Tíminn fýkur. Ég rétt blikkaði auga og liðnir voru þrír áratugir. Og nú skynjaði ég minn vitjunartíma,“ segir Guðrún Jónsdóttir sem nýverið tilkynnti um starfslok sín sem talskona Stígamóta. „Þegar ég hafði tekið ákvörðunina fannst mér þetta sjálfsagðasti hlutur í heimi. Ég sleppti glöð og ánægð.“
Guðrún hefur svo oft komið fram fyrir hönd Stígamóta í þeirra baráttu gegn kynferðisofbeldi að það er erfitt að ímynda sér að hún hafi eitt sinn stefnt í allt aðra átt í lífinu. En það er engu að síður staðreynd. Og talandi um lífið: Guðrún er upprunalega menntaður líffræðingur. „Ég var ákaflega glöð yfir því að hafa fundið mína einu réttu hillu,“ rifjar hún upp.
En þó að líffræðin hafi verið spennandi og skemmtileg – og hún alltaf stefnt á framhaldsnám í því fagi – ákvað hún, áður en að því kæmi, að leysa af eitt sumar sem starfskona Kvennalistans. Þetta var árið 1985. En hið tímabundna sumarstarf varð að þremur árum. „Mér fannst stórkostlegt að vinna fyrir Kvennalistann á uppgangsárum hans enda hef ég alltaf verið mikill femínisti.“
Gat aldrei sæst við þennan heim
Fáum árum fyrr hafði verið stofnað Kvennaathvarf í Reykjavík. Að stofnuninni stóð fjöldi kvenna úr kvennahreyfingunni. Guðrún hafði óljósar hugmyndir um starfsemi athvarfsins en hugsaði með sér að fyrst hún væri búin að taka beygju í lífinu gæti hún allt eins kynnt sér það starf nánar áður en hún snéri sér aftur að námi.
„Inn í Kvennaathvarfið gekk ég árið 1988 og inn í heim sem hafði verið mér gjörsamlega hulinn. Ég grét í heilan sólarhring eftir mína fyrstu vakt. Ég mætti konu sem var kasólétt og með glóðarauga. Þetta var mér mikið áfall. Ég hugsaði með mér: Er heimurinn svona?
Ég gat aldrei sæst við þennan heim. Og ég gat ekki skilið hvaða kraftar þetta væru. Eiginlega skil ég það ekki ennþá meira en þrjátíu árum síðar.“
Guðrún starfaði í Kvennaathvarfinu í tvö ár en þá lá leiðin til Noregs ásamt eiginmanninum Tómasi Jónssyni og dætrunum þremur, Sóleyju, Þóru og Kristínu. Loksins var komið að því að hefja framhaldsnámið í líffræðinni. „En ég kom mér ekki inn í það. Ofbeldið sem ég hafði séð var alltaf að brjótast um í hausnum á mér. Þannig að ég endaði með því að læra félagsráðgjöf. Ég notaði öll tækifæri sem gáfust til að kynna mér þessi mál betur og lokaverkefnið mitt var að stofna Norrænar konur gegn ofbeldi sem eru samtök norrænna kvennaathvarfa, en þau voru um 230 á þessum tíma.“
Í framhaldi af því var henni boðið að verða framkvæmdastýra norsku kvennaathvarfahreyfingarinnar. Í tvö ár vann hún við að byggja þá hreyfingu upp. Verkefnið var meðal annars að samnýta kraftana og nýta þá í pólitískum tilgangi.
Saknaði Esjunnar
Árið 1997 fannst Guðrúnu og fjölskyldunni komið gott af Noregsdvölinni. Þau vildu fara heim. „Þessi tilfinning kom yfir okkur einn daginn og var mjög sterk. Þrátt fyrir að ég væri þarna í mjög spennandi starfi. Ég saknaði foreldra minna, Esjunnar!“
Þegar heim kom bauðst henni starf hjá þingflokki Kvennalistans. „Þar var ég síðustu þrjú árin, þegar allt var að leysast upp. Þetta var erfiður tími. Þegar síðasta kjörtímabili Kvennalistans lauk var mér boðið að koma til starfa á Stígamótum.“
Stígamót þekkti Guðrún ágætlega. Hún hafði verið með í stofnun samtakanna árið 1990 ásamt alnöfnu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, og ýmsum fleirum. Nafna hennar var „heilinn á bak við þetta allt saman. Hún hafði þekkinguna og kraftinn.“
Hjá Stígamótum var flatur strúktúr en fljótlega eftir að Guðrún hóf störf árið 1999 kom í ljós að einhver þyrfti að hafa skýrt umboð til að tjá sig fyrir hönd samtakanna. „Þannig varð ég talskona Stígamóta. Það gerði mig hvorki hærra né lægra setta en aðrar starfskonur.“
Og þar með var Guðrún opinberlega farin að vekja athygli á ýmsum hræðilegum hlutum sem voru að eiga sér stað í íslensku samfélagi. Segja frá sifjaspellum og nauðgunum – síðar hóp- og lyfjanauðgunum sem hún segir „nýja vídd í ofbeldi“. Hún leiddi baráttu gegn klámvæðingu; klámbúllum og klámráðstefnum. Barðist fyrir því að kaup á vændi yrðu gerð ólögleg og að nálgunarbannsúrræðið yrði lögfest. Svo barðist hún fyrir því að raddir kvennanna heyrðust og að kastljósinu yrði beint að ofbeldismönnunum. Þeim sem nauðga. Þeim sem níðast á börnum – oft sínum eigin.
Geðillu konurnar á Stígó
Slagirnir gátu verið langir og erfiðir og yfir hana og aðrar starfskonur Stígamóta rigndi fúkyrðum. Jafnvel hótunum. „Boðberar válegra tíðinda eru aldrei vinsælir,“ segir Guðrún og rifjar upp að þegar þær töluðu um sifjaspell fyrstu árin hafi þeim verið bent á að slíkt væri aðeins til í hausnum á þeim. „Við vorum geðillu konurnar á Stígó.“
En Guðrún segist vel geta skilið viðbrögð margra. Harkaleg viðbrögð við því að hulunni sé svipt af ofbeldi sem hafi viðgengist í þögn í áratugi. „Það má segja að ég sé forréttindakona að því leyti að ég hafði aldrei kynnst ofbeldi persónulega. Ofbeldi gegn konum hafði farið fram hjá mér. En ekki bara fram hjá mér.“
Árið 1986 skrifuðu starfskonur Kvennaathvarfsins greinar í Veru, málgagn Kvennalistans. Þema tölublaðsins var kynferðisofbeldi gegn börnum. „Þegar ég las þessar greinar var fyrsta frumstæða tilfinningin sem kom upp í mér reiði. Og ég var reið við þær. Ég hugsaði: Hér er ég og er nokkuð róttækur femínisti en þetta hljóta að vera bara öfgar og bull. Ég vildi ekki trúa þessu. Þetta voru varnarviðbrögð. Þess vegna skil ég vel að þetta málefni virki svona á alla aðra sem ekki hafa kynnst ofbeldi.“
Með stofnun Kvennaathvarfsins fengu konur í fyrsta skipti vettvang til að tjá sig á eigin forsendum og án þess að vera ritstýrt á nokkurn hátt, segir Guðrún. „Og þær fóru að segja frá miklu fleiru en nokkurn hafði órað fyrir og meðal annars kynferðisofbeldi í æsku. Á þessum tíma var sifjaspell algjört tabú og um það ríkti hið fullkomna samsæri þagnarinnar. Innst inni vissi ég að þær voru ekki að búa þetta til. Þetta var einfaldlega að koma fram í dagsljósið. Það gerðist ekki fyrr en hið persónulega varð pólitískt. Þarna voru konur farnar að segja það sem aldrei hafði mátt segja.“
Fékk morð í símann
Árið 1988 sýndi Stöð 2 norska heimildarmynd um kynferðisofbeldi gegn börnum. Í kjölfarið voru umræður um efni myndarinnar í sjónvarpssal en að auki voru opnar símalínur fyrir fólk sem orðið hafði fyrir slíku ofbeldi og vildi ræða málin. Guðrún var meðal þeirra sem höfðu verið fengnar til að svara í símann.
„Ég man svo vel eftir því að ein konan hvítnaði í andlitinu á meðan einu símtalinu stóð. Þegar hún lagði á sagði hún: „Ég fékk morð í símann.“ Þá hafði hún talað við mann sem sagði henni frá því að hann hefði verið beittur kynferðisofbeldi í æsku og tekið sig til þegar hann var orðinn nógu stór og látið manninn hverfa. Það var sú leið sem hann hafði fundið. Þetta kom svo við mig. Að hugsa til þeirra aðstæðna sem hann var í sem barn.“
Á þessum árum var orðið ljóst að þörfin fyrir aðstoð handa þeim sem orðið hefðu fyrir kynferðisofbeldi í æsku eða síðar á lífsleiðinni var gríðarleg. Vandinn og vanlíðanin hafði safnast upp í fjölda ára. Engin fagstétt var undir það búin að takast á við þennan veruleika. „Það var enginn að hlusta eftir þessu. Ekki fagfólk og ekki nokkur annar. En þetta var þarna alltaf. Ef við skoðum bækur Halldórs Laxness þá er þar sifjaspell alls staðar. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu seinna og fannst þá engu líkara en að hann hefði verið fluga á vegg í Stígamótum. Af því hann skildi þetta. En þótt við læsum um þetta ofbeldi þá brugðumst við ekki við. Þetta var alltaf þarna en við litum undan.“
Þegar Stígamót opnuðu dyrnar varð aðsóknin gríðarleg. Neyðarmóttaka vegna nauðgana var ekki til. Ekki heldur Barnahús og barnaverndarnefndir voru ekki að sinna þessum málum. Svo til Stígamóta komu allir, líka börn. Næstu árin einkenndust af gífurlegri vitundarvakningu, baráttu fyrir lagabótum og mikilli framför í úrræðum og menntun fagstétta.
Ekkert af þessu kom að sjálfu sér. Heldur var þetta uppskera baráttu og samtakamáttar kvenna.
Eitt af því sem gerst hafði á Íslandi á meðan Guðrún bjó í Noregi var að upp höfðu sprottið strippstaðir sem Guðrún kallar aldrei annað en klámbúllur. Þær voru 12-13 talsins þegar mest lét. „Þær höfðu komið umræðulaust og tilvist þeirra naut þegjandi samþykkis samfélagsins. Það var látið líta þannig út að þarna væri aðeins um sakleysislegan erótískan dans að ræða. Sem var auðvitað fjarri sannleikanum. Mínir fyrstu slagir eftir að ég byrjaði á Stígamótum var að fletta ofan af því hvað þarna fór fram.“
Fljótlega eftir að Guðrún hóf þar störf fór hún á ráðstefnu í Svíþjóð. Hún var ekki með erindi en tók þátt í vinnuhópum þátttakenda sem störfuðu í sama málaflokki. „Ég var búin að reikna út að þessir klúbbar væru að flytja inn eina erlenda konu á ári fyrir hverja hundrað karlmenn á Íslandi. Það voru að minnsta kosti þúsund konur fluttar inn á ári og karlar eldri en átján ára voru eitt hundrað þúsund. Þær dvöldu þó ekki svo margar á landinu í einu, þær fengu dvalarleyfi í mánuð í senn.“
Allt varð vitlaust
Í ályktun ráðstefnunnar var þetta svo rakið. „Og þegar ég kem heim þá varð allt vitlaust. Í heila viku var þetta á dagskrá í hverjum einasta fréttatíma og þá helst hvað ég væri að bera út um landið mitt og hvaða ýkjur þetta væru í mér um mögulegt vændi og mansal. Klámbúllurnar voru komnar á pólitíska dagskrá.“
Hún segir að Páll Pétursson, sem þá var félagsmálaráðherra, hafi orðið fjúkandi reiður. „Svo hitti ég annan ráðherra sem hundskammaði mig og spurði hvort ég gæti aldrei verið til friðs.“
Hrædd í fyrsta skipti á ævinni
En það fauk ekki bara í stjórnmálamennina heldur líka í klámkóngana. „Heiftin var þvílík. Því það voru engir smá hagsmunir í húfi. Gróðinn sem þarna varð til var gríðarlegur. Og þarna í eina skiptið á ævinni varð ég hrædd. Það hringdi í mig maður og sagðist vita hverjar dætur mínar væru og hvar við ættum heima. Þegar dætrum mínum var ógnað, náðu þeir mér. Maðurinn minn var í útlöndum og ég svaf að heiman þar til hann kom heim.“
Guðrún og fleiri konur frá Stígamótum gáfu sig ekki heldur héldu áfram að vekja athygli á málinu. Þær fóru og heimsóttu staðina. „Ég held að ég hafi aldrei truflað feðraveldið eins rækilega og með því að stíga inn á þessa staði,“ segir hún og hlær. „Við töluðum við konurnar sem þarna unnu og fylgdumst með því sem fór fram. Það var ómögulegt annað en að tengja staðina við vændi og mögulegt mansal.“
Stærsta fyrirtækið í þessum bransa hét Baltic hf. „Þú getur rétt ímyndað þér hvað það þýðir. Það þýðir að þeir voru að flytja inn konur frá Eystrasaltsríkjunum. Á þessum tíma voru aðstæður í þeim löndum skelfilegar og auðvelt að ginna konur þaðan og hingað.“
En þær náðu til kvennanna og fengu að sjá samninga sem þær höfðu gert við staðina. „Samningarnir báru skýr einkenni mansals,“ segir Guðrún. „Úr varð ansi mikil barátta sem tók langan tíma. En síðan varð þessi skilningur okkar almennur. Við komumst á þann stað.“
Spurð hvort þetta hafi verið erfiðasti slagurinn sem hún tók segir hún svo ekki vera, sérstaklega vegna þess að þetta fór vel. Stöðunum var lokað.
Klámráðstefna stöðvuð
Fleiri stór verkefni áttu að eftir að koma upp. Árið 2007 fengu Stígamót ábendingu um að hér ætti að halda stóra klámráðstefnu á Hótel Sögu. Til hennar ætluðu að mæta um 150 eigendur stærstu klámsíðna í heimi. „Til að byrja með höfðum við ekki hugmynd um hvernig við gætum brugðist við þessu. En ég svo kíkti ég inn á þessar klámsíður. Og þarna blasti við mikið barnaklám og fantasíur um barnanauðganir og mansal. Ég tók skjáskot af efninu og við skrifuðum bréf. Það sendum við svo á þingmenn, borgarfulltrúa, lögreglustjóra, fjölmiðla og fleiri og vöktum athygli á því að framleiðendur þessa efnis ætluðu að hittast hér, framleiða klámefni og ástunda viðskipti.“
Þetta endaði með því að Hótel Saga afturkallaði bókunina. Ráðstefnan fór aldrei fram. Því hafði þrýstingur Stígamóta og annarra skilað.
En áður en að því kom bárust Stígamótum alvarlegar hótanir. „Og karlarnir sem ætluðu að hittast hér buðu okkur að koma og ávarpa samkomuna. Þeir sögðust svo gjarnan vilja styrkja okkur með þeim arði sem fengist á ráðstefnunni, „and I mean a lot of money,“ skrifuðu þeir. Þannig að það var allt prófað. En það var ansi gott kampavínið sem við drukkum þegar Saga hafði ákveðið að taka ekki á móti þeim.“
Heldur þú að það yrði reynt að halda svona ráðstefnu á Íslandi í dag?
„Kannski ekki akkúrat í dag. En mér dettur ekki í hug að neinn sá áfangi sem við höfum náð í mannréttindabaráttu sé kominn til að vera án þess að við stöndum vörð um hann. Þannig að ef við ekki stöndum vaktina þá skapast hættan á að þetta endurtaki sig. Klámiðnaðurinn veltir engum smá fjármunum. Sama með innflutninginn á konunum.“
Hangir allt saman
Á meðan á þessu stóð og Guðrún stóð í miðri hríð harkalegra viðbragða, spurði eiginmaður hennar hvort það væri ekki nóg að helga sig baráttunni gegn sifjaspellum og nauðgunum – hvort hún yrði að bæta á sig baráttu gegn klámi og vændi. „Og ég svaraði: „Veistu, ég get bara ekki annað.“ Þetta hangir allt á sömu spýtunni.“
Sérstaða Stígamóta, mögulega á heimsvísu, fellst í því að samtökin „eru annars vegar bullandi pólitísk og róttæk og hins vegar eru þau staður fyrir brotaþola til þess að vinna úr afleiðingum ofbeldis,“ bendir Guðrún á. Galdurinn felst í að gera hvoru tveggja. Við söfnum miklum tölfræðigögnum og setjum sögur fólksins okkar í pólitískt samhengi. Við krefjumst fullkominna úrræða, lagabóta, fræðslu, vitundarvakningar og afnáms kynferðisofbeldis.“
„Í starfi mínu hef ég haldið erindi í að minnsta kosti 85 borgum. Þar hef ég sagt frá okkar pólitísku baráttu og okkar aðferðum sem voru oft skrautlegar og um leið kveikt von í brjóstum margra.“
Sendu átta mál til Mannréttindadómstólsins
En þetta er ekki búið. Það er enn gríðarlegt verk að vinna. Lítið hefur til að mynda þokast í rétta átt í réttarkerfinu að mati Guðrúnar. Enn ratar aðeins brot af kærðum kynferðisbrotamálum til dómstóla og sakfellingarhlutfall í nauðgunarmálum er aðeins um 11 prósent. Mörg þeirra eru látin niður falla. „Að meðaltali undanfarin ár er ennþá hægt að telja dóma sem falla í nauðgunarmálum á hverju ári á fingrum handar einnar konu. Á meðan stóraukning hefur orðið í fjölda þeirra sem leita til Stígamóta vegna nauðgana. Þetta eru tveir heimar.“
Og nú er komið að því að sjá hvort að Mannréttindadómstóllinn tekur undir með Guðrúnu og Stígamótum um að kerfisvilla verði þess valdandi að ekki er ákært í fleiri málum en raun ber vitni. Lögfræðingi var falið það verkefni að fara í gegnum slík mál og senda svo átta þeirra áfram til dómstólsins. Allt eru þetta nýleg mál, „og allt eru þetta mál sem við teljum ekki hafa verið unnin nógu vel af yfirvöldum hérna heima.“
Mannréttindadómstóllinn tekur aðeins fyrir um tíu prósent þeirra mála sem honum berast. Ákvörðun liggur ekki enn fyrir. „Við getum ekki sætt okkur við – og eigum ekki að sætta okkur við – að rannsóknir á kynferðisbrotamálum séu ekki fullnægjandi á Íslandi.“
Eitt stærsta verkefnið sem brýnt er að fara í að mati Guðrúnar snýr að börnum. 70 prósent þeirra sem leitað hafa til Stígamóta segja að ofbeldið hafi byrjað fyrir átján ára aldur. „Ískyggilega stór hópur segir ofbeldið hafa byrjað fyrir tíu ára aldur. Og flest þetta fólk hefur ekki rætt þessi mál við fagfólk og margir ekki við nokkurn mann. Það er gríðarlegt verk að vinna í því að fá alla til að átta sig á að það er verið að beita börn í íslensku samfélagi kynferðisofbeldi í dag. Þetta eru síðan þau sem fara til Stígamóta framtíðarinnar eftir áratug eða jafnvel nokkra. Og það er auðvitað óþolandi.“
Guðrún segist hafa glaðst mjög yfir þeirri vitundarvakningu sem varð varðandi heimilisofbeldi í faraldri COVID-19. „En það komst aldrei inn í umræðuna að þessi einangrun skapaði líka fullkomnar aðstæður fyrir kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Við megum ekki gleyma að slíkt ofbeldi á sér stað inni á heimilum barnanna. Og nú voru þau lokuð þar inni.“
Börn verða að fá að segja frá án allra afleiðinga
Að mati Guðrúnar er nauðsynlegt að finna leiðir til að sjá til þess að börn geti fengið að segja frá í trúnaði og án allra afleiðinga. „Það þarf að fara í það af fullum krafti að búa til þannig vettvang. Þau þurfa að geta talað án þess að koma fram undir nafni og í fullu trausti þess að ekkert annað verði aðhafst, í bili, nema að hlusta. Þau þurfa að geta talað við landsins besta fagfólk þannig að þau geti létt á sér því sem þau burðast með. Við verðum að virða það við þau að þau telja sig ekki geta gengið lengra fyrst í stað.“
Guðrún heldur áfram:
„Börn eru svo trygg og trú sínum nánustu. Börn sem eru svo meidd af þeim sem þau áttu að treysta og þeim sem þau elska líka. Og börn gera sér grein fyrir því hvað gerist ef þau segja frá. Þau vita hvaða afleiðingar það getur haft fyrir þann sem brýtur á þeim. Þau taka því það sem þau telja skásta kostinn sem er að bera þetta sjálf. Þess vegna verðum við að mæta þeim á þeirra forsendum. Við verðum að setja þessi lög okkar fullorðnu, sem fela í sér að allt verði að kæra strax, til hliðar. Því ef við gerum það ekki segja þessi börn aldrei frá.“
Börn látin ganga á milli manna
Árið 2005 kom út bókin Myndin af pabba eftir Gerði Kristnýju. Í henni var sögð saga Thelmu Ásdísardóttur, sem beitt var grófu kynferðisofbeldi af föður sínum og fleiri körlum er hún var á barnsaldri. Málið vakti mikil viðbrögð en í umræðunni var fjallað um það eins og þetta væri einstakt mál. „Svo var því miður ekki,“ segir Guðrún. „Við hjá Stígamótum höfum fengið til okkar mál þar sem börn eru látin ganga á milli manna. Þar sem hreinlega er um barnavændi að ræða. Þetta er svo ljótt að þetta kemst aldrei almennilega inn í umræðuna.
Ef við skoðum hvað er að gerast í klámiðnaði, þar sem barnaklám verður sífellt eftirsóttara, þá getum við spurt okkur: Hvers vegna í ósköpunum ættum við Íslendingar að hafa sloppið? Af hverju ættum við að hafa sloppið við barnaníðingahringi sem skiptast á börnum?
Nei, málið hennar Thelmu var ekki einstakt. Þegar fólk kemur til Stígamóta og greinir frá svona ofbeldi þá er það orðið fullorðið. En við verðum að viðurkenna að þetta er að gerast hér og nú og við verðum að finna leið til að ná til barnanna.“
Margt gleðilegt hefur gerst í baráttunni síðustu ár. Eitt af því sem mest gleður Guðrúnu eru sjálfsprottin grasrótarverkefni sem tengjast Stígamótum og henni sjálfri ekki neitt. „Ég sit heima í stofu og horfi á Druslugönguna og Free the Nipple í sjónvarpinu og segi: Jess, stelpur! Þetta er dásamlegt!“
Metoo er annað dæmi um slíka hreyfingu. „Ég upplifði þetta sem stórkostlega tíma í okkar baráttu, hvernig konur náðu saman í gegnum lokaða hópa á netinu og gátu myndað þann trúnað að þær gátu skoðað innan sinna starfsgreina hvað væri í gangi. Þetta afhjúpaði stórt og kerfislægt vandamál: Hvernig karlar í ljósi stöðu sinnar hafa misnotað hana til að halda konum niðri.
Þetta kom mér ekkert á óvart, alls ekki. En það var ánægjulegt að sjá hvernig konur afhjúpuðu þennan veruleika og ég vona að þetta muni hafa fyrirbyggjandi áhrif til framtíðar – að karlar taki þetta til sín og breyti sinni hegðun. Það er enn þöggunarmenning í okkar samfélagi. Metoo var svar við henni.“
Barist með kaldhæðni og húmor
Þegar Guðrún tilkynnti um starfslok sín hjá Stígamótum í færslu á Facebook skrifaði hún m.a.: „Ég tilkynni jafnframt að ég hef ekki sagt skilið við femínismann. Ég mun áfram fuðra yfir óréttlæti og kúgun og vona innilega að ég eigi eftir að halda áfram að taka þátt í að gera heiminn sanngjarnari og friðsamari.“
Ertu að fara í pólitík?
„Ég hef alltaf verið í pólitík. Þetta er mín pólitík. Ég er ekki flokkspólitísk og er ekki að fara að ganga í neinn pólitískan flokk. En ég mun halda áfram að berjast, ég er ekkert að fara að detta úr karakter.
Eitt af því sem okkur í kvennahreyfingunni hefur lánast er að gera baráttuna skemmtilega. Oft hefur okkur tekist að beita kaldhæðni og húmor í baráttunni sem eru unaðsleg vopn sem andstæðingarnir verjast mjög illa. Og eitt af því sem mér þykir vænst um í þessu öllu saman er þessi grasrótarvinna. Ég elska að vinna í grasrótinni með skemmtilegum konum. Það er hægt að treysta því að ég er ekki dauð úr öllum æðum og mun finna mínar leiðir.“
Ráðherranum sem hundskammaði Guðrúnu fyrir að bera út ýkjur um innflutning á erlendum konum og vændi á klámbúllunum verður líklega seint að ósk sinni: Guðrún Jónsdóttir ætlar aldrei að vera til friðs.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði