„Ég veit ekki mjög mikið um hreyfinguna, en mér skilst að þeim líkar mjög vel við mig. Sem ég kann mjög vel að meta,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti á blaðamannafundi síðasta miðvikudag þegar hann var spurður út í samsæriskenningahóp sem kallar sig QAnon.
Ummæli Trump vöktu töluverða athygli, sérstaklega í ljósi þess að alríkislögregla Bandaríkjanna hefur skilgreint kenningarnar sem hópurinn kennir sig við sem hryðjuverkaógn. Repúblikanaflokkurinn virðist einnig klofinn í afstöðu sinni gagnvart hópnum, en stuðningsmaður hans var nýlega kjörinn fulltrúi flokksins í komandi þingkosningum.
Barnaníð, JFK og kórónuveiran
Í október árið 2017 setti notandi vefsvæðisins 4chan undir notendanafninu inn röð færslna undir dulnefninu „Q“. Notandinn sagðist vera hátt settur starfsmaður ríkisstjórnar Bandaríkjanna og því með öryggisaðgang á Q-stigi, sem veitir honum aðgang að leynilegum upplýsingum sem varða þjóðaröryggi.
Færslurnar, sem voru þekktar sem „Q-molar“, innihéldu meðal annars kenningar um að rannsókn sérstaks saksóknara í Bandaríkjunum á áhrifum Rússa í síðustu forsetakosningunum hafi í raun verið ger til að afvegaleiða rannsókn á barnaníðshring, sem „Q“ segir Trump sé að vinna að.
Aðrar samsæriskenningar hafa einnig verið nefndar á vegum „Q“, meðal annars um að John F. Kennedy, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hafi sviðsett morðið á sjálfum sér og að kórónuveiran sé annað hvort tilbúningur eða lífefnavopn sem búið var til af illgjörnum elítum.
Hundruð þúsunda fylgjenda
„Q“ hefur aflað sér fjölda fylgismanna, en nú má nálgast ýmsar kenningar í anda hans á samfélagsmiðlum undir merkjum QAnon. Samkvæmt umfjöllun BBC um málið benda tölur um netumferð og deilingar þessara kenninga á samfélagsmiðlum til þess að hundruðir þúsunda trúi á einhverjar þeirra sem QAnon hópurinn teflir fram.
Sérstaklega hefur fjöldi fylgismanna aukist samhliða útbreiðslu kórónuveirunnar og dauða milljarðamæringsins Jeffrey Epstein, en áhangendum Facebookhóps á vegum hans fjölgaði um nær tífalt í síðasta mánuði, miðað við sama tímabil í fyrra. Vinsældir hópsins hafa líka aukist á Twitter, en dagsmeðaltal færslna þar sem innihalda vinsæl QAnon-myllumerki jukust um 190 prósent frá ágúst í fyrra til síðasta marsmánaðar.
Skilgreindur sem innlend hryðjuverkaógn
Kenningar QAnon, sem innihalda stórar ásakanir um samsæri og eiga ekki við sýnileg rök að styðjast, hafa verið nefndar af alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI sem innlend hryðjuverkaógn.
Í skjali sem lekið var til Yahoo-fréttastofunnar fyrr í mánuðinum kemur fram að lögreglan telji að kenningar sem slíkar geti hvatt einstaklinga og hópa til glæpa og ofbeldisverka. Þar að auki telur hún að fylgjendum samsæriskenninganna eiga líklega eftir að fjölga á meðan kosningabaráttan stendur yfir þar í landi.
Samfélagsmiðlar hafa einnig reynt að draga úr útbreiðslu þessara kenninga, en fjöldi færslna, notenda og myllumerkja á vegum hópsins hefur verið eytt af Facebook, Twitter og TikTok.
Klofinn flokkur
Þrátt fyrir að vera skilgreind sem öryggishætta hefur QAnon hópurinn notið vaxandi vinsælda innan Repúblikanaflokksins. Fyrir rúmri viku síðan var yfirlýstur stuðningsmaður hópsins, Marjorie Taylor Greene, kosin sem frambjóðandi neðri deildar Bandaríkjaþings í Georgíu og er nær öruggt að hún fái sæti á þinginu í nóvember.
Samkvæmt BBC hrósaði Greene „Q“ sem „föðurlandsvini“ í myndbandi sem birt var á YouTube, en hún er ein af ellefu frambjóðendum Repúblikanaflokksins sem vefmiðillinn Axios greinir frá sem stuðningsmenn QAnon hópsins eða kenninga á vegum hans.
Ekki eru þó allir sáttir innan flokksins með vaxandi ítök QAnon. Adam Kinzinger, þingmaður Repúblikana í Illinois, fordæmdi hópinn með Twitter-færslu fyrr í mánuðinum og sagði kenningarnar vera uppspuna frá rótum. Greene brást illa við færslunni og skaut á hann með annarri Twitter-færslu, sem sjá má hér að neðan.
Adam is the Mitt Romney of the House GOP.
— Marjorie Taylor Greene For Congress🇺🇸 (@mtgreenee) August 12, 2020
He’s a never Trumper who did nothing to stop the Russian collusion conspiracy/witch hunt.
But he’s attacking me now?
America can’t afford any more RINOs! https://t.co/4R9bIwk8cO
Góður hlutur eða slæmur?
Á fréttamannafundi síðasta miðvikudag var svo Trump spurður um álit hans á QAnon hópnum og kenningum hans. Forsetinn sagðist ekki þekkja mikið til hans sjálfur, en að hann sé þakklátur fyrir allan stuðning sem hann fær.
Blaðamaður útskýrði þá fyrir forsetanum að hópurinn tryði því að Trump sé í raun að bjarga heiminum frá ítökum satanísks sértrúarhóps sem innihaldi barnaníðinga og mannætur. Við því svaraði Trump: „Ég hef ekki heyrt þetta, en á það að vera góður hlutur eða slæmur?“