Íbúðamarkaðurinn virðist vera að taka við sér eftir stutta lægð vegna afleiðinga COVID-faraldursins í vor. Að mati hagfræðings er auknum umsvifum fyrst og fremst skjótum viðbrögðum stjórnvalda og Seðlabankans að þakka. Hins vegar má greina breytt mynstur í fasteignakaupum á síðustu tveimur mánuðum, þar sem færri hafa keypt íbúð í Reykjavík og nágrenni á meðan stóraukning hefur verið í fjölda kaupsamninga í öðrum bæjarfélögum.
Vísbendingar um aukinn þrýsting
Samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) bendir margt til aukins þrýstings á fasteignamarkaði. Fasteignaverð milli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði mikið milli ára í maí, en hækkunin hefur ekki verið meiri síðan í nóvember 2018.
Einnig hefur meðalsölutími íbúða styst frá því í fyrra, auk þess sem hrein ný útlán bankanna vegna íbúðakaupa hafa aldrei verið meiri en í maí síðastliðnum. HMS tekur þó fram að hluti þessara nýju útlána séu vegna endurfjármögnunar gamalla lána og skili sér ekki endilega í nýjum íbúðakaupum.
Metfjöldi tekinn af söluskrá
Hins vegar er mögulegt að íbúðakaup séu einnig að aukast, en í maí og júní hefur fjöldi íbúða sem hafa verið teknar af söluskrá verið með mesta móti.
„Sé íbúð tekin úr birtingu merkir það yfirleitt að hún hafi verið seld (kauptilboð samþykkt), en einnig gæti það verið vegna þess að eigandi íbúðar hafi hætt við sölu. Þannig má mögulega fá vísbendingar um veltu á fasteignamarkaði fyrr en ella þar sem talsverður tími getur liðið frá samþykkti kauptilboðs þar til kaupsamningi hefur verið þinglýst,” segir í skýrslunni.
„Glettilega gott” ástand miðað við aðstæður
Ari Skúlason, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, tekur í svipaðan streng og sagði stöðuna á fasteignamarkaði sé betri en reiknað hafi verið með í Vikulokunum á RÚV í gær. Þrátt fyrir að viðskipti á húsnæðismarkaðnum hafi verið um þriðjungi minni síðasta vor en hann var fyrir ári síðan sé það nokkuð gott miðað við útlitið í efnahagslífinu. „Miðað við þá stöðu sem við erum í, miðað að við séum í einhverri dýpstu kreppu sem við höfum nokkurn tímann lent í, þá held ég að það ástand sé bara glettilega gott,” segir Ari.
Kólnun í höfuðborginni en stóraukning annars staðar
Samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá (hér og hér) má ekki enn sjá þá aukningu þinglýstra kaupsamninga sem búist var við í skýrslu HMS, en fjöldi þeirra stóð nánast í stað á milli maí og júní.
Á síðustu mánuðum hefur þó mikil breyting átt sér stað í staðsetningu nýrra fasteignakaupa, en kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað mikið á meðan önnur bæjarfélög hafa verið í stórsókn.
Eins og myndin hér að ofan sýnir voru fleiri kaupsamningar þinglýstir utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess í júní, en það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist frá því mælingar Þjóðskrár á kaupsamningum hófust. Mest var fjölgunin á Akureyri, en þar voru kaupsamningar nær tvöfalt fleiri í júní miðað við sama tímabil í fyrra.
Vaxtalækkanir hafi skilað sér
Una Jónsdóttir, hagfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir inngrip stjórnvalda og Seðlabankans hafa mildað núverandi efnahagsáfall í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar. Þar nefnir hún sérstaklega skjótar stýrivaxtalækkanir í kjölfar útbreiðslu COVID-19 faraldursins, en samkvæmt henni hafa þær komið í veg fyrir meiriháttar bakslag í eftirspurn.
„Áhrif vaxtalækkana hafa gert vart við sig á íbúðamarkaði. Vextir á íbúðalánum hafa víðast hvar lækkað og eru orðnir mjög lágir, sögulega séð. Þetta hefur það í för með sér að greiðslubyrði af lánum lækkar og þar með aukast ráðstöfunartekjur heimila,“ skrifar Una.
Heilbrigður íbúðamarkaður
Þó bætir hún við að erfitt sé að spá fyrir um gang mála, en núverandi staða á íbúðamarkaði bendi til þess að íbúðamarkaðurinn sé nokkuð heilbrigður enn sem komið er. Hagfræðideild Landsbankans gaf út verðspá fyrir íbúðamarkaðinn í maí, en hún gengur út frá því að íbúðaverð haldist nokkurn veginn óbreytt það sem eftir er árs.
Grein Unu í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem hægt er að gerast áskrifandi að hér.