Embætti skattrannsóknarstjóra hefur vísað máli tengt einstaklingi sem nýtti sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, og er grunaður um að hafa skotið undan fjármagnstekjum, til héraðssaksóknara. Í málinu er grunur um undanskot sem nema á þriðja hundrað milljóna króna. Þetta hefur Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri staðfest við Kjarnann.
Rannsókn málsins lauk fyrir nokkru síðan en mun lengur hefur tekið en búist var við að taka ákvörðun um hvort málið yrði áframsent til héraðssaksóknar til refsimeðferðar eða ekki. Í umsögn sem embætti skattrannsóknarstjóra skilaði um þingsályktunartillögu um rannsókn á fjárfestingarleiðinni, sem var til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrr á þessu ári, sagði að í samráði við embætti ríkisskattstjóra hafi verið „tekin ákvörðun um að áframhaldandi skoðun gagnanna yrði í fyrstu á forræði þess embættis sem eftir atvikum myndi vísa aftur málum til skattrannsóknarstjóra í þeim tilvikum er athugun myndi vekja grun um refsiverð brot.“
Hægt að fá mikla virðisaukningu
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Leiðin stóð til boða frá 2012 til 2015.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Skoðaði nokkra einstaklinga
Embætti skattrannsóknarstjóra fékk afhent öll gögn um þá einstaklinga sem nýttu fjárfestingarleiðina á árinu 2016, eða fyrir fjórum árum síðar.
Þegar þau voru samkeyrð við gögn sem embættið keypti sumarið 2015 á 37 milljónir króna, og sýndu eignir Íslendinga í þekktum skattaskjólum, kom í ljós að 21 einstaklingar fór fjárfestingaleiðina var einnig í skattaskjólsgögnunum.
Það mengi sem skattrannsóknarstjóri skoðaði sneri þó, líkt og áður sagði, einungis að einstaklingum, ekki lögaðilum eins og einkahlutafélögum. Til að setja það í samhengi við umfang þeirra sem nýttu sér fjárfestingarleiðina þá voru alls samþykkar umsóknir frá 754 einstaklingum en 318 lögaðilum um að fara leiðina, eða alls 1.072 aðila. Skattrannsóknarstjóri skoðaði einungis einstaklinga sem búsettir voru á Íslandi, en þeir voru 231. Því innihélt mengið sem skattrannsóknarstjóri valdi ellefu tilvik til að skoða úr, tæplega 22 prósent þeirra einstaklinga og lögaðila sem nýttu leiðina. Þau ellefu tilvik sem embættið tók til forskoðunar eru um eitt prósent þeirra sem tóku þátt í útboðum leiðarinnar.
Vildu láta skipa rannsóknarnefnd um leiðina
Í nóvember í fyrra lögðu allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar fram þingsályktunartillögu um að skipa rannsóknarnefnd á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.
Í þingsályktunartillögunni er farið fram á að rannsóknarnefndin geri grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Þar er einnig kallað eftir að upplýsingar verði dregnar fram um hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna leiðarinnar og þá hversu mikið það tap var, hvort að samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilvikum að hafa brotið gegn skilmálum hennar og hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins, til að stunda peningaþvætti eða misnotuð með öðrum hætti.
Nefndin á, samkvæmt tillögunni, að skila niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2020.
Þótt málið hafi gengið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í janúar síðastliðnum þá hefur það ekki verið afgreitt þaðan og engar líkur á að það klárist á yfirstandandi þingi. Því má telja það ljóst að rannsóknarnefndin, verði hún skipuð, mun ekki geta skilað niðurstöðu fyrir 1. október næstkomandi.
Leggjast ekki gegn rannsókn
Ýmsir hafa þó skilað inn umsögnum um málið. Kjarninn greindi til að mynda frá því í febrúar að Seðlabanki Íslands leggist ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðar hans telji Alþingi líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á leiðinni.
Siðfræðistofnun Háskóla Íslands hefur líka skilað umsögn um tillöguna þar sem fram kemur að hún styðji tillöguna um rannsókn.
Seðlabanki Íslands hefur hingað til ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina, og borið fyrir sig þagnarskylduákvæði laga um bankann. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi í janúar og tók sama pól í hæðina og Seðlabankinn. Hann taldi sér ekki heimilt að birta nöfn þeirra sem fluttu fjármagn til Íslands í gegnum fjárfestingarleiðina.
Máli sínu til stuðnings vísaði Bjarni í úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingarmál vegna kæru Kjarnans á synjun Seðlabanka Íslands um aðgang að upplýsingunum frá því í janúar 2019. Í þeim úrskurði sagði meðal annars að fortakslaus þagnarskylda Seðlabanka Íslands gagnvart viðskiptamönnum sínum komi í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar „óháð hagsmunum almennings af því að fá að kynna sér þær.“