Mynd: Bára Huld Beck

Hlaðvarp, vísanir inn á Hringbraut og myndbönd grundvöllur milljarðakröfu Sýnar

Fyrrverandi eigendur þeirra miðla sem mynduðu einu sinni fjölmiðlasamsteypuna 365 hefur tekist að selja þá frá sér fyrir milljarða króna á síðustu árum. Nýir eigendur hafa lent í rekstrarerfiðleikum með miðlana. Nú ætlar Sýn, sem keypti þorra þeirra, að stefna gömlu eigendunum, og þeim sem keyptu af þeim Fréttablaðið, fyrir að brjóta gegn samkeppnisbanni í kaupsamningi.

Sýn, sem keypti ýmsa fjöl­miðla af félag­inu 365 miðlum á árinu 2017, telur að selj­and­inn hafi brotið gegn ákvæðum um sam­keppn­is­bann sem samið hafið verið um í kaup­samn­ingi þeirra á milli. Þess vegna hefur fjar­skipta- og fjöl­miðla­fyr­ir­tækið ákveðið að stefna hjón­unum Ingi­björgu Pálma­dóttur og Jón Ásgeir Jóhann­es­son, sem eiga og stýra 365 miðl­um, selj­and­anum sjálfum og Torgi ehf., sem er eig­andi Frétta­blaðs­ins og tengdra miðla, til greiðslu rúm­lega 1,1 millj­arða króna fyrir þau brot auk verð­bóta.

Í brot­unum fel­ast að stjórn­endur Sýnar telja að teng­ing vef­mið­ils­ins fretta­bla­did.is við ljós­vaka­miðla, bæði útvarp og sjón­varp, sé með öllu óheimil sam­kvæmt kaup­samn­ingnum frá árinu 2017. Mið­ill­inn haldi hins vegar úti hlað­varpi, vísi á vef sjón­varps­stöðv­ar­innar Hring­brautar (líka í eigu Torgs) af for­síðu sinni og sýni ýmis konar mynd­bönd, sem telj­ist ljós­vaka­efn­i. 

Sýn gerði umrædda kröfu með bréfi sem sent var 17. des­em­ber í fyrra. Hún er óskipt (In soli­d­um) og því sett þannig fram að allir sem krafan bein­ist að; Ingi­björg, Jón Ásgeir, 365 miðlar og Torg, eiga að bera sam­eig­in­lega ábyrgð á tjón­inu sem Sýn telur sig hafa orðið fyr­ir. 

Af hálfu Ingi­bjarg­ar, Jóns Ásgeirs og 365 hf. var kröf­unni mót­mælt með bréfi 20. des­em­ber í fyrra. Í árs­reikn­ingi Sýn­ar, sem birtur var í vik­unni, kemur fram að fyr­ir­tækið hafi falið lög­manni að und­ir­búa höfðun dóms­máls til heimtu þess­arar kröfu og má búast við því að það verði höfðað á næstu vik­um.

Bankar í lyk­il­hlut­verki

Málið allt á sér langan aðdrag­anda. Upp­haf þess má rekja til 10. febr­úar 2016 þegar Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Íslands­banka hélt kynn­ingu fyrir stjórn­endur Sýn­ar, sem þá hét reyndar Fjar­skipti hf., varð­andi mögu­leg ytri vaxta­tæki­færi. Eitt þeirra fyr­ir­tækja sem kynn­ingin tók til voru 365 miðlar hf., þá stærsta einka­rekna fjöl­miðla­fyr­ir­tæki lands­ins sem hafði einnig reynt fyrir sér í fjar­skipta­við­skipt­um, með tak­mörk­uðum árangri. Það sem 365 áttu voru því sjón­­­varps- og útvarps­­­­­stöðvar auk fjar­­­skipta­hluta fyr­ir­tæk­is­ins og frétta­vefs­ins Vís­ir.­is. Helstu sjón­­­varps­­­stöðvar voru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórás­in. Helstu útvarps­­­­­stöðvar voru Bylgj­an, FM957 og X-ið. Til við­bótar átti 365 frí­blaðið Frétta­­blaðið og tíma­­ritið Gla­mo­ur.

Sýn hafði áhuga á að kanna þetta við­skipta­tæki­færi nánar og í fram­hald­inu var skrifað undir verk­samn­ing milli félags­ins og Fyr­ir­tækja­ráð­gjafar Íslands­banka þann 8. mars 2016, um ráð­gjöf vegna fyr­ir­hug­aðrar vinnu og ráð­gjafar í tengslum við mögu­leg kaup á eignum 365 miðla. 

Sam­kvæmt samn­ingnum var bank­anum meðal ann­ars falið að ann­ast alla milli­göngu við selj­endur vegna máls­ins og tók þannig að sér upp­lýs­inga­öflun vegna verk­efn­is­ins.

Helsti drif­kraft­ur­inn á bak við sölu á hluta  af eignum 365 til Sýnar var líka banki. Arion banki. Bank­inn end­ur­fjár­magn­aði skuldir 365, nokkuð óvænt, haustið 2015. Áður hafði fyr­ir­tækið verið í banka­við­skiptum við Lands­bank­ann. Við þá breyt­ingu juk­ust lang­­tíma­skuldir 365 miðla úr 3,6 millj­­örðum króna í 4,8 millj­­arða króna.

Rekstur 365 hafði ekki gengið vel. Fyr­ir­tækið tap­aði 1,4 millj­­arði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skatta­skuld sem það hafði þegar verið dæmt til að greiða í rekstr­­ar­­reikn­ing 2015 hefði tapið verið 350 millj­­ónir króna það árið. Alls skuld­aði fyr­ir­tækið um tíu millj­arða króna í lok þess árs.

Keyptu allt nema Frétta­blaðið og Gla­mour

Skrifað var undir kaup­samn­ing 14. mars 2017. Sam­kvæmt honum keypti Sýn alla miðla 365 nema Frétta­blaðið og tíma­ritið Gla­mo­ur. 

Í kaup­samn­ingnum voru ákvæði sem áttu að tryggja að eig­endur 365 miðla myndu ekki hefja sam­keppni við Sýn um ákveðin tíma á þeim mörk­uðum sem hinir seldu miðlar störf­uðu. Und­an­tekn­ingin þar var að setja mætti upp frétta­síðu á net­inu til að vera birt­ing­ar­mynd Frétta­blaðs­ins þar. Sú síða varð á end­anum fretta­bla­did.­is.

Frétta­blað­inu var svo rennt inn í dótt­ur­fé­lag sem fékk nafnið Torg ehf. og 365 miðlum í kjöl­farið breytt í fjár­fest­inga­fé­lag sem hefur gert sig gild­andi í kaupum á félögum á skráðum mark­aði með þeim pen­ingum sem feng­ust fyrir söl­una á miðl­un­um. 

Jón Ásgeir Jóhannesson og eiginkona hans Ingibjörg Pálmadóttir þykja hafa farið afar vel út úr sölunni á fjölmiðlunum sem þau áttu um árabil.
Mynd: Kjarninn

365 miðlar fengu enda vel greitt fyr­ir.  Sú greiðsla sam­an­stóð af 10,92 pró­­sent hlut í Sýn, tæp­­lega 1,6 millj­­arði króna í reiðufé auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 millj­­arða króna af vaxta­ber­andi skuld­­um. Eig­endur 365 miðla, seldu eign­­ar­hlut­inn sinn í Sýn í októ­ber í 2018 á tvo millj­­arða króna. Því má segja að þeir hafi fengið um 3,6 millj­­arða króna í reiðufé út úr söl­unni auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 millj­­arða króna af skuldum 365 miðla. Sam­an­lagt er kaup­verðið sam­­kvæmt því um 8,2 millj­­arðar króna.

Helgi Magn­ús­son kaupir fjöl­miðil

Í júní 2019 seldu 365 miðlar svo helm­ings­hlut í Torgi ehf. til Helga Magn­ús­son­ar. Í októ­ber keypti Helgi  svo þann hluta sem hann átti ekki fyrir fyrir ótil­greinda upp­hæð og á sama tíma var sjón­varps­stöð­inni Hring­braut og tengdri síðu rennt inn í Torg. Þá þegar hafði Frétta­blaðið hafið fram­leiðslu og birt­ingu á hlað­varpi á fretta­bla­did.­is. 

Í des­em­ber var svo greint frá því að Torg væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjöl­mið­l­un. Þau kaup eru nú til með­ferðar hjá Sam­keppn­is­eft­ir­lit­inu. Hlutur Helga í Torgi er nú 82 pró­sent en með­eig­endur hans eru Sig­­urður Arn­gríms­­son, fyrr­ver­andi aðal­­eig­andi Hring­brautar og við­­skipta­­fé­lagi Helga til margra ára, með tíu pró­­sent hlut, Jón G. Þór­is­­son, nú aðal­rit­­stjóri Frétta­­blaðs­ins, með fimm pró­­sent hlut, og Guð­­mundur Örn Jóhanns­­son, fyrr­ver­andi sjón­­varps­­stjóri Hring­brautar og nú fram­­kvæmda­­stjóri sölu, mark­aðs­­­mála og dag­­­skrár­­­gerðar hjá Torg­i. 

Helgi Magnússon, aðaleigandi Torgs ehf.
Mynd: Torg.is

Rekstur Torgs hefur reynst erf­ið­ari en lagt var upp með og í vik­unni var greint var stjórn­enda­breyt­ingum sem tengd­ust nið­ur­skurð­ar­að­gerðum sem ráð­ist hefur verið í hjá fyr­ir­tæk­in­u. 

Mikið tekju­tap hjá Sýn

Vænt­an­leg stefna Sýnar gegn 365 miðl­um, Ingi­björgu og Jóni Ásgeiri, og Torgi snýst um að fjöl­miðla- og fjar­skipta­fyr­ir­tækið telur að fretta­bla­did.is hafi ekki mátt fara í sam­keppni við sig í útvarps- og sjón­varps­rekstri sam­kvæmt kaup­samn­ingi. Það telur að vísun inn á sjón­varps­stöð­ina Hring­braut af for­síðu fretta­bla­did.is og umfangs­mikil hlað­varps­fram­leiðsla sé brot á því sam­keppn­is­banni og krefst rúm­lega 1,1 millj­arðs króna frá ofan­greindum aðilum vegna þessa. 

Ingi­björg og Jón Ásgeir hafa þegar hafnað kröf­unni og hótað að gagn­stefna vegna meints „ tjóns sem til­hæfu­lausar ásak­anir Sýnar hafa valdið félag­in­u.“ Óljóst er hvers eðlis það tjón er.

Það sem er hins vegar ekki óljóst er að kaup Sýnar á fjöl­miðlum 365 miðla hafa ekki reynst þau góðu kaup sem lagt var upp með. Í jan­úar greindi Sýn frá því að fyr­ir­tækið hefði fært niður alla þá 2,5 millj­arða króna við­skipta­vild sem fylgdi fjöl­miðl­un­um, en slík eign er virði hug­lægra eigna fyr­ir­tæk­is. Með henni er til að mynda sett mat á fjár­­hags­­legu verð­­mæti þess að eiga hóp fastra við­­skipta­vina, eins og til dæmis áskrif­enda að sjón­­varps­­þjón­­ustu Stöðvar 2. 

Tekjur Sýnar í fyrra voru 19,8 millj­arðar króna, eða um millj­arði lægri en árið áður, sem var fyrsta heila árið sem fjöl­miðl­arnir til­heyrðu sam­stæð­unn­i. 

Fjöl­miðlun er þó sú tekju­stoð sem skilar Sýn mestu, eða tæp­lega 8,4 millj­örðum króna í tekjur í fyrra. Hún dróst hins vegar saman um fimm pró­sent milli ára eða um 446 millj­ónir króna. 

Mestur var sam­drátt­ur­inn á fjórða árs­fjórð­ungi, þegar fjöl­miðla­tekj­urnar lækk­uðu um 216 millj­ónir króna. Þar skiptir ugg­laust máli að Sýn missti rétt­inn af sýn­ingu á enska bolt­­­anum yfir til sam­keppn­is­að­il­ans Sím­ans fyrir yfir­­stand­andi tíma­bil, sem hófst á þriðja árs­fjórð­ung­i. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar