Síminn, stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins, jók við markaðshlutdeild sína á farsímamarkaði í fyrra. Alls var fyrirtækið með 175.995 viðskiptavini í áskrift í lok árs 2019 og 37 prósent markaðshlutdeild. Hlutdeildin jókst um 1,4 prósentustig og Síminn var eina fyrirtækið á farsímamarkaði með teljandi markaðshlutdeild sem fjölgaði viðskiptavinum sínum í fyrra.
Helstu samkeppnisaðilarnir, Nova og Vodafone (sem tilheyrir Sýn-samstæðunni) töpuðu bæði markaðshlutdeild og viðskiptavinum. Hjá Nova, sem er nú með 32,8 prósent markaðshlutdeild, fækkaði viðskiptavinunum um rúmlega tvö þúsund og hjá Vodafone, sem er með 27,2 prósent markaðshlutdeild, um tæplega fimm þúsund á síðasta ári. Síminn fjölgaði á sama tíma sínum viðskiptavinum um tæplega átta þúsund.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræði skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2019.
Síminn missti forskotið en hefur endurheimt það
Staðan á markaðnum hefur verið að breytast nokkuð ört undanfarin ár. Á hrunárinu 2008 var Síminn til að mynda allsráðandi á farsímamarkaði á Íslandi með 56,6 prósent hlutdeild en Nova, sem hóf starfsemi 1. desember 2007, náði því árið 2015 að verða það fjarskiptafyrirtæki sem var með mesta markaðshlutdeild. Um tíma, árinu 2017, náðu bæði Nova og Vodafone að verða stærri en Síminn á þessum markaði.
Það breyttist 2018 þegar Síminn náði toppsætinu að nýju. Í fyrra styrkti fyrirtækið tak sitt á því.
Farsímatekjur Vodafone voru 3,9 milljarðar króna í fyrra og lækkuðu um 55 milljónir króna milli ára. Á fyrsta ársfjórðungi 2020 lækkuðu tekjurnar vegna farsíma um tvær milljónir króna miðað við sama tímabil á árinu 2019. Nova hefur ekki skilað ársreikningi fyrir 2019 Fyrirtækjaskráar og þar sem fyrirtækið er ekki skráð á markað þá hefur það ekki sömu upplýsingaskyldu og Síminn og Sýn.
Heimurinn gjörbreyttur á tíu árum
Um liðin áramót voru 83,4 prósent allra virkra símakorta á farsímaneti 4G kort. Um mitt ár 2014 voru 14,8 prósent allra símakorta þannig, en 4G-væðingin hófst af alvöru á Íslandi á því ári. 4G tengingar innan farsímanetsins fela í sér tíu sinnum meiri hraða en 3G tengingar gera. Þær eru auk þess um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Notkun á gagnamagni hefur margfaldast samhliða þessari þróun. Nú þykir enda ekkert tiltökumál að horfa til að mynda á bíómyndir eða þætti í símanum sínum í gegnum farsímanetið, en hér áður fyrr, þegar gagnaflutningur var mun hægari, var slíkt ómögulegt og gat auk þess verið fokdýrt. Þá má ekki vanmeta þátt almennrar internetnotkunar, hlaðvarpa, notkunar á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Twitter og Instagram og streymisveitna á borð við Spotify í aukningu á notkun á gagnamagni.
Þessi aukning er enn að eiga sér stað. Frá árslokum 2017 og fram til síðustu áramóta rúmlega tvöfaldaðist hún og á síðasta ári einu saman jókst gagnamagn í farsímakerfi um 50 prósent.
Vert er að taka fram að mikil aukning á fjölda ferðamanna, sem hefur farið úr um hálfri milljón á ári árið 2010 í 2,3 milljónir 2018 og um tvær milljónir í fyrra, spilar líka rullu í hinni miklu aukningu á notkun gagnamagns, enda flestir þeirra með farsíma sem þeir nota á ferðalögum sínum til Íslands. Það verður því athyglisvert að sjá uppgjör á gagnamagnsnotkun fyrir árið 2020 þegar það liggur fyrir, í ljósi þess að nær engir ferðamenn hafa verið hér frá því snemma í mars, og verða líkast til vart fleiri það sem eftir lifir árs.
Nova styrkir stöðu sína á toppi gagnamagnslistans
Nova hefur alltaf haft mikið forskot þegar kemur að notkun viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna á gagnamagni. Þar hefur áhersla fyrirtækisins á að ná í unga viðskiptavini sem hafa alist upp innan kerfis þess, á sama tíma og tækni- og neysluheimurinn hefur gjörbreyst og færst meira yfir í litlar tölvur í vasa notenda, borið ávöxt. Það þarf þó að taka fram að þar er um að ræða þá notkun sem fer fram í gegnum farsímanetið, ekki þá sem nýtt er með tengingu við beini (WiFi), en margir farsímar tengjast slíkum beini heima hjá notanda og/eða á vinnustað hans. Síminn er það fyrirtæki sem er með flesta viðskiptavini þegar kemur að hefðbundnum internettengingum.
Nova var með 61,4 prósent markaðshlutdeild þegar kom að gagnamagnsnotkun á farsímaneti í fyrra og bætti vel við hlutdeild sína frá sama tímabili árið áður. Síminn kemur þar á eftir með 24,3 prósent hlutdeild en Vodafone rekur lestina hjá þremur stóru fjarskiptafyrirtækjunum með 12,2 prósent markaðshlutdeild.
Aðrir minni leikendur eru svo með 2,1 prósent hlutdeild.