Haustið 2014 fengu tveir skólafélagar úr æsku hugmynd sem þeir síðan fylgdu eftir og er í dag orðin að tæknilausninni CrankWheel, sem fjölmörg fyrirtæki víða um heim nýta sér í daglegum rekstri. Um er að ræða hugbúnaðarlausn fyrir sölufólk, sem einfaldar símasölu og gerir hana líkari því að vera á fjarfundi með viðskiptavininum. Vöxturinn hefur aldrei verið hraðari en eftir að heimsfaraldurinn fór að geisa.
„Þú hringir í einhvern, bara venjulegt símtal, og getur svo bætt við skjádeilingu, lifandi vídjóstraum af skjánum hjá þér,“ segir Jói Sigurðsson, sem stofnaði fyrirtækið ásamt Þorgils Sigvaldasyni. Jói segir við Kjarnann að CrankWheel geri sölufólki kleift að komast lengra í fyrstu símtölum sínum við mögulega viðskiptavini.
Notkunin er einföld, en sá sem fær símtalið þarf ekki að setja upp neitt forrit hjá sér til þess að geta séð það sem sölumaðurinn vill sýna honum með skjádeilingu. Þetta hefur komið sér vel á dögum kórónuveirunnar, þegar ekki hefur verið hægt að senda sölufólk út af örkinni til þess að hitta viðskiptavini augliti til auglitis. Það er eiginlega bara búið að vera brjálað að gera, segir Jói.
Nýliðunarhraðinn um það bil þrefaldur
„Í marsmánuði fengum við þrefalt fleiri nýskráningar en í febrúar. Og það hefur bara haldið áfram, við höfum verið með nokkurn veginn þrefaldan nýliðunarhraða hjá okkur síðustu mánuði miðað við það sem við erum vanir,“ segir Jói, en einnig hafa margir sem voru þegar að nota CrankWheel aukið notkun sína og „stækkað pakkann“ sem þeir eru að kaupa.
„Við verðleggjum CrankWheel í svona pökkum sem innilega ákveðið mikla notkun, en ekki fjölda notenda, þannig að þú getur alveg bætt við slatta af fólki í Crankwheel án þess að þurfa endilega að stækka pakkann, en ef það er miklu meiri notkun þá þarftu að stækka,“ útskýrir Jói og bætir við að sem dæmi hafi tveir stórir viðskiptavinir úti í heimi fært sig mikið til yfir í notkun CrankWheel í stað þess að senda sölufólk sitt á ferðina.
Um er að ræða stór fyrirtæki, annað með að minnsta kosti þrjú hundruð sölumenn og hitt með á milli fimm til sex hundruð slíka. „Það eru ákveðnir vaxtarverkir sem fylgja því að vaxa svona hratt, við erum búnir að þurfa að bæta við okkur miðlurum sem reka hugbúnaðinn og gera ýmislegt til að stækka hann og láta hann þola meira álag,“ segir Jói.
Veltu því fyrir sér hvað vantaði í sölumennsku
Hugmyndin að CrankWheel kviknaði sem áður segir haustið 2014, nánar tiltekið 1. september, sem Jói segir að hann muni alltaf þar sem það er afmælisdagur meðstofnanda hans, sem aldrei er kallaður annað en Gilsi.
Kveikjan var samtal þeirra tveggja um sölumennskustöf, sem Gilsi hafði sinnt um nokkurra ára skeið fyrir fyrirtæki á borð við tryggingafélög, banka og fjarskiptafyrirtæki. Jói, sem lýsir sér sem tæknikallinum í samstarfinu, var nýlega hættur störfum hjá Google og hafði hug á að stofna sitt eigið fyrirtæki frá grunni og þeir voru búnir að vera að velta því fyrir sér hvaða tól sölufólki vantaði.
„Þegar ég spurði hann hvað hann notaði, ef hann væri að selja fólki sem ætti heima úti á landi eitthvað og þyrfti að sýna þeim pappíra, þá sagðist hann bara keyra til þeirra,“ segir Jói. Þar með var hugmyndin fædd.
Reksturinn í plús síðustu tvö ár
Jói segir rekstur fyrirtækisins hafa verið sjálfbæran undanfarin rúm tvö ár, en hann og Gilsi hafa sjálfir sett fjármuni í uppbyggingu fyrirtækisins og auk þess fengið tvo styrki frá Tækniþróunarsjóði, en ekki tekið á móti utanaðkomandi fjárfestingu.
„Þetta hefur byggst upp hægt og rólega. Við vorum komnir með fyrsta viðskiptavininn í september 2015 og það er gaman að segja frá því að sá viðskiptavinur er enn í viðskiptum við okkur. Raunar endast flestir mjög lengi, það hætta fáir sem koma í viðskipti við okkur,“ segir Jói.
Viðskiptavinir CrankWheel eru víða, helst í Bandaríkjunum, Bretlandi og annars staðar í Evrópu en raunar eru þeir um allan heim, segir Jói og bætir við að helst sé um að ræða tvo hópa viðskiptavina. Margir af stærstu viðskiptavinunum eru fyrirtæki sem eru svipuð og Já er hér heima, svokallaðar gulu línur.
Erlendis hafa slík fyrirtæki víða þróast yfir í að verða alhliða markaðsskrifstofur fyrir lítil fyrirtæki og einyrkja í rekstri og bjóða gulu-síðurnar upp á gerð einfaldra heimasíðna þar sem þjónusta litlu fyrirtækjanna er kynnt.
Sölumenn þeirra hringja þá sölusímtölin sín og með hjálp CrankWheel getur fyrirtækjaeigandinn fengið að sjá hvernig möguleg heimasíða hans fyrirtækis gæti litið út og útfært útlitið í samráði við sölumanninn.
Hinn stóri viðskiptavinahópurinn eru fyrirtæki sem nota CrankWheel til að selja líf- og sjúkdómatryggingar, aðallega í Bandaríkjunum. Þá er CrankWheel notað bæði til þess að sýna glærur og einhverja sölukynningu, en einnig til þess að sýna viðskiptavininum tryggingaskilmálana og fá hann til að staðfesta að hann hafi farið í gegnum þá.
„Áður var mjög erfitt að gera þetta, því þú gast ekki staðfest þetta með því að senda tölvupóst, en þú getur staðfest þetta ef þú ert með viðskiptavininn í símanum og hann staðfestir að hafa séð þessa síðu, þessa síðu og svo framvegis,“ segir Jói.
Átta til níu starfsmenn að jafnaði
Jói segir að einungis hann og Gilsi starfi fyrir CrankWheel hér á Íslandi, en svo eru þeir með starfsmenn víða um veröldina, í Bandaríkjunum, Bretlandi, Póllandi, Úkraínu og í Suður-Ameríku líka. Alls starfa fjórir hjá CrankWheel í fullu starfi og fjórir til fimm eru í hlutastarfi.
Frá upphafi hefur CrankWheel aðallega unnið í fjarvinnu, segir Jói, en þeir Gilsi sjást þó stundum á skrifstofu fyrirtækisins í Kringlunni þó að oft líði heilu vikurnar þar sem þeir vinni á sitthvorum staðnum. Það urðu því ekki miklar breytingar á daglegum rekstri þegar mælt var með fjarvinnu vegna faraldursins, nema hvað vöxtinn varðaði.