Stundum er haft á orði að góðir hlutir gerist hægt þegar eitthvað tekur lengri tíma en ráð var fyrir gert. Árið 1996, þegar tilkynnt var að nýr flugvöllur og flugstöð myndi, eftir ellefu ár, árið 2007, leysa af hólmi þrjá flugvelli, Tegel, Schönefeld og Tempelhof, sem fyrir voru í næsta nágrenni Berlínar þótti það hið besta mál. Tempelhof var reyndar lokað árið 2008. Fæsta grunaði að þessir góðu hlutir myndu ganga svo hægt að stutt yrði til loka ársins 2020 þegar flugstöðin og völlurinn kæmust í gagnið en nú er miðað við að það verði 31. október næstkomandi.
Hugmyndir um nýjan flugvöll
Nokkru eftir fall Berlínarmúrsins árið 1989, og sameiningu Þýskalands ári síðar, hófust umræður um að í stað þriggja, tiltölulega gamalla flugvalla, skyldi gerður einn stór og nútímalegur flugvöllur, í nágrenni Berlínar. Með öllu tilheyrandi, eins og það var orðað. Slíkur völlur væri um leið táknrænn, tákn hins sameinaða Þýskalands.
2. maí árið 1991 var haldinn stofnfundur rekstrarfélags þessa fyrirhugaða flugvallar og jafnframt ákveðið að Berlínarborg og sambandsríkið Brandenburg myndu, hvort um sig eiga 37.5% í rekstrarfélaginu og þýska ríkið 25%. Árið 1993 var tilkynnt að nýja flugstöðin skyldi rísa í nágrenni Schönefeld vallarins, átján kílómetrum sunnan við miðborg Berlínar, og að ein flugbraut gamla Schönefeld yrði hluti hins nýja flugvallar.
Samningaviðræður og málaferli
Schönefeld er á mörkum Berlínar og sambandsríkisins Brandenburg. Þótt íbúar á þessu svæði hefðu haft Schönefeld flugvöllinn í næsta nágrenni leist þeim miður vel á að fá þennan nýja ofurflugvöll, eins og hann var kallaður í næsta nágrenni. Á svæðinu var 300 manna þorp, sem fyrir lá að yrði jafnað við jörðu og íbúarnir yrðu að flytja í nýtt þorp, sem kæmi í stað hins gamla. Skemmst er frá því að segja að þessi mál enduðu fyrir dómstólum og, eftir tíu ára vafstur, varð niðurstaðan sú að heimildin til að byggja flugvöllinn stóð, sú niðurstaða lá fyrir árið árið 2006. Öllum var ljóst að nýi flugvöllurinn kæmist ekki í gagnið árið 2007, eins og upphaflega var stefnt að, sú dagsetning var fokin út í veður og vind.
Flughafen Berlin Brandenburg Willy Brandt
Þegar undirbúningur vegna hins nýja flugvallar hófst var hann kallaður Berlin Brandenburg International Airport. Allir hlutaðeigandi voru sáttir við nafnið og líka þriggja stafa skammstöfunina BBI. Sú skammstöfun var hins vegar þegar í notkun á Indlandi. Þá var ákveðið að skammstöfun vallarins yrði BER. Síðar var ákveðið að flugvöllurinn skyldi kenndur við Willy Brandt, fyrrverandi borgarstjóra Berlínar, 1957 – 1966, og kanslara Vestur-Þýskalands frá 1969 til 1974. Völlurinn og flugstöðin bera þess vegna þetta langa nafn: Flughafen
Berlin Brandenburg Willy Brandt. Skammstöfunin BER stendur hinsvegar óbreytt.
Seinkun á seinkun ofan
2011, 2012, 2013, 2016, 2017, 2019 (eftir hádegi).
Þegar ljóst var að BER yrði ekki tilbúinn til notkunar árið 2007, nefndu forsvarsmenn ártalið 2011. Síðan fylgdu ártölin hér að ofan í kjölfarið, og þegar greint var frá því að stefnt væri að opnun árið 2017 sagði sérfræðingur um flugvallarmál, í viðtali, að kannski væri árið 2019 raunhæfara, og bætti við „eftir hádegi“. Þetta þótti ýmsum óþarfa svartsýni en löngu er komið á daginn að sérfræðingurinn hafði ekki tekið sérlega djúpt í árinni.
Fúsk á fúsk ofan
Hvernig stendur á því að flugvöllur, með tilheyrandi flugstöð, sem átti að taka í notkun árið 2007 er ekki enn, þrettán árum síðar, kominn í gagnið?
Svarið við því er í stuttu máli að við byggingu flugstöðvarinnar (flugbrautirnar eru löngu tilbúnar) fór fjölmargt úrskeiðis. Í mörg hundruð blaðsíðna skýrslu rannsóknarnefndar sem þýska þingið skipaði eru nefndir 150 þúsund gallar, stórir og smáir. Þar á meðal að 600 veggir sem áttu að vera eldtraustir reyndust ekki eldtraustir og varð að skipta um þá alla. Eldvarna- og loftræstikerfi voru ófullnægjandi og uppfylltu ekki lágmarkskröfur, loft í flugstöðvarbyggingunni hafði ekki nægilegt burðarþol. Og svona mætti áfram telja. Mörg þeirra fyrirtækja sem unnið hafa að framkvæmdunum á liðnum árum eru farin á hausinn og því erfitt að draga einhvern til ábyrgðar.
Þýskir stjórnmálamenn hafa margir hverjir kallað þessa framkvæmd mesta klúður í þýskri byggingasögu. Í umræðum í þinginu lagði einn þingmaður til að flugstöðin yrði gerð að „Safni mistakanna“.
Kostnaðurinn hefur meira en tvöfaldast
Upphafleg fjárhagsáætlun vegna BER hljóðaði uppá 3 milljarða evra (481 milljarð íslenskra króna) en nú er kostnaðurinn orðinn rúmir 7 milljarðar evra (1123 milljarðar króna) og á eftir að hækka talsvert.
Er nýja flugstöðin kannski of lítil?
Síðan ákvarðanir um byggingu BER voru teknar fyrir tæpum 30 árum hefur margt breyst. Ferðamannafjöldinn hefur margfaldast, þótt ástandið sé öðruvísi akkúrat núna vegna veirunnar. Á þessari stundu veit enginn hvaða áhrif veirufaraldurinn kann að hafa á ferðalög á næstu árum. Áður en veiran kom til sögunnar voru þýskir fjölmiðlar farnir að velta fyrir sér hvort nýi flugvöllurinn BER yrði kannski of lítill til að anna umferðinni, og hvað væri þá til ráða. Mjög þröngt er um flugstöðina og því erfitt um vik að stækka hana.
Nokkrir þýskir stjórnmálamenn hafa nefnt þann möguleika að Tegel flugvöllurinn verði opinn áfram og þar verði gerðar nauðsynlegar endurbætur.
9 þúsund taka þátt í að prufukeyra kerfið
Fyrir nokkru auglýsti flugvallarstjórnin eftir níu þúsund sjálfboðaliðum, til að prufukeyra kerfið, eins og framkvæmdastjórinn orðaði það. Fyrsta æfingin fór fram fyrir nokkrum dögum, þá mættu 400 „farþegar“ í flugstöðina. Þeir fengu upplýsingar um verkefnið, sumir fengu ferðatöskur til að innrita, aðrir bakpoka og enn aðrir svokallaðan stóran farangur, sem þarf að innrita sérstaklega. Sumir voru einnig með farangur sem ólöglegt er að fara með í flug. Síðan áttu „farþegarnir“ að innrita sig, og fara að viðkomandi brottfararhliði. Allt eins og í alvöru brottför. En í stað þess að fara um borð í flugvél fóru farþegarnir í rútu þvert yfir völlinn og eftir nokkra stund til baka og þá voru þeir orðnir að „komufarþegum“, þurftu að sækja farangurinn og fara í gegnum tollinn og út. Allt eins og í „alvörunni“.
Að sögn flugvallarstjórans gekk þessi fyrsta æfing vel og í viðtölum sagði hann að „farþegarnir“ hefðu komið með alls kyns ábendingar og auðvitað hefði ýmislegt komið í ljós sem gera mætti betur og úr því yrði bætt.
Grínararnir þurfa vonandi að finna nýtt viðfangsefni
Eins og nærri má geta hefur BER og allt klúðrið varðandi framkvæmdirnar, um árabil verið skotspónn þýskra spaugara. Engelbert Ludke Daldrup framkvæmdastjóri flugvallarins sagðist þess fullviss að BER verði tekinn í notkun 31. október næstkomandi „við erum búin að tilkynna þessa dagsetningu og ætlum að standa við það. Og þá þurfa grínararnir að finna sér ný viðfangsefni“.