Mynd: Bára Huld Beck

Væntanlegur halli ríkissjóðs fór úr tíu í allt að 300 milljarða á hálfu ári

Í lok nóvember 2019 voru samþykkt viðspyrnufjárlög fyrir yfirstandandi ár. Reka átti ríkissjóð með um tíu milljarða króna halla til að bregðast við skammvinni niðursveiflu. Um miðjan marsmánuð var farið að reikna með 100 milljarða króna halla. Nú er talið einboðið að hann verði 250 til 300 milljarðar króna. Á hálfu ári hefur íslenskum efnahag verið snúið á hvolf og sviðsmyndirnar versnað nánast dag frá degi síðustu vikur. Hér er þessi saga rakin.

Síðast þegar Ísland gekk í gegnum stórt efnahagsáfall þá hrundi íslenska bankakerfið á örfáum dögum. Það voru mestu hamfarir sem orðið hafa af mannavöldum hérlendis. Í kjölfarið veiktist krónan um tugi prósenta, verðbólga fór í 18,6 prósent, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi í hæstu hæðir og hallinn sem ríkissjóður var rekinn með á því ári, 194 milljarðar króna, gerði hann nær gjaldþrota. Áhrifin á samfélagið allt voru gríðarleg, sérstaklega á þá sem skulduðu. Leita þurfti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og ríkissjóður var rekinn með halla út árið 2013. Uppsafnaður halli á þessu tímabili, frá 2008 til 2013, var tæplega 658 milljarðar króna samkvæmt tölum frá Hagstofu Ísland. Kreppan var því langvarandi.  

Síðan tók við mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar sem náði hámarki árið 2016 þegar saman kom gríðarleg aukning í komu ferðamanna og greiðsla stöðugleikaframlagi úr slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja. Það árið var afgangur af rekstri ríkissjóðs tæplega 302 milljarðar króna. 

Í fyrra stefndi í að því hagvaxtarskeiði myndi ljúka, þegar WOW air fór í þrot samhliða því að Icelandair glímdi við mikla rekstrarerfiðleika, meðal annars vegna þess að félagið fékk ekki Boeing 737-Max vélar sínar afhentar. Afleiðing þess varð sú að ferðamönnum sem heimsóttu Íslands fækkaði úr 2,3 milljónum í tvær milljónir. Þvert á allar spár framan af ári endaði landsframleiðslan þó með því að vaxa lítillega, eða um 0,6 prósent, í stað þess að dragast saman. 

Auglýsing

Árið 2020 átti að verða viðspyrnuár. Þegar fjárlög vegna yfirstandandi árs voru samþykkt gerðu þau ráð fyrir að ríkissjóður myndi verða rekinn með tæplega tíu milljarða króna halla. Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sagði að sá slaki væri gefin til að „styðja við hagkerfið nú þegar það gengur í gegnum skammvinna niðursveiflu.“

Svo skall COVID-19 faraldurinn á og breytti öllu.

Síðan þá hefur hin efnahagslega staða breyst til hins verra nánast dag frá degi. Hér að neðan er sú breyting sem átt hefur sér stað á sviðsmyndum og væntingum í efnahagsmálum þjóðar síðustu tæpu þrjá mánuði rakin.

5. febrúar 2020: Seðlabanki Íslands birtir hagvaxtarspá

Hagvaxtaspá Seðlabanka Íslands kynnt í febrúarhefti ritsins Peningamál. Spáin gerði ráð fyrir að hagvöxtur í ár yrði 0,8 prósent og hafði spáin þá versnað umtalsvert frá því í nóvember 2019, þegar hún gerði ráð fyrir 1,6 prósent hagvexti. Þar segir að í stað þess að aukast lítillega sé nú útlit fyrir að útflutningur vöru og þjónustu dragist saman í ár og yrði það í fyrsta sinn frá því snemma á tíunda áratug síðustu aldar sem útflutningur dregst saman tvö ár í röð. „Hægari bati í ferðaþjónustu, framleiðsluhnökrar í áliðnaði og loðnu - brestur annað árið í röð vega þar þungt. Þá hækkaði álag á vexti fyrirtækjalána nokkuð undir lok síðasta árs sem veldur því að nú er talið að atvinnuvegafjárfesting aukist hægar í ár og á næsta ári en áður var spáð.“ 

23. febrúar: „Við sem ferðamannaland erum ekki búin að taka neinum breytingum“

COVID-faraldurinn var ekki farin að hafa teljandi áhrif á Íslandi né farinn að vigta af viti inn í umræðuna hérlendis. Stærsta málið í umræðunni var þvert á móti möguleg sala á ríkisbanka og hvort að það ætti að grípa til sértækra aðgerða til að lækka arðsemi íslenskra orkufyrirtækja til að aðstoða alþjóðleg stórfyrirtæki sem reka álver á Íslandi að ná fram betri rekstrarafkomu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mætti í viðtal í Silfrinu og sagði að ríkið væri í „sölugírnum“ þegar kæmi að sölu Íslandsbanka. Það væri gríð­ar­legt hags­muna­mál að ríkið lægi ekki ­með á annað hund­rað millj­arða í fjár­mála­fyr­ir­tæki á sama tíma og allir væru ­sam­mála um að það þurfi að auka inn­viða­fjár­fest­ing­ar. „Þetta er algjör­lega rakið mál.“

Salan á Íslandsbanka átti að losa fé fyrir hið opinbera.
Mynd: Íslandsbanki

Til lengri tíma litið sagð­ist hann ekki hafa áhyggjur af hag­kerf­inu. „Við búum hér yfir grænni orku og hún verður eft­ir­sótt í fram­tíð­inni og við sem ferða­manna­land erum ekki búin að taka neinum breyt­ing­um. Þannig að til lengri tíma hef ég engar áhyggjur af tæki­færum Íslands.“

10. mars: Aðgerðapakki núll

Ríkisstjórn Íslands kynnti áætlun sína um frekari aðgerðir til að mæta efna­hags­legum áhrifum af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 og almennrar kólnunar í hagkerfinu. Það má kalla hann aðgerðapakka núll.

Í þeim pakka, sem taldi sjö aðgerðir, voru meðal annars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynntar, eins og tilfærsla á innstæðum Íbúðalánasjóðs úr Seðlabanka Íslands og yfir til viðskiptabanka til að auka laust fé innan þeirra. Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjárfestingar hins opinbera og engar nýjar slíkar voru tilgreindar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar. Þar var hins vegar greint frá því að fyrirtækjum sem gætu lent í tíma­bundnum rekstr­ar­örð­ug­leik­um ­vegna tekju­falls yrði veitt svig­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að gistináttaskattur verði felldur niður. Ríkisstjórnin greindi líka frá því að hún ætlaði í mark­aðsátak erlendis „þeg­ar að­stæður skap­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­an­lands.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir áætlun ríkisstjórnarinnar um að bregðast við efnahagsástandinu 10. mars 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Virkt samtal myndi svo eiga sér stað um hvernig bankar ættu að taka á stöðu fyrirtækja sem gætu ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstrargreiðslur, eins og launagreiðslur. Engin niðurstaða úr því samtali var þó kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til stæði að reyna að fleyta „lífvænlegum fyrirtækjum“ í gegnum þann kúf sem framundan væri.

12. mars: Bandaríkin lokast

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um ferðabann milli Evrópu og Bandaríkjanna. Það átti að standa yfir í 30 daga. Undanfarin ár hafa flestir þeirra sem heimsækja Ísland sem ferðamenn komið frá Bandaríkjunum. Í fyrra komu þaðan 464 þúsund manns, sem var þriðjungi færri en metárið 2018.

15. mars: Samkomubann tekur gildi á Íslandi

Við­burðir þar sem fleiri en hund­rað manns koma saman yrðu óheim­ilir sam­kvæmt til­lög­unni. Það myndi eiga við til dæmis stóra vinnu­staði, íþrótta­við­burði, versl­anir og kvik­mynda­hús. Á fámenn­ari við­burðum átti fólk halda tveggja metra fjar­lægð sín á milli­. ­Bannið átti ekki að gilda um flug­vélar og skip og náði því ekki til alþjóða­hafna og flug­valla. Einnig var greint frá því að tak­mörkun yrði á skóla­starfi.

16. mars: Evrópa lokast

Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins mæltist til þess að öll ríki sambandsins, sem og nágranna­lönd sem standa utan þess, myndu banna öll „ónauð­syn­leg ferða­lög“ til Evr­ópu. Í raun þýddi þetta tímabundið ferðabann sem næði til alls heimsins. Ein­ungis Evr­ópu­búar fengju þá að ferð­ast til Evr­ópu, nema í und­an­tekn­ing­ar­til­fell­um. Með þessum aðgerðum hafði öllum helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu verið lokað. 

Auglýsing

17. mars: 100 milljarða halli

Bjarni Benediktsson fór í viðtal við Bítið á Bylgjunni og  sagði meðal annars að rík­is­sjóður gæti verið rek­inn með hund­rað millj­arða króna halla á þessu ári en mik­il­vægt væri að fólk haldi störfum sínum. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar vegna heims­far­ald­urs­ins miði að því.

19. mars: Vonast til að hlutabætur kosti tólf til tuttugu milljarða

Kjarninn birtir upplýsingar úr kostnaðarmati sem unnið var vegna hlutabótaleiðarinnar svokölluðu. Bjartasta sviðsmyndin gerði ráð fyrir því að einungis fimm þúsund manns myndu nýta sér leiðina en sú sem stjórnvöld voru að reikna með gerði ráð fyrir að þeir yrðu á bilinu 20-30 þúsund. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 þann dag að „það fjármagn sem fer í þetta [fer] mjög mikið upp og má gera ráð fyrir því að það verði á bilinu tólf til tuttugu milljarðar, eftir því hversu margir nýta sér úrræðið.“

21. mars: Aðgerðapakki 1.0

Stjórnvöld kynntu fyrsta alvöru aðgerðapakka sinn vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Aðgerðirnar sagðar vera „stærstu einstöku efnahagsaðgerðir sögunnar“. Kostnaðurinn vegna hlutabótaleiðarinnar þar reiknaður sem 22 milljarðar króna fram til 1. júní, og hafði því hækkað frá mati Ásmundar Einars, sem sett var fram tveimur dögum áður. 

Ríkisstjórnin mat umfang fyrsta aðgerðapakka síns á 230 milljarða króna. Mánuði síðar kynnti hún annan pakka.
Mynd: Bára Huld Beck

Aðgerðapakkinn fólst utan þess aðallega í að Seðlabankinn geti veitt ábyrgðir fyrir lánum til fyrirtækja upp á tugi milljarða króna, að heimila frekari frestun á greiðslum opinberra gjalda, afnema gisináttaskatt, lækka bankaskatt og greiða út barnabótaauka. Þá átti að leyfa fólki að nota séreignarsparnað sinn. Umfang aðgerða í pakkanum var metið á 230 milljarða króna.

23. mars: Sex til sjö prósent samdráttur

Sam­kvæmt sviðs­myndum sem unnið væri með liti út fyrir að Ísland gæti verið á leið í svip­aða nið­ur­sveiflu og eftir banka­hrun­ið, eða sex til sjö pró­sent sam­drátt, samkvæmt orðum Bjarna Benediktssonar í morgunútvarpi RÚV. Í sviðs­mynd­unum væri talið að meðal atvinnu­leysi gæti orðið um átta pró­sent en Bjarni ítrek­aði hversu mikið óvissa væri um allt fram­hald. „Við erum í dálítið mik­illi þoku í augna­blik­in­u.“

Hann sagði ekki gott að segja hvenær við myndum finna botn efna­hagslægð­ar­inn­ar. „Ég held að það sé lang­best að vera hrein­skilin með það að við erum á leið­inni inn í krís­una. Þetta er bara rétt að byrja vegna þess að áhrifin af því að það komi ekki ferða­menn til dæmis smit­ast víða um sam­fé­lagið og birt­ast okkur ekki síður í apríl og maí heldur en menn hafa séð í dag og inn í sum­ar­ið. Það er langur tími í að við finnum botn­inn ef við tölum um þetta í ein­hverjum vik­um, og mögu­lega í mán­uð­u­m.“

23. mars á miðnætti: Hert samkomubann tekur gildi

Mörk mann­fjölda við skipu­lagða viðburði fær­t úr 100 manns niður í 20 manns.

Auglýsing

Sund­laug­um, lík­ams­rækt­ar­stöðvum, skemmtistöðum, spila­söl­um, spila­köss­um og söfn­um lokað og starf­semi og þjón­usta sem krefst mik­ill­ar ná­lægðar milli fólks eða skap­ar hættu á of mik­illi ná­lægð varð óheim­il. Þar und­ir féll allt íþrótt­astarf og einnig all­ar hár­greiðslu­stof­ur, snyrti­stof­ur, nudd­stof­ur og önn­ur sam­bæri­leg starf­semi. 

25. mars: Svartasta mynd Seðlabankans reiknaði með tæpum fimm prósentum

Seðlabanki Íslands kynnti sviðsmyndir sínar opinberlega. Samkvæmt þeim var reiknað með 2,4 til 4,8 pró­sent sam­drætti í lands­fram­leiðslu á árinu 2020. Mild­ari sviðs­myndin gerði ráð fyrir 37 pró­sent fækkun ferða­manna á árinu 2020 sem myndi leiða til 14 pró­sent sam­dráttar í heild­ar­út­flutn­ingi í ár. Dekkri sviðs­myndin gerði ráð fyrir 55 pró­sent fækkun ferða­manna sem myndi leiða að sér 21 pró­sent sam­drátt í útflutn­ing­i. 

Sviðs­mynd­irnar gerðu ráð fyrir miklum breyt­ingum á atvinnu­leysi og að það myndi að með­al­tali verða á bil­inu 5,7 til 7,0 pró­sent árið 2020. Þá var búið að taka til­lit til þess að þús­undir launa­manna í einka­fyr­ir­tækjum myndu fara á hlutabætur úr Atvinnu­trygg­inga­leys­is­sjóð­i. 

2. apríl: Seðlabankinn uppfærir svörtustu sviðsmynd sína

Í uppfærðum sviðsmyndum Seðlabanka Íslands, sem kynntar voru á fundi peningastefnunefndar þennan dag, gerði mildari sviðsmyndin ráð fyrir 3,7 prósent samdrætti í hagvexti í ár og 18,7 prósent minni útflutningi á vöru og þjónustu en í fyrra. Hin dekkri gerði ráð fyrir 6,4 prósent samdrætti og að útflutningur myndi dragast saman um 27,2 prósent. Vert er að minna á að grunnspá peningastefnunefndar, sem var kynnt í febrúar og áður en að kórónuveirufaraldurinn reið yfir, gerði ráð 1,6 prósent hagvexti. Seðlabankinn reiknaði með því að atvinnuleysi gæti í versta falli farið upp í 7,5 prósent. 

14. apríl: AGS spáir meiri samdrætti en Seðlabankinn

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti spá um 7,2 prósent samdrátt í íslensku efnahagslífi í ár en að hagkerfið myndi braggast hratt á næsta ári og upplifa sex prósent hagvöxt. Sjóðurinn spáði einnig átta prósent atvinnuleysi hérlendis í ár. 

Sviðsmyndir Seðlabanka Íslands hafa verið jákvæðari en flestra annarra. Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

16. apríl: Spá 17 prósent atvinnuleysi

Atvinnuleysi mun verða allt að 17 prósent í apríl samkvæmt áætlun Vinnumálastofnunar, sem er mesta atvinnuleysi frá því að mælingar hófust árið 1957. Um 14.000 manns þáðu þennan dag atvinnuleysisbætur og um 35 þúsund manns voru í lækkuðu starfshlutfalli í gegnum hlutabótaleiðina sem nam 37 prósent að meðaltali. 

17. apríl: Skýrsla segir að 330 milljarðar króna muni ekki skila sér

Skýrsla sem KPMG vann með Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála er opinberuð. Í henni eru birtar spár um hvaða áhrif hrunið í ferðaþjónustu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar muni hafa á tekjuöflun greinarinnar. Þar er reiknað með að komur ferðamanna til Íslands muni dragast saman um 43 til 69 prósent á árinu 2020. Bjartsýnasta spáin gerði ráð fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna sem komi hingað til lands verði rétt rúmlega helmingur þess sem kom í fyrra, þegar þeir voru um tvær milljónir. Svartsýnasta spáin gerði ráð fyrir að erlendu ferðamennirnir verði einungis 600 þúsund. 

Afleiðingin af þessu yrði kolsvört: reiknað er með að gjaldeyristekjur dragist saman um 275 til 330 milljarða króna. 

21. apríl: Aðgerðapakki 2.0 kynntur

Ríkisstjórnin kynnti annan aðgerðapakka sinn. Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem ríkið lét loka með boðvaldi, stuðningslán með 100 prósent ríkisábyrgð til lítilla fyrirtækja, bónusgreiðslur til framlínustarfsmanna og óútfærðar styrkveitingar upp á 350 milljónir króna til einkarekinna fjölmiðla voru á meðal aðgerða sem mynduðu nýjasta pakka íslenskra stjórnvalda. Stjórnvöld meta heildarumfang aðgerðanna sem nálægt 60 milljörðum króna.

Annar aðgerðapakki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var kynntur í síðustu viku.
Bára Huld Beck

Bjarni Benediktsson fór í viðtal við mbl.is eftir á og sagði að ef tekju­fall rík­is­ins sé lagt sam­an við út­gjalda­auka þess vegna COVID-19 væri hægt að gera ráð fyr­ir að halli rík­is­sjóðs yrði 250 millj­arðar króna í ár. 

Aðrir stjórnmálamenn og sérfræðingar í efnahagsmálum sem Kjarninn hefur rætt við segja einboðið að hallinn verði yfir 300 milljarða króna í ár.

27. apríl: Reiknað með 13 prósent samdrætti

Í nýju haglík­ani sem Við­skipta­ráð Íslands hefur sett fram um þróun lands­fram­leiðslu til árs­ins 2030 er gert ráð fyrir að sam­dráttur í lands­fram­leiðslu á árinu 2020 verði 12,8 pró­sent. Það sam­svarar því að hún lækki um 379 millj­arða króna á yfir­stand­andi ári. 

For­sendur lík­ans­ins eru meðal ann­ars þær að atvinnu­vega­fjár­fest­ing drag­ist saman um 40 pró­sent, að þjón­ustu­út­flutn­ing­ur, sem felur meðal ann­ars í sér ferða­þjón­ustu, minnki um 59 pró­sent og að íbúða­fjár­fest­ing drag­ist saman um 25 pró­sent. Við­skipta­ráð telur ­sviðs­mynd­ina sem dregin er upp þegar farið er inn í líkanið sé „afar dökk en raun­sæ“.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar