Ein af fyrstu aðgerðunum sem íslensk stjórnvöld gripu til vegna efnahagslegra afleiðinga af kórónuveirufaraldinum var að veita fyrirtækjum í landinu frest á greiðslu á helmingi tryggingargjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Þetta var ákveðið 12. mars, fjórum dögum áður en að eindagi þeirra gjalda átti að vera. Þeim eindaga var frestað um mánuð upphaflega, og síðar þangað til í janúar á næsta ári. Gert var ráð fyrir að þetta myndi seinka tekjum til ríkissjóðs upp á 22 milljarða króna.
Þegar ríkisstjórnin kynnti svo fyrsta efnahagspakka sinn 21. mars var ein þeirra aðgerða sem þar var kynnt til leiks sú að fresta mætti þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds á tímabilinu 1. apríl til 1. desember til viðbótar ef fyrirtæki gæti mætt ákveðnum skilyrðum. Þau voru að um minnsta kosti þriðjungs samdrátt væri að ræða í rekstrartekjum fyrirtækis yfir heilan mánuð samanborið við sama mánuð árið 2019, að tekjufallið hefði leitt af sér rekstrarörðugleika (einkum horft til stöðu eigin fjár og lausafjárstöðu) og að rekstrarörðugleikarnir væru tímabundnir og því hefði ekki verið til staðar varanlegur fjárhagsvandi áður en til tekjufallsins kom.
Stór hluti af áætluðum heildaráhrifum efnahagspakka eitt
Miðað við ákveðnar forsendur um nýtingu var áætlað að þessi aðgerð gæti frestað greiðslu á tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga um 33 til 100 milljarða króna á tímabilinu. Hlutföllin voru reiknuð þannig að 57 prósent höggsins gæti lent á ríkissjóði en 43 prósent á sveitarstjórnum.
Frekari greiningar stjórnvalda mátu að heimild til að fresta helmingi staðgreiðslu tekjuskatts, útsvars og tryggingargjalds leiddi í ljós þá áætlun að allt að 22 milljarðar króna myndu verða frestað í mars einum saman og áhrif af frestun á þremur gjalddögum til viðbótar voru áætluð allt að tæpum 70 milljörðum króna.
Í glærukynningu ráðamanna, þegar þeir kynntu fyrsta efnahagspakka sinn, var sett fram að þessi aðgerð myndi styrkja lausafjárstöðu fyrirtækja um 75 milljarða króna.
Þetta var því stór hluti þeirra 230 milljarða króna sem heildaráhrif aðgerðarpakkans voru sögð vera.
Um 17 prósent af því sem reiknað var með
Þessar forsendur gengu ekki eftir. Umfang frestaðra greiðslna hefur þvert á móti verið 15,7 milljarðar króna frá marsmánuði og út júlí, eða um 17 prósent af því sem frekari greining stjórnvalda reiknaði með.
Mest var um frestanir í marsmánuði þegar um fjórðungi allra greiðslna á opinberum gjöldum var frestað, alls 11,3 milljarðar króna. Hluti launagreiðenda sem nýttu sér þá frestun hafa hins vegar síðan greitt upp skuldina vegna marsmánaðar þrátt fyrir að hún væri ekki á gjalddaga fyrr en í upphafi næsta árs. Umfang þeirrar upphæðar sem var frestað í mars hefur vegna þessa lækkað í 9,4 milljarða króna.
Í apríl frestuðu fyrirtækin í landinu 3,8 milljörðum króna af greiðslum og í maí var upphæðin 2,1 milljarður króna. Hún reis á ný í júní og var þá rúmlega þrír milljarðar króna en dróst verulega saman í síðasta mánuði þegar greiðslum upp á einungis 708 milljónum króna var frestað.
Í fréttatilkynningu sem birtist á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag, sem sýndi tölur yfir stöðu efnahagsaðgerðar vegna COVID-19, segir að hið lága hlutfall frestana í júlí bendi til þess að launagreiðendur sem kusu að nýta heimildina hefðu að miklu leyti gert það fyrstu þrjá mánuðina sem hún var í boði.