1.
Lúsmý eru agnarsmáar mýflugur af lúsmýsætt, almennt 1 til 3 millimetrar, afar fíngerðar og illa sýnilegar nema helst þegar þær safnast margar saman á húð spendýra til að taka þeim blóð. Á það ekki síst við um ljósa og hárlitla húð manna. Lúsmý finnst um víða veröld enda tegundir fjölmargar og hver með sínar kröfur til aðbúnaðar. Sumar tegundir lúsmýs eru illa þokkaðir bitvargar á spendýrum, mönnum þar á meðal. Sumar geta borið skaðlega sýkla í blóðgjafa sína.
2.
Kvendýrin þurfa spendýrablóð til að þroska egg. Sum lúsmý sjúga líkamsvessa úr smádýrum. Lirfur eru flestar rándýr. Bæði kyn fá einnig orku úr í frjókornum plantna. Það fer eftir tegundum bæði hvenær sumars og hvenær sólarhrings lúsmý bítur. Sumar fljúga snemma sumars aðrar síðar, sumar athafna sig að degi til, aðrar á kvöldin og á björtum nóttum, enn aðrar við sólarupprás. Mun fleiri tegundir leggjast á smádýr en stærri dýr með heitt blóð.
3.
Algengast er að uppeldisstöðvar lúsmýs sé að finna í vatni, votlendismosum eða öðrum blautum sverði, eða hvar sem vatn safnast í holrýmum eins og holum trjástofnum og svo framvegis. Sumar tegundir alast upp í rotnandi plöntuúrgangi eða skít húsdýra, sumar jafnvel í safa inni í stönglum plantna eins og sveipjurta. Lúsmý heldur sig einkum nálægt uppeldisstöðvunum en getur borist víða með vindum. Flestar tegundir þroska eina kynslóð á ári. Flestar brúa vetur á lirfustigi en færri á eggstigi.
4.
Lúsmý líkist allra minnstu tegundum rykmýs að ýmsu leyti. Sköpulag er svipað, tiltölulega stuttir vængir leggjast flatir yfir afturbol, vængæðar sérstakar, fremstu æðar enda í framrönd vængs sem sést stundum hjá rykmýi. Vængir eru ýmist hærðir eða ekki. Karldýr hafa fjaðurgreindar svipur fálmara, þó ekki sömu gerðar og einstakar fjaðurgreindar svipur rykmýskarla. Munnlimir eru mótaðir til að rista húð og sjúga upp blóðvessa.
5.
Af lúsmýsætt hafa um 5.000 tegundir verið skilgreindar í heiminum, en skilgreiningarnar eru margar óljósar og ruglingslegar. Sérfræðingar í þessum fræðum eru fáir og alls ekki á einu máli. Í Evrópu eru skráðar um 570 tegundir í 28 ættkvíslum.
6.
Hér á landi er ættin lítt rannsökuð og því illa þekkt. Fyrirliggjandi þekkingu má rekja áratugi aftur og er hún því afar ótraust. Aðeins sex tegundir voru til skamms tíma listaðar hérlendis, fjórar undir fullum tegundaheitum en tvær aðeins undir ættkvíslaheitum. Engin þessara tegunda er þekkt fyrir að leggjast á menn og önnur spendýr.
7.
Sjöunda tegundin, Culicoides reconditus, uppgötvaðist ekki fyrr en á síðustu árum og var henni ekki tekið fagnandi. Um þessa tilteknu tegund er það að segja að lífshættir hennar eru nánast óþekktir. Uppeldisstöðvar hafa ekki verið staðsettar. Flugtími er frá því snemma í júní og fram yfir miðjan ágúst. Ekki er vitað hvort um sé að ræða eina kynslóð yfir sumarið eða tvær en flugtíminn er langur og gæti bent til tveggja kynslóða.
8.
Lúsmý leggst einkum á fólk í svefni, sækir inn um opna glugga á kvöldin og nóttunni. Það þarf lognstillur til að athafna sig, hverfur ef vindur blæs. Þéttvaxinn garðagróður í byggð skapar skjól og hagstæð lífsskilyrði fyrir lúsmý, einnig hávaxinn trjágróður umhverfis sumarhús. Þekkt er tilfelli þar sem fólk í umgirtu sumarhúsi varð illa útleikið á meðan fólk í nálægu húsi þar sem enginn var skjólgarðurinn slapp að mestu.
9.
Flugurnar skynja koltvísýring með ofurnæmum skynjurum frá útöndun fólks og staðsetja þannig blóðgjafa sína. Líkamshlutar sem standa berir út undan sængum, svo sem andlit og herðar, handleggir og fótleggir gefa flugunum sóknarfæri. Fljótlega eftir bit koma fram bólur og útbrot með tilheyrandi óbærilegum kláða sem staðið getur yfir í allnokkra daga. Þá er ráðlegt að bera á húðina kælikrem og jafnvel taka inn ofnæmislyf. Krem sem verja gegn bitum moskítóflugna kunna að vera fyrirbyggjandi. Annars er best að fara eftir ráðleggingum hjúkrunarfólks í þessum efnum.
10.
Til að verjast lúsmýi enn frekar er ráðlegt að hafa glugga lokaða, til vara að líma mjög fínriðið gardínuefni fyrir opnanleg fög á flugtíma mýsins. Vifta sem heldur lofti á hreyfingu í svefnherbergi kann að hjálpa, hugsanlega einnig vifta sem blæs út á móti opnum gluggum. Ráðlegt er að sofa í náttfötum. Því hefur verið haldið fram að þessar agnarsmáu og veikbyggðu mýflugur bíti í gegnum fatnað en svo er ólíklegt. Stungumý – eða moskítóflugur – fer í gegnum fatnað en varla agnarsmátt og veikbyggt lúsmý sem þolir ekki nokkra snertingu eða núning við fatnað og rúmföt.
Upplýsingarnar í greininni eru fengnar af Vísindavefnum í svari Erlings Ólafssonar og Matthíasar Alfreðssonar, skordýrafræðinga hjá Náttúrufræðistofnun.
Hægt er að fylgjast með reynslusögum Íslendinga sem hafa orðið fyrir vargnum í sérstökum hóp á Facebook.
Hér er hægt að finna ráð til að verjast lúsmýi og við bitum.