Óformleg gjaldeyrishöft virðast hafa haldið uppi virkni á Kauphöllinni síðan í mars, en vísitala hennar er nú á sama reiki og hún var í byrjun árs. Gengi fyrirtækja hefur hins vegar verið mismunandi, en Origo og Síminn hafa hækkað mest á síðustu mánuðum á meðan hlutabréfaverð Icelandair og Sýnar hefur lækkað mest.
Lífeyrissjóðir líklega afstýrt frekari samdrátt
Ekkert stórt hrun hefur orðið í kauphöllinni í ár, líkt og gerðist í kjölfar síðustu efnahagskreppu. Að vísu virtist svo vera á fyrstu vikum faraldursins, en vísitala kauphallarinnar féll um 27% í mars.
Þann 17. mars gerði Seðlabankinn svo samkomulag við lífeyrissjóðina um hlé á gjaldeyriskaupum, en með því samkomulagi hófust nokkurs konar óformleg gjaldeyrishöft á landinu. Þar sem lífeyrissjóðirnir ákváðu að fjárfesta ekki erlendis hafa þeir í auknum mæli þurft að beina fjárfestingum sínum innanlands á síðustu mánuðum.
Þessi ákvörðun virðist hafa haft góð áhrif á hlutabréfamarkaðinn hérlendis, en vísitala kauphallarinnar tók að hækka örfáum dögum eftir samkomulagið og er hún nú á sama reiki og hún var í byrjun ársins.
Mismunandi gengi fyrirtækja
Nokkur munur hefur þó verið á gengi skráðra fyrirtækja, en virði Marel, Origo og Símans hafa hækkað mest, á meðan virði Icelandair og Sýn hefur lækkað allmikið. Hlutabréfaverð smásölufyrirtækjanna Haga og Festi hefur náð aftur fyrri hæðum, og fjármálafyrirtækin virðast hafa sömuleiðis rétt úr kútnum. Hins vegar virðist skellurinn hafa verið harðari hjá fasteignafélögunum Reiti, Eik og Reginn.
70% lækkun bréfa hjá Icelandair
Af öllum fyrirtækjunum í kauphöllinni sker Icelandair sig úr, en lokanir landamæra um allan heim og erfiðleikar við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins hefur stefnt framtíð þess í tvísýnu. Óvissan endurspeglast í hlutabréfavirði félagsins, en það hefur lækkað um 70% frá byrjun marsmánaðar, langmest allra félaga í Kauphöllinni.
Ólíkt gengi hjá fjarskiptafyrirtækjunum
Næst á eftir Icelandair kemur Sýn, en virði fyrirtækisins hefur lækkað um tæp 28% á sama tímabili, en slæmar fréttir hafa borist af rekstri fyrirtækisins í nokkurn tíma. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs tapaði Sýn 350 milljónum króna, en heildartap fyrirtækisins í fyrra nam rúmlega 1,7 milljörðum króna.
Gengi Sýnar er í andstöðu við gengi helsta keppinautar fyrirtækisins, Símans, en hlutabréfaverð þess síðarnefnda hefur hækkað um fjórðung á sama tíma eins og sjá má á mynd hér að ofan. Ólíkt Sýn hefur rekstur Símans gengið vel, en fyrirtækið skilaði 764 milljóna króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og 3 milljarða króna hagnaði í fyrra.
Hlutabréfaverð Origo hefur einnig hækkað töluvert frá byrjun heimsfaraldursins og er það nú 22% hærra en það var við mánaðamót febrúar og mars.
Fjármálafyrirtæki og Brim í góðum málum
Flest önnur fyrirtæki Kauphallarinnar virðast hafa náð að rétta úr kútnum eftir tímabundinn skell í hlutabréfaverði í mars. Virði tryggingafyrirtækjanna Sjóvár, TM og VÍS, auk Kviku banka eru á svipuðum slóðum og í byrjun árs, auk þess sem hlutabréfaverð Brims hefur verið á góðri siglingu allt árið.
Eina fjármálafyrirtækið sem ekki hefur náð sér að fullu eftir skellinn í mars er Arion banki, en hlutabréfaverð þess er núna um 10% lægra en það var við marsbyrjun.
Minni sveiflur með samruna smásölu og olíu
Gengi hlutabréfa í Högum og Festi hefur verið nokkuð gott, en verð þeirra hefur hækkað lítillega frá byrjun faraldursins. Ætla má að hækkunin hefði verið meiri ef fyrirtækin hefðu ekki tekið yfir olíufyrirtækin N1 og Olís á síðustu árum, en eftirspurn á olíu hefur lækkað í núverandi kreppu á meðan rekstur smásölufyrirtækja hefur gengið vel heilt yfir.
Virði olíufyrirtækisins Skeljungs, sem ekki hefur sameinast smásölufyrirtæki, hefur hins vegar lækkað nokkuð og er nú um 5% lægra en það var í marsbyrjun.
Fasteignafélög finna fyrir kreppunni
Gengi flestra fasteignafélaga hefur einnig verið erfitt á síðustu mánuðum, en virði Eikar, Regins og Reita hefur minnkað töluvert frá byrjun faraldursins. Mest hefur fallið verið hjá Reitum, þar sem hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 26% á síðasta hálfa árinu.
Mögulegt er að félögin finni fyrir auknum vanskilum í leigu hjá fyrirtækjum sem ekki hafa getað haldið áfram starfsemi sinni á meðan faraldrinum stóð, en Morgunblaðið greindi frá því í gær að eigendur skemmtistaðarins b5 hafi ekki greitt Eik leigu af húsnæði sínu síðustu þrjá mánuði vegna tekjuleysis.