Samtök atvinnulífsins (SA) leggja til að tvær breytingar verði gerðar á skilyrðum svokallaðra stuðningslána. Annars vegar vilja samtökin að þau nái til fyrirtækja sem séu með tekjur undir 1,2 milljarði króna á ári í stað 500 milljóna króna eins og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frumvarpi.
Í öðru lagi vilja þau að hámarks lánsfjárhæð, sem nú er sex milljónir króna, verða þess í stað látin taka mið af rekstrarkostnaði fyrirtækja í beinu hlutfalli við tekjufall, svo fremur sem tekjutapið sé 40 prósent eða meira.
Þetta kemur fram í umsögn SA um nýtt frumvarp til fjáraukalaga sem birtist á vef Alþingis í dag.
Segja stuðningslánin einungis ná til örfyrirtækja
Stuðningslánin voru kynnt í aðgerðapakka 2.0 í síðustu viku. Þau munu njóta 100 prósent ríkisábyrgðar. Lánin til fyrirtækjanna verður hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau verða sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna á að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda.
Í umsögn SA segir að stuðningslánin hafi verið kynnt á þeim forsendum að þau nái til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Ljóst sé að COVID-19 faraldurinn hafi víðtæk áhrif á íslenskt atvinnulíf og líklega þyngra en í mörgum öðrum ríkjum vegna efnahagslegs mikilvægis ferðaþjónustu í verðmætasköpun og fjölda starfa. „Samkvæmt tölum frá Creditinfo úr ársreikningum fyrirtækja fyrir árið 2018 ná þessi lán aðeins til 15 prósent viðskiptahagkerfisins miðað við ársveltu. Eftir standa því 85 prósent viðskiptahagkerfisins sem lánin ná ekki til. Stuðningslán eru hugsuð sem rekstrarlán til að aðstoða fyrirtæki í gegnum mjög erfiðara efnahagsaðstæður. Í ljósi þess hversu víðtæk áhrif COVID-19 faraldurinn hefur á íslenskt atvinnulíf er óheppilegt að horft sé fram hjá svo stórum hluta viðskiptahagkerfisins.“
Vilja að stærri fyrirtæki geti frestað skattgreiðslu
Önnur aðgerð sem var kynnt í síðustu viku var að fyrirtæki sem ættu að greiða tekjuskatta í ár, vegna hagnaðar í fyrra, áttu að geta að skilyrðum uppfylltum frestað þeim skattgreiðslum. Hámarksfrestun skattgreiðslu á hvert fyrirtæki var 20 milljónir króna og sem þýðir að fyrirtæki með allt að 100 milljóna króna í hagnað á árinu 2019 eiga að geta nýtt sér úrræðið, sem í raun er vaxtalaust lán frá ríkinu, að fullu. Umfang þessarar aðgerðar er metin á tólf milljarða króna af stjórnvöldum.
SA gerir athugasemdir við skilyrðin sem sett eru. Samtökin telja að ekki ætti að takmarka fjárhæð skatteignar. „Þau fyrirtæki sem skiluðu miklum hagnaði á síðasta ári geta hæglega lent í miklu tapi í núverandi árferði. Ríkissjóður setti ekki þak á skattgreiðslur þeirra fyrirtækja í fyrra. Ákvæðið í núverandi mynd felur þannig í sér ómálefnalega mismunun sem er ekki fullnægjandi rökstudd. Í skattheimtu verður að ríkja jafnræði og því eðlilegt að fyrirtæki með meiri hagnað en 100 millj. kr. í fyrra og fer í mikinn taprekstur í ár geti tekið tapið út á einu ári í stað fleiri. Aðgerðin er tekjuhlutlaus fyrir ríkissjóð að frádregnum fjármagnskostnaði.“
Vilja hærri lokunarstyrki
Svokallaðir lokunarstyrkirnir voru kynntir í aðgerðapakka stjórnvalda í síðustu viku. Í þeim felst að fyrirtæki eða einyrkjar sem þurftu að loka starfsemi sinni vegna lögboðs stjórnvalda í tengslum við sóttvarnaraðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum munu geta fengið styrki úr ríkissjóði. Styrkirnir verða í boði fyrir þau fyrirtæki sem geta sýnt fram á að minnsta kosti 40 prósent tekjufall og að þau séu með opinber gjöld í skilum. Hver aðili mun geta fengið allt að 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann en 2,4 milljóna króna styrk að hámarki.
Að mati SA er hámarksfjárhæðin of lág.
Vilja kröfu um hagræðingu í ríkisrekstri
Önnur aðgerð sem kynnt var fyrir tæpri viku var átak til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn sem áttu engan eða takmarkaðan rétt á atvinnuleysisbótum. Kostnaður vegna þessa var metinn á 2,2 milljarða króna.
Átakið á að takmarkast við samvinnu Vinnumálastofnunar og félagsmálaráðuneytis við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og búa til allt að þrjú þúsund tímabundin störf hjá hinu opinbera. SA segir að það sæti furðu að þetta samstarf nái ekki til einkafyrirtækja en það er ljóst að sum þeirra þurfi að ráða inn tímabundna starfskrafta í sumar vegna sumarleyfa starfsfólks. „Einnig er líklegt að mörg fyrirtæki sleppi því að ráða inn sumarfólk vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu og velji fremur að draga úr þjónustu í sumar. Með þessari aðgerð væri því hægt að hvetja fyrirtæki til þess að ráða námsmenn og auka þannig enn frekar á fjölbreytni þeirra starfa sem námsmönnum stendur til boða í sumar. Þar að auki myndi þetta aðstoða fyrirtæki við að halda uppi starfsemi og þjónustustigi í sumar á meðan starfsfólk þeirra er í sumarleyfum.“
Að lokum lýsa SA yfir vonbrigðum með að í fjáraukalögunum sé ekki gerð krafa um aukna hagræðingu í ríkisrekstri. „Aukin hagræðing í ríkisrekstri er nauðsynleg og verður verkefni næstu missera þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Stöðugt þarf hins vegar að horfa til þeirra fjármuna sem ríkissjóður hefur úr að spila hverju sinni. SA hvetja stjórnvöld til að horfa til þeirrar stöðu sem nú er uppi og finna allar mögulegar leiðir til að draga úr útgjöldum og hagræða í rekstri.“