Það forskot sem lífeyrissjóðirnir hafa haft í vaxtakjörum á húsnæðislánum er óðum að hverfa. Stóru viðskiptabankarnir þrír; Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, tilkynntu allir vaxtalækkanir í vikunni í kjölfar stýrivaxtalækkunar. Með tilliti til verðbólgu eru óverðtryggð húsnæðislán viðskiptabankana því orðin þau hagstæðustu sem í boði eru ef frá eru talin húsnæðislán sem Birta lífeyrissjóður býður sjóðfélögum sínum. Lán Birtu eru hins vegar að hámarki fyrir 65 prósent af kaupverði á meðan að bankarnir lána fyrir 70 prósent þess.
Þegar vaxtalækkanir bankana hafa tekið gildi í upphafi júní verða breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum hjá Landsbankanum 3,50 prósent. Á sambærilegum lánum hjá Arion banka verða vextirnir 3,54 prósent og hjá Íslandsbanka 3,70 prósent. Einu lánin í þessum flokki sem bera lægri vexti eru, eins og áður segir, hjá Birtu lífeyrissjóði. Lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum hjá Birtu eru 2,85 prósent. Vaxtakjörin hjá þeim lífeyrissjóðum sem bjóða upp á óverðtryggð lán eru almennt óhagstæðari en hjá bönkunum.
Vextir á lánum með fasta óverðtryggða vexti taka mið af því í hve langan tíma vextir eru fastir og hvert veðhlutfall er. Nokkrir lífeyrissjóðir bjóða upp á slík lán en eftir vaxtalækkun bankanna fást hagstæðustu lánin í þessum flokki hjá bönkunum.
Verðbólgan er lykilbreyta
Mun algengara er að lífeyrissjóðir bjóði upp á verðtryggð lán. Ef horft er til þeirra sést að nokkrir af sjóðunum munu enn bjóða upp á lán á hagstæðari kjörum en bankarnir í þeim flokki. Lægstu breytilegu vextirnir á verðtryggðum lánum eru í dag hjá Festa lífeyrissjóði, 1,70 prósent. Þar á eftir koma Birta, Frjálsi, Stapi og Brú með vexti á bilinu 1,74 prósent til tvö prósent. Hjá bönkunum munu lægstu breytilegu verðtryggðu vextirnir fást hjá Landsbankanum, þar sem þeir verða tvö prósent.
Verðbólgan mælist nú 2,6 prósent á ársgrundvelli. Haldist hún í sama horfinu er því ljóst að raunvextir eru orðnir lægstir á óverðtryggðum lánum bankanna. Í síðustu mælingum fór verðbólgan yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans í fyrsta sinn frá því í nóvember. Bankinn spáir því að hún verði undir markmiði á næstunni en ljóst er að óvissan er mikil.
Sjóðfélögum boðist hagstæðari lán í áraraðir
Lífeyrissjóðirnir hafa um árabil boðið upp á hagstæðustu húsnæðislánin. Þessi hagstæðu lán hafa orðið til þess að lífeyrissjóðirnir hafa orðið stórtækir í lánveitingum til húsnæðiskaupa. Vöxtur í húsnæðislánum á síðustu árum hefur til að mynda verið langtum meiri hjá sjóðunum heldur en hjá bönkunum.
Lánsskilyrðin hjá lífeyrissjóðunum hafa verið þrengd upp á síðkastið en þetta hafa sjóðirnir gert til þess að reyna að hemja vöxtinn í útlánum. Til að mynda er veðhlutfall hjá sjóðunum almennt lægra en hjá bönkunum og hjá langflestum er þak á hversu há lánsfjárhæð getur orðið. Allir sjóðirnir setja það sem skilyrði að lántaki hafi greitt í sjóðinn en sumir setja enn þrengri skilyrði, til að mynda þurfa lántakendur hjá sumum lífeyrissjóðum að hafa greitt í sjóðinn síðustu sex mánuði til að geta tekið hjá þeim lán.
Stýrivextir í sögulegu lágmarki
Það eru aðallega þrír þættir sem hafa haft þessi áhrif á vaxtakjör bankana og þá staðreynd að vextir þeirra séu nú að verða sambærilegir við vexti sem lífeyrissjóðirnir bjóða upp á. Þessir þættir eru lækkun stýrivaxta, afnám sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og lækkun bankaskatts.
Stýrivextir hafa að undanförnu lækkað töluvert. Fyrir rétt um ári síðan, þann 22. maí lækkuðu vextirnir um hálft prósentustig, úr 4,5 prósentum í fjögur prósent. Síðan þá hafa vextir haldið áfram að lækka og nú síðast lækkuðu þeir niður í eitt prósent og hafa þeir aldrei verið lægri.
Seðlabankinn aflétti tveggja prósenta sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki í mars. Afléttingin hefur það í för með sér að aukið svigrúm skapast til nýrra útlána sem að öðru óbreyttu nemur allt að 350 milljörðum króna eða um 12,5 prósent af núverandi útlánasafni bankakerfisins, að því er segir í tilkynningu fjármálastöðuleikanefndar frá því í mars. Þar segir enn fremur: „Nefndin ætlast til þess að það svigrúm sem lækkun sveiflujöfnunaraukans skapar verði notað til að styðja við heimili og fyrirtæki.“
Samþykkt var að lækka bankaskatt í fyrra úr 0,376 prósentum í 0,145 prósent. Lækkunin átti að koma til í fjórum þrepum á árunum 2021 til 2024 en vegna versnandi efnahagshorfa í kjölfar COVID-19 faraldursins var lækkuninni flýtt þannig að gjaldhlutfallið verður fært alla leið niður í 0,145 prósent á skattstofn vegna skulda í árslok 2020.