafs?
„Evrópusambandið er þeirrar náttúru að það er alltaf að fást við nýjar og nýjar kreppur og í hvert skipti sem það kemur upp kreppa hafa einhverjir orðið til þess að spá endalokum Evrópusambandsins. Þetta er náttúrlega ein mesta kreppa sem Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess hafa lent í. Það skiptir máli hvernig sambandið bregst við.
Eitt sem ég hef tekið eftir er að Macron Frakklandsforseti var í viðtali nýlega við Financial Times þar sem hann hvatti til þess að betur stæð ríki Evrópusambandsins gerðu mjög myndarlegt átak í því að styðja efnahagslega við þau ríki Evrópusambandsins sem verr eru stödd, sem eru aðallega Miðjarðarhafsríkin. Ef að eitthvað af þessu taginu gengi eftir, þá held ég að það myndi verða til þess að styrkja Evrópusambandið og Evrópuhugsjónina mjög verulega. En það er náttúrlega ekki klárt hvort að það verður, en þetta þótti mér mjög athyglisvert,“ segir Ólafur.
Í þessu ástandi hefur Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, aukið mjög völd sín. Með lagafrumvarpi sem samþykkt var í lok mars fékk hann heimild til þess að stýra ríkinu með tilskipunum, án aðkomu þingsins. Þessi ráðstöfun er ótímabundin, þó að stjórnvöld í Ungverjalandi segi að hún verði einungis nýtt sem neyðarráðstöfun á meðan faraldurinn geisar.
„Það hefur náttúrlega verið vaxandi umræða um það hvort hann sé húsum hæfum í Evrópusambandinu, þar sem hans stjórnarhættir og það sem hann hefur verið að gera gengur í rauninni alveg gegn öllum meginhugsjónum Evrópusambandsins og reyndar líka gegn hugsjónum Evrópuráðsins. Evrópusambandið hefur gert athugasemdir við framkomu Orbáns varðandi þær aðgerðir sem hann hefur gripið til, ekki síst þetta að láta setja lög um alræðisvald forsetans sem eru ótímabundin, sem er mjög varhugavert og auðvitað er alltaf háskinn sem við er að glíma þegar upp koma miklar krísur að óprúttnir stjórnmálamenn notfæri sér það,“ segir Ólafur, sem segir að aukin hætta sé á því að „lukkuriddarar“ og öfgasinnaðir pólitíkusar njóti lýðhylli ef hinum hefðbundnu stjórnmálaöflum tekst ekki að valda því verkefni að takast á við kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans.
„En sem betur fer sjáum við mjög víða, ekki alstaðar, en mjög víða, að lýðræðisleg stjórnvöld eru bara að standa sig býsna vel í baráttunni við þennan vágest.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars