Eignarhaldsfélagið Borgun, sem keypti 31,2 prósent hlut Landsbankans í Borgun í nóvember 2014 á tæplega 2,2 milljarða króna, hefur rúmlega tvöfaldað þá fjárfestingu á þeim tæpu sex árum sem liðin eru frá því að kaupin áttu sér stað. Síðan þá hefur félagið fengið rúmlegt kaupverðið til baka í formi arðgreiðslna, selt hlutinn sinn til alþjóðlegs greiðslumiðlunarfyrirtækis og fengið bréf hlut í félagi sem heldur á bréfum í Visa Inc. Samtals er virði ofangreinds um 4,5 milljarðar króna því sem fram kemur í opinberum gögnum og umfjöllun fjölmiðla.
Landsbankinn hefur stefnt Eignarhaldsfélaginu Borgun, Borgun, BPS ehf. og fyrrverandi forstjóra Borgunar vegna upphaflega viðskiptanna vegna þess að ríkisbankinn telur að ekki hafi verið upplýst um sannvirði Borgunar þegar þau fóru fram. Landsbankinn telur sig hafa verið blekktan til að selja hlut sinn á hrakvirði og áætlar að tjón sitt hafi verið 1,9 milljarðar króna. Vinni Landsbankinn það mál, og Eignarhaldsfélagið Borgun þarf að greiða sinn hluta af því tjóni, má ætla að félagið þurfi að greiða um 590 milljónir króna til ríkisbankans.
Grunsemdir um að virði hafi verið falið
Kaupin á hlut Landsbankans í Borgun áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta.
Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru þáverandi stjórnendur Borgunar. Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson), og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar).
Salan fór fram á bak við luktar dyr og hluturinn var ekki auglýstur til sölu.
Mikill hagnaður og háar arðgreiðslur
Næstu árin hagnaðist Borgun verulega. Greiddar voru út 800 milljónir króna í arð til eigenda á árinu 2015 vegna frammistöðu fyrra árs. Ári síðar nam arðgreiðslan 2,2 milljörðum króna og árið 2017 voru greiddir út 4,7 milljarðar króna vegna frammistöðu ársins 2016, þegar hlutirnir í Visa Europe voru seldir.
Á rúmum þremur árum fengu fjárfestarnir sem keyptu 31,2 prósent hlut ríkisbankans Landsbankans því allt útlagt kaupverð til baka og græddu til viðbótar 218 milljónir króna í reiðufé. Árið 2017 var hagnaðurinn svo 350 milljónir króna en engin arður greiddur út.
Ofan á það áttu þeir auðvitað enn hlutinn í Borgun.
Halla fer undan fæti og Borgun selt
Á árunum 2018 og 2019 fór reksturinn hins vegar að versna til muna. Samanlagt tap á þeim árum nam um tveimur milljörðum króna og á fyrri hluta ársins 2020 var tapið 635 milljónir króna.
Fyrr á þessu ári samþykktu svo eigendur 96 prósent hlutafjár í Borgun, þar á meðal stærsti eigandinn Íslandsbanki og Eignarhaldsfélagið Borgun, að selja hluti sína til alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins Salt Pay. Formlega var gengið frá sölunni 7. júlí síðastliðinn.
Kaupverðið var sagt trúnaðarmál en en Fréttablaðið greindi frá því viku síðar að það hafi verið samtals 27 milljónir evra, um 4,3 milljarðar króna. Það hafði lækkað um átta milljónir evra, um 1,3 milljarða króna, frá því að kaupsamningur var undirritaður 11. mars 2020. Helsta ástæða þess að verðið lækkaði voru áhrif COVID-19 faraldursins á starfsemi Borgunar. Sé það rétt er hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar í kaupverðinu ætti samkvæmt því að vera um 1,3 milljarðar króna.
Áður en að gengið var frá sölunni á Borgun var hlutafé í félaginu lækkað. Sú lækkun fór fram þannig að forgangshlutabréf í Visa Inc, sem Borgun eignaðist árið 2016 við að selja hlut sinn í Visa Europe, voru færð inn í félagið Borgun-VS ehf. Fráfarandi eigendur Borgunar eignuðust svo það félag. Virði forgangshlutabréfanna er sagt vera rúmlega 3,1 milljarður króna í árshlutauppgjöri Íslandsbanka. Hlutur Eignarhaldsfélagsins Borgunar í Borgun-VS ehf. ætti því að vera um eins milljarðs króna virði.
Því ætti félagið að hafa fengið um 2,3 milljarða króna út úr sölunni. Samtals hefur Eignarhaldsfélagið Borgun því breytt tæplega 2,2 milljarða króna fjárfestingu sem ráðist var í haustið 2014 í 4,5 milljarða króna. Á tæpum sex árum hefur fjárfestingin tvöldast í krónum talið, og fjárfestarnir leyst út þorra þeirrar virðisaukningar í formi arðgreiðslna og söluandvirðis. Einungis hluturinn í Borgun-VS er enn bundinn í bréfum.