Í aprílmánuði fengu alls 33.637 manns greiddar hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls úr atvinnuleysistryggingasjóði. Í lok maímánaðar voru alls 17.213 manns í minnkuðu starfshlutfalli. Það þýður að þeim launamönnum sem settir höfðu verið á hlutabótaleiðina hafði fækkað næstum helming frá því sem mest var.
Þetta má lesa úr nýrri mánaðaskýrslu Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði sem birt var i dag. Þar segir að fólk hafi verið að skrá sig úr hlutabótaleiðinni jafnt og þétt yfir maímánuð, heldur fleiri þó framan af mánuðinum. Meðal bótahlutfall fólks á hlutabótaleiðinni var um 60 prósent í maí.
Atvinnuleysi vegna þeirra sem skráðir voru í minnkað starfshlutfall í maí reiknaðist 5,6 prósent í maí og hafði lækkað um nærri helming frá því í apríl. Í skýrslunni segir að hæst hafi hlutfall atvinnuleysis sem tengist minnkuðu starfshlutfalli verið á Suðurnesjum, eða 7,4 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu mældist það 5,7 prósent. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi vegna minnkaðs starfshlutfalls lækki í um 3,5-4,0 prósent í júní og komi þá til viðbótar almennu atvinnuleysi nálægt 7,3 prósent.
Alls mældist heildaratvinnuleysi í maí þrettán prósent, en hafði verið 17,8 prósent í apríl.
Leiðin framlengd með breytingum
Stjórnvöld ákváðu að framlengja hlutabótaleiðina út ágúst næstkomandi, en þó með breyttu sniði. Þær breytingar sem gerðar voru fela meðal annars í sér að í júlí og ágúst verða hámarksgreiðslur úr opinberum sjóðum 50 prósent af greiddum launum í stað 75 prósent. Auk þess mega þau fyrirtæki sem nýta sér leiðina ekki ætla að greiða arð, kaupa eigin bréf, greiða óumsamda bónusa eða borga helstu stjórnendum yfir þrjár milljónir á mánuði í tvö ár.
Sama dag og framlenging hlutabótaleiðarinnar var samþykkt á Alþingi í lok maí var samþykkt frumvarp um að veita fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum við starfsfólk sitt. Tilkynnt var um að frumvarpið yrði lagt fram í lok apríl, sem leiddi til þess að mörg fyrirtæki sem höfðu verið með fólk á hlutabótaleiðinni sögðu því upp fyrir þau mánaðarmót.
Úrræðið gerir ráð fyrir því að ríkissjóður greiði fyrirtækjum sem uppfylla sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfirlýst markmið er að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.
Fyrirtækjunum fækkaði um yfir tvö þúsund
Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir að 42 prósent þeirra sem voru í hlutabótaleiðinni í lok maí hafi verið starfandi í flugstarfsemi, gisti- og veitingarekstri og öðrum ferðaþjónustutengdum greinum og hafði hlutfallið hækkað úr um 37 prósent í lok apríl. Stofnunin segir að það sýni alvarlega stöðu þeirrar atvinnugreinar.
Hlutfall þeirra fyrirtækja sem starfa í menningar- og félagsstarfsemi auk opinbers rekstrar og persónulegrar þjónustu sem nýttu sér úrræðið lækkaði úr ellefu í átta prósent í maí.
Alls nýttu 6.320 fyrirtæki sér
hlutabótaleiðina í apríl en fjöldi þeirra var kominn niður í um
4.200 í lok maí. Það þýðir að um 2.120 fyrirtæki hættu að nýta sér leiðina í maí, eða þriðjungur.
Mikil umræða var enda um leiðina í þeim mánuði og sérstaklega um notkun fyrirtækja bjuggu að öflugum rekstri og traustum efnahag, og höfðu ekki orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna COVID-19, á úrræðinu.
Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun tók saman að eigin frumkvæði, og birti í lok síðasta mánaðar, kom fram að hlutabótaleiðin hafi verið misnotuð á margháttaðan máta. Of margir sem áttu ekki í bráðum rekstrarvanda hafi nýtt sér hana til að sækja fjármuni í ríkissjóð og misbrestur hafi verið á eftirliti með ráðstöfun ríkisfjár vegna leiðarinnar.