Í mars var lagt fram frumvarp sem markaði fyrstu skref sitjandi ríkisstjórnar í viðbrögðum hennar við þeim efnahagsþrengingum sem COVID-19 faraldurinn myndi leiða af sér. Hugmyndin á bakvið frumvarpið var að það gæti mögulega hjálpað til við að vernda ráðningarsambönd og letja fyrirtæki til að reka fólk vegna fyrirsjáanlegra efnahagsþrenginga gegn því að ríkið myndi greiða hluta launa þeirra tímabundið. Í dag er hugmyndin fyrst og síðast þekkt sem hlutabótaleiðin.
Þegar frumvarpið var lagt fram kom fram í greinargerð þess, sem er dagsett 13. mars, að um þúsund manns myndu nýta sér úrræðið og að kostnaður vegna þess yrði um 755 milljónir króna. Þegar leiðin var lögfest viku síðar höfðu sviðsmyndir breyst hratt og sú versta gerði ráð fyrir því að tíu þúsund manns myndu nýta leiðina. Það myndi kosta ríkissjóð 6,4 milljarða króna.
Degi síðar kynnti ríkisstjórnin fyrsta aðgerðarpakka sinn og þá var kostnaðurinn við hlutabótaleiðina áætlaður 22 milljarðar króna.
Í mars og apríl nýttu rúmlega 37 þúsund manns sér leiðina og í gær voru atkvæði greidd á Alþingi um að framlengja hana út ágúst, með breyttu sniði. Nú áætla stjórnvöld að kostnaður vegna leiðarinnar verði 34 milljarðar króna, en gildistími hennar var í gær framlengdur með breytingum út ágústmánuð. Þær breytingar sem gerðar voru fela meðal annars í sér að í júlí og ágúst verða hámarksgreiðslur úr opinberum sjóðum 50 prósent af greiddum launum í stað 75 prósent. Auk þess mega þau fyrirtæki sem nýta sér leiðina ekki ætla að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óumsamda bónusa eða borga helstu stjórnendum yfir þrjár milljónir á mánuði í tvö ár.
Fjöldi þeirra sem nýttu sér leiðina hefur 37faldast frá fyrsta mati og upphæðin sem hún á að kosta 45faldast.
Ríkisendurskoðun stígur inn í
Á miðvikudag, þegar velferðarnefnd var að ljúka umfjöllun sinni um framlengingu hlutabótaleiðarinnar, óskaði Ríkisendurskoðun eftir því að fá að koma á fund nefndarinnar. Ástæðan reyndist vera sú að stofnunin hafði, að eigin frumkvæði, framkvæmt úttekt á hlutabótaleiðinni og skýrsla um niðurstöðu hennar var tilbúin. Ríkisendurskoðun vildi kynna hana fyrir velferðarnefnd áður en að áframhald leiðarinnar yrði ákveðið.
Þegar skýrslan var svo birt opinberlega, síðdegis á fimmtudag, kom í ljós af hverju. Ríkisendurskoðun telur að hlutabótaleiðin hafi verið misnotuð á margháttaðan máta. Fyrirtæki sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag hafi til að mynda nýtt sér hana án þess að þau hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum. Sum þeirra eiga tugi, jafnvel hundruð, milljarða króna í eigið fé og eru í afar arðbærum rekstri.
Samandregið er uppi margháttaður rökstuddur grunur um að fjármunir hafi verið sviknir út úr ríkissjóði. Eftirlit með nýtingu leiðarinnar hefur enda verið nær ekkert fram til þessa.
Skoðun Ríkisendurskoðunar, og ástæða þess að stofnunin ákvað að mæta á fund velferðarnefndar, er að brýnt sé að eftirlit sé haft með nýtingu ríkisfjár og að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs þegar tugum milljarða króna er ráðstafað úr honum í leið eins og hlutabótaleiðina.
Þegar framhald hlutabótaleiðarinnar var samþykkt á Alþingi í gær var það ekki gert í miklum einhug. Einungis 27 þingmenn af 63 greiddu atkvæði með frumvarpinu. Aðrir greiddu ekki atkvæði eða voru fjarstaddir. Allir þingmenn stjórnarandstöðuflokka sem voru í þingsal þegar atkvæðagreiðslan fór fram sátu hjá
Styrkir veittir til að segja upp fólki
Rúmum mánuði eftir að hlutabótaleiðin var samþykkt sem leið til að viðhalda ráðningarsambandi, nánar tiltekið 28. apríl, var tilkynnt um að ríkisstjórnin ætlaði að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir umfangsmiklu tekjutapi, styrki til að eyða ráðningarsamböndum þeirra við starfsfólk sitt. Þegar þessi áform voru kynnt lá ekkert frumvarp fyrir, ekkert kostnaðarmat hafði verið gert opinbert og engin kynning á áformunum hafði átt sér stað meðal þingflokka. Fyrirtæki hófu að segja fólki upp í bílförmum strax í kjölfarið, og áður en nýr mánuðum hæfist.
Frumvarp var svo lagt fram um miðjan maí mánuð og kostnaðarmat kynnt samhliða. Það gerir ráð fyrir því að ríkissjóður greiði fyrirtækjum sem uppfylla sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfirlýst markmið er að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.
Það kom mörgum á óvart að verkalýðshreyfingin studdi þessa hugmynd, að skattfé færi í greiðslu launa á uppsagnarfresti. Það gerði þó til dæmis Alþýðusamband Íslands (ASÍ) í umsögn um það. Í gærmorgun urðu vendingar í þeim stuðningi þegar Drífa Snædal, forseti ASÍ, birti reglulegan föstudagspistil sinn þar sem hún sagði að stuðningur við frumvarpið, sem kjósa átti um síðar sama dag, væri ekki skilyrðislaus. Það væri skilyrði af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að þegar fyrirtækin tækju við sér, yrði fólk endurráðið samkvæmt starfsaldursröð á sömu kjörum og það var á. „Ekkert þessara atriða hefur ratað inn í frumvarpið í meðförum þingsins á þessum tímapunkti. Því er ljóst að fyrirtæki geta sagt fólki upp og endurráðið á lakari kjörum og sleppt því að endurráða starfsfólk sem hefur áunnið sér starfsaldurstengd réttindi. Ef frumvarpið nær fram að ganga í þessari mynd gæti það leitt til mestu kjaraskerðingar síðari tíma með stuðningi löggjafans. Við höfum sent þingmönnum bréf með ítrekuðum kröfum og átt milliliðalaust samtal við þingmenn í dag. Ég ætlast til þess af þingmönnum og öllum þeim sem geta látið rödd sína heyrast að þau tryggi að þetta stórslys verði ekki að veruleika.“
Inngrip ASÍ hafði afleiðingar. Á endanum var samþykkt breytingartillaga frá efnahags- og viðskiptanefnd þess efnis að komi til ráðningar starfsfólks að nýju innan sex mánaða frá uppsagnardegi skuli launamaður halda þeim kjörum sem hann hafði þegar til uppsagnar kom í samræmi við ráðningarsamning.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, setti stöðufærslu á Twitter um málið seint í gær, áður en að kosið var um frumvarpið. Þar sagði hann það „furðulegt þegar sagt er að frumvarpið hvetji til uppsagna.“
Í frv um stuðning vegna hluta launakostnaðar við uppsögn er skilyrði um að fyrirtæki hafi tapað amk 75% af tekjum sínum. Þess vegna er furðulegt þegar sagt er að frumvarpið hvetji til uppsagna. Nær að átta sig á að uppsagnir blasa við. Frv. tryggir fullt uppgjör við starfslok.
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) May 29, 2020
Kosið var um frumvarpið í gær, rúmum tveimur mánuðum eftir að hlutabótaleiðin kom fyrst fram á sviðið, og það samþykkt.
Á þeim tveimur mánuðum hefur því ríkið skuldbundið sig til að eyða 34 milljörðum króna til að viðhalda ráðningarsamböndum og 27 milljörðum króna til að eyða þeim hjá fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir að minnsta kosti 75 prósent tekjufalli.