Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 350 milljónum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þar skipti gengistap, neikvæð áhrif verð- og dagskrárbreytinga á sportstöð, kostnaður vegna starfsloka og minnkandi auglýsingatekjur mestu máli.
Félagið stendur málaferlum vegna kaupa á fjölmiðlum sem áttu sér stað árið 2017 fyrir alls 8,2 milljarða króna, en Sýn telur að seljendur miðlanna – félagið 365 og eigendur þess – hafi brotið gegn ákvæðum um samkeppnisbann sem samið hafi verið um. Torg ehf., sem rekur Fréttablaðið og tengda miðla, var upphaflega hluti af þeim hópi sem Sýn ætlaði að stefna en er það ekki lengur. Alls krefst Sýn 1,7 milljarða króna í málinu. Seljendurnir hafa á móti gagnstefnt Sýn forstjóra þess og stjórnarmönnum, til greiðslu skaðabóta og krefjast samtals þriggja milljarða króna.
Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Sýnar sem birt var í gær.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins í fyrra hagnaðist Sýn um 670 milljónir króna. Þar skipti hins vegar öllu máli söluhagnaður vegna færeyska félagsins Hey upp á 817 milljónir króna. Án þeirra einskiptistekna þá hefði verið 147 milljón króna tap á starfseminni.
Ýmsir þættir urðu fyrir áhrifum vegna COVID-19
Ýmsir þættir gera það að verkum að aðrir hlutar starfseminnar skiluðu tapi í á ársfjórðungnum. Þannig voru áhrif verð- og dagskrárbreytinga á Stöð 2 Sport neikvæð um 175 milljónir króna miðað við sama tíma í fyrra. Alls drógust tekjur félagsins vegna fjölmiðlahluta rekstursins saman um 229 milljónir króna milli ára. Gjaldfærsla vegna starfsloka var 70 milljónir króna.
COVID-19 hafði áhrif á starfsemina og Sýn var eitt þeirra skráðu fyrirtækja sem nýttu sér hlutabótaleiðina svokölluðu vegna starfsemi sem lá niðri vegna samkomubanns. Alls náði sú nýting til 90 starfsmanna Sýnar og meðalskerðing á starfshlutfalli þeirra var 30 prósent. Í dag hafa flest öll önnur skráð félög sem hafa gengist við því að hafa gert það utan Sýnar ákveðið að hætta nýtingu hennar og flest ætla að endurgreiða þegar teknar greiðslur starfsmanna sinna í ríkissjóð. Þau skráðu félög sem hafa ekki tilkynnt um slíkt eru, auk Sýnar, Icelandair Group sem er það félag sem setti langflesta starfsmenn á leiðina, og fasteignafélagið Reginn, sem en tvö dótturfélög þess settu alls fimm starfsmenn á leiðina.
Stærsti neikvæði liðurinn var þó vegna gengisáhrifa, en krónan hefur fallið umtalsvert gagnvart helst viðskiptamyntum Íslands frá áramótum. Þau voru neikvæð um 230 milljónir króna á ársfjórðungnum.
Torg ekki lengur stefnt og hinir stefndu stefna Sýn
Í árshlutauppgjörinu er gerð grein fyrir málaferlum sem Sýn stendur í við Ingibjörgu Pálmadóttur, Jón Ásgeir Jóhannesson og 365 ehf. Upphaf þeirra deilna má rekja til ársins 2017 þegar Sýn keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum. Þá var stór hluti af fjölmiðlaveldi 365, meðal annars allir ljósvakamiðlar félagsins og fréttavefurinn Vísir.is, seldur til Sýnar. Eftir stóð Fréttablaðið og tengdir miðlar sem 365 seldi svo til nýrra eigenda í fyrra og eru nú reknir í félaginu Torgi ehf.
Málaferlin snúast um að Sýn telur að 365, og helstu eigendur og stjórnendur félagsins, hafi brotið gegn ákvæðum um samkeppnisbann sem samið hafið verið um í kaupsamningi þeirra á milli.
Í brotunum felast að stjórnendur Sýnar telja að tenging vefmiðilsins frettabladid.is við ljósvakamiðla, bæði útvarp og sjónvarp, sé með öllu óheimil samkvæmt kaupsamningnum frá árinu 2017. Miðillinn haldi hins vegar úti hlaðvarpi, vísi á vef sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar (líka í eigu Torgs) af forsíðu sinni og sýni ýmis konar myndbönd, sem teljist ljósvakaefni.
Í ársreikningi fyrir árið 2019, þar sem gert var grein fyrir því að búið væri að stefna vegna málsins, kom fram að Torgi ehf., eiganda Fréttablaðsins og tengdra miðla, yrði líka stefnt. Þá var upphæðin sem um ræddi sögð 1,1 milljarðar króna.
Í árshlutauppgjörinu sem birtist í gær kemur fram að stefna hafi þegar verið birt málsaðilum og að fjárhæðin sem krafist sé standi nú í 1,7 milljörðum króna. Torg ehf. er hins vegar ekki lengur á meðal þeirra sem stefnt hefur verið.
Í árshlutauppgjöri Sýnar kemur einnig fram að Ingibjörg, Jón Ásgeir og 365 hafi stefnt Sýn, Heiðari Guðjónssyni forstjóra félagsins og öllum stjórnarmönnum þess til greiðslu skaðabóta. Ekki kemur fram af hverju þau telja sig eiga rétt á greiðslu slíkra en þau krefjast eins milljarðs króna hver, eða þriggja milljarða króna alls. Það mál bíður þingfestingar.
Kjarninn fjallaði ítarlega um þessar deilur í fréttaskýringu í lok febrúar sem lesa má hér til hliðar.