Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) segja að ef vilji sé til þess að svokölluð stuðningslán til minni fyrirtækja, sem veita á með 100 prósent ríkisábyrgð, séu á vöxtum undir markaðskjörum þá þurfi endurfjármögnun Seðlabanka Íslands að vera í takt við það. Þau benda á að að margir seðlabankar, þar á meðal Seðlabanki Evrópu, séu að endurfjármagna lán lánastofnana með lánum sem séu undir stýrivöxtum bankans.
Þetta kemur fram í umsögn SFF um annan aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar.
Samtökin benda á að gert sé ráð fyrir því að stuðningslánin verði með vöxtum sem samsvari vöxtum innlána lánastofnana hjá Seðlabanka sem bundin eru í sjö daga. Þeir vextir eru 0,75 prósent lægri en vextir á sjö daga veðlánum sem lánastofnunum standa til boða til að fjármagna þessi lán. Vaxtamunur lánanna sem á að veita, og þeirra lána sem bankar geta fjármagnað sig á, er því neikvæður um 0,75 prósent.
Að mati SFS þurfi lánskjör stuðningslánanna að minnsta kosti að samsvara vöxtum á veðlánum Seðlabanka til lánastofnana að viðbættum bankaskatti.
Vilja ekki lánin inn á sinn efnahagsreikning
Í umsögn SFF segja þau að það eigi að koma til álita að stuðningslánin verði veitt í gegnum efnahagsreikning Ríkisábyrgðarsjóðs, Seðlabanka eða annarra sérhæfðrar lánastofnunar í eigu ríkisins í stað þess að þau fari inn á efnahagsreikning bankanna líkt og frumvarp um þau gerir ráð fyrir. Lánastofnanir séu í raun umsýsluaðilar lánanna samkvæmt frumvarpinu. Því gæti allt eins „Skatturinn annast þá úrvinnslu samhliða úrvinnslu umsókna um lokunarstyrki. Óháð því hvort stuðningslánin eru á efnahagsreikningi lánastofnana eða ekki gæti Skatturinn annast mat á rétti til stuðningslána og tilkynnt lánastofnunum þar um.“
SFF bendir líka á að ekkert sé fjallað um kostnað vegna innheimtu stuðningslánanna í frumvarpinu. „Þar sem lánin er að fullu með ábyrgð ríkis hlýtur ríkissjóður að bera þann hluta innheimtukostnaðar sem ekki innheimtist hjá lánþega. Tryggja þarf lánastofnunum fullt skaðleysi af innheimtu lánanna og taka fram að við innheimtu lánanna verði farið eftir reglum og ferlum hverra lánastofnunar.“
Þá benda samtökin á að frumvarpið geri ráð fyrir að „lánastofnun“ veiti stuðningslánið. Óljóst sé á hvaða forsendum ákvörðun muni byggja um hvaða lánastofnun skuli afgreiða umsóknir einstaka lántaka. „Mörg minni fyrirtækja eru í litlum lánaviðskiptum við lánastofnanir. Óljóst er því hvaða lánastofnun ætti að taka að sér veitingu stuðningslánsins í hverju tilviki.“
Geta ekki haft eftirlit með arðgreiðslum
SFF gerir margháttaðar athugasemdir við stuðningslánafyrirkomulagið í umsögninni. Þar segir meðal annars að með frumvarpinu séu sett skilyrði varðandi arðgreiðslur og greiðslur af lánum rekstraraðila til eigenda. „Þessi skilyrði munu endurspeglast í lánaskilmálum stuðningslána. Það getur hins vegar ekki verið í höndum lánastofnunar að bera ábyrgð á því ef lántaki brýtur gegn þessu skilyrði með þeim hætti að að ábyrgð ríkissjóðs falli niður. Lánastofnun er umsjónaraðili vegna stuðningslána en getur ekki haft eftirlit með rekstraraðilum á lánstímanum.“
Þá þurfi að gera ráð fyrir þeim möguleika að einhver verði ósáttur um niðurstöðu um lántökurétt og fjárhæð stuðningslána. Sá aðili þurfi að geta skotið máli sínu til úrskurðaraðila telji viðkomandi að fyrirliggjandi mat á sér sé rangt. Ekkert liggi fyrir um hver eigi að vera í því hlutverki í stuðningslánafyrirkomulaginu.